Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 716. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1404  —  716. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um uppbyggingu öldrunarþjónustu.

     1.      Uppfyllir núverandi aðbúnaður á stofnunum fyrir aldraða þau ákvæði laga um málefni aldraðra að við hönnun skuli þess sérstaklega gætt að þær séu heimilislegar og að flestir hafi eigið herbergi?
    Þau lög sem hér er vitnað til eru lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Á þeim hjúkrunarheimilum sem byggð voru fyrir gildistöku þessara laga er um helmingur vistrýma í einbýlisherbergjum. Eftir gildistöku laganna hafa verið byggð og tekin í notkun 23 hjúkrunarheimili, stór og smá, með 710 vistrýmum. Tæp 70% þessara rýma eru einbýli. Nú eru að hefjast framkvæmdir við þrjú hjúkrunarheimili og framkvæmdir við það fjórða eru vel á veg komnar. Samtals eru 108 vistrými í þessum heimilum og hlutfall einbýla rúm 75%. Þá er verið að hanna þrjú ný hjúkrunarheimili og er ætlunin að bjóða út byggingu þeirra á þessu ári. Í þessum húsum verða um 160 vistrými, öll í einbýlum og er stefnt að því að svo verði í því húsnæði sem hér eftir verður byggt í þessu skyni. Jafnframt er stefnt að því að u.þ.b. 10% vistrýma verði frátekin fyrir hjón eða sambýlisfólk, t.d. með því að opna milli tveggja herbergja. Því má segja að markmiðinu um að sem flestir íbúar hafi eigið herbergi sé að fullu náð í nýjustu húsunum. Eins og gefur að skilja er ekki unnt að tilgreina með tölum hvernig til hefur tekist um að gera stofnanirnar heimilislegar, en það er og hefur verið sameiginlegt markmið fulltrúa eigenda, hönnuða og ekki hvað síst starfsmanna viðkomandi stofnana að tryggja íbúum heimilislegar aðstæður.

     2.      Er í undirbúningi áætlun um uppbyggingu öldrunarþjónustu þar sem tryggt verði að aldraðir á hjúkrunar- og dvalarheimilum þurfi ekki gegn vilja sínum að deila herbergi með öðrum?
    Eins og sjá má af framangreindum tölum eru enn mörg sambýlisherbergi á hjúkrunarheimilum. Á undanförnum árum hefur verið unnið að endurbótum á nokkrum hjúkrunarheimilum, m.a. með fækkun fjölbýla. Þetta er hins vegar kostnaðarsamt verk og má ætla að það kosti á bilinu 7.000–9.000 millj. kr. (7–9 milljarða kr.) að breyta í einbýli öllum þeim 950 (954) vistrýmum sem nú eru í fjölbýlum og byggja ný, til að heildarfjöldi vistrýma haldist óbreyttur. Auk þess væri æskilegt að endurbyggja sum eldri hjúkrunarheimilin, m.a. vegna þess að herbergi eru of lítil til að unnt sé með góðu móti að veita heimilismönnum þá þjónustu sem þeir þurfa.
    Undanfarin ár hefur tiltækt árlegt framkvæmdafé til framangreindra endurbóta, og allra annarra endurbóta og nýbygginga á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, annarra en tveggja stærstu sjúkrahúsanna, verið tæpar 900 millj. kr. Því er ljóst að mjög langan tíma tekur að ljúka þessum verkefnum fáist ekki verulega auknar fjárveitingar. Hins vegar skal tekið fram að bæði stjórnendur og starfsmenn á þessu sviði gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma til móts við óskir vistmanna í því skyni að gera dvölina eins heimilislega og unnt er. Fyrir það bera að þakka.