Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 503. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1190  —  503. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hrein Hrafnkelsson og Þóri Skarphéðinsson frá viðskiptaráðuneyti, Pál Gunnar Pálsson, Elínu Jónsdóttir og Guðbjörgu Bjarnadóttur frá Fjármálaeftirliti, Helgu Hlín Hákonardóttur og Sólveigu Ágústsdóttur sem mættu fyrir hönd Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, Þórð Friðjónsson og Ragnar Jónsson frá Kauphöll Íslands og Óttar Pálsson frá laganefnd Lögmannafélags Íslands.
    Með frumvarpinu eru innleiddar þrjár tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins um markaðssvik, útboðs- og skráningarlýsingar og yfirtökur auk undirtilskipana framkvæmdastjórnarinnar um markaðssvik og útboðs- og skráningarlýsingar. Tilskipanirnar um markaðssvik og útboðs- og skráningarlýsingar eru innleiddar að hluta en gert er ráð fyrir að í reglugerðum og reglum Fjármálaeftirlitsins verði tilskipanirnar innleiddar að fullu. Tilskipanirnar þrjár eru hluti af þeirri ætlan Evrópusambandsins að skapa skilvirkan sameiginlegan innri markað með fjármálaþjónustu.
    Í frumvarpinu eru gerðar tillögur um töluverðar breytingar á ákvæðum gildandi laga en efnislegar breytingar eru e.t.v. ekki eins miklar og virðist við fyrstu sýn. Fyrst og fremst er lagt til að ákvæði laganna verði gerð ítarlegri en í sumum tilfellum eru auknar skyldur lagðar á markaðsaðila. Þá er einnig að finna í frumvarpinu tillögur um auknar heimildir Fjármálaeftirlits sem felast m.a. í heimild til að birta opinberlega niðurstöður í málum eða athugunum auk rýmkunar heimilda til íhlutunar í viðskipti.
    Á fundi nefndarinnar með umsagnaraðilum óskuðu nefndarmenn eftir því við fulltrúa viðskiptaráðuneytisins og laganefndar Lögmannafélagsins að þeir ynnu breytingartillögur og þá í samvinnu við aðra hagsmunaaðila eftir því sem við ætti. Nefndinni bárust drög að breytingartillögum sem þessir aðilar unnu saman og byggir hún álit sitt að nokkru leyti á þeim.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar, fyrst og fremst orðalagsbreytingar þar sem tillit er tekið til ábendinga sem fram komu í umsögnum:
     1.      Að orðið „annarra“ er fellt út og aðrar orðalagsbreytingar gerðar á skilgreiningu á opinberri fjárfestingarráðgjöf.
     2.      Að tilvísunum í 8. og 36. gr. verði breytt vegna breytinga sem felast í frumvarpinu.
     3.      Að b- og c-liðum 4. gr. verði breytt og orðalag þeirra samræmt.
     4.      Að líkindaregla svokölluð í 3. mgr. b-liðar (37. gr.) 5. gr. verði þrengd með því að fella út skilyrði í einstökum töluliðum í þeim tilgangi að gera regluna skýrari.
     5.      Að tímamörk 3. mgr. e-liðar (40. gr.) 5. gr., er varða skyldu tilboðsgjafa til að bjóða tilboðsþegum viðbótargreiðslu, bjóði tilboðsgjafi betra verð í félag að loknum tilboðsfresti, verði styttur úr sex mánuðum í þrjá.
     6.      Að skerpt verði á skyldu aðila til að tryggja að hann geti staðið við tilboð sitt með því að fella brott orðin „reyna að“ í 5. mgr. e-liðar 5. gr.
     7.      Að í 1. mgr. g-liðar 5. gr. verði í stað „ófyrirsjáanlegra atvika“ notað „óviðráðanlegra atvika“ ásamt hugtakinu „force majeure“ innan sviga til nánari skýringar.
     8.      Að tvær nýjar greinar bætist við frumvarpið. Í þeirri fyrri er lagt til að breytt verði orðalagi 35. gr. gildandi laga, þar sem ákvæði frumvarpsins um lýsingar eru strangari en gildandi ákvæði hvað varðar endursölu þegar útgefinna bréfa. Í þeirri seinni er lagt til að 36. gr. laganna verði felld brott þar sem ákvæði þeirrar greinar verður úrelt við gildistöku frumvarpsins.
     9.      Að í upptalningu 22. gr. verði bætt við nýjum lið er vísi til brota á upplýsingaskyldu, frestun upplýsingaskyldu og lögmæta miðlun innherjaupplýsinga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Össur Skarphéðinsson og Gunnar Birgisson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. apríl 2005.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Una María Óskarsdóttir.Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.