Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 708. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1349  —  708. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Gunnar Pálsson frá Fjármálaeftirliti, Þórð Friðjónsson og Magnús Harðarson frá Kauphöll Íslands og Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.
    Umsagnir um málið bárust frá embætti ríkisskattstjóra, Kauphöll Íslands, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Verslunarráði, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og Fjármálaeftirliti.
    Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að veita verðbréfamörkuðum og fjármálafyrirtækjum leyfi til að koma á fót skipulögðum markaðstorgum þar sem fram fari viðskipti með verðbréf sem ekki eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði.
    Tilgangur frumvarpsins er að heimila framangreindum fyrirtækjum að starfrækja verðbréfamarkað þar sem kröfur eru aðrar og vægari en í kauphöll og betur sniðnar að þörfum smærri fyrirtækja. Á markaðstorgi með verðbréf væri með skipulögðum hætti tekið við boðum fjármagnseigenda og verðbréfaeigenda sem t.d. auðveldar leit fyrirtækja eftir fé og kemur um leið skipulagi á verðbréfaviðskipti sem nú fara fram utan skipulagðra markaða. Getur slíkur markaður hentað vel smærri fyrirtækjum sem eru í örum vexti og í leit að fjármagni, sem og áhættufjárfestum. Með bættu skipulagi á markaði næst fram aukin skilvirkni, gagnsæi og öryggi fyrir viðskiptaaðila. Auk þess næst fram betra verðmat á óskráð hlutabréf en nú er, sem nýtist ýmsum aðilum, svo sem skattayfirvöldum, dómstólum og skiptastjórum. Það er mikilvægt að allir sem koma að starfrækslu markaðstorga geri sér vel grein fyrir skyldum sínum og upplýsi einnig viðskiptavini sína um annmarka markaðanna og um skyldur þeirra, t.d. þær sem geta myndast við það að bréf eru boðin á skipulögðum markaði á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti.
    Nefndin telur að margt geti unnist með því að komið verði á fót slíkum markaðstorgum sem um er fjallað í frumvarpinu og að óþarft sé að setja um þau ítarlegri reglur en þar er gerð tillaga um. Réttara er að sjá fyrst hvernig þróunin verður og hvernig markaðsaðilum tekst til áður en ákveðið er hvort setja þurfi ítarlegri lagareglur um markaðstorg.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 2005.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.



Gunnar Birgisson.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Lúðvík Bergvinsson.



Una María Óskarsdóttir.


Ögmundur Jónasson.