Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 4  —  4. mál.
Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar



um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Margrét Frímannsdóttir,


Össur Skarphéðinsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson,
Ásta R. Jóhannesdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson,
Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Jóhann Ársælsson, Jón Gunnarsson,
Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Lúðvík Bergvinsson, Mörður Árnason,
Rannveig Guðmundsdóttir, Valdimar L. Friðriksson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samráði við samtök aldraðra og öryrkja, að beita sér fyrir því að komið verði á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega. Skoðuð verði þátttaka almannatrygginga og lífeyrissjóða í afkomutryggingu. Grunnlífeyrir og tekjutrygging verði sem næst lágmarksframfærslu eins og hún verður skilgreind í samræmi við neysluútgjöld lífeyrisþega. Raungildi grunnlífeyris og tekjutryggingar verði ekki lægra við upptöku afkomutryggingar en það var á árinu 1995. Auk þessa verði skerðingarhlutföll grunnlífeyris og tekjutryggingar rýmkuð verulega til að auka svigrúm til atvinnuþátttöku.
    Samningur um afkomutryggingu taki gildi frá og með 1. janúar 2007 og jafnframt breytist lífeyrir almannatrygginga til samræmis við launavísitölu.

Greinargerð.


    Allt of margir þjóðfélagsþegnar búa við kjör sem duga ekki fyrir nauðþurftum eða lágmarksframfærslu. Á það ekki síst við um aldraða, öryrkja og einstæða foreldra, atvinnulausa og þá sem búa við langvarandi sjúkdóma. Meðal stefnumála Samfylkingarinnar er að komið verði á afkomutryggingu svo að enginn þurfi að búa við fátækt og óvissu um kjör sín. Með þeirri tillögu sem hér er flutt er stigið fyrsta skrefið í þessa átt og lýtur hún að afkomutryggingu aldraðra og öryrkja.
    Í næsta áfanga mun þingflokkur Samfylkingarinnar beita sér fyrir því að teknar verði upp viðræður milli ríkisvaldsins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins um afkomutryggingu þeirra sem af félagslegum, heilsufarslegum eða öðrum óviðráðanlegum ástæðum hafa ekki sér til framfærslu sem samsvarar lágmarkslaunum í þjóðfélaginu hverju sinni. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa áður lagt fram tillögu til þingsályktunar um skattfrelsi lágtekjufólks sem felur m.a. í sér að atvinnuleysisbætur og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga verði undanþegin skatti. Markmið beggja tillagna er að enginn þurfi að þola það að eiga ekki fyrir nauðþurftum. Til að ná því sem að er stefnt er hér lagt til að teknar verði upp viðræður milli stjórnvalda og samtaka lífeyrisþega um nýjan samning um afkomutryggingu sem komi til framkvæmda í byrjun árs 2007.
    Þjóðfélag getur ekki talist velferðarþjóðfélag nema vel sé búið að öldruðum og öryrkjum og þeim tryggð sómasamleg kjör. Þótt margt hafi verið vel gert í málefnum þessa fólks á umliðnum áratugum býr allt of stór hópur aldraðra og öryrkja við slæm kjör og í heild hefur þessi hópur ekki fengið sanngjarnan eða eðlilegan hlut í góðæri liðinna ára. Í því efni hefur verulega dregið sundur með lífeyrisþegum og þeim sem verst hafa kjörin á vinnumarkaðnum og hefur bilið milli meðallauna verkamanna og lífeyrisgreiðslna stóraukist. Þegar á allt er litið fer því fjarri að afkoma og aðbúnaður margra aldraðra hér á landi sé mannsæmandi.
    Tenging bóta almannatrygginga við vikukaup í almennri verkamannavinnu var afnumin árið 1996 og olli það mikilli skerðingu á lífeyri aldraðra og öryrkja. Í staðinn var lögum um almannatryggingar breytt og kveðið á um að bætur almannatrygginga skyldu taka mið af launaþróun, þó þannig að breyting á fjárhæðinni gæti aldrei farið niður fyrir það sem vísitala neysluverðs mælir. Fullyrt var af stjórnvöldum á þeim tíma að þessi breyting mundi ekki skerða kjör lífeyrisþega. Af umræðum á Alþingi er ljóst að margir þingmenn töldu að með þessu ákvæði væri tryggt að lífeyrisgreiðslur ættu að hækka til samræmis við launavísitölu. Engu síður hafa þær ekki gert það. Með breytingunni frá 1996 hafa kjör lífeyrisþega verið svo skert að það þyrfti að hækka grunnlífeyri og tekjutryggingu um hvorki meira né minna en 4,6 milljarða kr. (miðað við desember 2004) til þess að framfærslulífeyrir þeirra héldi raungildi sínu miðað við grunnlífeyri og tekjutrygginguna eins og þessar lífeyrisgreiðslur voru árið 1995 þegar núverandi stjórnarflokkar komust til valda. Grunnlífeyrir og full tekjutrygging væru 12 þús. kr. hærri (miðað við desember 2004) en ella á mánuði eða um 144 þús. kr. hærri á ári ef raungildi þessara greiðslna væri það sama á árinu 2005.
    Ljóst er að kaupmáttur lífeyris hefur ekki verið í neinu samræmi við það sem hefur verið að gerast á vinnumarkaðnum og stöðugt hefur dregið í sundur með lífeyris- og launagreiðslum frá því að klippt var á tengsl launa og lífeyris fyrir um tíu árum. Sem dæmi má nefna að á árunum 1995.1999 var kaupmáttaraukning lífeyrisgreiðslna þrisvar sinnum lægri en kaupmáttaraukning verkafólks. Á árunum 1999.2002 var kaupmáttaraukning atvinnuleysisbóta 1% en lífeyris 2%. Á sama tíma var kaupmáttaraukning launa verkafólks um 10%.
    Benda má á að Landssamband eldri borgara hafa reiknað út að grunnlífeyrir sem hlutfall af lágmarkslaunum verkafólks hefur stöðugt verið að lækka. Á árinu 1995 var hann 24,94% en árið 2003 var hann kominn niður í 21,1%. Grunnlífeyrir sem hlutfall af reglulegum meðallaunum verkafólks var 16,34% árið 1995 en var kominn í 14,29% árið 2003. Ef litið er til tekjutryggingar og eingreiðslu sem hlutfalls af lágmarkslaunum verkafólks var hún 49,83% árið 1995 en komin niður í 41,01% árið 2003. Athyglisvert er einnig að samanlagður grunnlífeyrir, tekjutrygging og eingreiðslur á tekjutryggingu sem hlutfall af lágmarkslaunum verkafólks var 74,78% árið 1995 en þetta hlutfall var komið niður í 62,11% árið 2003.
    Á fundi Félags eldri borgara í Reykjavík í febrúar á þessu ári var þess krafist að grunnlífeyrir aldraðra frá almannatryggingum næði aftur sama hlutfalli af viðmiðunarlaunum og árið 1995. Fram hefur komið opinberlega að frá árinu 1995 til ársins 2005 hafi kaupmáttur lágmarkslauna aukist um 56% en kaupmáttur lífeyris aðeins um 25%. Fram hefur komið hjá Landssambandi eldri borgara að samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar frá síðasta þingi um lækkun skatta muni kaupmáttur ráðstöfunartekna eldri borgara aðeins hækka um 9,3% frá árinu 1995 til loka kjörtímabilsins 2007, en ekki 55% eins og fulltrúar ríkisstjórnarinnar halda fram. Í því sambandi má benda á að stór hluti ellilífeyrisþega, eða um þriðjungur, er með undir 110 þús. kr. á mánuði. Einnig má benda á að í skýrslu um kjör öryrkja, sem Samfylkingin óskaði eftir frá forsætisráðherra og lögð var fram á Alþingi á 126. löggjafarþingi, kom fram að 43% allra öryrkja fá engar greiðslur úr lífeyrissjóði. Athyglisvert er einnig að 22% ellilífeyrisþega eða um 6 þúsund manns voru aðeins með tekjur undir 70 þús. kr. á mánuði sér til framfærslu árið 1999.
    Ljóst er að skattbyrði lífeyrisþega hefur aukist gífurlega á sama tíma og mikil skerðing hefur orðið á lífeyrisgreiðslum. Til samans hefur það rýrt verulega afkomumöguleika lífeyrisþega. Nefna má sem dæmi að tíu þúsund ellilífeyrisþegum er nú gert að lifa af tekjum undir 110 þús. kr. á mánuði. Þeir greiða um 14% af sínum tekjum í skatt en greiddu 2.3% af samsvarandi tekjum fyrir tíu árum.
    Staða flestra lífeyrissjóða er sem betur fer traust og því munu aukin lífeyrisréttindi bæta kjör eldri borgara á komandi árum. Hlutur almannatrygginga í eftirlaunum mun minnka og hlutur lífeyrissjóðanna aukast. Þó ber að hafa í huga að þeir sem nú þegar eru komnir á eftirlaun munu ekki njóta þessa, heldur aðeins þeir sem hefja töku lífeyris á komandi árum.
    Eignastaða aldraðra hér á landi er yfirleitt góð og ber að fagna því. Þó er allt of algengt að tekjustaða þeirra sé slæm og þeim reynist erfitt að greiða skatta og skyldur af eignum sínum sem oftast eru fólgnar í íbúðum sem fólkið býr sjálft í og hefur mikinn kostnað af. Húsnæðisaðstaða of margra er afar bágborin. Þær tölur sem hér fara á eftir eru frá árunum 2000 og 2001 og má ætla að þær hafi lítið breyst frá þeim tíma. Á árinu 2001 voru 15% þeirra sem eru í 700 leiguíbúðum á vegum Reykjavíkurborgar aldraðir, eða vel á annað hundrað, og aldraðir á biðlista eftir leiguíbúðum hjá borginni voru 126. Á biðlistum eftir þjónustuíbúðum í Reykjavík voru 250 aldraðir og á biðlistum eftir hjúkrunarheimilum voru um 230. Af þessu sést að um 600 aldraðir biðu eftir hjúkrunar- eða þjónustuíbúðum, auk leiguíbúða, en stærsti hluti þessa hóps er í mjög brýnni þörf fyrir húsnæði, aðhlynningu eða þjónustu. Sama gildir um öryrkja, en stór hópur öryrkja er á leigumarkaði og bíða á fimmta hundrað manns eftir íbúðum hjá Öryrkjabandalaginu.
    Það er því deginum ljósara að lífeyrisþegar hafa ekki fengið sinn hlut í góðærinu og eiga raunar rétt og kröfu á því til þess að fá eðlilega og sanngjarna leiðréttingu á kjörum sínum. Ljóst er einnig að mikill tekjuafgangur ríkissjóðs hefur m.a. verið fenginn með því að taka þennan góðærishlut aldraðra og öryrkja. Meðal annars hefur það verið gert með mikilli raunlækkun skattleysismarka.
    Raunlækkun skattleysismarka hefur líka bitnað af fullum þunga á lífeyrisþegum. Athyglisvert er að skoða raunlækkun skattleysismarkanna eins og hún birtist í línuriti frá fjármálaráðuneytinu og kynnt var í efnahags- og viðskiptanefnd á 131. löggjafarþingi (sjá fskj. I með þskj. 608, máli 351). Þar sést að raunlækkun skattleysismarka frá árinu 1989, sem að mestu kemur fram eftir árið 1995, er svo harkaleg að samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins má áætla að ríkissjóður hafi tekið 36,4 milljörðum kr. meira til sín árið 2003 en hann hefði gert hefðu skattleysismörk fylgt launavísitölu. Með sömu nálgun er um 16,3 milljarða kr. að ræða, sé miðað við neysluvísitölu. Skattleysismörkin eru 71.296 kr. á yfirstandandi ári, en ættu að vera 114.015 kr. hefðu þau fylgt þróun launavísitölu og 85.709 kr. hefðu þau fylgt þróun neysluvísitölu. Þessa tugi milljarða hefur ríkisvaldið svo nýtt til að lækka skatta af fjármagni og fyrirtækjum. Full ástæða er til að vekja athygli á því að á þessum tíu árum sem liðin eru frá því að ríkisvaldið klippti á tengsl launa og lífeyris hafa heildartekjur ríkissjóðs á verðlagi 2004 og miðað við þjóðhagsreikningsstaðal ESB, ESA 95, hækkað úr 212.828 milljörðum kr. í 313.146 milljarða kr. Athyglisvert er að tekjur ríkissjóðs hafa því aukist um rúmlega 100 milljarða umfram hækkun vísitölu neysluverðs á þessu tímabili og um tæpa 73 milljarða umfram hækkun launavísitölu. Til samanburðar má nefna að ríkisvaldið hefur skert lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja að raungildi á þessu tímabili um 4,6 milljarða króna.
    Vara ber við þeirri þróun sem orðið hefur í skattheimtunni að í vaxandi mæli hefur skattbyrðin verið flutt af fjármagni og fyrirtækjum yfir á launafólk og lífeyrisþega. Skattabreytingar umliðinna ára hafa lent með fullum þunga á lágtekjufólki vegna þess að skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun í landinu. Öryrkjabandalagið hefur bent á í tengslum við afgreiðslu skattalagafrumvarps ríkisstjórnarinnar á sl. ári að lífeyrisþegi sem ekkert hefur nema bætur almannatrygginga sé nú farinn að greiða jafngildi tveggja mánaða útborgunar á ári hverju í beina skatta. Þetta kemur heim og saman við það að lágtekjufólk sem greiddi sama og engan skatt þegar ríkisstjórnin tók við greiðir nú verulegan hluta af sínum tekjum í skatt. Fram hefur komið að 29 þúsund manns með tekjur á bilinu frá skattleysismörkum að 100 þús. kr. greiddu á sl. ári 2 milljarða kr. í skatta. Brýnt er því að skoða sérstaklega leiðir til að draga úr skattgreiðslum lífeyrisþega og annarra lágtekjuhópa í tengslum við afkomutryggingu þeirra.
    Á undanförnum missirum hafa þær litlu hækkanir sem runnið hafa til lífeyrisþega iðulega verið teknar aftur með ýmsum aðferðum. Hér skal einungis minnt á gífurlega hækkun sem orðið hefur á lyfja- og lækniskostnaði sem rýrt hefur verulega kjör lífeyrisþega. Ófá dæmi eru um að lífeyrisþegar þurfi að greiða sem svarar mánaðarlífeyrisgreiðslum fyrir lyf á ári. Húsnæðiskostnaður öryrkja og aldraðra hefur líka hækkað á síðustu árum, ekki síst þeirra sem eru á leigumarkaði. Styrkir til bifreiðakaupa öryrkja eru nú færri og að raungildi eru þeir lægri en árið 1995. Auk þess hefur ríkisstjórnin afnumið þau hagstæðu bifreiðakaupalán sem öryrkjum stóðu áður til boða og vísar þeim nú á almennar lánastofnanir.
    Afar brýnt er orðið að móta heildarstefnu í málefnum aldraðra, m.a. út frá breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu árum, en öldruðum mun fjölga mjög hratt og mun meira hlutfallslega en þeim sem eru á vinnumarkaði. Heildarstefnumótun í málefnum lífeyrisþega þarf auk tryggingagreiðslna að taka til heilbrigðis-, húsnæðis- og atvinnumála þeirra. Sérstaklega þarf að skoða markvissa stefnumótun í uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila og sveigjanleg starfslok aldraðra.
    Velferðarkerfið á Íslandi er veikara en annars staðar á Norðurlöndum og útgjöld ríkissjóðs hér mun minni en annars staðar gerist. Opinber útgjöld til elli- og örorkulífeyrisþega eru t.d. miklu lægri hér á landi en í flestum OECD-löndunum. Í samantekt Norrænu hagskýrslunefndarinnar á sviði félagsmála (NOSOSKO) Social tryghed i de nordiske lande 2002 frá í október 2004 um útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum árið 2002 kemur fram að útgjöld til félags- og heilbrigðismála aldraðra og öryrkja, sem hlutfall af landsframleiðslu, eru lægst hér á landi. Á Íslandi er hlutfallið 9,8% af landsframleiðslu en allt upp í 16,7% af landsframleiðslu í Svíþjóð, 14,7% í Danmörku, 12,8% í Finnlandi og 12,4% í Noregi.
    Í því efnahagsumhverfi sem við búum við er mjög brýnt að hafa öflugt velferðarkerfi sem tryggir að enginn þurfi að þola fátækt eða öryggisleysi. Í löndum þar sem óheft frjálshyggja og markaðshyggja er allsráðandi í stefnu stjórnvalda hefur bilið milli ríkra og fátækra breikkað. Þetta hefur líka gerst á Íslandi. Atvinnu- og ráðstöfunartekjur þeirra tekjuhærri í þjóðfélaginu hafa á undanförnum árum hækkað mun meira en þeirra tekjulægri með þeim afleiðingum að misskiptingin hefur aukist. Þessi þróun hefur ekki síst bitnað á lífeyrisþegum.
    Þegar litið er til þess misréttis sem við blasir í tekjuskiptingunni er ljóst að öflugt markaðskerfi sem tryggir heilbrigða samkeppni kallar líka á styrkar stoðir velferðarkerfisins, annars breikkar bilið milli ríkra og fátækra eins og dæmin sanna. Þannig þarf samhliða öflugu markaðskerfi að tryggja öflugt og skilvirkt velferðarkerfi sem m.a. tryggir örugga afkomu þeirra sem höllum fæti standa og að allir geti lifað með fullri reisn og er það markmið þessarar tillögu. Mikilvægt er að stjórnvöld líti til þess að ekki er aðeins um útgjöld að ræða heldur skilar hluti kostnaðarins sér til baka í formi beinna og óbeinna skatta.
    Árið 1998 voru lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum til aldraðra samtals 9 milljarðar kr. og til öryrkja 2,5 milljarðar kr. Úr almannatryggingakerfinu voru hins vegar greiddir 10 milljarðar kr. í lífeyrisgreiðslur (grunnlífeyri og tekjutryggingu) til aldraðra og 3,5 milljarðar kr. til öryrkja. Ætla má að hlutur lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóðum sé þegar orðinn meiri en hlutur almannatrygginga í lífeyrisgreiðslum. Hlutur lífeyrissjóðanna mun þannig jafnt og þétt stækka með auknum lífeyrisréttindum og hærra hlutfalli aldraðra af heildarfjölda þjóðarinnar. Stór hluti lífeyrisþega sem eiga lítinn rétt í lífeyrissjóðum mun engu síður eiga allt sitt undir lífeyri almannatrygginga og því er mikilvægt að skilningur og sanngirni stjórnvalda sé til staðar.
    Þessi tillaga gerir ráð fyrir að ríkisstjórnin í samráði við samtök aldraðra og öryrkja komi á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega. Meginmarkmiðið er að færa lífeyri aldraðra og öryrkja nær raunverulegri framfærsluþörf þeirra en samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi. Samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar sem gerð var árin 2001.2003 kemur fram að neysluútgjöld einstaklinga reyndust verða rúmar 2 millj. kr. eða milli 160.170 þús. kr. á mánuði. Hæstu lífeyrisgreiðslur til einstaklinga í almannatryggingakerfinu eru nú um 104 þús. kr., þannig að mikið skilur á milli framfærslueyris og kostnaðar vegna nauðþurfta. Þá má nefna að viðmið félagsmálaráðuneytisins, sem þó er ekki nýlegt, gerir ráð fyrir 140 þús. kr. lágmarksframfærslu. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins eru tæplega 17.100 aldraðir með tekjur undir 140 þús. kr. og tæplega 7.800 öryrkjar, en sú tala er eitthvað ofmetin þar sem aldurstengda örorku vantar í grundvöll þessara talna. Flutningsmenn leggja áherslu á að ráðist verði í sérstaka neyslukönnun á framfærsluþörf lífeyrisþega og að lífeyrisgreiðslur til aldraðra verði sem næst þeirri framfærslu.
    Í tillögunni er lögð áhersla á að raungildi grunnlífeyris og tekjutryggingar verði ekki lægra í ársbyrjun 2007 en á árinu 1995 eða áður en ríkisstjórnin kippti úr sambandi tengingu lífeyris við laun. Ef miðað er við grunnlífeyri og tekjutryggingu frá desember 2004 eru brúttóútgjöld ríkisins vegna þessa um 4,6 milljarðar kr. en að teknu tilliti til tekjuáhrifa á ríkissjóð af skattgreiðslum væri um að ræða nettóútgjöld um 2,9 milljarða kr.
    Í annan stað er lögð áhersla á að skerðingarhlutföll grunnlífeyris og tekjutryggingar verði rýmkuð verulega til að auka svigrúm og hvetja til atvinnuþátttöku. Ef við það er miðað að lækka skerðingarhlutfall grunnlífeyris úr 30% í 20% og skerðingarhlutfall tekjutryggingar úr 45% í 30% væru útgjöld því samfara um 1.320 millj. kr. miðað við lífeyrisgreiðslur eins og þær voru í desember 2004. Landssamband eldri borgara hefur lagt fram útreikninga sem sýna gífurlega mikla skerðingu á tekjum og lífeyri ef aldraðir hafa atvinnutekjur. Sem dæmi má nefna að við 10 þús. kr. auknar atvinnutekjur á mánuði hjá hjónum hækka ráðstöfunartekjur þeirra í mörgum tilfellum aðeins um 1.556 kr. á mánuði. Skerðing og skattar eru þá um 84,44%. Hvatinn til aukins vinnuframlags er því hverfandi sé mið tekið af tekjum. Skerðingarhlutfall almennt fyrir tekjur allt að 149.989 eru 45%. Ef skoðuð eru áhrif skerðingarinnar hjá einhleypingi sem hefur tekjur undir skerðingarmörkum grunnlífeyris en fær 10.000 kr. hækkun atvinnutekna þá heldur hann eftir 5.500 kr. í heildartekjur, áður en tekið er tillit til tekjuskatts. Sökum áhrifa tekjuskatts heldur hann í raun eftir 3.425 kr. af þessum 10.000 og skerðingarhlutfallið er þá 65,75%.
    Þær breytingar sem þessi tillaga gerir ráð fyrir til að auka svigrúm aldraðra til að afla tekna hefði í för með sér aukna möguleika aldraðra til þátttöku í atvinnulífinu sem er samfélaginu afar mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að hlutur aldraðra mun aukast verulega á komandi árum á móti því að færri verða á vinnumarkaðnum. Um það munar verulega í auknum hagvexti og velferð samfélagsins. Rétt og eðlilegt er því að horfa á lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja í þessu samhengi um leið og þjóðarsátt næst um það markmið að koma á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega sem tryggir að enginn þurfi að þola fátækt eða óvissu um kjör sín.
    Loks er lögð áhersla á að þegar komið hefur verið á þeim samningi um afkomutryggingu við lífeyrisþega, sem tillagan gerir ráð fyrir að verði 1. janúar 2007, taki lífeyrisgreiðslur almannatrygginga frá þeim tíma mið af breytingu á launavísitölu. Raunar hefur núverandi heilbrigðisráðherra tekið undir að slík tenging komið til álita, en í tengslum við umræðu um vaxandi fátækt hér á landi var orðrétt haft eftir ráðherra: „Við höfum líka verið með það í skoðun hvort bætur geti fylgt launaþróun og að launaskrið sé líka bætt.“
    Flutningsmenn þessarar tillögu leggja áherslu á að það verði eitt af forgangsverkefnum í þjóðfélaginu á næstunni að bæta kjör tekjulágu hópanna, m.a. með því að styrkja almannatryggingakerfið, og að þessir hópar fái eðlilegan og sanngjarnan hlut í auknum hagvexti og þjóðartekjum.