Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 35. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1409  —  35. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með áorðnum breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og áður skilað áliti um það og breytingartillögum, sbr. þingskjöl 1188 og 1189.
    Frá því að meiri hlutinn lagði fram framangreindar breytingartillögur hefur hann skoðað málið og fengið ábendingar varðandi breytingartillögurnar sem hann telur rétt að taka tillit til.
    Í frumvarpinu er að því stefnt að þeir sem skila inn réttum skýrslum og sýna vilja til að greiða skuldir við ríkið njóti þess að því leyti að vikið verði frá sektarlágmarki og mat dómara ráði þess í stað. Er þar byggt á því að þegar þannig háttar til sé ekki um eiginleg skattsvik að ræða. Þessu markmiði verður ekki náð nema að mjög takmörkuðu leyti samkvæmt fyrri breytingartillögum meiri hlutans. Eftir að hafa skoðað málið nánar telur meiri hlutinn rétt að leggja til breytingar á frumvarpinu sem ekki gera eins miklar kröfur til þess að vikið verði frá sektarlágmarki, m.a. varðandi það hvort skýrslu er skilað á réttum tíma eða ekki.
    Meiri hlutinn telur rétt að girða ekki fyrir að þeir sem hafi greiðslugetu og greiðsluvilja sjái sér hag í því að lækka skattfjárhæð áður en til sektarákvörðunar kemur. Megináherslan hlýtur að liggja á því að gjaldandi, eða sá sem ábyrgð ber á greiðslum, sjái hag í því að skila inn réttum skýrslum og greiða eins mikið og unnt er áður en niðurstaða dómstóla eða yfirskattanefndar liggur fyrir.
    Lögin taka sérstaklega á síðbúnum skilum með ákvörðun álags og dráttarvaxta og fellur meiri hlutinn frá þeirri tillögu að kveða á um greiðslu þessa hluta kröfunnar í þeim ákvæðum sem lagt er til að breytt verði og fjalla um sakarmat. Af framkvæmd verður ráðið að við ákvörðun refsingar sé tekið tillit til þeirra greiðslna sem inntar hafa verið af hendi og miða tillögur nú að því að ekki verði breyting þar á.
    Meiri hlutinn afturkallar breytingartillögur á þingskjali nr. 1189 og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Efnismálsliður 1. gr. orðist svo: Hafi verið staðin skil á hluta fjárhæðar réttilega tilgreindrar staðgreiðslu samkvæmt skilagrein staðgreiðslu skulu ákvæði þessarar málsgreinar um lágmark fésektar einungis eiga við um þann hluta skattfjárhæðarinnar sem er í vanskilum.
     2.      Efnismálsliður 2. gr. orðist svo: Hafi verið staðin skil á hluta fjárhæðar réttilega tilgreinds virðisaukaskatts samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu skulu ákvæði þessarar málsgreinar um lágmark fésektar einungis eiga við um þann hluta skattfjárhæðarinnar sem er í vanskilum.

Alþingi, 10. maí 2005.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Gunnar Birgisson.Birgir Ármannsson.


Siv Friðleifsdóttir.


Ögmundur Jónasson.