Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 493. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1286  —  493. mál.
Nefndarálitum frv. til tollalaga.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti.
    Í frumvarpinu eru gerðar tillögur um ýmsar breytingar frá gildandi tollalögum en ljóst er eftir umfjöllun nefndarinnar að þar þarf að skoða margt betur. Tollalög eru þess eðlis og varða slík réttindi að mikilvægt er að til þeirra sé vandað svo sem frekast er unnt. Ýmsir gestir nefndarinnar og umsagnaraðilar, þar á meðal Samtök verslunar og þjónustu, Tollvarðafélagið, BSRB og embætti skattrannsóknarstjóra gagnrýndu ákvæði frumvarpsins.
    
Verkaskipting milli tolls og lögreglu.
    Meðal veigamikilla atriða sem minni hlutinn telur þarfnast mun meiri íhugunar en liggur að baki frumvarpinu er verkaskipting og valdmörk milli lögreglu og tollstjóra. Af umsögnum að dæma er augljóst að ákvæði er þetta varða, þar á meðal 185. gr., eru ekki nægilega skýr. Afar mikilvægt er að öllum sé ljóst frá frumstigi hver eigi að fara með mál og dugar að benda á þau vandkvæði sem upp komu vegna rannsókna á samkeppnislagabrotum fyrir nokkrum missirum. Oft er erfitt að ákvarða alvarleika og eðli tollalagabrota og æskilegt að lagatexti sé sem allra skýrastur um hvaða brot skuli rannsökuð af lögreglu og hver af tollstjórum. Ákvæði frumvarpsins um þetta hafa sýslumenn m.a. gagnrýnt. Því er ólíklegt að mikið samráð hafi verið haft við þá við gerð frumvarpsins eða það ítarlega rannsakað áður en frumvarpið var lagt fram hvernig best væri að haga þessari verkaskiptingu. Fyrir dyrum hefur staðið heildarendurskoðun á ákvæðum laga um meðferð opinberra mála og telur minni hlutinn að eðilegra væri að skoða verkaskiptingu milli lögreglu og tollyfirvalda í tengslum við þá endurskoðun frekar en að binda nú í lög umdeilda verkaskiptingu sem líklegt er að verði að breyta innan fárra ára, hvort sem það verður vegna endurskoðunar á lögum um meðferð opinberra mála eða fækkunar tollumdæma.

Sakarskilyrði.
    Í frumvarpinu er refsiábyrgð tollmiðlara, farmflytjenda og annarra sem koma að innflutningi hert frá gildandi rétti og miðað við að venjulegt gáleysi sé nægjanlegt til að fella sakarábyrgð á einstaklinga, sbr. 1.–3. mgr. 172. gr. Þetta gagnrýndu umsagnaraðilar eins og Samtök verslunar og þjónustu harðlega. Skattrannsóknarstjóri færði aftur á móti í umsögn sinni rök fyrir því að rétt væri að breyta refsiskilyrðum, t.d. 4. mgr. 172. gr., til samræmis við skilyrði laga um tekjuskatt og eignarskatt þannig að ekki þurfi að sanna ásetning svo að brot geti varðað fangelsisrefsingu, sérstaklega ef brot er stórfellt.
    Minni hlutinn telur sakarskilyrði laganna þarfnast verulegrar endurskoðunar og að ekki sé mögulegt fyrir nefndina að endurskoða þau ákvæði svo vel sé nema fyrst fari fram samanburður við ákvæði annarra laga á sviði skattaréttar og refsiréttar.

Heimild tollstjóra til endurálagningar tolla og gjalda.
    Minni hlutinn telur að ákvæði frumvarpsins um endurálagningu tolla og gjalda verði að rannsaka nánar. Ýmsir umsagnaraðilar gagnrýndu þessi ákvæði og hvöttu til þess að frumvarpið yrði ekki afgreitt á þessu þingi heldur yrði unnið milli þinga að ásættanlegri lausn fyrir bæði ríki og innflytjendur enda ljóst að endurálagning allt upp í sex ár aftur í tímann getur valdið innflytjendum verulegum rekstrarvanda. Hefði verið rétt að skoða þessar heimildir nánar í samhengi við lög um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

Vextir.
    Minni hlutinn telur að rétt hefði verið að ræða mun ítarlegar þann mun sem er á milli vaxta sem einstaklingar verða að greiða til ríkis vegna vangreiddra gjalda og svo skyldu ríkisins þegar það þarf að endurgreiða oftekin gjöld. Þennan mismun þarf að skoða í samhengi við önnur lög á skattasviðinu

Tollembætti.
    Minni hlutinn vill líka benda á að umsagnaraðilar leggja til að tollumdæmum verði fækkað frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Slík breyting hefur lengi verið til umræðu og af mörgum talin nauðsynleg, m.a. til að ná fram samræmi í framkvæmd laganna. Í upphaflegu frumvarpi til tollalaga, sem dreift var til kynningar undir lok 130. þings, var gert ráð fyrir töluvert ólíku skipulagi tollyfirvalda en því sem nú er lagt til. Í frumvarpinu sem lagt var fram á 130. þingi var gert ráð fyrir að tollstjórinn í Reykjavík færi með tollamálefni í umboði ráðherra og tollumdæmum yrði fækkað úr 26 í níu.
    Við umfjöllun málsins í nefndinni kom fram að fallið hefði verið frá fækkun tollumdæma m.a. vegna þess að til stæði að skoða mögulegar breytingar í þessum efnum á næstunni í samhengi við endurskoðun annarra stjórnsýslusviða, svo sem lögreglu og sýslumanna.
    Minni hlutinn telur að gera þurfi ítarlega úttekt á kostum þess og göllum ef fækka á tollumdæmum og meta sérstaklega áhrifin á landsbyggðina, m.a. hvort færa mætti einhver verk tollgæslunnar sem nú eru unnin í Reykjavík út á land þó að umdæmum hennar verði fækkað.

Tollverðir.
    Þá telur minni hlutinn að rétt hefði verið að að taka tillit til ábendinga Tollvarðafélagsins og BSRB um skilgreiningu á tollvarðastarfinu og á hvaða forsendum heimilt er að fela öðrum en tollvörðum tollgæsluvald.

Niðurstaða.
    Við meðferð frumvarpsins gafst nefndinni ekki nokkur kostur að vinna í og fara yfir tollskrá sem er fylgiskjal með frumvarpinu en bæði Neytendasamtökin og nokkrir innflytjendur hvöttu til ítarlegrar endurskoðunar á henni.
    Minni hlutinn telur rétt að afgreiðslu frumvarpsins verði frestað og nefndin vinni að því í samráði við fulltrúa hagsmunaaðila og framkvæmdarvaldsins að bæta frumvarpið og samræma það betur öðrum lögum þannig að það geti orðið sá grundvöllur að innflutningsviðskiptum sem því er ætlað að vera.

Alþingi, 29. apríl 2005.Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Lúðvík Bergvinsson.


Helgi Hjörvar.


Ögmundur Jónasson.