Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 786. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1334  —  786. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins, með síðari breytingum.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.    Hinn 18. apríl sl. var útbýtt hér í þinginu frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins. Frumvarpið felur í sér að heimila landbúnaðarráðherra að selja eignir sjóðsins og leggja hann niður.
    Skilafrestur þingmála til að komast á dagskrá þessa þings var 1. apríl. Þurfti því að veita afbrigði til að taka málið á dagskrá. Málið kom á dagskrá 19. apríl og þurfti þá að veita sérstakt afbrigði vegna þess hve skammur tími var liðinn frá útbýtingu þess. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var andvígur því að þetta afbrigði yrði veitt þar sem ekki var brýnt tilefni til að keyra þetta mál áfram á svo miklum hraða.
    Lánasjóðurinn á sér áratuga sögu. Ef landbúnaðarráðherra var umhugað um að leggja fram frumvarp viðvíkjandi sjóðnum og það fengi vandaða þinglega meðferð átti honum ekki að vera neitt að vanbúnaði að gera það innan tilskilins frests.
    Á fundi landbúnaðarnefndar 26. apríl kom frumvarpið um sölu Lánasjóðsins á dagskrá nefndarinnar. Undirritaður óskaði eftir að leitað yrði skriflegra umsagna um málið til þeirra aðila sem hagsmuna eiga að gæta varðandi sjóðinn eða vilja láta málefni hans sig varða. Það kom því mjög á óvart að formaður nefndarinnar hafnaði þeirri beiðni og tilkynnti að meiri hlutinn ætlaði sér að keyra málið út úr nefndinni án skriflegra umsagna hagsmunaaðila. Þessum vinnubrögðum meiri hlutans var harðlega mótmælt.

Víðtækt hlutverk Lánasjóðs landbúnaðarins.
    Lánasjóður landbúnaðarins var stofnaður með lögum árið 1998 og var hann framhald af Stofnlánadeild landbúnaðarins sem starfaði við hlið Búnaðarbankans. Lánasjóður landbúnaðarins er stofnun í eigu ríkisins og heyrir undir landbúnaðarráðherra.
    Við einkavæðingu og sölu atvinnuvegasjóðanna og ríkisbankanna tókst að forða atvinnuvegasjóði bænda frá hremmingum og stofnaður var Lánasjóður landbúnaðarins. Hlutverk hans er skv. 2. gr. laganna „að tryggja landbúnaðinum aðgang að lánsfé til fjárfestinga á hagstæðum kjörum og stuðla þannig að æskilegri þróun atvinnuvegarins. Sjóðurinn veitir lán til bænda og þjónustufyrirtækja landbúnaðarins, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.“
    Samkvæmt 7. gr. laganna veitir hann lán m.a. til eftirtalinna verkefna: til jarðakaupa, ræktunar, bygginga er varða landbúnað, vatns og varmaveitna, bústofns- og vélakaupa, hagræðingarverkefna og til ýmiss annars atvinnustarfs og nýsköpunar í sveitum.
    Lánareglur hans hafa verið fullkomlega gagnsæjar og með starfsemi sjóðsins hefur verið reynt að stuðla að „æskilegri þróun atvinnuvegarins“. Sjóðurinn gegnir því mikilvægu hlutverki í byggðamálum með því að veita lán til landbúnaðar á jafnræðisgrunni óháð búsetu.

Hver á að taka við byggðahlutverki Lánasjóðsins?
    Fulltrúar Bændasamtakanna og Byggðastofnunar sem komu fyrir landbúnaðarnefnd viðurkenndu byggðahlutverk sjóðsins og töldu ólíklegt að viðskiptabankar mundu lána bændum á jafnræðisgrunni óháð búsetu. Yrði sjóðurinn lagður niður töldu þessir gestir að til þyrfti að koma annar sjóður eða félagslegar aðgerðir til að tryggja þeim bændum fjármálaþjónustu sem viðskiptabankar höfnuðu viðskiptum við eða byðu afarkosti. Fulltrúar Byggðastofnunar töldu eðlilegt að þeirri stofnun yrði fengið það hlutverk en þá yrði ríkisvaldið að koma með aukið fjármagn inn í stofnunina ef hún ætti að geta sinnt því hlutverki. Er þá spurning hvað er unnið við að leggja niður Lánasjóðinn sem ríkisvaldið ber nú þegar ábyrgð á. Ekki er kveðið á um í frumvarpinu hvernig á þessu hlutverki sjóðsins verður tekið og er það harðlega gagnrýnt að byggðahlutverk sjóðsins skuli skilið eftir í fullkomnu uppnámi.

Að selja áratuga viðskiptasamninga heillar atvinnugreinar.
    Lánasjóður landbúnaðarins, áður Stofnlánadeildin, hefur átt ríkan þátt í að byggja upp og þróa íslenskan landbúnað. Hann hefur aftur og aftur tekið þátt í aðgerðum til að verja einstakar búgreinar og bændur áföllum og hefur lagt drjúgt af mörkum í að tryggja dreifðan sjálfseignarbúskap vítt og breitt um landið. Lánareglur sjóðsins eru fullkomlega gagnsæjar og bændur hafa haft jafnan aðgang að sjóðnum óháð búsetu. Útlánatöp sjóðsins hafa verið hverfandi. Í gegnum áratugina hefur byggst upp ákveðið munstur í fjármögnun búskapar bænda, grunnlán frá Lánasjóðnum og viðbótarfjármögnun frá næsta héraðssparisjóði, bankaútibúi og afurðastöð.
    Þótt einstaka bóndi velji nú að segja upp við sjóðinn viðskiptum vegna þess að hann metur aðra möguleika betri á það ekki við um meginþorra bænda. Og framtíð einstakra peningastofnana er mörgum duttlungum háð. Hafa verður þessa sérstöðu í huga við ákvörðun ríkisvaldsins um sölu á Lánasjóðnum. Hér er um að ræða 1. veðrétt í nánast öllum jörðum á Íslandi. Í flestum tilvikum er íbúðarhúsið og allt land veðsett fyrir hverju einstöku láni. Engar leiðbeiningar eru í frumvarpinu til einkavæðingarnefndar um skilmála við sölu sjóðsins. Engar leiðbeiningar eru tilgreindar um hver skuli vera réttur skuldara, viðskiptavina sem í góðri trú hafa bundið áratuga viðskipti sín við sjóðinn. Verða þeir bundnir átthagaböndum við væntanlegan kaupanda?
    Að mati minni hlutans er það fullkomið ábyrgðarleysi að afgreiða svo opna heimild til sölu á Lánasjóði landbúnaðarins eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Einkavæðingarspor þessarar ríkisstjórnar hræða.

Einkavæðingarfíkn ríkisstjórnarinnar ræður för.
    Í skýrslu sem sérstök nefnd vann á vegum landbúnaðarráðherra um stöðu Lánasjóðsins er rakinn vandi sjóðsins, m.a. vegna breytts fjármálumhverfis og erfiðrar rekstrarstöðu. Ekki skal hér gert lítið úr því að taka þarf á stöðu sjóðsins. Þessi verkefnisstjórn landbúnaðarráðherra leggur hins vegar til þá einu leið að leggja niður sjóðinn og selja eignir hans og skuldbindingar.
    Að mati minni hlutans hefði verkefnisstjórnin átt að leggja upp valkosti í framtíðarrekstri sjóðsins sem ríkisvaldið og samtök bænda hefðu getað kynnt sér og tekið afstöðu til. Að mati minni hlutans virðist sem tekin hafi verið ákvörðun um að leggja niður sjóðinn fyrir allnokkru og síðan settur í gang ferill sem leiddi til þessarar niðurstöðu. Þarf sú aðferðafræði ekki að koma á óvart í þeirri einkavæðingarfíkn sem heltekið hefur ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Leita má annarra leiða í framtíð sjóðsins.
    Vissulega eru ástæður til að endurmeta verkefni og stöðu Lánasjóð landbúnaðarins og þar með einnig svonefnt búnaðargjald sem bændur greiða til sjóðsins. En það framlag er bundið í lögum og mun því væntanlega gilda út þetta ár.
    Þingmenn Vintri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt til að skoðaðar verði ýmsar leiðir í rekstri sjóðsins, svo sem að afmarka lánaflokka hans og skera niður stjórnunarkostnað eða að sjóðurinn verði rekinn sem deild i öðrum fjármálstofnunum, t.d. með eða í samstarfi við Lífeyrissjóð bænda. Vegna hins mikla hraða og þjösnaskapar meiri hlutans í afgreiðslu þessa máls hefur nefndinni ekki gefist tóm til að kanna neinar þessara leiða í rekstri sjóðsins.
    Nú standa yfir alþjóðasamningar um skipan á opinberum stuðningi við landbúnað og verslun með landbúnaðarafurðir. Niðurstaða þeirra viðræðna getur haft víðtæk áhrif á búsetumunstur til sveita og rekstrargrundvöll hinna ýmsu greina landbúnaðarins. Það er því mjög óvarlegt að hlaupa nú til og leggja niður Lánasjóð landbúnaðarins í þessari viðkvæmu stöðu sem nú er á innlendum peningamarkaði og einnig í alþjóðasamningum um stöðu landbúnaðarins. (Sjá fskj. II.)

Alþingi skipi nefnd um atvinnu- og búsetumál í sveitum.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar og stuðning við byggð í sveitum. (Þskj. 251 – 240. mál.) Þar er kveðið á um að Alþingi kjósi „nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Sérstaklega verði hugað að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Markmiðið væri að finna leiðir til fjölbreyttari nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins, skapa meira jafnræði milli greina, undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga á sviði landbúnaðarmála og taka á vandamálum núverandi landbúnaðarkerfis.“
    Þessi tillaga okkar liggur nú fyrir landbúnaðarnefnd og væri nær að Alþingi afgreiddi hana í stað þess að höggva niður félagslegar grunnstoðir landbúnaðarins eins og verið er að gera með því að einkavæða og selja Lánasjóð landbúnaðarins og það nánast skilyrðalaust.
    Mikilvægt er að skoða málefni landbúnaðarins heildstætt og þar með framtíð Lánasjóðs landbúnaðarins. Minni hlutinn leggur því til að þessu frumvarpi um sölu á Lánasjóði landbúnaðarins verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Eitt af verkefnum nefndarinnar verði að gera tillögur um framtíðarhlutverk og stöðu Lánasjóðs landbúnaðarins.

Alþingi, 6. maí 2005.Jón Bjarnason.