Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 727. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1317  —  727. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 55/2002, um útflutning hrossa.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund B. Helgason og Hákon Sigurgrímsson frá landbúnaðarráðuneyti og Halldór Runólfsson frá embætti yfirdýralæknis.
    Þá bárust umsagnir frá embætti yfirdýralæknis, Bændasamtökum Íslands, héraðsdýralækni A-Skaftafellsumdæmis, héraðsdýralækni Suðurlandsumdæmis, héraðsdýralækni Austurlandsumdæmis, héraðsdýralækni Dalaumdæmis, Sigríði Björnsdóttur dýralækni hrossasjúkdóma, Búnaðarsambandi Skagfirðinga, Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og Hagþjónustu landbúnaðarins.
    Með frumvarpinu er lagt til að felld verði niður ákvæði um hámarksaldur hrossa sem leyfilegt er að flytja úr landi. Ákvæðið þykir ekki hafa neina þýðingu lengur þar sem að ítarleg skoðun fer fram á öllum hrossum fyrir útflutning sem framkvæmd er af eftirlitsdýralækni.
    Samkvæmt gildandi lögum er óheimilt að flytja út hross nema embættisdýralæknir meti það hæft til útflutnings m.a. með tilliti til dýraverndar og smitsjúkdóma. Nefndin telur með vísan til umsagna sem borist hafa að nauðsynlegt sé að sjónarmið dýraverndar séu tryggð og leggur því til þá breytingu að héraðsdýralækni verði falið að meta sérstaklega ástand útflutningshrossa þegar um eldri hross er að ræða.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Við frumvarpið bætist ný grein er verði 2. gr. og orðist svo:
    Á eftir orðunum „hæft til útflutnings með tilliti til“ í 1. málsl. 2. gr. laganna kemur: aldurs.

    Einar Oddur Kristjánsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 2005.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Birkir J. Jónsson.



Jón Bjarnason.


Guðmundur Hallvarðsson.


Dagný Jónsdóttir.