Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 747. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1284  —  747. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

     1.      Hver voru meginatriði álits eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna vegna skýrslu Íslands um framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá janúar 2003?
     2.      Hvað taldi nefndin að helst mætti bæta í framkvæmd sáttmálans hérlendis?

    Önnur skýrsla Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var tekin fyrir af nefnd um réttindi barnsins í Genf hinn 28. janúar 2003. Sendinefnd Íslands var skipuð fulltrúum utanríkisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis. Skýrslan var samin í umsjón dómsmálaráðuneytis, en öll fyrrnefnd ráðuneyti komu að samningu hennar með einum eða öðrum hætti.
    Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins birti niðurstöður sínar 31. janúar 2003. Lýsti nefndin yfir ánægju sinni með skýrslu Íslands og svör þau sem veitt voru í fyrirtökunni. Nefndin kvað einnig ánægjuefni þær ráðstafanir sem Ísland hefur gert í tilefni af fyrri tilmælum nefndarinnar. Auk þess var fagnað:
     .      fullgildingu á bókunum við samning gegn þátttöku barna í vopnaviðskiptum, barnasölu, barnavændi og barnaklámi,
     .      samþykkt barnaverndarlaga 2002,
     .      stofnun miðstöðvar til barnaheilsuverndar, og
     .      samþykkt heilbrigðisáætlunar (m.a. varnir gegn tóbaks- og áfengisneyslu, áætlun um geðheilbrigðisþjónustu og að draga úr meiðslum og dauðsföllum vegna slysa).
    Einnig var fagnað mótun fjölskyldustefnu, stofnun Fjölskylduráðs, undirbúningi barnastefnu og að í barnaverndarlögum sé gert ráð fyrir fjögurra ára aðgerðaáætlunum félagsmálaráðuneytis og allra sveitarstjórna á sviði barnaverndar. Þá var fagnað stefnu yfirvalda í málefnum langveikra barna. Nefndin lýsti yfir ánægju sinni með herferð gegn einelti og að lífsleikni væri meðal námsgreina. Þá var fagnað nýlegum lögum gegn barnaklámi.
    Í niðurstöðum nefndarinnar er auk framangreinds að finna lýsingu á áhyggjuefnum og tilmælum nefndarinnar. Verða helstu atriði reifuð hér á eftir, en ekki er um tæmandi talningu að ræða.
     Lagasetning, fjárveitingar: Fullnægjandi ráðstafanir verði gerðar svo að lög, stjórnvaldsfyrirmæli og aðgerðaráætlanir varðandi börn komi til framkvæmda, svo sem með fjárframlögum. Fjárveitingar verði auknar til að fylgja eftir efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum barna.
     Samræming í málefnum barna: Íhugað verði að veita Fjölskylduráði eða annarri stofnun umboð til að samræma störf hinna mismunandi aðila við framkvæmd barnasáttmálans.
     Upplýsingar: Hvatt er til þess að áfram verði safnað tölfræðilegum upplýsingum á þeim sviðum er samningurinn tekur til.
     Umboðsmaður barna: Embættinu verði tryggð aðstaða, mannafli og fé, til að það geti sinnt hlutverki sínu á árangursríkan hátt.
     Fræðsla og kynning á samningnum: Yfirvöld eru hvött til að efla dreifingu upplýsinga um samninginn og framkvæmd hans og standa að kerfisbundinni og varanlegri fræðslu um mannréttindi fyrir alla sem starfa fyrir börn og með börnum.
    Skilgreining á hugtakinu barn: Mælst er til þess að löggjöf verði endurskoðuð í því skyni að tryggja samræmi á aldursmörkum í ýmsum lögum.
     Bann við mismunun: Frekari ráðstafanir verði gerðar til að bregðast við þeim möguleika að vandamál vegna kynþáttafordóma rísi í kjölfarið á fjölgun útlendinga í landinu.
     Barnavernd: Foreldrar og aðrir sem sinna börnum verði vaktir til vitundar um bann við líkamlegum refsingum, haldið verði áfram að styrkja þær hugmyndir sem Barnahús byggist á og að kynningarstarf verði á afleiðingum slæmrar meðferðar á börnum.
     Fjölskyldustefna: Sveitarfélög verði hvött til að móta opinbera fjölskyldustefnu, aukin verði aðstoð við einstæða foreldra og að Fjölskylduráði verði veitt nægilegt fé.
     Heilbrigðismál: Aukinn verði stuðningur við fjölskyldur fatlaðra barna og haldið verði áfram og aukin viðleitni um að mæta öllum þörfum fatlaðra barna. Haldið verði áfram að kanna og meta eðli og umfang heilsufarsvandamála ungmenna.
     Menntun: Mannréttindafræðsla verði felld inn í námskrár allra grunnskóla og framhaldsskóla, einkum hvað varðar virðingu fyrir mannréttindum og umburðarlyndi, svo og jafnrétti kynjanna og trúarlegra og þjóðernislegra minnihlutahópa. Styrktar verði ráðstafanir til að bregðast við tíðu brotthvarfi innflytjendabarna frá námi.
     Vernd gegn kynferðislegri misnotkun: Mælst er til þess að börnum eldri en 14 ára verði í löggjöf tryggð full vernd gegn kynferðislegri misnotkun. Mótuð verði áætlun um aðgerðir gegn kynferðislegri misneytingu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
     Ungmenni sem sakamenn: Komið verði á sérstöku réttarfarskerfi í sakamálum ungmenna með alþjóðlegar viðmiðunarkröfur að leiðarljósi.
     Kynning á skýrslunni: Skýrslan og skrifleg viðbótarsvör verði gerð almenningi sem víðast aðgengileg og skýrslan ásamt viðeigandi fylgigögnum verði birt. Þessu skjali verði dreift sem víðast svo að efna megi til umræðna um samninginn og framkvæmd hans.
    
     3.      Til hvaða aðgerða hefur ríkisstjórnin gripið til að koma til móts við athugasemdir nefndarinnar?

    Dómsmálaráðuneytið hefur farið með samræmingarhlutverk þegar kemur að framkvæmd samningsins um réttindi barnsins. Úrvinnsla og greining á niðurstöðum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins er á sviði þeirra ráðuneyta sem þær snerta.
    Dómsmálaráðuneytið boðaði fulltrúa félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis til tveggja funda árið 2003 til að fara yfir niðurstöður nefndarinnar, annars vegar í maí og hins vegar í september. Jafnframt voru þessum ráðuneytum sendar umræddar niðurstöður nefndarinnar í íslenskri þýðingu.
    Í apríl 2005 skilaði nefnd um heildstæða stefnumótun í málefnum barna og unglinga skýrslu til forsætisráðherra um heildstæða stefnumótun í málefnum barna og unglinga. Nefndin var skipuð árið 2001 í framhaldi af þingsályktun um undirbúning heildstæðrar og samræmdrar opinberrar stefnu í málefnum barna og unglinga. Í skýrslu nefndarinnar er tekið fram að mið sé tekið af sáttmálanum um réttindi barnsins og þeim ábendingum sem eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna kom á framfæri við íslensk stjórnvöld. Nefndarstarfið fólst m.a. í viðræðum við börn um þarfir þeirra og var það byggt á ábendingum fyrrgreindrar nefndar Sameinuðu þjóðanna.
    Nefnd um heildstæða stefnumótun í málefnum barna og unglinga setti fram tillögur að níu markmiðum og má nálgast þær og skýrsluna í heild á heimasíðu forsætisráðuneytis. Forsætisráðherra hefur ákveðið að fela nefnd, sem hann skipaði til að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar, að fara yfir þær tillögur sem fram koma í skýrslunni. Er nefndinni ætlað að fella þær að öðrum tillögum sem miða að því að styrkja stöðu fjölskyldunnar og huga að gerð framkvæmdaáætlunar sem kveðið er á um í fyrrnefndri þingsályktun um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.
    Auk þeirrar vinnu, sem farið hefur fram í framangreindri nefnd, hafa fjölmörg atriði komið til skoðunar á sviði einstakra ráðuneyta síðan niðurstöður nefndar um réttindi barnsins voru birtar. Skal nú talið upp það helsta á málefnasviði hvers ráðuneytis fyrir sig:

Dómsmálaráðuneyti.

    Niðurstöður nefndarinnar lutu einkum að aðgerðum gegn kynferðislegri misnotkun barna og að komið yrði á sérstöku réttarfarskerfi í sakamálum ungmenna, þar á meðal ungmennadómstólum.
    Töluvert hefur verið fjallað þá staðreynd að kynferðismök við 14 ára ungling eru refsilaus ef þau eru með hans vilja og samþykki, og ekki er hægt að sýna fram á að hann hafi verið tældur til þeirra (þ.e. svonefndur „kynferðislegur lögaldur“). Dómsmálaráðherra bað um álit refsiréttarnefndar á þessu atriði; hvort ástæða væri til að breyta 202. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, með það fyrir augum að hækka lágmarksaldur til kynmaka, þ.e. kynmaka sem færu fram þvingunar- og blekkingarlaust að vilja beggja. Niðurstaða nefndarinnar var í stuttu máli sú að í fyrsta lagi verði lagareglur um kynferðislegan lögaldur að taka mið af íslenskum raunveruleika og upplýsingum um kynhegðun unglinga. Refsiréttarnefnd byggir í því atriði á skýrslu nefndar sem falið var að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis frá árinu 2002, en hún er aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins, en í skýrslunni segir m.a.: „Með því að hækka kynferðislegan lögaldur í hegningarlögum væri því verið að gera stóran hóp unglinga að afbrotamönnum.“
    Í öðru lagi kemru fram að hækkun á kynferðislegum lögaldri hafi í för með sér að rýmkað sé gildissvið refsiábyrgðar í tilviki tveggja einstaklinga sem hafa samræði af fúsum og frjálsum vilja. Það gangi óþarflega langt. Þegar um er að ræða að eldri einstaklingur leitast við að misnota sér vanþroska og trúgirni ungs fólks í kynferðislegum tilgangi er vakin athygli á því að refsilöggjöfin gerir nú þegar ráð fyrir refsiábyrgð í þessum tilvikum.
    Í þriðja lagi bendir refsiréttarnefnd á að hækkun kynferðislegs lögaldurs mundi leiða til verulegra erfiðleika við rannsókn og saksókn mála af þessu tagi með tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga um kynhegðun ungmenna á aldrinum 14–15 ára hér á landi.
    Í ljósi þessa hefur dómsmálaráðherra ákveðið að leggja ekki til lagabreytingar er varða breytingu á kynferðislegum lögaldri.
    Hvað varðar tilmæli um að koma á sérstöku réttarkerfi í sakamálum ungmenna, þar á meðal ungmennadómstólum, er vert að upplýsa að skoðuð hafa verið úrræði vegna afbrota ósakhæfra ungmenna. Á síðasta ári skilaði nefnd, sem falið var að fara yfir og fylgjast með tilraunaverkefninu Hringnum, um nýjar leiðir vegna afbrota ósakhæfra ungmenna, dómsmálaráðherra skýrslu þar sem lagt var til að tekið yrði upp í íslenskt viðurlagakerfi sambærilegt úrræði fyrir sakhæf ungmenni, svokölluð sáttaumleitun. Með sáttaumleitun í sakamálum er átt við þá aðferð að leiða brotamann og brotaþola saman í því skyni að koma hinum brotlega í skilning um þau rangindi sem hann hefur viðhaft, fá hann til að friðmælast við brotaþola og skapa þar með grundvöll fyrir þá að komast að samkomulagi um málalok. Úrræði þetta byggist á hugmyndafræði um uppbyggilega réttvísi (restorative justice) sem hefur náð mikilli útbreiðslu víða um heim. Með hliðsjón af reynslu annarra þjóða á notkun þessa úrræðis taldi nefndin einsýnt að úrræðið sé sérstaklega vel til þess fallið að hafa uppeldisleg áhrif á unga brotamenn og leiða þá af braut afbrota. Á grundvelli tillagna nefndarinnar ákvað dómsmálaráðherra að hefja undirbúning á því að innleiða sáttaumleitun í íslenskt réttarkerfi og er sú vinna í fullum gangi í ráðuneytinu.
    Auk þess má geta þess að nú þegar eru ýmis sérákvæði í lögum um meðferð opinberra mála sem taka sérstaklega á réttarstöðu ungra brotamanna, og því vart þörf á að koma á fót sérstöku réttarfari að því er varðar ungmenni umfram það sem nú er. Hugmyndir um sérstaka ungmennadómstóla eru í algerri andstöðu við þá réttarþróun sem hefur orðið hér á landi undanfarin ár, þ.e. að fækka öllum sérdómstólum. Að setja á fót sérdómstól í málefnum ungmenna væri að þessu leyti afturför og yrði einungis til að gera kerfið þyngra, seinvirkara og dýrara. Nú eru þegar í lögum þeim er gilda um dómskipun og meðferð dómsmála ýmis úrræði fyrir dómstóla til að kalla til kunnáttumenn í málum er snerta ungmenni, sbr. m.a. 5. gr. laga um meðferð opinberra mála og 2. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.

Félagsmálaráðuneyti.
     i.      Barnaverndarlög.
    Setning barnaverndarlaga, nr. 80/2002, var mikið framfaraspor í málefnum barna. Með því voru reglur og allt verkferli barnaverndarmála gert ítarlegra og skýrara. Haldið hefur verið áfram að vinna að þessu og í samvinnu við Barnaverndarstofu hafa verið settar fjórar nýjar reglugerðir. Reglugerðirnar eru settar til nánari skýringar barnaverndarlögunum og ætlaðar að vera Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndum sveitarfélaganna til leiðbeiningar.
    Reglugerðirnar eru þessar:
     .      Reglugerð um vistun barna á vegum annarra en barnaverndarnefnda samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga (sumarbúðir o.fl.), nr. 366/2005. Endurskoða þurfti reglur á þessu sviði þar sem aðlaga þurfti reglurnar að þeirri flokkun sem barnaverndarlögin frá árinu 2002 gera ráð fyrir. Gildissvið reglugerðarinnar eru leyfisveitingar og fleiri atriði er varða vistun barna á vegum annarra en barnaverndarnefnda á einkaheimilum eða öðrum heimilum.
     .      Reglugerð um fóstur, nr. 804/2004. Í reglugerðinni er að finna skilgreiningar á mismunandi tegundum fósturs, þ.e. tímabundnu fóstri, styrktu fóstri, reynslufóstri og varanlegu fóstri. Þá er gerð grein fyrir því hvernig sótt er um og veitt leyfi til að gerast fósturforeldri. Samkvæmt reglugerðinni ber umsækjanda að sækja námskeið á vegum Barnaverndarstofu áður en leyfi er veitt. Í reglugerðinni er einnig fjallað um ráðstöfun barns í fóstur, fóstursamninga, lok fósturs, eftirlit og ábyrgð.
     .      Reglugerð um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, nr. 652/2004. Reglugerðin fjallar um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga. Í nýju reglugerðinni er fjallað um almenn stuðningsúrræði, sumardvöl á vegum barnaverndarnefnda, tilsjónarmann og persónulegan ráðgjafa, stuðningsfjölskyldur og heimili og önnur úrræði. Í reglugerðinni kemur m.a. fram hvaða kröfur skal gera til þeirra sem taka að sér að veita þjónustu á grundvelli barnaverndarlaga, svo sem um skyldu til að sækja um leyfi, skilyrði fyrir því að veita leyfi og endurnýjun leyfa.
     .      Reglugerð um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, nr. 56/2004. Í reglugerðinni er fjallað um fjölmörg atriði sem tengjast málsmeðferð, svo sem skráningu tilkynninga til barnaverndarnefndar, könnun barnaverndarmáls, gerð áætlana, hlutverk talsmanns og skráningu og meðferð persónuupplýsinga hjá barnaverndarnefnd.
    Barnaverndarlögin hafa reynst vel þann tíma sem liðinn er frá gildistöku þeirra í júní 2002. Í félagsmálaráðuneytinu er unnið að hugsanlegum breytingum á barnaverndarlögum með það að markmiði að tryggja samræmda og vandaða meðferð barnaverndarmála. Með þessu móti hefur ráðuneytið reynt að halda áfram að vinna að framgangi þessara mála hér á landi og tryggja þannig réttindi barna. Enn fremur styrkir félagsmálaráðuneytið samtök eins og Vímulaus æska og rekstur Barnahúss í samvinnu við Barnaverndarstofu o.fl. Auk þess hafa verið til skoðunar ný úrræði á sviði barnaverndarmála með það að markmiði að ná til sem flestra barna sem eru í áhættuhópi.

     ii.      Fjölskylduráð.
    Fjölskylduráð hefur styrkt verkefni á vegum Miðstöðvar barnaverndar, Uppeldi sem virkar, færni til framtíðar, þar sem Miðstöð barnaverndar hefur staðið fyrir námskeiðum er beinast fyrst og fremst að foreldrum barna frá fæðingu til 18 mánaða. Fjölskylduráð hefur einnig átt frumkvæði að gerð svokallaðrar fjölskylduvogar sem er enn í smíðum, þar sem markmiðið er að geta mælt í mismunandi landshlutum og frá einum tíma til annars aðstæður íslenskra fjölskyldna og þá sérstaklega barnafjölskyldna. Mun slík vinna án efa gagnast til að mynda sveitarfélögum í að móta eigin fjölskyldustefnu.

     iii.      Fjölskylduvefur (www.fjolskylda.is).
    Í maí 2004 opnaði félagsmálaráðherra fjölskylduvefinn. Meginhugmyndin að baki fjölskylduvefnum er að búa til upplýsingavef er geymi upplýsingar um helstu málefni er snerta líf fjölskyldna í landinu og auðvelda þannig fjölskyldum að átta sig á réttindum sínum og skyldum, og hvert eigi að sækja þá þjónustu sem í boði er. Þar er að finna upplýsingar varðandi atvinnu, íbúðarhúsnæði, barneignir, giftingu og sambúð, foreldrafræðslu, félagsþjónustu sveitarfélaga og barnavernd svo eitthvað sé nefnt. Á fjölskylduvefnum er að finna safn upplýsinga er félagsmálaráðuneytið hefur umsjón með og tengingar við aðrar vefsíður er varða málefni fjölskyldna.

     iv.      Fjölskyldunefnd.
    Áður hefur verið minnst á nefnd er forsætisráðherra skipaði til að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar. Félagsmálaráðherra veitir verkefni nefndarinnar stuðning með skipun fulltrúa í nefndinni, sem og starfskröftum deildarsérfræðings skrifstofu fjölskyldumála félagsmálaráðuneytis, sem er annar starfsmaður nefndar forsætisráðherra. Sá hinn sami er jafnframt starfsmaður Fjölskylduráðs er án vafa styrkir bæði starf nefndarinnar og ráðsins.

     v.      Langveik börn.
    Félagsmálaráðherra skipaði nefnd 29. janúar 2001 sem hafði það hlutverk að tryggja betur rétt foreldra til launa í fjarveru frá vinnu og rétt til sjúkradagpeninga vegna langvarandi veikinda barns. Nefndin lagði fram tillögur sínar nú í byrjun ársins og miðast þar að því að bæði ríkið og sjúkra- og styrktasjóðir stéttarfélaga komi til móts við aðstæður foreldra langveikra og fatlaðra barna. Nefndin leggur til að framlag ríkisins komi fram í greiðslum til foreldra langveikra barna í allt að þrjá mánuði sem ætlað er að komi til móts við sannanlegt tekjutap þeirra.

     vi.      Málefni innflytjenda.
    Í niðurstöðum eftirlitsnefndar er því beint til íslenskra stjórnvalda að frekari ráðstafanir verði gerðar til að bregðast við þeim möguleika að vandamál vegna kynþáttafordóma rísi í kjölfar fjölgunar útlendinga.
    Félagsmálaráðuneytið hefur látið vinna skýrslu með tillögum að aðgerðum sem eiga að auðvelda innflytjendum aðlögun hér á landi. Tillögurnar voru nýlega kynntar í ríkisstjórn og miða að því að tryggja betur en nú er gert farsæla þátttöku innflytjenda í íslensku samfélagi. Börnin eru þar innanborðs og skiptir verulegu máli að þau fái sérstaka aðstoð og viðmót í leik- og grunnskóla, njóti öflugrar íslenskukennslu og samfélagið taki á móti þeim með viðeigandi hætti. Þetta á einnig við um framhaldsskólann. Í tillögunum er lagt til að stofnað verði sérstakt innflytjendaráð og verkefni þess verði m.a. gerð þjónustusamninga um eftirfarandi:
     a.      Aðstoð við fyrstu skrefin á Íslandi. Innflytjendaráði er ætlað í samvinnu við Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun að tryggja að hverjum þeim sem fær dvalarleyfi á Íslandi bjóðist leiðsögn um íslenskt samfélag.
     b.      Öflun og umsýsla tölfræðilegra upplýsinga á sviði innflytjendamála í samvinnu við Hagstofu Íslands.
     c.      Samræming og miðlun upplýsinga til útlendinga á Íslandi og efling fræðslu um mannréttindi fyrir alla, sérstaklega með tilliti til ólíks uppruna, menningar, tungumáls og trúarbragða. Byggt verði á vinnu sem nú þegar liggur fyrir hjá ýmsum aðilum og bætt við þar sem þörf krefur.
     d.      Túlkaþjónusta sem nái til landsins alls. Byggður verði upp upplýsingagrunnur þar sem þörf á fjölda túlka verði metin. Lögð verði sérstök áhersla á fljótvirkt kerfi við túlkaþjónustu sem standist gæðakröfur.
     e.      Þjónusta við sveitarfélög: Innflytjendaráð skal markvisst kynna sveitarfélögunum þarfir og aðstæður innflytjenda. Áhersla skal lögð á heildræna þjónustu við fjölskyldur og gagnkvæma aðlögun.
     f.      Rannsóknir og þróunarstarf: Innflytjendaráð skal beita sér fyrir að gerðar séu rannsóknir og unnið að þróunarstarfi á þessu sviði og skal fylgjast reglubundið með viðhorfum innfæddra og innflytjenda til fjölmenningarsamfélagsins.
    Allt eru þetta atriði sem, ef vel tekst til, munu hafa þau áhrif að draga úr fordómum og efla stöðu innflytjenda í landinu, þ.m.t. barnanna.
    Þá má geta þess að Reykjavíkurborg, félagsmálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, Alþjóðahúsið, Rauði Krossinn og Velferðarsjóður barna standa saman að verkefninu Framtíð í nýju landi sem vinnur að því að styðja ungt fólk af víetnömskum uppruna til að afla sér menntunar við hæfi og starfsþjálfunar.
    Fjölmenningarsetrið á Ísafirði, sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið, hefur m.a. beitt sér fyrir því að kynna skólareglur á myndmáli sem ætlaðar eru grunnskólabörnum og foreldrum þeirra.
    Enn fremur má nefna fjölmörg verkefni á vegum Reykjavíkurborgar sem lúta að því að tryggja gagnkvæma aðlögun og samþættingu innfæddra barna og innflytjendabarna.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur unnið að ýmsum úrbótum í samræmi við ábendingar eftirlitsnefndarinnar frá því þær voru birtar. Ábendingar um heilbrigðisþjónustu barna og ungmenna lutu aðallega að gagnaöflun um heilsufar barna og samræmingu ýmissa þjónustuþátta, og svo þjónustu við fötluð börn, sem hér á landi er fyrst og fremst á starfssviði félagsmálaráðuneytis.
    Söfnun tölfræðilegra heilbrigðisupplýsinga um börn hefur aukist og ábyrgð er skýrari í málaflokknum en verið hefur. Landlæknisembættið vinnur úr heilsufarsgögnum um börn og unglinga sem aflað er með skráningakerfi heilsugæslunnar í landinu, svonefndu Sögukerfi, en þróun þess gefur kost á mikilli gagnavinnu. Uppbygging heilbrigðistölfræðisviðs landlæknisembættisins mun auka möguleika á úrvinnslu og söfnun þessara gagna á komandi missirum. Hin nýja Lýðheilsustöð hefur nýverið gert samning við Háskólann á Akureyri um söfnun heilsufarsgagna um ungmenni, og verða þær upplýsingar unnar í samræmi við leiðbeiningar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Ísland hefur tekið virkan þátt í gerð viðmiða fyrir gagnasöfnun um heilsu barna á vegum Evrópusambandsins (CHILD verkefnið) og verða þau viðmið væntanlega notuð til að auðvelda samanburð á heilsu barna í Evrópulöndunum. Þá hafa margar kannanir hafa verið gerðar, m.a. á reykingum og neyslu áfengis og vímuefna, og er fylgst vel með þróuninni af hálfu Lýðheilsustöðvar.
    Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna fjallar í raun bæði um langveik og fötluð börn, og er í stefnunni hugað að samræmingu á réttindum og kjörum þessara barna. Stefnan tekur til þátta á sviði heilbrigðis-, trygginga-, félags- og menntamála. Heilbrigðisráðuneytið hefur haft formennsku í nefnd þessrara fjögurra ráðuneyta sem hefur það hlutverk að fylgja eftir stefnumótun ríkisstjórnarinnar, sjá um að samræma aðgerðir sem falla undir fleiri en eitt ráðuneyti og vera tengiliður hlutaðeigandi aðila. Á sviði heilbrigðismála hefur stórum hluta markmiða þegar verið náð og unnið er markvisst að þeim atriðum sem eftir standa. Nýlegt svar heilbrigðisráðherra (sjá þskj. 882 í 231. máli) við fyrirspurn um málefni langveikra barna varpar ljósi á stöðu þessara mála.
    Miðstöð heilsuverndar barna, sem er hluti af Heilsugæslunni í Reykjavík, hefur fengið ráðgjafahlutverk á sviði heilsuverndar barna á landsvísu og fjallar nú um börn og unglinga allt að 19 ára aldri. Eru bundnar vonir við að þessi breyting efli þjónustu við grunnskólabörn og unglinga. og auki samræmi í þjónustu við þennan aldurshóp. Þá eru unglingamóttökur að hasla sér völl á heilsugæslustöðvum.
    Í áliti eftirlitsnefndarinnar er vikið að þekkingu heilbrigðisstarfsfólks og annarra á viðbrögðum við ofbeldi og misnotkun. Er rétt í því sambandi að minna á munnlegt svar heilbrigðisráðherra á yfirstandandi löggjafarþingi við fyrirspurn frá Björgvini G. Sigurðssyni um fræðslu um meðferð kynferðisafbrota (105. mál).
    Enn fremur má geta þess að í heilbrigðisráðuneytinu hefur verið unnið að fleiri breytingum á högum barna sem eru í samræmi við ábendingar eftirlitsnefndarinnar. Má nefna fyrirhugaða uppbyggingu á BUGL, þar sem stefnt er að fjölgun legurýma en þó fyrst og fremst auknum stuðningi við skjólstæðinga sem ekki eru lagðir inn. Um sjö mánaða skeið starfaði í heilbrigðisráðuneytinu verkefnisstjóri sem hafði það hlutverk að skila til ráðherra tillögum um samræmingu þjónustu heilbrigðis-, félags- og menntakerfis við börn og ungmenni með geðraskanir.
    Loks má geta þess að Ísland var valið sem svokallað „pilot“-land alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar við undirbúning stefnumótunar fyrir Evrópu í heilbrigðismálum barna og ungmenna og tekur virkan þátt í mótun þeirrar stefnu. Þar er gert ráð fyrir þónokkurri gagnaöflun aðildarríkjanna um börn og unglinga.

Menntamálaráðuneyti.
    Gildandi aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla er frá 1999. Almennur hluti aðalnámskrár framhaldsskóla kom út í endurskoðaðri útgáfu árið 2004 og í nýjustu útgáfunni er lögð aukin áhersla á jáfnréttismál. Þar segir á bls. 5: „Skólum ber að gæta jafnréttis nemenda til náms og bjóða þeim nám og kennslu við hæfi. Mikilvægt er að bæði piltum og stúlkum séu kynnt störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- eða kvennastörf. Sérstök áhersla er lögð á jafnréttismarkmið í áfangalýsingum félagsfræði, uppeldisfræði og sálarfræði, auk lífsleikninnar. Skólum ber einnig að gefa nemendum tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali. Þau þurfa að höfða jafnt til pilta og stúlkna án tillits til uppruna, í dreifbýli eða þéttbýli, fatlaðra sem ófatlaðra.“ Í kafla um skólanámskrá er lagt til í aðalnámskránni að skólar geri grein fyrir stefnu skólans í jafnréttismálum og hvernig hún birtist í daglegu starfi hans.
    Í endurskoðaðri aðalnámskrá framhaldsskóla segir á bls. 5: „Skólar skulu leitast við að koma til móts við þarfir nemenda af erlendum uppruna með öflugri íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt samfélag og menningu svo og annarri aðstoð eftir mætti. Miklu máli skiptir að allir nemendur fái tækifæri til að leggja stund á nám sem vakið getur áhuga þeirra og tekur mið af getu þeirra og framtíðaráformum. Skólar skulu leitast við að draga úr brotthvarfi nemenda frá námi með skýrum námskröfum, fjölbreyttu námsframboði, upplýsingamiðlun, ráðgjöf, góðri leiðsögn og samstarfi við forráðamenn eftir því sem kostur er.“
    Í tengslum við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum hefur menntamálaráðuneytið unnið að ýmsum verkefnum á sviði jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Í aðalnámskrá í náttúrufræði frá 1999 fyrir grunnskóla er sérstaklega á það bent að athugað skuli að nemendur festist ekki um of í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar og að einstaklingar af báðum kynjum fái sambærileg og jafngild tækifæri. Þróunarsjóður framhaldsskóla auglýsti sérstaklega í vetur eftir verkefnum á sviði jafnréttisfræðslu og Þróunarsjóður grunnskóla mun einnig auglýsa eftir jafnréttisfræðsluverkefnum við næstu úthlutun.
    Menntamálaráðuneytið hefur á undanförnum árum styrkt ýmis verkefni úr Þróunarsjóði grunnskóla og framhaldsskóla til þess að þróa kennsluhætti og námsskipulag og námsefnisgerð í tengslum við kennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku. Einnig hefur Námsgagnastofnun og aðrir aðilar gefið út námsefni fyrir þennan hóp nemenda. Unnin hafa verið tilraunaverkefni við einstaka framhaldsskóla til að skipuleggja nám við hæfi fyrir nemendur af erlendum uppruna með það að markmiði að draga úr brottfalli þessa nemendahóps.
    Hafin er endurskoðun á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla í tengslum við áform menntamálaráðuneytisins um styttingu námstíma til stúdentsprófs. Í tengslum við þá endurskoðun verður m.a. farið yfir þá þætti sem gagnrýndir voru af barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna og athugað með hvaða hætti best sé að skipa þeim málum.

     4.      Hvað hefur ríkisstjórnin gert til að kynna álit eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna?
    Niðurstöðurnar voru þýddar á íslensku og sendar félagsmálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti í maí 2003. Þær hafa nú verið birtar á heimasíðu dómsmálaráðuneytis.