Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 479. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1207  —  479. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneytinu og Þóreyju S. Þórðardóttur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þá fékk nefndin skriflegar umsagnir frá fleiri aðilum, þar á meðal frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.
    Í frumvarpinu eru lagðar til tvær efnisbreytingar á lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga. Annars vegar er lagt til að stjórn sjóðsins verði veitt afmörkuð heimild til að ákvarða viðmiðunarlaun sem iðgjöld sjóðsins eru greidd af. Hins vegar er lagt til að skilyrðum um aðild að sjóðnum verði breytt og þau gerð skýrari en nú. Vegna bakábyrgðar ríkisins er mikilvægt að ákvæði laganna um aðild séu skýr og einnig er nauðsynlegt að stjórn sjóðsins geti ákveðið þau viðmiðunarlaun sem iðgjöld sjóðfélaga eru greidd af. Nefndin leggur áherslu á að í frumvarpinu eru skilyrði aðildar að lífeyrissjóðnum ekki rýmkuð og skilyrðin sem þar eru lögð til geta ekki tekið til annarra lífeyrissjóða.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Heimild til aðildar að sjóðnum samkvæmt ákvæði 2. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að hún nái til þeirra sem heimild höfðu til aðildar að sjóðnum við árslok 2004 í stað þess að taka aðeins til þeirra sem áttu aðild á þeim tímapunkti. Tilgangur breytingarinnar er fyrst og fremst sá að gæta þess að skerða ekki rétt þeirra sem voru í fullgildu ráðningarsambandi við þá vinnuveitendur sem falla undir lögin en greiddu af einhverjum ástæðum ekki í sjóðinn, t.d. ef sjóðfélagi var í launalausu leyfi. Þessi tillaga byggist m.a. á umsögnum sem bárust nefndinni frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.
     2.      Orðalagi 1. efnismgr. 2. gr. verði breytt svo skýrt verði að tímamörk og öll skilyrði hennar taki jafnt til allra sem átt geta aðild að sjóðnum, hvort sem þeir eru í starfi við hjúkrun hjá stjórnvöldum, sjálfseignarstofnunum eða styrktar- eða líknarfélögum.
     3.      Þær málsgreinar 17. gr. laganna sem vísa til lagaskila 1997 falli brott eða verði lagfærðar til samræmis við efni frumvarpsins. Vegna þess hve breytingarnar eru miklar er tillaga að breyttri 17. gr. laganna tekin upp í heild í breytingartillögu nefndarinnar.
     4.      Gildistökutíma verði breytt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. apríl 2005.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Ásta Möller.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Lúðvík Bergvinsson.Una María Óskarsdóttir.


Ögmundur Jónasson.