Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 667. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1224  —  667. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur frá dómsmálaráðuneyti ásamt Hallgrími Ásgeirssyni lögfræðingi, Guðjón Rúnarsson og Áslaugu Guðjónsdóttur frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu. Umsagnir bárust frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Fjármálaeftirlitinu.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB frá 6. júní 2002 um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir í íslenskan rétt, en ákvörðun um að fella tilskipunina inn í XII. viðauka við EES-samninginn var tekin í sameiginlegu EES-nefndinni 9. júlí 2004. Ákvörðunin var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu sem verður aflétt að fenginni ályktun Alþingis um að heimila ríkisstjórninni að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrir Íslands hönd. Tillaga til þingsályktunar þess efnis var samþykkt á Alþingi 20. apríl sl. eftir umfjöllun í utanríkismálanefnd.
    Markmið tilskipunarinnar er að stuðla að opnari og hagkvæmari fjármagnsmörkuðum og stöðugleika fjármálakerfisins og efla þannig frelsi í þjónustu og fjármagnsflutningum á sameiginlega markaðnum fyrir fjármálaþjónustu. Tilskipuninni er með þessum hætti ætlað að styrkja innri fjármagnsmarkað Evrópu, en mismunandi kröfur í landsrétti einstakra ríkja hafa dregið úr skilvirkni og komið í veg fyrir samþættingu fjármagnsmarkaða í Evrópu. Tilskipunin kveður á um samræmdar reglur ríkjanna um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, en slíkar ráðstafanir felast í tvíhliða samningum um veðsetningu eða framsal verðbréfa eða reiðufjár til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum. Í tilskipuninni er dregið úr formkröfum og aðildarríkjunum í raun meinað að gera sérstakar formkröfur, m.a. um stofnun, gildi og fullnustu samninganna. Gert er ráð fyrir að aðilar að slíkum samningum séu einkum stofnanir á fjármálamarkaði, t.d. opinberir lánasjóðir, alþjóðlegir fjárfestingar- og þróunarbankar, seðlabankar, fjármálafyrirtæki, vátryggingafélög og verðbréfasjóðir.
    Í umsögnum var m.a. bent á að umfjöllun í greinargerð með frumvarpinu þess efnis að í samningi um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir ætti jafnan að vísa til laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir kynni hugsanlega að verða túlkuð þannig að samningar sem ekki hefðu slíka tilvísun féllu ekki undir lögin. Því væri óheimilt að gera slíka formkröfu til samninganna og slík skilyrðing væri ekki í samræmi við tilgang tilskipunarinnar. Nefndin bendir á að ákvæði frumvarpsins gera engan veginn þá formkröfu til samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að í þeim sé vísað til laganna, þótt vissulega sé æskilegt að það verði gert. Ákvæði frumvarpsins sjálfs eru skýr hvað það varðar að samningur haldi ávallt gildi sínu þótt ekki sé vísað til íslenskra laga í honum, hann nýtur sérreglna laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði laganna.
    Nefndin leggur til smávægilega orðalagsbreytingu á 9. tölul. 2. gr. frumvarpsins þar sem staðgöngutryggingar eru skilgreindar og bendir á að ekki er um efnislega breytingu að ræða.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:

    Við 2. gr. 9 tölul. orðist svo: Staðgöngutrygging: Fjárhagsleg trygging sem kemur í stað upphaflegrar tryggingar samkvæmt ákvæðum samnings um fjárhagslega tryggingarráðstöfun og felur í sér aðra jafngilda tryggingu.


    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 27. apríl 2005.Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.Magnús Stefánsson.


Birgir Ármannsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.Sigurjón Þórðarson.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Einar Karl Haraldsson.