Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 670. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1318  —  670. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um gæðamat á æðardúni.

Frá landbúnaðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Ólöfu Vilhjálmsdóttur frá landbúnaðarráðuneyti, Sigurgeir Þorgeirsson, Harald Benediktsson og Árna Snæbjörnsson frá Bændasamtökum Íslands, Sigtrygg Eyþórsson frá XCO, Jónas Helgason frá Æðarræktarfélagi Íslands, Pál Ólafsson og Jón Sveinsson.
    Umsagnir bárust frá Gunnlaugi S. Stefánssyni, Jóni Sveinssyni, Búnaðarsambandi Suður- Þingeyinga, Æðarræktarfélagi Íslands, Búnaðarsambandi Kjalarnesþings, Páli Ólafssyni, Bændasamtökum Íslands, Samtökum iðnaðarins, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Æðarræktarfélagi Íslands, Verslunarráði Íslands, Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og Umhverfisstofnun og Hagþjónustu landbúnaðarins.
    Með frumvarpinu er lagt til að allur æðardúnn skuli veginn og metinn af lögskipuðum dúnmatsmönnum eftir fullhreinsun hvort sem hann er ætlaður til dreifingar á innanlandsmarkaði eða til útflutnings. Þá er einnig lagt til að landbúnaðarráðherra gefi út starfsleyfi til dúnmatsmanna, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Félags íslenskra stórkaupmanna, í stað lögreglustjóra áður.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að íslenskur æðardúnn er einstök vara og þekkt vörumerki erlendis og undanþeginn t.d. þýskum gæðastöðlum. Hlutdeild íslensks æðardúns á heimsmarkaði er um 80%. Á fundum nefndarinnar og í umsögnum kom fram að hagsmunasamtök telja nauðsynlegt að halda úti því gæðaeftirliti sem verið hefur til þess að tryggja orðspor vörunnar og viðhalda verðmæti hennar og gæðum.
    Telur nefndin brýnt að ráðuneytið hugi að markaðsmálum greinarinnar en æðardúnninn er takmörkuð náttúruauðlind og því þarf að viðhalda gæðastaðli og auka verðmæti vörunnar, þannig að virðisaukinn verði meiri hjá æðardúnsbændum.
    Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Einar Oddur Kristjánsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 2005.Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Birkir J. Jónsson.Jón Bjarnason.


Guðmundur Hallvarðsson.


Dagný Jónsdóttir.