Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 592. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1293  —  592. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um Neytendastofu og talsmann neytenda.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónínu Lárusdóttur, Áslaugu Árnadóttur, Benedikt Árnason og Hrein Hrafnkelsson frá viðskiptaráðuneyti, Stefán Má Stefánsson prófessor, Sigurð Tómas Magnússon frá dómstólaráði og Jóhannes Rúnar Jóhannsson frá Lögmannafélagi Íslands, Ólaf Darra Andrason frá ASÍ, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Andrés Magnússon frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Jóhannes Gunnarsson og Írisi Ösp Ingjaldsdóttur frá Neytendasamtökunum, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði, Tryggva Axelsson og Snæbjörn Kristjánsson frá Löggildingarstofu og Georg Ólafsson, Guðmund Sigurðsson, Önnu Birnu Halldórsdóttur, Steingrím Ægisson, Arnar Óðin Arnþórsson og Ásgeir Einarsson frá Samkeppnisstofnun.
    Fjallað var um málið samhliða máli nr. 590, frumvarpi til samkeppnislaga, og máli 591, frumvarpi til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
    Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að stofnsett verði ný stofnun, Neytendastofa, til að taka við eftirliti Samkeppnisstofnunar með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, og þeim verkefnum sem nú eru unnin hjá Löggildingarstofu. Hins vegar er lagt til að komið verði á fót embætti talsmanns neytenda. Löggildingarstofa verður lögð niður samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
    Verkefnasvið Neytendastofu verður samkvæmt frumvarpinu rúmt og tekur til fjölbreyttra þátta opinberrar neytendaverndar. Auk þess að vera falið að hafa auga með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins mun stofnunin fara með verk Löggildingarstofu sem eru eftirlit með öryggi vöru, mælifræði og rafmagnsöryggi. Þótt verkefnin séu af mismunandi toga varða þau öll neytendur og eftirlit með þeim fer vel saman á einni hendi.
    Neytendastofu verða einnig falin ýmis önnur verkefni en að framan eru talin og heyra nú undir Samkeppnisstofnun eða Löggildingarstofu samkvæmt ákvæðum annarra laga. Þau lög sem um ræðir eru lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga, nr. 46/2000, lög um neytendalán, nr. 121/1994, lög um alferðir, nr. 80/1994, lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994, lög um vörur unnar úr eðalmálmum, nr. 77/2002, lög um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, og lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994.
    Talsmanni neytenda er ætlað að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda og efla neytendavernd. Ráðherra mun skipa talsmann neytenda til fimm ára og á hann að vera öðrum óháður í störfum sínum. Í frumvarpinu er lagt til að embættið verði tengt starfsemi Neytendastofu á þann hátt að þar hafi hann aðsetur og njóti liðsstyrks starfsmanna Neytendastofu í daglegum störfum. Talsmaður neytenda mun geta tekið mál til meðferðar eftir kvörtun eða að eigin frumkvæði en honum er ekki ætlað að taka stjórnvaldsákvarðanir í verkefnum sem falin eru stjórnvöldum samkvæmt lögum né heldur er honum ætlað að leysa úr ágreiningi kaupanda og seljanda um einstök atriði eða tiltekin kaup. Talsmanni neytenda er frekar ætlað að taka við erindum frá neytendum, gefa út álitsgerðir og hafa frumkvæði að úrbótum og annast þannig hagsmunagæslu fyrir neytendur.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Krafa um að forstjóri Neytendastofu og talsmaður neytenda hafi háskólapróf verði felld brott.
     2.      Kveðið verði á um rétt talsmanns neytenda til að gera þjónustusamning við Neytendastofu um undirbúning mála fyrir embættið.
     3.      Ráðherra verði heimilað að skipa tveggja manna undirbúningsnefnd til að undirbúa stofnun Neytendastofu í tengslum við niðurlagningu Löggildingarstofu og Samkeppnisstofnunar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. apríl 2005.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Una María Óskarsdóttir.


Gunnar Birgisson.