Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 720. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1299  —  720. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Völu Rebekku Þorsteinsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Þorleif Þór Jónsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Jón Rögnvaldsson vegamálastjóra, Árna Jóhannsson frá Samtökum atvinnulífsins og Ásu Ögmundsdóttur frá embætti ríkisskattstjóra.
    Í frumvarpinu er gerð tillaga um hvernig hátta skuli uppgjöri þungaskatts þegar tekin verður upp innheimta olíugjalds og kílómetragjalds. Þá er einnig kveðið á um hvernig farið skuli með olíubirgðir sem verða í landinu 1. júlí nk. þegar lög um olíugjald og kílómetragjald taka gildi.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Að bifreiðum ætluðum til fólksflutninga verði bætt við í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins en í því er aðeins gert ráð fyrir ökutækjum undir 10.000 kg að leyfðri heildarþyngd. Skv. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., eru bifreiðar ætlaðar til fólksflutninga undanþegnar kílómetragjaldi og verða því ekki lengur ökumælaskyldar. Þarf því að kveða á um hvernig uppgjöri þungaskatts vegna þeirra skuli háttað 1. júlí 2005 á sama hátt og uppgjöri þungaskatts ökutækja undir 10.000 kg að leyfðri heildarþyngd.
     2.      Að það magn olíu sem hver má eiga samkvæmt frumvarpinu verði aukið í 5.000 lítra.
     3.      Að ákvæði til bráðabirgða I sem bætt var við lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með lögum nr. 59/1994, haldi gildi sínu til 1. janúar 2006. Í ákvæðinu er kveðið á um heimild til endurgreiðslu vegna kaupa á ökumælum ef ákvörðun er tekin um að hætta að miða innheimtu þungaskatts við ekna kílómetra samkvæmt ökumælum. Er ráðherra heimilað að kveða nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð. Til þess að slík reglugerð hafi lagagrundvöll er nauðsynlegt að ákvæðið haldi gildi til loka ársins 2005 en að öllu óbreyttu fellur það úr gildi með gildistöku laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. apríl 2005.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Una María Óskarsdóttir.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.