Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 738. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1369  —  738. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um fjarskipti, nr. 81/2003.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Karl Alvarsson og Sigurberg Björnsson frá samgönguráðuneyti, Helga Magnús Gunnarsson og Jón H. Snorrason frá embætti ríkislögreglustjóra, Sigrúnu Jóhannsdóttir frá Persónuvernd, Írisi Ösp Ingjaldsdóttur og Eirík Áka Eggertsson frá Neytendasamtökunum, Dóru Sif Tynes og Örn Orrason frá OgVodafone, Fanneyju Gísladóttur og Lárus Jónsson frá Núll-níu ehf., Pál Ásgrímsson frá Símanum, Hörð Jóhannesson frá símanefnd dómsmálaráðherra, Hrafnkel V. Gíslason og Sigurjón Ingvason frá Póst- og fjarskiptastofnun og Jón R. Pálsson frá Samtökum atvinnulífsins.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að helstu breytingar sem lagðar eru til í því séu:
          Ákvæði um gerð fjarskiptaáætlunar.
          Skipun fjarskiptaráðs.
          Ákvæði um vernd fjarskiptastrengja í sjó.
          Skýrari ákvæði um álagningu og innheimtu álags á jöfnunarsjóðsgjald.
          Ákvæði um mat á rétti til greiðslu vegna alþjónustu.
          Kröfur um skráningu eigenda síma (farsíma).
          Skylda fjarskiptafyrirtækja til að veita lögreglu upplýsingar.
          Skylda til varðveislu lágmarksskráningar gagna um fjarskiptaumferð í eitt ár.
          Ýmis ákvæði, m.a. um ótímabundin leyfi vegna þráðlauss sendibúnaðar, um tilkynningar um kaupendur búnaðar, um gagnsæi kostnaðar og um samræmda hugtakanotkun.
    Til viðbótar þessari upptalningu má benda á undanþágu frá reikisamningsskyldu í 5. gr. frumvarpsins.
    Í umsögnum um málið kom einna helst fram gagnrýni á 7.–9. gr. frumvarpsins sem fjalla um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að skrá fjarskiptaumferð og notendur síma, skyldu kaupanda farsímakorts til að framvísa skilríkjum og skyldu fjarskiptafyrirtækja til að láta lögreglu í té upplýsingar án dómsúrskurðar um hver sé skráður eigandi ákveðins símanúmers og/eða eigandi eða notandi vistfangs (IP-tölu) ef það er í þágu opinberrar rannsóknar. Nefndin fjallaði ítarlega um þessi ákvæði með gestum en ljóst er að hér vegast á almannahagsmunir og réttur einstaklinga til persónuverndar.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu sem m.a. taka mið af athugasemdum Persónuverndar og sjónarmiðum um meðalhóf. Nefndin leggur til:
     1.      Að sá tími sem fjarskiptafyrirtæki er skylt að varðveita lágmarksupplýsingar í þágu lögreglurannsóknar og almannaöryggis verði styttur úr einu ári í sex mánuði.

Prentað upp.

     2.      Að dregið verði úr hve nákvæmlega skuli skrá fjarskipti þannig að í stað tímasetningar og tímalengdar verði aðeins krafist að skráð verði dagsetning fjarskiptanna og að í stað þess að krefjast skráningar á magni gagnaflutnings til og frá notanda verði aðeins skylt að skrá gagnaflutninga til notanda. Þessar breytingartillögur taka mið af framangreindum sjónarmiðum auk þess að ekki eru lagðar eins miklar kvaðir á símafyrirtæki og ef ákvæði frumvarpsins um þetta atriði stendur óbreytt.
     3.      Að felld verði brott skylda kaupenda fjarskiptakorta til að framvísa skilríkjum og Póst- og fjarskiptastofnun þess í stað veitt heimild til að setja reglur um skráningu notenda slíkra korta í samráði við Neyðarlínu, lögreglu og farsímafyrirtæki. Sjónarmið um persónuvernd og persónufrelsi verða einnig að vera virt í setningu slíkra reglna. Því kom til álita í nefndinni að hafa Persónuvernd í þeim hópi sem talinn er upp í ákvæðinu en niðurstaðan var sú að réttara væri að sú stofnun stæði sjálfstæð utan samráðsins og gæti þannig veitt hlutlausa umsögn og sérfræðiálit þegar við ætti. Telur nefndin að með þessu megi ná fram auknu öryggi við notkun farsíma, svo sem stefnt er að í frumvarpinu, en þá með lausnum sem taka meira mið af persónuvernd og eðli viðskiptanna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Guðjón Hjörleifsson skrifar undir álitið með fyrirvara um 7. gr. frumvarpsins og áskilur sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.

Alþingi, 6. maí 2005.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Guðjón Hjörleifsson,


með fyrirvara.


Magnús Stefánsson.