Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 682. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1266  —  682. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur um útgjöld til jafnréttismála.

     1.      Hver var heildarupphæð fjárveitinga til jafnréttismála hér á landi, eins og þau eru tilgreind í jafnréttisáætlunum ríkisstjórnarinnar fyrir árin 1998–2004, sundurliðað eftir árum?
    Leitað var upplýsinga hjá öllum ráðuneytum um útgjöld til jafnréttismála vegna verkefna í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna 1998–2001 og 2002–2004. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytin hafa látið í té var sérgreindur kostnaður við verkefni framkvæmdaáætlunar samtals 162.631.396 kr. á umræddu tímabili. Skipting milli ára er eftirfarandi:
1998 17.924.071 kr.
1999 22.832.663 kr.
2000 18.245.492 kr.
2001 18.660.793 kr.
2002 32.247.349 kr.
2003 27.862.619 kr.
2004 24.858.407 kr.

     2.      Hvernig skiptast þessar fjárveitingar milli ráðuneyta sömu ár?
    Forsætisráðuneytið vill ítreka að eins og áður hefur verið bent á er í mörgum tilfellum ekki unnt að tilgreina sérstaklega kostnað við verkefnin, vísast hér til svara ráðuneytanna við fyrirspurnum á 130. löggjafarþingi um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna (sjá 654.–667. mál). Ýmsar ástæður geta legið að baki þess að ekki er unnt að tilgreina þennan kostnað. Sem dæmi má nefna að í sumum tilfellum eru verkefnin í framkvæmdaáætlun hluti af stærra verkefni. Einnig er það oft svo að stofnanir ráðuneytanna hafa fengið það hlutverk að vinna að ýmsum rannsóknum og skýrslugerð í tengslum við verkefnin og er þá ekki innheimt sérstaklega fyrir slíka vinnu heldur litið svo á að skýrslugerð af þessu tagi sé eðlilegur hluti af starfsemi stofnunarinnar. Algengasta ástæðan fyrir því að ekki er hægt að tilgreina kostnað sérstaklega er sú að verkefnin eru unnin af starfsmönnum ráðuneytanna, auk þess sem mörg verkefna í framkvæmdaáætlun er þess eðlis að áhersla hefur verið lögð á að laga þau að reglubundinni starfsemi ráðuneytisins frekar en að halda þeim aðgreindum. Niðurstöðutölur í svari þessu gefa því ekki endilega rétta mynd af því fjármagni sem lagt hefur verið í jafnréttismál innan Stjórnarráðsins.
    Eftirfarandi eru svör einstakra ráðuneyta og í eftirfarandi töflu er samantekt á svörum, sundurliðuð eftir árum og ráðuneytum.

Forsætisráðuneyti.
    Svar forsætisráðuneytis um útgjöld til verkefna framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 1998–2004, sundurliðuð eftir árum, má sjá í töflunni.


Fjárveitingar til jafnréttismála, skipt eftir ráðuneytum og árum.



Ráðuneyti 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 Samtals
Forsætisráðuneyti 100.000 713.000 474.400 1.441.003 400.633 194.400 3.323.436
Dóms- og kirkjumálaráðuneyti 500.000 2.730.525 330.000 2.874.885 2.320.419 3.319.008 210.000 12.284.837
Félagsmálaráðuneyti 10.943.671 16.922.244 14.702.492 11.277.758 13.876.877 13.181.039 12.732.291 93.636.372
Fjármálaráðuneyti 137.000 137.000
Hagstofa Íslands 214.789 214.789
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti 500.000 500.000 500.000 500.000 6.150.000 550.000 100.000 8.800.000
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti 5.221.650 2.179.894 2.000.000 2.000.000 2.000.000 2.000.000 15.401.544
Landbúnaðarráðuneyti 500.000 1.774.453 500.000 2.774.453
Menntamálaráðuneyti 658.750 1.233.750 5.410.000 5.764.149 11.086.716 24.153.365
Samgönguráðuneyti 61.692 61.692
Sjávarútvegsráðuneyti 500.000 300.000 450.000 64.000 1.314.000
Utanríkisráðuneyti 228.851 228.851
Umhverfisráðuneyti 99.050 167.005 35.000 301.055
Samtals

17.924.071

22.832.663 18.245.492 18.660.793 32.247.349 27.862.619 24.858.407 162.631.394
Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Útgjöld vegna jafnréttismála, eins og þau eru tilgreind í jafnréttisáætlunum ríkisstjórnarinnar fyrir árin 1998–2004, sundurliðuð eftir árum eru eftirfarandi:
1998 500.000 kr.
1999 2.730.525 kr.
2000 330.000 kr.
2001 2.874.885 kr.
2002 2.320.419 kr.
2003 3.319.008 kr.
2004 210.000 kr.

    Útgjöld við verkefni á árunum 2000–2004 sem snúa að jafnrétti kynjanna en falla utan verkefna dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í framkvæmdaáætlun, námu samtals 7.606.030 kr., þar af voru 1.600 þús. kr. árið 2004. Af þessum verkefnum má nefna styrki til V-dagssamtakanna, Rannsóknarstofu í kvennafræðum og verkefnisins „Stöðvum barnaklám á netinu“, svo eitthvað sé nefnt.
    Forsjárnefnd sem skilaði dómsmálaráðherra áfangaskýrslu í júní 1999 lagði fram tillögu um sáttaþjónustu sem hefur leitt til viðvarandi útgjalda fyrir ríkissjóð, árið 2003 nam sá kostnaður 6.193.000 kr. (sbr. 2. kafla 8. gr. í þingsályktun um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna, þskj. 1452 í 376. máli 122. löggjafarþings).

Félagsmálaráðuneyti.
    Heildarútgjöld ráðuneytisins vegna framkvæmdaáætlunarinnar eru eftirfarandi:
1998 10.943.671 kr.
1999 16.922.244 kr.
2000 14.702.492 kr.
2001 11.277.758 kr.
2002 13.876.877 kr.
2003 13.181.039 kr.
2004 12.732.291 kr.
Alls 93.636.372 kr.

    Sé óskað nánari upplýsinga um skiptingu útgjalda mun ráðuneytið fúslega veita þær.

Fjármálaráðuneyti.
    Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 1998–2001 voru átta verkefni á ábyrgðasviði ráðuneytisins. Ekki hafa verið sérstakar fjárveitingar til þessara verkefna en sá kostnaður sem hefur fallið til vegna þeirra, sem er einkum launakostnaður, hefur verið greiddur af fjárhagsramma ráðuneytisins. Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2002–2004 voru fimm verkefni á ábyrgðasviði ráðuneytisins. Af þessum verkefnum voru fjögur þar sem kostnaðurinn var einkum launagreiðslur til starfsmanna ráðuneytisins. Við eitt verkefnanna, viðhorfskönnun í jafnréttismálum sem var sameiginlegt verkefni allra ráðuneytanna, var kostnaður fjármálaráðuneytisins árið 2003 tæplega 137.000 kr.
    Þessu til viðbótar tók ráðuneytið þátt í samnorrænu verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis. Kostnaður vegna þess var í formi fargjalda og dagpeninga fyrir einn starfsmann ráðuneytisins þegar sækja þurfti fundi í tengslum við verkefnið. Verkefnið hófst 1998 og er hluti af verkefni fjármálaráðuneytisins í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum árin 2004–2006.

Hagstofa Íslands.
    Á 130. löggjafarþingi kom fram fyrirspurn til ráðherra Hagstofu frá Jóhönnu Sigurðardóttur, Helga Hjörvar og Valdimar L. Friðrikssyni um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Í svari ráðherra (þskj. 1159 í 659. máli) kom m.a. fram eftirfarandi:
    „Verkefni Hagstofu Íslands í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar [í jafnréttismálum] fyrir tímabilið 1998– 2001 og þau sem héldu áfram í framkvæmdaáætlun tímabilið 2002–2004 hafa verið löguð að reglubundinni starfsemi Hagstofunnar. Kostnaður vegna þeirra er því ekki sérgreindur. Hins vegar má nefna að einn starfsmaður fer sérstaklega með málefni sem varða kyngreinda tölfræði og ver að jafnaði sem nemur einum þriðja til hálfu stöðugildi til þess verkefnis.“
    Auk þessa stóðu ráðuneytin sameiginlega að „Könnun á innra starfsumhverfi og stöðu jafnréttismála meðal starfsmanna“ í desember 2003. IMG-Gallup framkvæmdi könnunina en heildarkostnaður Hagstofu Íslands nam 214.789 kr.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
    Sundurliðun fjárveitinga ráðuneytisins til jafnréttismála hér á landi eins og þau eru tilgreind í jafnréttisáætlunum ríkisstjórnarinnar fyrir árin 1998–2004 er eftirfarandi:
1998 500.000 kr.
1999 500.000 kr.
2000 500.000 kr.
2001 500.000 kr.
2002 6.150.000 kr.
2003 550.000 kr.
2004 100.000 kr.

    Mörg verkefna heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins í jafnréttisáætlun eru inni í öðrum verkefnum ráðuneytisins og stofnana þess, unnin af starfsmönnum þess og kostnaður verður ekki sérgreindur. Má sem dæmi nefna starf tóbaksvarnaráðs innan Lýðheilsustöðvar að herferð sem beinist að reykingum kvenna, endurskoðun á framsetningu heilbrigðisupplýsinga hjá landlæknisembættinu og ráðuneytinu, áhættuhegðun karla hjá landlæknisembættinu, verkefnisstjórn um heilsufar kvenna o.fl.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Eftirfarandi eru heildarframlög ráðuneytisins til jafnréttismála hér á landi, eins og þau eru tilgreind í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 1998–2004, sundurliðuð eftir verkefnum, árum og upphæðum:

Verkefni Ár Kr.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og upplýsingasamfélagið, Konur til forystu og jafnara námsval kynjanna
1998

800.000
Stuðningur Nýsköpunarsjóðs við atvinnuuppbyggingu kvenna, Félag kvenna í atvinnurekstri
1998

2.421.650
Lánatryggingasjóður kvenna 1998 2.000.000
Stuðningur Nýsköpunarsjóðs við atvinnuuppbyggingu kvenna, Félag kvenna í atvinnurekstri
1999

179.894
Lánatryggingasjóður kvenna 1999 2.000.000
Lánatryggingasjóður kvenna 2000 2.000.000
Lánatryggingasjóður kvenna 2001 2.000.000
Lánatryggingasjóður kvenna 2002 2.000.000
Lánatryggingasjóður kvenna 2003 2.000.000
2004 0
Samtals kr. 15.401.544

    Hér að framan eru aðeins tilgreind bein fjárframlög ráðuneytisins til umræddra málaflokka. Hins vegar er rétt að geta þess að á síðasta ári var sett á laggirnar nefnd á vegum ráðuneytisins um tækifæri kvenna í stjórnum fyrirtækja. Gert er ráð fyrir að fjárframlög til þeirrar nefndar muni nema 1.500.000 kr. á ári frá og með árinu 2005. Þá er rétt að geta þess að ráðuneytið og Byggðastofnun hafa tekið þátt í Evrópuverkefni þar sem fjallað er um konur í atvinnurekstri og landbúnaði. Þetta verkefni er styrkt af ESB þannig að ekki er um bein fjárframlög af hálfu ráðuneytisins að ræða og má því segja að framlag ráðuneytisins til þess verkefnis felist í vinnu starfsmanna ráðuneytis og Byggðastofnunar við umrætt verkefni.

Landbúnaðarráðuneyti.
    Á árunum 1998–2004 hafa greiðslur ráðuneytisins vegna jafnréttismála verið í formi framlaga til grasrótarhreyfingarinnar Lifandi landbúnaður. Framlag ársins 2002 var 500.000 kr. af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar. Árið 2003 var upphæðin 1.700 þús. kr. af sama fjárlagalið. Á árunum 2004 og 2005 var upphæðin 500.000 kr. hvort árið af liðnum ýmis verkefni. Hlutur ráðuneytisins af sameiginlegri viðhorfskönnum um stöðu jafnréttismála meðal starfsmanna stjórnarráðsins árið 2003 var 74.453 kr. Alls nema framlögin á þessum fjórum árum 3,2 millj. kr.

Menntamálaráðuneyti.
    Svar menntamálaráðuneytis við fyrirspurn um útgjöld til jafnréttismála, sundurliðað eftir einstökum verkefnum, er í fylgiskjali en eftirfarandi eru samanteknar niðurstöður.
    Mörg verkefnanna eru unnin af starfsfólki ráðuneytisins eða samhliða öðrum verkefnum, svo sem námskrárgerð. Í þeim tilvikum er kostnaður ekki sérstaklega tilgreindur.
1998 658.750
1999
2000
2001 1.233.750
2002 5.410.000
2003 5.764.149
2004 11.086.716
Alls 24.153.365


Samgönguráðuneyti.
    Samgönguráðuneytið hefur farið yfir svar við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, Helga Hjörvars og Valdimars L. Friðrikssonar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna frá 130. löggjafarþingi, sjá þskj. 1163 í 664. máli, og hefur komist að raun um að sá kostnaður sem fallið hefur á þessi verkefni hefur ekki verið sérgreindur og því ekki unnt að tilgreina hann sérstaklega. Ýmist hefur verið um að ræða að starfsmenn ráðuneytisins hafa unnið verkefnin eða að þau hafa verið hluti af stærri verkefnum þar sem ekki hefur verið sérstaklega haldið utan um kostnað vegna þess hluta sem telja mætti til jafnréttismála. Þá hefur ekki verið um neinar sérgreindar fjárveitingar að ræða. Hlutur ráðuneytisins af sameiginlegri viðhorfskönnun um stöðu jafnréttismála meðal starfsmanna stjórnarráðsins árið 2003 var 61.692 kr.

Sjávarútvegsráðuneyti.
    Ráðuneytið vill taka fram að nokkrar breytingar hafa orðið á þeim verkefnum sem tilgreind eru í framkvæmdaáætluninni, auk þess sem þær tölur sem hér koma fram gefa ekki rétta mynd af þeirri vinnu og fjármunum sem varið er til jafnréttismála. Mörg verkefni eru unnin af starfsmönnum ráðuneytisins og kostnaður við þau ekki sérstaklega tilgreindur. Þá er einnig ótalinn kostnaður við menntun fiskvinnslufólks, ferðakostnaðar starfsmanna vegna fræðslu um jafnréttismál, sem og styrkir sem veittir hafa verið til ýmissa jafnréttisverkefna.
    Eftirfarandi verkefni hafa farið fram á vegum sjávarútvegsráðuneytisins í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar á tímabilinu 1998–2004:

Framkvæmdaáætlun 1998–2001.
    Sérstaða sjómanna og fjölskylduaðstæður. Kostnaður við þennan hluta verkefnisins var 500.000 kr. (1999).
    Nefnd um konur í fiskvinnslu. Kostnaður vegna nefndarinnar nam alls um 300.000 kr. árið 2001 og 450.000 kr. árið 2002.

Framkvæmdaáætlun 2002–2004.
    Könnun á stöðu jafnréttismála í stjórnarráðinu. Kostnaður ráðuneytisins var 64.000 kr.

Umhverfisráðuneyti.
    Kostnaður ráðuneytisins árið 2003 var 90.000 kr. vegna námskeiðahalds í gerð jafnréttisáætlana, Skref fyrir skref. Kostnaður 2002 var 99.050 kr. vegna samráðs og umræðufundar forstöðumanna í Hvalfirði og fjármálaráðuneyti. Hlutur ráðuneytisins af sameiginlegri viðhorfskönnum um stöðu jafnréttismála meðal starfsmanna stjórnarráðsins árið 2003 og kostnaður við fræðslufund í ráðuneytinu sem tengdist niðurstöðum könnunarinnar var samtals 112.005 kr.

Utanríkisráðuneyti.
    Í tilefni af fyrirspurninni um útgjöld til jafnréttismála hér á landi, eins og þau eru tilgreind í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 1998–2004 má vísa til svars við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, Helga Hjörvars og Valdimars L. Friðrikssonar frá því á síðasta vorþingi, sjá þskj. 1128 í 667. máli. Þar er vísað til skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna og svarað svo:
    „Að því er varðar það sem fram kemur í fyrirspurninni um hversu miklu fé hefur verið varið til aðgerðanna er því til að svara að viðkomandi verkefni hafa verið unnin af starfsmönnum ráðuneytisins. Þar af leiðandi hefur enginn kostnaður verið tilgreindur sérstaklega við að hrinda þeim í framkvæmd.“
    Hlutur ráðuneytisins af sameiginlegri viðhorfskönnun um stöðu jafnréttismála meðal starfsmanna stjórnarráðsins árið 2003 var 228.851 kr.
    Við þetta má síðan bæta að ráðuneytið veitti UNIFEM á Íslandi eftirfarandi stuðning á þeim árum sem fyrirspurnin nær til:
1998 2,5 millj. kr.
1999 2,5 millj. kr.
2000 2,5 millj. kr.
2001 2,5 millj. kr.
2002 3,1 millj. kr.
2003 2,8 millj. kr.
2004 2,5 millj. kr.



Fylgiskjal.


Svar menntamálaráðuneytis um útgjöld til jafnréttismála,


sundurliðað eftir einstökum verkefnum.


    Hér verður gerð grein fyrir einstökum verkefnum sem fram koma í framkvæmdaáætlunum menntamálaráðuneytisins frá árunum 1998 og 2002 ásamt kostnaði. Mörg verkefnanna eru unnin af starfsfólki ráðuneytisins eða samhliða öðrum verkefnum, svo sem námskrárgerð. Í þeim tilvikum er kostnaður ekki sérstaklega tilgreindur.

1. Námskrárgerð (kafli 9.1. úr framkvæmdaáætlun 1998–2001).
    Í maí 1997 skipaði menntamálaráðherra jafnréttisnefnd. Nefndin skilaði tillögum sínum varðandi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og tillögum um stefnumörkun í jafnréttisfræðslu í skólum í tengslum við endurskoðun aðalnámskráa fyrir grunn- og framhaldsskóla í nóvember 1998. Í framhaldi af störfum nefndarinnar var gefinn út bæklingurinn Jafnrétti til menntunar og ætlunin með honum að vekja kennara og annað skólafólk til umhugsunar um lögbundið jafnrétti kynjanna til menntunar og í bæklingnum er bent á leiðir til að stuðla að jafnrétti í skólastarfi. Þáverandi menntamálaráðherra kynnti niðurstöður nefndarinnar á opnum fundi hinn 18. mars 1999. Einnig var bæklingurinn sendur til allra framhaldsskóla og fór ráðuneytið fram á að efni hans yrði kynnt í viðkomandi skóla, auk þess sem óskað var eftir því að efni hans yrði haft til hliðsjónar við gerð skólanámskráa. Kostnaður við nefndarstarfið var 258.750 kr.
    Í stefnuriti ráðuneytisins, Enn betri skóli, frá 1998 sem lagt var til grundvallar við endurskoðun aðalnámskráa endurspeglast meginjafnréttisstefna ráðuneytisins. Þar kemur meðal annars eftirfarandi fram: „Jafnrétti til náms er fólgið í því að bjóða nemendum nám og kennslu við hæfi og gefa þeim tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali.“
    Ný aðalnámskrá fyrir grunn- og framhaldsskóla tók gildi í júní 1999. Fræðsla um jafnrétti kynjanna er samofin markmiðum í aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla. Í aðalnámskrá beggja skólastiga er sérstök námskrá í lífsleikni þar sem að finna eru jafnréttismiðuð markmið í áfangamarkmiðum og þrepamarkmiðum fyrir einstaka aldurshópa.
    Þess má geta að í endurskoðaðri aðalnámskrá framhaldsskóla frá janúar 2004 var aukin áhersla lögð á jafnréttismál. Þar segir á bls. 5: „Skólum ber að gæta jafnréttis nemenda til náms og bjóða þeim nám og kennslu við hæfi. Mikilvægt er að bæði piltum og stúlkum séu kynnt störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- eða kvennastörf. Sérstök áhersla er lögð á jafnréttismarkmið í áfangalýsingum félagsfræði, uppeldisfræði og sálarfræði, auk lífsleikninnar. Skólum ber einnig að gefa nemendum tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali. Þau þurfa að höfða jafnt til pilta og stúlkna án tillits til uppruna, í dreifbýli eða þéttbýli, fatlaðra sem ófatlaðra.“ Í kafla um skólanámskrá við sömu endurskoðun er lagt til að skólar geri grein fyrir stefnu skólans í jafnréttismálum og hvernig hún birtist í daglegu starfi hans.
    Við úthlutun úr Endurmenntunarsjóði grunnskólakennara 1999 og 2000 var sérstök áhersla lögð á endurmenntunarnámskeið í tengslum við nýjar áherslur í aðalnámskrá, þar á meðal námskrá í lífsleikni. Einnig lagði Þróunarsjóður grunnskóla við úthlutun styrkja árin 2000 og 2001 sérstaka áherslu á að styrkja verkefni í lífsleikni og þróun lífsleikniáætlana í skólum.

2. Vinna að jafnrétti og gegn hefðbundinni verkaskiptingu (kafli 9.2. úr jafnréttisáætlun 1998—2001 og 9.1 í áætlun 2002–2004).
    Ráðuneytið gaf út árið 1998 stefnuritið Menntun – menning – forsenda framtíðar. Í ritinu er m.a. yfirlýsing um að skólar skuli vinna ötullega að því að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna, vinna gegn því að nemendur festist um of í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar og styrkja sjálfsmat nemenda. Við gerð aðalnámskráa grunn- og framhaldsskóla var farið eftir þessari skýru stefnu varðandi stöðu kynja í skólum, svo og í nefndum á vegum ráðuneytisins.
    Árið 2000 gaf menntamálaráðuneytið út bæklinginn Ábyrgð – frelsi – jafnrétti – val. Í ritinu geta nemendur og foreldrar kynnt sér þá kosti sem blasa við nemendum að loknu grunnskólanámi. Í ritinu er aukið valfrelsi undirstrikað og sú ábyrgð sem því fylgir og í nýrri skólastefnu ættu allir að geta fundið nám við sitt hæfi.
    Menntamálaráðuneytið var meðal samráðsaðila vegna ráðstefnunnar Konur og upplýsingatækni sem haldin var 14. apríl 2000 á vegum verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið sem heyrir undir forsætisráðuneytið.
    Menntamálaráðuneytið ásamt fleirum styrkti verkefnið Konur til forystu og jafnara námsval kynjanna um 400.000 kr. á ári í tvö ár. Verkefnið var sameiginlegt jafnréttisverkefni jafnréttisnefndar Háskóla Íslands og Jafnréttisráðs. Verkefnið var unnið á árunum 2000–2002. Markmið verkefnisins var annars vegar að undirbúa stúlkur sem ljúka námi frá Háskóla Íslands undir forystustörf á þeirra framtíðarstarfsvettvangi og hins vegar að fjölga konum í raunvísindum, verk- og tölvunarfræði. Með þessu vildi Háskóli Íslands, með stuðningi samstarfsaðila að verkefninu, leggja sitt af mörkum til að jafna hlutdeild kynjanna í þekkingar- og upplýsingasamfélagi nýrrar aldar og til að jafna kynjaskiptingu í náms- og starfsvali karla og kvenna.
    Menntamálaráðuneytið styrkti ráðstefnu um kvenna- og kynjarannsóknir sem Rannsóknastofa í kvennafræðum stóð fyrir í október 2002 um 150 þús. kr. Um 60 manns tóku þátt í ráðstefnunni.

3. Jafnréttiskennsla í skólum verði efld (kafli 9.3. úr framkvæmdaáætlun 1998–2001 og 9.2. í áætlun 2002–2004).
    Ráðuneytið átti aðild að norrænu samstarfsverkefni, Nord-lilia, um jafna stöðu kynja í starfsháttum og inntaki kennaramenntunar á árunum 1993–1997. Verkefnið var á vegum norrænu ráðherranefndarinnar og byggðist á þróunarverkefnum í hverju landi. Í tengslum við verkefnið voru gefin út tvö rit, nokkur fréttabréf og fjöldi skýrslna um þróunarverkefnin.
    Í námskrá í lífsleikni fyrir grunnskóla er að finna jafnréttismiðuð markmið í áfangamarkmiðum og þrepamarkmiðum fyrir einstaka aldurshópa. Í námskrá framhaldsskóla í lífsleikni eru einnig sett fram jafnréttismiðuð markmið.

4. Rannsóknir á stöðu kynjanna í skólakerfinu verði efldar (úr kafla 9.4 í framkvæmdaáætlun 1998-2001 og kafla 9.3 áætlun 2002–2004).
    Menntamálaráðuneytið styrkti rannsókn Félagsvísindastofnunar um 2.320.000 kr. þar sem fjallað er um nám, viðhorf og námsferil fólks í framhaldsskóla sem fætt er 1975. Rannsóknin nær til eins árgangs og gefur miklar upplýsingar um menntun ungs fólks að grunnskóla loknum. Í rannsókninni eru m.a. könnuð tengsl sálfræðiþátta og námsárangurs við náms- og starfsval einstaklinga og hvort munur er á tengslum þessara þátta við náms- og starfsval karla og kvenna.
    Menntamálaráðherra skipaði í september 2002 nefnd til að gera úttekt á mikilvægi félags- og tómstundastarfs ungs fólks á Íslandi. Nefndin skilaði í maí 2003 skýrslunni Úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi: skýrsla nefndar og tillögur þar sem m.a. er fjallað ítarlega um mikilvægi æskulýðsrannsókna og finna má tölulegar upplýsingar um þátttöku unglinga í félags- og tómstundastarfi. Kostnaður við nefnd þessa var 554.149 kr.
    Í framhaldi af tillögum nefndarinnar gerði menntamálaráðuneytið samning við Rannsóknir og greiningu ehf. vegna æskulýðsrannsóknanna Ungt fólk 2003 og Ungt fólk 2004. Í mars 2003 var lagður fyrir nemendur í öllum grunnskólum landsins spurningalisti á vegum Rannsóknar og greiningar ehf, var það gert samhliða evrópskri könnun á vímuefnaneyslu unglinga, Espat 2003. Espat-könnunin er samevrópsk könnun á vegum Evrópuráðsins í Strassborg og er hún gerð í um þrjátíu aðildarlöndum Evrópuráðsins. Espat-könnunin var lögð fyrir árin 1995 og 1999 og nú 2003 þar sem m.a. er borið saman neyslumynstur grunnskólanema í Evrópulöndunum. Samhliða Espat var tækifærið notað til að leggja fyrir nemendur könnunina Ungt fólk 2003. Spurt var m.a. um þátttöku í félags-, tómstunda- og íþróttastarfi, um líðan, einelti, ástundun, viðhorf til heimabyggðar, netnotkun, bókalestur, leikhúsferðir, bókasöfn, klassíska tónleika, kaffihús, söfn, myndlistasýningar, listsýningar og bíó svo nokkuð sé nefnt. Í rannsókn sem þessari er mikilvægt að geta síðan greint kynjamun fyrir hvern og einn þátt fyrir sig. Samkvæmt samningnum voru veittar 1.500.000 kr. til verkefnisins.

5. Tímabundin aðgreining kynjanna (úr kafla 9.4 í áætlun 2002–2004).
    Fyrir nokkrum árum vann Inga Dóra Sigfúsdóttir rannsókn á kynjamun sem síðar var notuð sem grunnur að stefnu ráðuneytisins um jafnan rétt kynja í skólastarfi. Sú mynd sem dregin var upp í umræddri rannsókn var lýsandi en þörf var á frekari gögnum til að unnt væri að greina nánar þær vísbendingar sem fyrir lágu. Menntamálaráðuneytið styrkti árið 2002 verkefni Rannsóknar og greiningar um 400 þús. kr. vegna frumúrvinnslu gagna á Borgarskjalasafni um einkunnir barna sem nauðsynlegt var til að fullgera rannsóknina.

6. Íþróttauppeldi stúlkna verði eflt (kaflar 9.5 í áætlun 1998–2001 og 2002–2004).
    Stefnt er að því að efla íþróttauppeldi stúlkna. Í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla um íþróttir eru markmið sett fram með það í huga að þau nái til allra nemenda og höfði jafnt til áhugasviðs og þroska þeirra og að verkefnin höfði til beggja kynja. Í samræmi við þingsályktun, sem samþykkt var á Alþingi árið 1996, var skipuð nefnd til að fjalla um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna. Nefndin skilaði í október 1997 ítarlegri greinargerð og tillögum um leiðir til þess að auka þátt kvenna í íþróttum. Í kjölfar skýrslunnar var íþróttahreyfingin hvött til þess að taka á þessum málum, auk þess sem ýmis verkefni voru styrkt sem sérstaklega stuðla að því að minnka brottfall stúlkna úr íþróttum og efla sjálfsímynd þeirra. Má þar m.a. nefna 400.000 kr. styrk til útgáfu á myndbandi, veggspjöldum og bæklingum sem báru yfirskriftina Afrekskonur í íþróttum. Einnig voru 200.000 kr. veittar til verkefnis sem ætla má að geti mest haft áhrif á jafnrétti innan íþróttafélaga en það er gæðaverkefnið Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Til að öðlast viðurkenningu sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ þarf félag að uppfylla ákveðnar kröfur, m.a. um jafnrétti og tekið er fram að gæta þurfi að jafnrétti varðandi aðstöðu, fjármagn og þjálfun, og aðskilið sé í bókhaldi hve mikið fé renni til stúlkna og hve mikið til drengja. Íþróttahreyfingin hefur jafnframt staðið að útgáfu á fræðsluefni sem m.a. hvetur til jafnréttis í íþróttum.
    Í aðalnámskrá grunnskóla um íþróttir, líkams- og heilsurækt er tekið fram að markmiðið með íþróttakennslu sé „að stuðla að alhliða þroska hvers nemanda, efla heilsufar hans og þroskagetu“. Jafnframt er tekið fram að markmið eru sett með það í huga „að þau höfði til beggja kynja“.
    Íþróttasjóður styrkti um 200.000 kr. ráðstefnuna Konur og íþróttir árið 2001 og þess má geta að menntamálaráðuneytið styrkti einnig ráðstefnu með sama yfirheiti um 400.000 kr. sem fram fór í febrúar 2004 á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og íþróttaskorar Kennaraháskóla Íslands.

7. Tölvur og upplýsingatækni (kafli 9.6 í áætlunum 1998–2001 og 2002–2004).
    Upplýsinga- og tæknimennt er ný námsgrein aðalnámskrár frá árinu 1999 en þar er bent á að verkefnin skuli höfða jafnt til drengja og stúlkna. Á árlegum UT-ráðstefnum um upplýsingatækni í skólastarfi sem menntamálaráðuneytið stendur fyrir hefur m.a. verið fjallað um kynbundna tölvunotkun. UT-2003 var haldin í Verkmenntaskólanum á Akureyri dagana 28. febrúar til 1. mars sl. undir slagorðinu „Er ekki kominn tími til ...“. Á ráðstefnunni var einnig fjallað um jafnrétti til náms í byggðum landsins og framtíðarsýn sem byggist á fenginni reynslu við notkun upplýsingatækni í námi og kennslu.

8. Stærðfræði og raungreinar (kafli 9.7 í áætlun 1998–2001 og 2002–2004).
    Miðað er við að öll markmið námskrárinnar í stærðfræði fyrir grunnskóla nái til allra nemenda og verkefni höfði til beggja kynja. Vísað er til jafnréttismarkmiða sem fram koma í almennum hluta aðalnámskrár. Í námskrá í náttúrufræði fyrir grunnskóla er sérstaklega á það bent að athugað skuli að nemendur festist ekki um of í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar og að einstaklingar af báðum kynjum fái sambærileg og jafngild tækifæri.

9. Styrkir til jafnréttisfræðslu (kafli 9.8 í báðum áætlunum).
    Veittir hafa verið styrkir úr Þróunarsjóði grunnskóla til ýmiss konar þróunarverkefna er sérstaklega varða jafnréttisfræðslu. Þess má geta að við úthlutun árin 2000 og 2001 lagði Þróunarsjóður grunnskóla sérstaka áherslu á að styrkja verkefni í lífsleikni og þróun lífsleikniáætlana í skólum.
    Vorið 2003 hlaut Ármúlaskóli 350.000 kr. styrk úr Þróunarsjóði framhaldsskóla til að gera jafnréttisáætlun, einnig 300.000 kr. fyrir aðlögun námsefnis í heilbrigðisgreinum að þörfum fullorðins fólks, með það að markmiði að fjölga körlum í heilbrigðisnámi.
    Verkmenntaskólinn á Akureyri fékk 400.000 kr. styrk vegna verkefnis um konur og tækninám.
    Ráðuneytið hefur einnig styrkt jafnréttisátak Háskóla Íslands, Jafnréttisstofu og Rannsóknastofu í kvennafræðum um 500.000 kr. vegna þýðingar á bæklingnum Young women's guide to equality between women and men in Europe sem fyrst var gefinn út af European Women's Lobby undir forsæti Portúgala í ráðherraráði ESB árið 1999. Bæklingurinn, sem er eins konar leiðarvísir fyrir ungt fólk (15–25 ára), sérstaklega konur, hefur verið þýddur á fjölda tungumála. Markmiðið með útgáfu hans er að auka vitund ungra kvenna um jafnrétti. Þar er tekið á ýmsum málum, svo sem réttarstöðu, tvöföldu vinnuálagi, mismunun kvenna, heilbrigði, fóstureyðingum, ofbeldi o.s.frv. Einnig er að finna tölulegar upplýsingar um stöðu kynjanna og hugmyndir ungra kvenna í Evrópu um hvernig megi vinna að auknu jafnrétti. Í íslensku útgáfunni er gert ráð fyrir að fjallað verði sérstaklega um hvernig efni bæklingsins kemur strákum líka við og verður höfðað sérstaklega til þeirra m.a. með því að fá stráka til að kynna hann. Hugmyndin er að dreifa bæklingnum í framhaldsskólum og félagsmiðstöðvum.

10. Nefndir og ráð (kafli 9.9. í áætlun 1998–2001 og 9.12 í áætlun 2002–2004).
    Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytisins er leitast við að gæta jafnræðis milli kynja. Þegar aðilar utan ráðuneytisins eru beðnir um tilnefningar í nefndir á vegum þess er ávallt vísað í 20. gr. jafnréttislaga, nr. 96/2000.

11. Kvennasögusafnið (kafli 9.10 í áætlun 1998–2001).
    Um 2,1 millj. kr. voru veittar árið 1998 vegna reksturs Kvennasögusafns.

12. Konur og fjölmiðlar – ímyndir kvenna og karla (kafli 9.11 í áætlun 1998–2001 og 9.9 í áætlun 2002–2004).
    Menntamálaráðuneytið og Skrifstofa jafnréttismála (nú Jafnréttisstofa) höfðu með sér samstarf um skipan nefndar um konur og fjölmiðla – ímyndir kvenna og karla. Nefndin skilaði skýrslu í febrúar 2001 þar sem bent er á leiðir til að auka hlut kvenna í fjölmiðlum. Ein af tillögum nefndarinnar var að koma upp gagnabanka fyrir fjölmiðlafólk með upplýsingum um konur með sérþekkingu á ýmsum sviðum. Ráðuneytið styrkti með 300.000 kr. verkefni um kvennagagnabanka, Kvennaslóðir.is, sem unnið hefur verið á Rannsóknastofu í kvennafræðum, ásamt átaksverkinu Konur til forystu, Jafnréttisnefnd HÍ, Kvennasögusafni Íslands og Jafnréttisstofu. Hugmyndin með gagnabankanum er að færðar verði inn grunnupplýsingar um konur í vísindum hérlendis, um stöður, trúnaðarstörf, vísindagreinar o.fl. Þessi aðferð tryggir að þær konur sem hafa áhuga á að gera sig gildandi í umræðu um vísindi og tækni munu viðhalda upplýsingum um sig. Sams konar tilraun er gerð í Noregi og hefur einkum verið horft þangað um fyrirmynd. Það er trú aðstandenda kvennagagnabankans að hann verði mikilvægt tæki til þess að auka hlut kvenna í fjölmiðlum, nefndum, ráðum og stjórnum fyrirtækja og hins opinbera. Kostnaður vegna nefndarstarfsins var 433.750. kr.

13. Fræðsla um greiningu á afleiðingum ofbeldis (kafli 9.12 í áætlun 1998–2001 og 9.10 í áætlun 2002–2004).
    Í desember 1999 stóð menntamálaráðuneytið ásamt samtökum kennara og skólastjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, umboðsmanni barna og landssamtökunum Heimili og skóli fyrir málþingi um skólareglur og aga. Í framhaldi af málþinginu var kennaramenntunarstofnunum sent bréf þar sem bent var á mikilvægi þess að fjalla um þessi málefni í tengslum við menntun kennara. Gefin var út endurskoðuð reglugerð um skólareglur í grunnskólum í apríl 2000. Hverjum skóla ber að setja sér skólareglur þar sem kveðið skal á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar og hollar lífsvenjur. Í reglugerðinni er m.a. ákvæði um að leita skuli til sérfræðiþjónustu skóla ef ekki tekst að leysa mál er varða hegðun nemenda innan skóla.
    Einnig hefur verið stofnuð samstarfsnefnd sömu aðila til að móta stefnu hvað varðar verklag og viðbrögð skóla gagnvart einelti. Nefndin stóð fyrir málþingi um einelti haustið 2001 og í kjölfarið var unnið að því að styðja skóla til að koma á aðgerðaáætlun gegn einelti.
    Verkefni kennt við Norðmanninn Dan Olweus hóf göngu sína haustið 2002 með þátttöku 43 grunnskóla um allt land, en það eru um 30% allra grunnskóla á landinu. Verkefnið er samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og Heimilis og skóla. Markmiðið er að styrkja og fræða skólasamfélagið á grundvelli Olweusarkerfisins til að geta betur komið í veg fyrir og tekist á við einelti. Í verkefninu taka allir starfsmenn skóla þátt og gert er ráð fyrir að haustið 2004 hafi bæst það margir grunnskólar við að verkefnið nái til helmings allra grunnskólabarna á Íslandi. Markmiðið er að skólar verði í stakk búnir til að takast á við einelti en jafnframt má líta á verkefnið sem alhliða forvarnarverkefni í grunnskólum. Ráðuneytið styrkti verkefnið um alls 12 millj. kr. á árunum 2000–2004.

14. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess (kafli 9.13. í báðum áætlunum).
    Hinn 7. janúar 2003 var skipuð jafnréttisnefnd menntamálaráðuneytisins. Hlutverk nefndarinnar er m.a. að fylgjast með stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess, móta stefnu og áætlanir ráðuneytisins í jafnréttismálum og vera ráðgefandi fyrir jafnréttisfulltrúa ráðuneytisins. Nefndin heyrir undir ráðuneytisstjóra. Hún er ólaunuð.
    Í desember 2003 var gerð viðhorfskönnun meðal starfsmanna ráðuneytisins um jafnréttismál þar sem spurt var um afstöðu til launajafnréttis, starfsframa og stöðuveitingar, starfsþjálfunar og endurmenntunar, samræmingar fjölskyldu- og atvinnulífs, kynferðislegrar áreitni og þátttöku í nefndum og ráðum. Við samningu spurninga var unnið út frá III. kafla laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þ.e. aðallega 13.–17. og 20. gr. Könnunin var gerð fyrir stjórnarráðið í heild. Með þessu móti fengust niðurstöður sem eru sambærilegar milli ráðuneyta og auk þess fékkst yfirlit yfir stöðu jafnréttismála hjá öllu stjórnarráðinu. Kostnaður ráðuneytisins við könnun þessa var 186.716. kr.

15. Aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni (kafli 9.11. í áætlun 2001–2004).
    Í tengslum við Olweusarverkefnið er gerð könnun á hverju ári innan þátttökuskóla um líðan nemenda í skólanum. Þar er m.a. spurt um kynferðislega áreitni og aðra þætti sem tengjast jafnrétti drengja og stúlkna í skóla. Þar kemur fram mikið magn upplýsinga um almenna líðan nemenda í skólanum sem hægt er að vinna úr. Verkefnið felst fyrst og fremst í að aðstoða skóla við að byggja upp viðvarandi kerfi gegn einelti með markvissri fræðslu og samvinnu í öllu skólasamfélaginu.
    Starfsfólki menntamálaráðuneytisins var árið 2003 boðið upp á fræðslu um einelti og kynferðislega áreitni á vinnustað.