Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 770. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1373  —  770. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar um innleiðingu EES-gerða.

     1.      Hversu margar gerðir hafa stofnanir Evrópusambandsins samþykkt og gefið út á ári hverju 1994–2004?
    Með vísan til þessarar fyrirspurnar fór utanríkisráðuneytið þess á leit við skrifstofu EFTA í Brussel að tekinn yrði saman fjöldi svokallaðra bindandi gerða, en hugtakið gerð vísar annars til allra formlegra ákvarðana sem teknar eru af stofnunum Evrópusambandsins, óháð því hvort þær eru bindandi eða óbindandi fyrir aðildarríki þess.
    Samkvæmt upplýsingum skrifstofunnar, sem byggðar eru á lagagagnagrunni Evrópusambandsins (EUR-lex) var eftirfarandi fjöldi tilskipana, reglugerða og ákvarðana settur á umbeðnu tímabili:

Ár Tilskipanir Reglugerðir Ákvarðanir
2004 111 2.157 925
2003 126 2.244 976
2002 96 2.371 980
2001 102 2.597 1.190
2000 83 2.777 1.068
1999 102 2.782 1.036
1998 100 2.849 929
1997 81 2.641 972
1996 95 2.524 798
1995 72 3.086 767
1994 79 1.292 928
1.047 27.320 10.569

    Samkvæmt þessu samþykkti Evrópusambandið 38.936 gerðir á tímabilinu. Hafa ber í huga að hér er um að ræða heildarfjölda þeirra gerða sem Evrópusambandið hefur samþykkt á tímabilinu, þ.m.t. gerðir sem felldar hafa verið brott eða hafa eingöngu tímabundið gildi.
    Jafnframt skal árétta að langstærstur hluti þeirra gerða sem samþykktar eru af Evrópusambandinu varða framkvæmd sameiginlegrar landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu þess en einnig er fjöldi gerða samþykktur á ári hverju er varða framkvæmd utanríkisviðskiptastefnu þess, þ.m.t. tollamál.

     2.      Hversu margar þessara gerða hafa verið teknar upp í EES-samninginn, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, og innleiddar hér á landi í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt honum?
    Inn í EES-samninginn eru aðeins teknar þær gerðir sem falla undir gildssvið samningsins. Gildissvið EES-samningsins er bundið við hið svonefnda fjórþætta frelsi (frjáls vöruviðskipti, frjálsa þjónustustarfsemi, frjálsar fjármagnshreyfingar og frjálsa för launþega) og þau svið önnur sem beinlínis eru talin varða fjórþætta frelsið (samkeppni, félagsmál, umhverfismál, neytendavernd, hagskýrslugerð og félagarétt). Samkvæmt upplýsingum EFTA-skrifstofunnar hafa 2.527 tilskipanir, reglugerðir og ákvarðandir verið teknar inn í EES-samninginn á umræddu tímabili, eða um 6,5% af heildarfjölda ESB-gerða á tímabilinu, sbr. eftirfarandi töflu.

Ár Fjöldi gerða
2004 296
2003 285
2002 310
2001 389
2000 209
1999 556
1998 161
1997 132
1996 77
1995 77
1994 35
2.527

    Rétt er að geta þess að á sviði heilbrigðiseftirlits með dýrum og plöntum er Ísland undanþegið þeim ákvæðum sem snúa að heilbrigðiseftirliti dýra að undanskildum þeim hluta gerðanna sem varða heilbrigðiseftirlit sjávarafurða. Enn fremur ber að athuga að Ísland hefur ekki innleitt sérstaklega gerðir sem fjalla um járnbrautir eða skipgengar vatnaleiðir. Fjöldi gerða sem ekki er innleiddur af þessum ástæðum er um 300 talsins.

     3.      Hversu margar fyrrgreindra gerða hafa krafist lagabreytinga við innleiðingu hér á landi?

    Ef gerð sem taka á upp í EES-samninginn krefst lagabreytinga gera stjórnvöld við hana svonefndan stjórnskipulegan fyrirvara á grundvelli 103. gr. EES-samningsins. Á því tímabili sem vísað var til hér að framan hafa íslensk stjórnvöld í 101 tilviki gert slíkan fyrirvara við upptöku gerðar í EES-samninginn.

Ár Fjöldi gerða
2004 19
2003 13
2002 17
2001 9
2000 9
1999 13
1998 5
1997 2
1996 5
1995 4
1994 5
101