Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 590. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1327  —  590. mál.
Nefndarálitum frv. til samkeppnislaga.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Samkvæmt athugasemdum sem fylgja frumvarpi viðskiptaráðherra til samkeppnislaga, byggist frumvarpið á vinnu nefndar sem viðskiptaráðherra skipaði til þess að móta stefnu um íslenskt viðskiptaumhverfi. Var nefndinni ætlað að meta hvernig bregðast ætti við aukinni samþjöppun og fákeppni í íslensku viðskiptalífi og með hvaða hætti þróa ætti reglur þannig að viðskiptalífið væri skilvirkt og nyti trausts, eins og segir í athugasemdunum.
    Áður en nefndin hóf störf hafði mikið verið rætt hvort völd í efnahagslífinu væru smám saman að færast á fáar hendur. Nefndinni var ætlað að fjalla um þessa þróun og hvernig bregðast mætti við henni með setningu almennra reglna. Í ljósi þeirra markmiða sem nefndin lagði upp með lýsir 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar yfir mikilli furðu á frumvarpi því til samkeppnislaga sem liggur fyrir Alþingi, en öllum sem hafa sett sig inn í þetta mál er ljóst að verði frumvarpið að lögum er um mikla afturför frá gildandi lögum að ræða. Á það jafnt við um stjórnsýsluna og skipulag hennar og tæki sem lögin veita til að hafa eftirlit með virkri samkeppni.
    Vegna þess að sagt er að frumvarpið sé byggt á tillögum nefndar um mótun stefnu fyrir íslenskt viðskiptalíf verður að hafa í huga að við vinnslu þess í viðskiptaráðuneytinu hefur mörgu því verið kastað fyrir róða sem nefndin setti frá sér. Í því sambandi skiptir mestu að í frumvarpinu felst veiking á samkeppnislögum, þvert á markmið og tillögur nefndar viðskiptaráðherra. Að engu er höfð tillaga nefndarinnar um aukin rannsóknarúrræði samkeppnisyfirvalda. Þá eru í frumvarpinu gerðar mun minni hæfiskröfur til þeirra sem skipa fyrirhugaða stjórn Samkeppniseftirlitsins en gert var ráð fyrir í drögum sem kynnt voru 1. október sl. Einnig er bagalegt að í frumvarpinu hefur verið felld brott mikilvæg tillaga um að samkeppnisyfirvöld geti skotið málum til dómstóla.
    Í umsögnum aðila sem komið hafa fyrir nefndina hefur á sannfærandi hátt verið sýnt fram á að allar forsendur sem gefnar hafa verið fyrir stjórnsýslubreytingunum standast ekki nánari skoðun, eins og vandlega er rakið í umsögn Samkeppnisstofnunar. Þessi staðreynd dregur athyglina að þeirri spurningu hvers vegna ekki var leitað til helstu sérfræðinga þjóðarinnar í samkeppnismálum þegar málið var unnið og nýtt frumvarp til samkeppnislaga mótað? Það vekur mikla furðu þegar málsmeðferðin og vinnubrögðin eru skoðuð að ekki hafi verið leitað eftir áliti og ráðgjöf þess fólks sem best þekkir til.
    Eftir stendur því spurningin: Hvers vegna var lagt af stað með það markmið að styrkja ákvæði samkeppnislaga til að halda uppi eftirliti með virkri samkeppni? Niðurstaða þeirrar vinnu birtist okkur í því að sjálfstæði eftirlitsstofnunarinnar er skert, lögin verða mun veikari en áður og hvergi að finna ákvæði sem gera eftirlitsaðilum kleift að takast á við hringamyndun og fákeppni í íslensku viðskiptalífi. Þessi niðurstaða er í hrópandi ósamræmi við upphaflegar hugmyndir. Því stendur upp á viðskiptaráðherra að koma með viðunandi skýringar á því hvers vegna hugmyndir af þessum toga eru lagðar fyrir þingið til samþykktar. Hvergi er að finna nein haldbær rök fyrir þeim hugmyndum sem hér er ætlað að lögfesta.
    Helstu niðurstöður 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar eru í samræmi við álit margra sem veitt hafa nefndinni umsögn. Þær eru eftirfarandi:
     .      Forsendur fyrir tillögum frumvarpa sem lögð hafa verið fram um breytingar á stjórnsýslu í samkeppnismálum fá ekki staðist. Engin rök hafa komið fram sem sýna að núverandi stjórnsýsla samkeppnismála sé óeðlileg og þunglamaleg enda hefur engin úttekt verið gerð á stjórnsýslunni. Þá kemur ekkert fram í frumvarpinu sem styður það að tillögur um breytta stjórnsýslu efli skilvirkni eða geri samkeppnisyfirvöldum betur kleift að sinna verkefnum sínum. Þvert á móti geta þessar tillögur veikt samkeppnisyfirvöld.
     .      Hætta er á að skilgreind verkefni og hlutverk stjórnar Samkeppniseftirlitsins og minni hæfiskröfur til stjórnarmanna þess en nú gilda um þá sem skipa samkeppnisráð dragi úr sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins og veiki það sem stjórnsýslustofnun.
     .      Í 16. gr. frumvarps til samkeppnislaga, sem er sambærileg 17. gr. gildandi laga, hefur verið felldur brott c-liður 1. mgr. 17. gr., þar sem segir að samkeppnisráð geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Þetta er í hróplegri mótsögn við yfirlýstan tilgang endurskoðunar samkeppnislaganna. Ef þetta nær fram að ganga felur það í sér ótvíræða veikingu á samkeppnislögum og takmörkun á möguleikum samkeppnisyfirvalda til þess að bregðast við alvarlegum samkeppnishömlum, sem m.a. stafa af aukinni samþjöppun í viðskiptalífinu. Samkeppnisstofnun leggur til að þetta ákvæði gildandi 17. gr. verði styrkt enn frekar og samkeppnislög þar með gerð að öflugra tæki en þau eru nú til þess að berjast gegn óæskilegri samþjöppun, hringamyndun og skaðlegri fákeppni í íslensku viðskiptalífi.
     .      Í 8. gr. frumvarps til nýrra samkeppnislaga er lögð til breyting þess efnis að Samkeppniseftirlitið skuli birta skýrslur um athuganir sínar á hringamyndun og samþjöppun og grípa til aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni. Viðbúið er að samkeppnishömlur sem stafað geta af hringamyndun og samþjöppun eigi ekki rót sína að rekja til brota á bannreglum samkeppnislaga heldur til skaðlegra aðstæðna í skilningi c-liðar 17. gr. gildandi samkeppnislaga. Með því að fella á brott það ákvæði samkeppnislaga er unnið gegn markmiði þeirra breytinga sem lagðar eru til í 8. gr. frumvarpsins en samkvæmt henni væri samkeppnislögum breytt þannig að samkeppnisyfirvöldum bæri að fylgjast með hringamyndun og samþjöppun og grípa til aðgerða gegn þessu. Í 16. gr. frumvarpsins hefur hins vegar eitt helsta tækið til að vinna gegn þessum hömlum á samkeppni verið fellt brott úr lögunum.
     .      Í frumvarpinu gætir nokkurs rökræns ósamræmis. Áðurnefnd veiking á gildandi 17. gr. samkeppnislaga er gerð með vísan til þess að með því ákvæði sem fellt verður brott hafi íslensk samkeppnisyfirvöld haft víðtækari heimildir til íhlutunar en önnur tilgreind evrópsk samkeppnisyfirvöld. Þar sem heimildir eru rýrari í íslenskum samkeppnislögum en í EES-reglum er röksemdum sem lúta að samræmingu íslenskra og evrópskra reglna ekki beitt til að efla heimildir samkvæmt íslenskum reglum.
     .      Fyrsti minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur eðlilegt að við setningu nýrra samkeppnislaga verði lögfest ákvæði þar sem samkeppnisyfirvöldum á Íslandi yrði veitt heimild til vettvangsrannsókna á heimilum, landsvæðum og í flutningatækjum í eigu stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis.
     .      Í umræðu í nefndinni hefur komið fram að EES-samningurinn gerir ekki ráð fyrir því að dómsvald sé framselt til eftirlitsaðila eða dómstóla innan Evrópusambandsins. Það kom skýrt fram að hugmyndin um EES-samninginn byggist á því að Ísland nái markmiðum um einsleitni markaðarins eftir öðrum leiðum en Evrópusambandið. Ísland er því ekki skuldbundið að þjóðarrétti til að taka upp ákvæði sem skyldar íslenska dómstóla til að fara eftir niðurstöðum erlendra aðila, eins og gert er ráð fyrir í 27. gr. frumvarpsins. Fyrsti minni hluti telur mikinn vafa leika á að þetta framsal dómsvaldsins standist ákvæði stjórnarskrár.
     .      Til samræmis við það sem ráð var fyrir gert í drögum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins að samkeppnislögum frá 1. október sl. og til að tryggja betur almannahagsmuni í samkeppnismálum leggur Samkeppnisstofnun til að Samkeppniseftirlitið fái heimild í 41. gr. frumvarpsins til að leita til dómstóla telji það úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála ekki samræmast markmiði og ákvæðum samkeppnislaga.
     .      Ljóst er að staða forstjóra Samkeppniseftirlitsins verður veikari en staða núverandi forstjóra Samkeppnisstofnunar. Hann nýtur ekki þeirrar réttarverndar sem núverandi forstjóri hefur sem embættismaður. Hann nýtur því ekki sama starfsöryggis og sá sem nú gegnir starfi forstjóra Samkeppnisstofnunar. Hann er því ekki eins vel varinn fyrir pólitískum afskiptum og núverandi forstjóri.
     .      Samkeppniseftirlitið sem ætlunin er að koma á fót nýtur ekki sama sjálfstæðis í daglegum störfum sínum og Samkeppnisstofnun gerir nú, því nái þessar breytingar fram að ganga verður að bera allar meiri háttar aðgerðir undir þriggja manna stjórn, sem viðskiptaráðherra skipar án tilnefningar, áður en ráðist er í þær. Í frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að hlutverk stjórnarinnar sé að tryggja að Samkeppniseftirlitið gæti meðalhófs í aðgerðum sínum. Það er því ekki nema von að athygli manna hafi beinst að því hvað hefði gerst ef þetta frumvarp hefði verið orðið að lögum þegar ráðist var til inngöngu í olíufélögin á sínum tíma. Hefði sú aðgerð verið talin í andstöðu við meðalhóf?
     .      Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að eðlilegt hefði verið að viðurlög við brotum gegn samkeppnislögum væru þannig úr garði gerð að ólögmætur ávinningur yrði allur gerður upptækur, þegar það ætti við.
    Eins og áður hefur verið vakin athygli á var markmið þeirrar vinnu, sem hófst með skipun nefndar um stefnumótun fyrir íslenskt viðskiptalíf, að móta stefnu og setja reglur sem tækju á fákeppni og óeðlilegum eignatengslum í íslensku viðskiptaumhverfi en það markmið virðist hafa gufað upp á leiðinni. Niðurstaðan er sú að gera stjórnsýslubreytingar á Samkeppnisstofnun sem draga úr afli stofnunarinar og draga úr möguleikum á að hafa eftirlit með íslensku viðskiptalífi.
    Um þetta segir í áliti Samkeppnisstofnunnar: „…frumvarpið leggur til grundvallarbreytingar á stjórnsýslu í samkeppnismálum. Að mati Samkeppnisstofnunar er það bagalegt að framangreindar forsendur fyrir þessum breytingum byggjast í aðalatriðum á misskilningi eða röngum upplýsingum um núverandi stjórnsýslu í málaflokknum. Telur Samkeppnisstofnun það gagnrýnisvert að nefnd viðskiptaráðherra hafi kosið að leggja fram þessar tillögur án þess að leita upplýsinga hjá stofnuninni, samkeppnisráði, auglýsinganefnd eða áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Hlýtur almennt að teljast æskilegt að leitað sé upplýsinga um staðreyndir og reynslu þeirra stjórnvalda sem falin er framkvæmd á tilteknum lögum áður en gerðar eru tillögur um að stjórnsýslufyrirkomulagi á því sviði sé gerbylt. Þegar Samkeppnisstofnun fékk í hendur skýrslu nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi og upphafleg drög að frumvarpi til nýrra samkeppnislaga í september 2004 vakti stofnunin athygli iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins á misskilningi og ónákvæmni sem fram kom í skýrslunni og drögunum. Viðbrögð ráðuneytisins fólust í því að gera breytingar á orðalagi í athugasemdum með drögum að frumvarpinu. Samkeppnisstofnun var jafnframt upplýst um það að engar breytingar yrðu gerðar á tillögum um nýtt stjórnsýslufyrirkomulag í samkeppnismálum.
    Þar sem helstu forsendur fyrir framangreindum tillögum fá ekki staðist varar Samkeppnisstofnun við því að þær verði lögfestar.“
    Fyrsti minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggst alfarið gegn samþykkt þessa frumvarps og lýsir mikilli andstöðu við að gildandi samkeppnislög séu milduð og stjórnsýslunni breytt eins og ætlunin er, sökum þess að forsendur breytinganna standast ekki.

Alþingi, 4. maí 2005.Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Helgi Hjörvar.

Fylgiskjal I.


Umsögn frá Alþýðusambandi Íslands.

(11. apríl 2005.)    Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til samkeppnislaga, 590. mál.
    Á vettvangi ASÍ hefur oft verið ályktað um mikilvægi þess að efla samkeppnislöggjöfina og Samkeppnisstofnun, nú síðast í tengslum við skýrslu Samkeppnisstofnunar um ólögmætt samráð olíufélaganna. Afstaða ASÍ til breytinga á samkeppnislöggjöfinni verða að skoðast í þessu ljósi.
    Ein helsta breyting sem lögð er til í frumvarpinu er að gert er ráð fyrir að þau verkefni sem nú heyra undir samkeppnisyfirvöld er lúta að eftirliti með óréttmátum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins verði ekki unnin í sömu stofnun og þau verkefni sem snúa sérstaklega að samkeppnismálum. Fyrir Alþingi liggja því þrjú frumvörp sem eðlilegt er að skoða í samhengi, þ.e. frumvarp til samkeppnislaga (590. mál), fumvarp til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins (591. mál) og frumvarp til laga um Neytendastofu og talsmann neytenda (592. mál). Alþýðusambandið vísar eftir atvikum til umsagna sinna um hin frumvörpin tvö, þ.e. mál nr. 591 og 592.

Athugasemdir við einstakar greinar og kafla:
Um III kafla, Stjórnsýslu.
    Í greinum 5.–7. er fjallað um stjórn Samkeppniseftirlits, skipun hennar og hlutverk. ASÍ telur að hlutverk stjórnarinnar sé ekki skýrt skv. frumvarpinu, að stjórnin geri stjórnkerfið flóknara og um leið óskilvirkara. Einnig kunna að koma upp erfiðleikar vegna hugsanlegra tengsla einstakra stjórnarmanna við þá hagsmuni sem Samkeppniseftirlitið á að sinna. ASÍ leggur því til að ákvæði um skipun og hlutverk stjórnar verði felld út úr frumvarpinu og þess í stað verði sett inn ákvæði þess efnis að forstjóri stofnunarinnar verði skipaður beint af ráðherra.

Um 16. gr.
    16. gr. frumvarpsins hefur sama tilganga og 17. gr. gildandi samkeppnislaga. Þó hefur sú mikilvæga breyting verið gerð að c. liður gildandi 17. gr. er felldur brott en í 17. gr. segir: „Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gegn: ... c. aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni.“ ASÍ telur að með því að fella brott c. lið 17. gr. verði úrræði samkeppnisyfirvalda til að bregðast við fákeppni og öðrum markaðsbrestum mun veikari en nú er. ASÍ legur því áherslu á að bætt verði við 16. grein frumvarpsins nýjum lið sem verði samsvarandi og c. liður 17. gr. gildandi laga.

Um 20. gr.
    Samkvæmt tillögum í skýrslunni um íslenskt viðskiptalíf segir: „Lagt er til að samkeppnisyfirvöldum verði veittar ríkari heimildir til vettvangsrannsókna, þar á meðal á heimilum, landsvæðum eða flutningatækjum í eigu stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis og samtaka fyrirtækja. Nefndin leggur þó áherslu á það að vettvangsrannsóknir megi ekki framkvæma nema fyrir liggi dómsúrskurður, sem og að fundin verði leið til að lögreglan, en ekki starfsmenn samkeppniseftirlits, geti séð um framkvæmd vettvangsrannsókna sem fram fara utan starfsstöðva fyrirtækis.“
    Í drögum að nýjum samkeppnislögum sem kynnt voru 30. september 2004 var ákvæði í samræmi við framangreinda tillögu og heimilaði samkeppnisyfirvöldum að gera húsleit á öðrum stöðum en starfsstöð viðkomandi fyrirtækis, þar á meðal á heimilum stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna. Í frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir Alþingi er þetta ákvæði fellt út. ASÍ telur nauðsynlegt að samkeppnisyfirvöld hafi víðtækar rannsóknarheimildir.
    ASÍ leggur því til að á eftir 1. mgr. 20. greinar frumvarpsins komi ný málsgrein: „Þegar rökstuddur grunur er um að gögn, sem varða starfsemi fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja og viðfangsefni rannsóknar máls og skipta máli við sönnun alvarlegs brots gegn lögum þessum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda, séu geymd annars staðar en á starfsstað fyrirtækis, þ.m.t. á heimilum stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis og samtaka fyrirtækja, getur Samkeppniseftirlitið gert athugun og lagt hald á gögn þar.“

Um IX kafla, viðurlög.
    ASÍ telur að ákvæði frumvarpsins um viðurlög séu með öllu óásættanleg. ASÍ gerir þá kröfu að inn í samkeppnislög verði sett ákvæði um skilyrðislausa upptöku ólögmæts ávinnings brotaaðila. Í refsilögum er almennt við það miðað að ávinningur brotamanns sé í öllum tilvikum gerður upptækur. Það er því eðlilegt að ákvæði þessa efnis verði sett í samkeppnislög. Það er með öllu óviðunandi að brotaaðili hagnist á broti sínu jafnvel þó að það sannist. Til viðbótar upptöku á ólögmæts ávinnings af broti þurfa að koma ákvæði um eðlilegar sektir, þannig að brotlegt fyrirtæki skili ekki einungis ávinningi sínum af brotinu heldur skaðist einnig af háttsemi sinni.
    Ákvæði 37. gr. eru óljós og verulegum annmörkum háð. T.d. má velta fyrir sér hvaða þýðingu eftirfarandi setningarhluti hefur: „Sektir geta numið frá 50 þús. kr. til 40 millj. kr. eða meira...“ ASÍ telur að fella eigi brott þær takmarkanir á sektargreiðslum sem eru annarri mgr. 37. gr. bæði hvað varðar upphæðir og einnig viðmið í veltu fyrra árs. Þess í stað verði gengið þannig frá greininni að sektir fari eftir alvarleika og umfangi brots.
    Benda má á að í nýlegum úrskurðum Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs í varðandi ólögmætt samráð olíufélaganna var hinum brotlegu fyrirtækjum einungis verið gert að skila hluta af áætluðum ávinningi sínum af brotunum!

Um 41. gr.
    Samkvæmt 41. gr. frumvarpsins getur aðili máls höfðað mál til ógildingar. ASÍ telur eðlilegt að Samkeppniseftirlit geti einnig skotið úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla og leggur til að ákvæðum 41. gr. verði breytt í þá veru.

F.h. Alþýðusambands Íslands

Ólafur Darri Andrason
Hagfræðingur ASÍ.Fylgiskjal II.


Umsögn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.


(22. apríl 2005.)    Frumvarp þetta er liður í grundvallarbreytingum sem fyrirhugaðar eru á sviði samkeppniseftirlits og neytendaverndar. (Sjá einnig umsögn BSRB um 592.mál.)
    BSRB telur að meginmarkmið lagabreytinganna séu eftirsóknarverð en varar við of miklum hraða við þessar breytingar. BSRB hefur átt viðræður við fulltrúa annarra samtaka launafólks og Neytendasamtökin og var það samdóma álit þessara aðila að fyrirhugaðar lagabreytingar væru svo óljósar um margt að eðlilegt væri að gefa þessu viðfangsefni betri tíma.
    BSRB leggur áherslu á að þegar gerðar eru breytingar á sviði neytendaverndar eigi að huga vel að áherslum verkalýðshreyfingar og þá ekki síður Neytendasamtakanna.
Um einstakar greinar vill BSRB taka eftirfarandi fram, en áskilur sér rétt til frekari ábendinga.
    Spyrja má hvort ekki væri eðlilegt að stjórn stofnunarinnar væri fjölmennari í ljósi mikilvægis og að tilnefningaraðilar kæmu að skipan í stjórnina í stað þess að fela ráðherra einum tilnefningarvaldið. Þá væri eðlilegt að gera þær kröfur til stjórnarmanna að þeir hefðu engin eigna- eða viðskiptatengsl sem gætu orkað tvímælis.
    BSRB gerir alvarlega athugasemd við 6. grein frumvarpsins sem veitir stjórninni heimild til að ákvarða kjör forstjóra. Skýra þarf hvers vegna forstjóri þessarar stofnunar eigi að lúta öðrum reglum en almennt gerist hjá hinu opinbera? Hvers vegna á þessi einstaklingur ekki að heyra til sama kjaraumhverfis og annað starfsfólk í almannaþjónustu?
    Í 7. gr. frumvarpsins segir að forstjóri Samkeppniseftirlitsins skuli búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á sviði samkeppnismála. Þetta er sjálfsögð krafa. Því er síðan hnýtt við að forstjórinn skuli hafa háskólamenntun án þess að það sé skilgreint nánar á hvaða sviði hún skuli vera. Þetta er fráleitt ákvæði sem ratar þó inn í alla löggjöf sem frá Alþingi kemur nú um stundir og virðist fyrst og fremst eiga að útiloka allt fólk frá embættum hjá hinu opinbera sem ekki hefur háskólagráðu upp á vasann. Þessu mótmælir BSRB.
    27. grein frumvarpsins virðist heimila framsal dómsvalds úr landi en fram til þessa hafa íslenskir dómstólar ekki verið bundnir með svo afgerandi hætti af erlendum dómsniðurstöðum. Þetta ákvæði hlýtur að þurfa rækilegrar skoðunar við áður en það er fest í lög.
    Í ákvæði til bráðabirgða segir að starfsmönnum Samkeppnisstofnunar skuli boðið annað starf hjá þeim stofnunum sem taka við verkefnum stofnunarinnar. Hér þarf að standa sambærilegt starf.

f.h. BSRB

Svanhildur Halldórsdóttir.
Fylgiskjal III.


Umsögn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja um frumvarp


til laga um Neytendastofu og talsmann neytenda, 592. mál.

(22. apríl 2005.)


    Þetta frumvarp er hluti af umfangsmikilli uppstokkun á lögum og skipulagi þeirra stofnana sem sinna eftirliti með markaðnum. Annars vegar er ætlunin að færa hluta Samkeppnisstofnunar til Samkeppniseftirlits og hins vegar neytendaeftirlit til Neytendastofu, og sameina starf sem heyrt hefur undir Löggildingarstofu þeirri nýju stofnun. (Sjá einnig umsögn um 590. mál)
    BSRB leggur áherslu að menn fari sér að engu óðslega í þessum efnum því reynslan sýnir að hraði og fljótræði hefur leitt til slæmra mistaka. Sú uppstokkun sem á sínum tíma var gerð á rafmagnseftirliti landsmanna, og var harðlega mótmælt af BSRB, hefur reynst afar illa eins og dæmin sanna. Öll gagnrýni var þá virt að vettugi og hraðsoðnar breytingar gerðar á lögum. Rafmagnseftirliti í landinu hrakaði fyrir bragðið og tilkostnaður við rafmagnsskoðun varð hlutfallslega hærri en áður var. Þá hefur uppstokkun á rafmagnseftirlitinu verið sérlega óheppileg fyrir landsbyggðina því allar einkareknu skoðunarstofurnar sem sinna verkefninu undir handarjaðri Löggildingarstofu hafa verið á höfuðborgasvæðinu. Þetta er vert að hafa í huga nú þegar stjórnvöld boða umfangsmiklar breytingar.
    Nú stendur til að færa þá þætti sem lúta að neytendavernd og eftirliti til Löggildingarstofu og breyta jafnframt nafni þeirrar stofnunar sem áður segir. Svo virðist sem talsmanni neytenda, sem svo er nefndur og á að sinna þessu verkefni, verði þröngur stakkur sniðinn og er það engan veginn í samræmi við yfirlýstan vilja stjórnvalda og meint markmið þessara lagabreytinga um bætta neytendavernd og markvissara eftirlit með samkeppni. BSRB telur að áður en ráðist er í þessar breytingar þurfi að gera betur grein fyrir skipulagi og fyrirkomulagi innan veggja hinna nýju stofnana, Neytendastofu og Samkeppniseftirlits. Á Norðurlöndum hefur farið fram mikil umræða um fyrirkomulag samkeppniseftirlits og neytendaverndar og hafa þar verið sett á laggirnar embætti umboðsmanns neytenda og er vel að þeim embættum búið.
     BSRB hefur átt viðræður við fulltrúa annarra samtaka launafólks og Neytendasamtökin og var það samdóma álit þessara aðila að fyrirhugaðar lagabreytingar væru svo óljósar um margt að eðlilegt væri að gefa þessu viðfangsefni betri tíma. BSRB áréttar að þegar gerðar eru breytingar á sviði neytendaverndar eigi að huga vel að áherslum verkalýðshreyfingar og þá ekki síður Neytendasamtakanna.
    Í 3. gr. frumvarpsins segir að forstjóri Neytendastofu skuli hafa víðtæka þekkingu og reynslu á málefnum á sviði stofnunarinnar. Þetta er sjálfsagt mál. Þá er gert að kröfu að hann skuli hafa háskólamenntun án þess að það sé skilgreint nánar á hvaða sviði hún skuli vera. Þetta er fráleitt ákvæði sem ratar þó inn í alla löggjöf sem frá Alþingi kemur nú um stundir og virðist fyrst og fremst eiga að útiloka allt fólk frá embættum hjá hinu opinbera sem ekki hefur háskólagráðu upp á vasann. Þessu mótmælir BSRB.
    Í ákvæði til bráðabirgða segir að starfsmönnum Löggildingarstofu skuli boðið annað starf hjá Neytendastofu. Hér þarf að standa sambærilegt starf.

f.h. BSRB,
Svanhildur Halldórsdóttir.Fylgiskjal IV.


Umsögn frá Neytendasamtökunum.
(7. apríl 2005.)


    Neytendasamtökin styðja frumvarpið í meginatriðum, en vilja koma að eftirfarandi athugasemdum:

III. kafli – Stjórnsýsla.
    Neytendasamtökin hafa frá því að samtökin gáfu fyrst umsögn um frumvarp til samkeppnislaga talið óþarft að hafa sérstaka stjórn Samkeppnisstofnunar. Neytendasamtökin eru enn sama sinnis. Neytendsamtökin telja eðlilegt að forstjóri Samkeppniseftirlits sé skipaður af ráðherra.
    Vert er að vekja athygli á því að starf forstjóra Samkeppniseftirlits er viðkvæmt starf og nauðsynlegt er að setja ákveðna lagavernd fyrir þann einstakling sem gegnir því starfi til þess að hann geti rækt starf sitt sem best og njóti starfsöryggis. Af þeim sökum telja Neytendasamtökin að forstjóri Samkeppnisstofnunar eigi að hafa svipaða lagavernd og Hæstaréttardómarar njóta í dag.
    Neytendasamtökin telja eðlilegt að forstjóri Samkeppniseftirlitsins fari með mál stofnunarinnar og stofnunin sinni verkefnum sínum með sama hætti og t.d. umboðsmaður Alþingis gerir. Stjórn Samkeppniseftirlits er í raun óþörf og er eingöngu til þess fallin að draga úr skilvirkni. Af þeim sökum ítreka Neytendasamtökin þá afstöðu sína að engin þörf er á að hafa sérstaka stjórn yfir Samkeppniseftirlitinu og það þjónar þeim eina tilgangi að gera stjórnkerfið flóknara og skapar jafnvel erfiðleika vegna hugsanlegra tengsla einstakra stjórnarmanna við aðra hagsmuni en þá sem að Samkeppniseftirlitið á að sinna.
    Neytendasamtökin telja óeðlilegt að Hæstiréttur tilnefni menn í áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Neytendasamtökin telja að Hæstiréttur eigi að gegna starfi sínu sem dómstóll en ekki að starfa að stjórnsýsluverkefnum. Slíkt er með öllu óeðlilegt. Neytendasamtökin leggja því til að skipun í áfrýjunarnefnd samkeppnismála verði með þeim hætti að ráðherra skipi til 5 ára í senn þrjá starfandi héraðsdómara og þrjá til vara til að sitja í áfrýjunarnefnd samkeppnismála og skulu þeir hafa góða þekkingu á samkeppnismálum.
    Nauðsynlegt er að ráðning forstjóra Samkeppniseftirlitisins og skipan í áfrýjunarnefnd samkeppnismála sé með þeim hætti að hafið sé yfir vafa að þar sé faglega staðið að verki. Neytendasamtökin telja að hér sé svo mikilvægur málaflokkur að flokkspólitískir hagsmunir verði ávallt að víkja fyrir almannahagsmunum þegar um samkeppnismál er að ræða.

16. gr.
    Í 16. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að felldur verði út c. liður 17. gr. núgildandi samkeppnislaga um að samkeppniseftirlitið geti gripið til aðgerða gegn „aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni“.
    Neytendasamtökin telja mikilvægt að þetta ákvæði verði áfram í samkeppnislögum og leggja því til að núverandi tölul. c í 17 gr. samkeppnislaga verði bætt við sem nýr tölul. c í 16. gr. frumvarpsins.
    Yrði núverandi tölul. c í 17. gr. samkeppnislaganna felldur út úr lögum yrðu úrræði samkeppnisyfirvalda til að bregðast við fákeppni takmarkaðri en nú er. Miðað við umræður í þjóðfélaginu um nauðsyn virkari úrræða fyrir samkeppnisyfirvöld til að bregðast við fákeppni er því farið rangt að verði núverandi tölul. c í 17. gr. samkeppnislaga felldur brott. Neytendasamtökin benda á að vinnubrögð markaðsráðandi fyrirtækja eru með þeim hætti að nauðsynlegt er fyrir samkeppnisyfirvöld að geta stuðst við þetta ákvæði í aðgerðum til að koma í veg fyrir skaðlega fákeppni.
    Samkvæmt EES-samningnum höfum við rétt til að hafa strangari ákvæði í samkeppnislögum en segir í reglum EB. Vegna smæðar íslensks markaðar er slíkt nauðsynlegt í sumum tilvikum og á það við um þetta atriði.

20. gr.
    Í drögum að nýjum samkeppnislögum sem kynnt voru 30. september 2004 var ákvæði sem heimilar samkeppnisyfirvöldum að gera húsleit á öðrum stöðum en starfsstöð viðkomandi fyrirtækis, þar á meðal á heimilum stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna. Í frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir Alþingi er þetta ákvæði fellt út. Neytendasamtökin telja nauðsynlegt að samkeppnisyfirvöld hafi víðtækar rannsóknarheimildir sambærilegar og lögregla hefur við rannsókn brotamála. Þróunin hefur verið með þeim hætti að samkeppnisyfirvöld eru víðast að fá auknar heimildir við rannsókn brotamála vegna þess að reynslan hefur sýnt að full þörf er á því. Brotastarfsemi eins og sú sem um ræðir gegn ákvæðum samkeppnislaga er með þeim hætti að iðulega er erfitt að sanna brotastarfsemi þó að ætla megi að hún sé fyrir hendi. Það er því nauðsynlegt að samkeppnisyfirvöld hafi víðtækar heimildir til að auðveldara reynist að sanna ólögmætt samráð og önnur brot gegn samkeppnislögum. Bent er á að norsk samkeppnisyfirvöld hafa nýtt sér með góðum árangri heimild til að gera húsleit á öðrum stöðum en starfsstöð viðkomandi fyrirtækis. Neytendasamtökin telja það ekki eðlilegt að takmarka heimildir samkeppnisyfirvalda til að upplýsa brotastarfsemi. Brot gegn samkeppnislögum er atlaga að hagsmunum almennings og því mikilvægt að reynt verði að vinna gegn slíkri brotastarfsemi m.a. með virkum rannsóknarheimildum. Það er með öllu óeðlilegt að rannsóknaraðilar í samkeppnismálum hafi minni heimildir til að rannsaka og upplýsa mál en lögregla hefur. Neytendasamtökin telja það í samræmi við samkeppnislöggjöf EB og ýmissa annarra grannþjóða okkar að þessi rannsóknarheimild samkeppnisyfirvalda verði lögfest svo sem upphaflega var gert ráð fyrir í frumvarpsdrögum.
    Neytendasamtökin leggja því áherslu á að bætt verði inn í frumvarpið heimild til húsleitar á öðrum stöðum en starfsstöð viðkomandi fyrirtækis. Að mati Neytendasamtakanna væri annað skýr skilaboð til þeirra sem vilja brjóta samkeppnislög hvernig þeim bæri að standa að slíkum brotum.

IX. kafli – Viðurlög.
    Neytendasamtökin telja óhjákvæmilegt að sett verði inn ákvæði í samkeppnislög um skilyrðislausa upptöku ólögmæts ávinnings brotaaðila. Í refsilögum er almennt við það miðað að ávinningur brotamanns sé í öllum tilvikum gerður upptækur. Það er því eðlilegt að ákvæði þessa efnis verði sett í samkeppnislög.
    Spurning getur verið um það með hvaða hætti ávinningurinn yrði metinn en í því efni yrðu dómstólar að hafa heimildir til að dæma að líkum á grundvelli framkominna gagna í málum. Ágreiningur getur verið um ólögmætan ávinning í þessum málum eins og raunar svo mörgum öðrum þar sem að iðulega eru fengin sérfræðiálit eða dómkvaddir matsmenn til að meta á grundvelli sérþekkingar sinnar þau álitaefni sem um er að ræða hverju sinni.
    Neytendasamtökin telja með öllu óviðunandi að þeir sem brjóta gegn samkeppnislögum skuli iðulega og venjulegast hagnast á brotastarfseminni. Slíkt er til þess fallið að brotastarfsemi haldi áfram og verði víðtækari. Virkasta leiðin til að draga úr þessari brotastarfsemi er að mati Neytendasamtakanna að ólögmætur ávinningur verði ávallt gerður upptækur auk sekta og heimilda til að sækja þá til saka sem standa að brotunum þ.e. að sérstök ákvæði verði sett í almenn hegningarlög um brot gegn þeim almannahagsmunum sem um ræðir þegar um brot á samkeppnislögum er að ræða.

41. gr.
    Í 41. gr. frumvarpsins er ákvæði að „Nú vill aðili ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hans fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um ákvörðun áfrýjunarnefndar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar samkvæmt honum.“ Fram kemur í skýringum að þetta sé óbreytt ákvæði frá gildandi lögum. Það er skoðun Neytendasamtakanna að Samkeppniseftirlitið eigi einnig að geta áfrýjað úrskurðum áfrýjunarnefndar. Áfrýjunarnefnd hefur ítrekað lækkað sektargreiðslur sem samkeppnisráð hefur ákveðið. Því þurfa samkeppnisyfirvöld einnig að geta áfrýjað úrskurðum áfrýjunarnefndar til dómstóla sýnist þeim ástæða til. Minnt er á í þessu sambandi að nýlega hækkaði æðra dómstig í Svíþjóð sektargreiðslur sem lagðar voru á olíufélög þar í landi vegna samráðs, miðað við sektargreiðslur sem lægra dómstig ákvað. Það voru sænsk samkeppnisyfirvöld sem áfrýjuðu þessu máli.

37. gr.
    Neytendasamtökin telja nauðsynlegt að breyta ákvæðum um sektir í 37. gr. en þar segir að sekt skuli aldrei vera hærri en nemur 10% af veltu síðasta almanaksárs. Neytendasamtökin leggja til að heimilt verði að víkja frá þessu hafi brotastarfsemi staðið í langan tíma. Hugsanlega mætti orða undanþágu með þeim hætti að heimila samkeppnisyfirvöldum að víkja frá þessu ákvæði um hámark sektar hafi brotastarfsemi staðið í þrjú ár eða lengri tíma. Þörfin á þungum sektargreiðslum er þó minni ef ólögmætur ávinningur er ávallt gerður upptækur og ákvæði sett um refsingar þeirra sem standa að brotunum þ.e. þeirra einstaklinga sem að þeim stóðu. Verði slík ákvæði tekin upp í lög er minni ástæða til að breyta ákvæðum laga um sektargreiðslur.

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna,

Jóhannes Gunnarsson,
formaður.
Fylgiskjal V.


Umsögn frá Samkeppnisstofnun.


(11. apríl 2005.)
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VI.


Umsögn frá Lögmannafélagi Íslands.
(25. apríl 2005.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VII.


Umsögn frá Réttarfarsnefnd.


(7. apríl 2005.)
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.