Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 592. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1329  —  592. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Neytendastofu og talsmann neytenda.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarpið er tvíþætt. Í fyrsta lagi felur það í sér tillögur um að ný stofnun, Neytendastofa, verði sett á fót til að taka við hluta verkefna Samkeppnisstofnunar, sem snúa að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og þeim verkefnum sem eru unnin hjá Löggildingarstofu. Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að sett verði á stofn embætti talsmanns neytenda. Jafnframt er gert ráð fyrir að Samkeppnisstofnun verði lögð niður.
    Eins og fram kemur í áliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til samkeppnislaga telur 1. minni hluti breytingarnar á stjórnsýslu samkeppnismála lítt ígrundaðar, byggjast á röngum forsendum og ekki til þess fallnar að styrkja eftirlit með samkeppnismálum. Sú skoðun er rökstudd í áliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til samkeppnislaga og vísast til þess álits um þann þátt málsins, en 1. minni hluti telur að breytingarnar geri eftirlit með samkeppnis- og neytendamálum ómarkvissara og veikara en það er nú.
    Síðari hluti frumvarpsins fjallar um stofnun embættis talsmanns neytenda og hlutverk hans. Í athugasemdum með frumvarpinu er greint frá því að markmið viðskiptaráðherra með þessari breytingu sé að efla starf að neytendamálum og auka neytendavernd. Fyrsti minni hluti tekur undir mikilvægi þessa markmiðs enda telur hann afar brýnt að stjórnvöld leggi mikla rækt við samkeppnis- og neytendamál nú um stundir þegar samfélagið er á hraðri leið til aukinnar markaðsvæðingar.
    Fyrsta minni hluta er því nokkur vandi á höndum þegar taka á afstöðu til síðari hluta frumvarpsins – þ.e. stofnunar embættis talsmanns neytenda. Fyrsti minni hluti telur mikilvægt að stjórnvöld láti meira að sér kveða í neytendamálum en þau hafa gert og auki til muna fjárframlög til málaflokksins. Því ber að fagna þeirri ákvörðun stjórnvalda að koma þessu embætti á laggirnar, enda ætti markmiðið að vera að efla neytendavernd. Fyrirmyndir embættis af þessu tagi er að finna annars staðar á Norðurlöndum. Munurinn er þó sá að þar eru embætti talsmanns neytenda sjálfstæð og óháð, með sjálfstæðan fjárhag og mannaforráð sem tryggja að þau séu engum háð við umfjöllun um neytendamál og meðferð mála. Það embætti sem hér er ætlunin að setja á laggirnar hefur ekki það sjálfstæði sem nauðsynlegt er. Embættið mun eiga allt sitt undir starfsemi Neytendastofu og verkefnum sem þar falla til og verða unnin frá degi til dags. Staðsetning embættisins gerir það að verkum að starfsemi þess verður algerlega háð fjárframlögum til Neytendastofu á fjárlögum, en jafnframt því að fara með neytendamál er Neytendastofu ætlað samkvæmt frumvarpinu að fara með mál er varða óréttmæta viðskiptahætti og málefni sem nú heyra undir Löggildingarstofu. Alþýðusamband Íslands telur að vegna annarra verkefna sem Neytendastofu verða falin, þar má nefna rafmagnsöryggismál, öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, yfirumsjón með lögmælifræði og hagnýtri mælifræði auk umsjónar með framkvæmd laga um vog, mál og faggildingu, sé mikil hætta á því að nýja stofnunin hafi ekki nægilegt bolmagn til að efla neytendamál og auka neytendavernd í samræmi við markmið laganna. Nægilegt fjármagn er forsenda þess að þessi skipulagsbreyting nái þeim markmiðum sem að er stefnt. Við meðferð efnahags- og viðskiptanefndar kom fram að Löggildingarstofa á í erfiðleikum með að sinna verkefnum sínum vegna fjárskorts, auk þess sem fram kemur í frumvarpinu að ætlunin er að lítið fé fylgi þeim sex starfsmönnum sem ætlunin er að flytja frá Samkeppnisstofnun yfir á nýju stofnunina, Neytendastofu. Flest bendir því til þess að háleit markmið sem greint er frá í athugasemdum með frumvarpinu verði aldrei annað en innihaldslitlar yfirlýsingar og í besta falli skraut í afrekaskrár Framsóknarflokksins fyrir næstu alþingiskosningar – því miður.
    Starfsemi embættisins mun augljóslega ráðast af öðrum störfum Neytendastofu og hvernig verkefni starfsmanna verða ákveðin. Samkvæmt þessum hugmyndum verða yfirmenn Neytendastofu tveir, forstjóri og talsmaður neytenda. Forstjóri stjórnar starfsemi og rekstri stofnunarinnar og ræður aðra starfsmenn. Afar óljóst er hvert hlutverk hins yfirmannsins, talsmanns neytenda, verður innan stofnunarinnar. Flest virðist því benda til þess að embættið verði ekki eins öflugt og umboðsmaður eða talsmaður neytenda á að vera. Þá er hvorki gert ráð fyrir því að talsmaðurinn geti höfðað mál fyrir dómstólum né að hann hafi neitt með almenna stefnumótun í neytendamálum að gera. Því má segja að í besta falli megi leggja þetta mál upp með þeim hætti að um örlítið skref sé að ræða og óljóst til hvers það leiðir. Í Danmörku var í upphafi lagt af stað með svipað skipulag, en fallið hefur verið frá því þar sem það gekk ekki upp.
    Í mörgum umsögnum um frumvarpið hefur verið bent á þessa hluti, auk þess sem athugasemdir hafa verið gerðar við nafngiftina. Í ljósi þess að málið er hluti af framangreindum stjórnsýslubreytingum sem varða eftirlit með samkeppnismálum styður fyrsti minni hluti ekki frumvarpið.

Alþingi, 4. maí 2005.



Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Helgi Hjörvar.