Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 700. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1330  —  700. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um Landbúnaðarstofnun.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund B. Helgason, Eystein Jónsson, Ingibjörgu Ólöfu Vilhjálmsdóttur og Hákon Sigurgrímsson frá landbúnaðarráðuneyti, Halldór Runólfsson frá embætti yfirdýralæknis, Guðmund Stefánsson frá Lánasjóði landbúnaðarins, Jón Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Harald Benediktsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Árna Ísaksson frá embætti veiðimálastjóra, Stefán Vilhjálmsson frá Yfirkjötmati ríkisins, Ólaf Guðmundsson frá aðfangaeftirlitinu og Sigurgeir Ólafsson frá plöntueftirliti.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Vottunarstofunni Túni hf., Félagi kjúklingabænda, yfirdýralækni, tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Veiðimálastofnun, veiðimálastjóra, aðfangaeftirlitinu, héraðsdýralækni A-Skaftafellsumdæmis, Bændasamtökum Íslands, héraðsdýralækni Austurlandsumdæmis syðra, héraðsdýralækni Suðurlandsumdæmis, Landssambandi veiðifélaga, Félagi íslenskra búfræðikandídata, Neytendasamtökunum, héraðsdýralækni Austurlandsumdæmis nyrðra, Eyþingi, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, héraðsdýralækni Dalaumdæmis, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Búnaðarsambandi Skagfirðinga, Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bandalagi háskólamanna, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Hagþjónustu landbúnaðarins og Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði ný ríkisstofnun, Landbúnaðarstofnun, sem taki við verkefnum aðfangaeftirlits, yfirdýralæknis, veiðimálastjóra, kjötmatsformanns, plöntueftirlits Landbúnaðarháskóla Íslands og ýmsum eftirlits- og stjórnsýsluverkefnum hjá aðalskrifstofu landbúnaðarráðuneytis og Bændasamtökum Íslands. Þá verði aðfangaeftirlitið, embætti yfirdýralæknis, veiðimálastjóri og staða kjötmatsformanns lögð niður.
    Meiri hlutinn telur mjög þarft að sameina stofnanir sem þessar, embætti og verkefni á sviði eftirlits og stjórnsýslu innan landbúnaðarins í eina öfluga eftirlits- og stjórnsýslustofnun, enda mikilvægt að stefnt verði að skilvirkari og betri stjórnsýslu og einfaldara og samhæfðara eftirliti. Á fundum nefndarinnar kom fram að verkefni þessara stofnana skarast þónokkuð og að með sameiningu nýtist þverfagleg sérþekking betur en hingað til.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Fyrsta varðar staðsetningu höfuðstöðva stofnunarinnar en meiri hlutinn telur mikilvægt að starfsemi hennar verði sem næst þeim er nýta þjónustu hennar, þ.e. utan höfuðborgarsvæðisins en leggur til að ráðherra verði falið að ákveða hvar aðsetur hennar verði.
    Þá er lagt til að við 2. gr. frumvarpsins, þar sem fjallað er um hlutverk Landbúnaðarstofnunar, verði bætt þeim verkefnum sem Landbúnaðarstofnun er falið að annast samkvæmt lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu og getið er í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum við stofnun Landbúnaðarstofnunar og lagt er fram samhliða þessu frumvarpi.
    Á fundum nefndarinnar var nokkuð fjallað um þær hæfiskröfur sem gerðar eru til forstjóra stofnunarinnar samkvæmt frumvarpinu. Telur meiri hlutinn nauðsynlegt, þegar litið er til þess hversu víðfeðmt starf stofnunarinnar muni verða eftir sameiningu, að leggja til að í stað þess að gera kröfur um að forstjóri skuli vera menntaður dýralæknir með æðri prófgráðu þurfi hann að hafa háskólamenntun og æðri menntun, þ.e. meistaraprófsgráðu eða doktorsgráðu.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingar er varða skipulag stofnunarinnar, þ.e. að stofnuninni verði skipt í mismunandi fagsvið í stað skrifstofa eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, og telur að sú breyting sé til þess fallin að skýra að sviðsstjórar eru ráðnir en ekki skipaðir eins og t.d. skrifstofustjórar í ráðuneytum. Meiri hlutinn leggur auk þess til að gert verði ráð fyrir sérstöku sviði sem fer með dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og skal sviðsstjóri þess vera dýralæknir og nefnist þá yfirdýralæknir.
    Loks leggur meiri hlutinn áherslu á að hugað verði að því að stjórnsýsla dýraverndarmála verði sameinuð á einum stað í ljósi athugasemda sem nefndinni bárust m.a. varðandi flutning búfjár.
    Loks getur meiri hlutinn ekki látið hjá líða að gagnrýna það hversu seint frumvarpið er fram komið, sérstaklega þegar litið er til þeirra breytinga sem nauðsynlegt er að leggja til að gerðar verði á frumvarpinu og því frumvarpi sem lagt er fram samhliða og varðar breytingar á lögum við stofnun Landbúnaðarstofnunar, til þess að unnt sé að ljúka málinu.
    Einar Oddur Kristjánsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 2005.Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Birkir J. Jónsson.Guðmundur Hallvarðsson.


Dagný Jónsdóttir.