Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 699. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1275  —  699. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Sigurberg Björnsson og Karl Alvarsson frá samgönguráðuneyti, Þorgeir Pálsson flugmálastjóra og Kristján Þorbergsson hrl., Steinar Adolfsson frá embætti ríkislögreglustjóra, Þórhall Ólafsson frá Neyðarlínunni, Jóhann R. Benediktsson, sýslumann á Keflavíkurflugvelli, Jens Bjarnason frá Icelandair, Jón E. Böðvarsson frá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og Halldór Þ. Sigurðsson og Kjartan Norðdahl frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um loftferðir sem miða að eflingu flugverndar og samræmingu flugreglna á Evrópska efnahagssvæðinu. Flugvernd hefur verið efld gríðarmikið eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001 bæði hjá einstökum ríkjum og á alþjóðavísu.
    Meðal þess sem lagt er til í frumvarpinu er að ráðherra verði heimilt að veita leyfi fyrir því að vopnaður vörður verði um borð í flugvél komi ósk um slíkt frá flugrekanda. Það kom fram í umfjöllun í nefndinni að flugmenn og flugrekendur telja ólíklegt að þessi heimild verði nýtt við þær aðstæður sem ríkja í dag. Flestir gestir nefndarinnar voru þó þeirrar skoðunar að vegna breyttra öryggiskrafna í millilandaflugi sé nauðsynlegt að slík gæsla sé heimiluð samkvæmt lögum og að þar sé kveðið á um hvernig slík heimild skuli veitt. Í 12. gr. frumvarpsins er lagt til að slíkur vörður verði aðeins heimilaður af samgönguráðherra að fram kominni beiðni flugrekanda sem um það biður að fram kominni kröfu erlends ríkis og að leita verði meðmæla dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Nefndin telur þessa leið góða þar sem hún tryggir tiltekið samráð.
    Þá er lagt til að öll smærri flugatvik, þ.e. þau sem ekki á að tilkynna til rannsóknarnefndar flugslysa, eigi að tilkynna til Flugmálastjórnar. Nefndin ræddi þetta ákvæði nokkuð og m.a. hvort ruglingur gæti myndast um hvaða atvik skuli tilkynna til hvors aðila. Nefndin leggur til orðalagsbreytingu á 5. gr. frumvarpsins til að takmarka slíkan rugling. Söfnun upplýsinga um flugatvik og úrvinnsla þeirra er mikilvægur þáttur í eflingu flugöryggis. Því er mikilvægt að allir sem að þeirri vinnu koma starfi í sátt að settu markmiði og að gagnkvæmt traust sé á milli aðila. Ákvæði um nafnleynd og refsileysi hafa þann tilgang að vernda þá sem tilkynna um flugatvik og þar með að auka líkur á að atvik verði tilkynnt. Í nefndinni var rætt hvort gera ætti tillögur um ítarlegri ákvæði í þessum efnum, m.a. um meðferð Flugmálastjórnar á tilkynningum, en frá því var fallið þar sem réttara var talið að þeir aðilar sem þessi mál snerta mest, flugmenn, flugrekendur og flugmálayfirvöld, ynnu að mótun reglna á grundvelli laganna sem sátt væri um.
    Nefndin leggur eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Gildissvið 57. gr. laganna taki einnig til skólastarfs á sviði flugleiðsöguþjónustunnar.
    Ráðherra setji í reglugerð reglur um miðlun upplýsinga til eigenda farms um hvað flytja má inn á haftasvæði flugverndar líkt og til flugfarþega samkvæmt frumvarpinu.
    Nýtt ákvæði bætist við þar sem lagt er til að orðin „og laga þessara“ verði felld brott úr 2. mgr. 101. gr. laganna þar sem ekki er rétt að binda gerðardóm að þessu leyti.
    Ákvæði 12. gr. frumvarpsins verði gert almennara og rýmkað hvað sé refsilaust samkvæmt ákvæðinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Björgvin G. Sigurðsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Kristján L. Möller og Guðjón A. Kristjánsson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið. Fyrirvari Guðjóns A. Kristjánssonar lýtur fyrst og fremst að 9. gr. frumvarpsins.
    Jón Bjarnason sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.

Alþingi, 28. apríl 2005.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Björgvin G. Sigurðsson,


með fyrirvara.



Bryndís Hlöðversdóttir,


með fyrirvara.


Birgir Ármannsson.


Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.



Una María Óskarsdóttir.


Kristján L. Möller,


með fyrirvara.


Magnús Stefánsson.