Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 8. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 8  —  8. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum, nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, með síðari breytingum.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,


Steingrímur J. Sigfússon, Hlynur Hallsson.


1. gr.

    Við 3. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stefnt skal að því að hlutur innlends efnis sé sem mestur og vandað sé til þess sem verða má.

2. gr.

    Í stað orðsins „útvarpsráðs“ í 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: dagskrárráð.

3. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, sem orðast svo:
    Í framkvæmdastjórn sitja útvarpsstjóri, framkvæmdastjórar allra deilda Ríkisútvarpsins og jafnmargir fulltrúar kjörnir af starfsmönnum, einn frá hverri deild, og fulltrúi dagskrárráðs en hann hefur málfrelsi og tillögurétt. Útvarpsstjóri er formaður framkvæmdastjórnar og er framkvæmdastjóri fjármáladeildar varamaður hans.
    Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á almennum rekstri, mannaráðningum, samræmingu á starfi deilda og annarri stjórn Ríkisútvarpsins.

4. gr.

    Fyrri málsliður 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Ráðherra skipar samkvæmt tillögu dagskrárráðs útvarpsstjóra til fimm ára í senn.

5. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Menntamálaráðherra skipar í dagskrárráð Ríkisútvarpsins eftir hverjar alþingiskosningar einn fulltrúa tilnefndan af hverjum þingflokki, tvo fulltrúa tilnefnda af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn fulltrúa tilnefndan af Neytendasamtökunum, einn fulltrúa tilnefndan af Bandalagi íslenskra listamanna, útvarpsstjóra, framkvæmdastjóra hljóðvarps og sjónvarps og einn fulltrúa tilnefndan af starfsmönnum Ríkisútvarpsins.
    Dagskrárráð skiptir með sér verkum.

6. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Dagskrárráð fjallar um útsenda dagskrá Ríkisútvarpsins og fylgist með að ákvæði 3.–5. gr. séu haldin. Athugasemdum dagskrárráðs skal svara skriflega sé þess óskað.
    Dagskrárráð kemur að jafnaði saman mánaðarlega og oftar ef þörf krefur. Dagskrárráð getur einnig haft frumkvæði að dagskrártillögum.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      5. mgr. fellur brott.
     b.      6. mgr. orðast svo:
             Útvarpsstjóri annast ráðningu starfsmanna, þó jafnan að tillögu framkvæmdastjórnar ef um starfsfólk dagskrár er að ræða.

8. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Ríkisútvarpið hefur sjálfstæðan fjárhag.
    Megintekjustofnar Ríkisútvarpsins eru afnotagjald, þ.e. gjald fyrir hljóðvarp og sjónvarp, gjöld fyrir auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi og aðrir tekjustofnar sem Alþingi kann að ákveða.
    Öllu íbúðar- og atvinnuhúsnæði í landinu fylgir réttur til að nýta þjónustu Ríkisútvarpsins. Gjaldstofn afnotagjalds miðast við íbúðir og atvinnuhúsnæði eftir því sem við á.
    Um afnotagjöld og innheimtu þeirra fer eftir ákvæðum laga um afnotagjöld Ríkisútvarpsins.

9. gr.

    12.–18. gr. laganna falla brott.


10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um Ríkisútvarpið sem hafa þann tilgang að renna styrkari stoðum undir rekstur þess og efla lýðræðislega stjórn þess með beinni þátttöku starfsmanna og kjörinna fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi í yfirstjórn þess. Frumvarpið var lagt fram á 131. löggjafarþingi á sama tíma og stjórnarfrumvarp um Ríkisútvarpið en var aldrei tekið til umræðu.
    Flutningsmenn telja að Ríkisútvarpið hafi miklum lýðræðislegum og menningarlegum skyldum að gegna auk þess sem það er öryggistæki fyrir alla landsmenn. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins og að það hafi góðar tekjur svo að það rísi undir skyldum sínum. Stöðugur og traustur rekstur þess er kjölfesta í lýðræðislegri umræðu í þjóðfélaginu og tryggir hlutlæga umfjöllun og þátttöku landsmanna í landsmálum.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á stjórnsýslu og stjórnarformi Ríkisútvarpsins sem fela í sér að dagskrárráð og framkvæmdastjórn skipi veigamikinn sess í rekstri þess.
    Frumvarpið byggist á núgildandi ákvæðum um hlutverk Ríkisútvarpsins en í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að skerpt verði á skyldum Ríkisútvarpsins til að sinna innlendri dagskrárgerð.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lögð til ný skipan og hlutverk framkvæmdastjórnar. Lagt er til að framkvæmdastjórn beri ábyrgð á rekstri Ríkisútvarpsins og í þessari grein er samsetning hennar og valdsvið skilgreint. Lagt er til að fulltrúi dagskrárráðs eigi sæti í framkvæmdastjórn með málfrelsi og tillögurétt til að styrkja tengsl innan stofnunarinnar. Flutningsmenn telja rétt að áhrif starfsmanna í stjórn stofnunarinnar verði efld til þess að stuðla að lýðræðislegum vinnubrögðum, fagmennsku og samábyrgð.
    Í 4. gr. er gerð tillaga um að útvarpsstjóri verði skipaður af ráðherra en samkvæmt tillögu dagskrárráðs. Verði frumvarpið að lögum verður tillaga dagskrárráðs bindandi en þannig er lýðræðisleg skipun tryggð betur en nú. Hlutverk dagskrárráðs við mannaráðningar verður því aðeins að gera tillögu um útvarpsstjóra.
    Samkvæmt frumvarpinu tekur dagskrárráð yfir flest störf útvarpsráðs. Lagt er til að ráðið verði skipað fulltrúum þingflokkanna, sveitarfélaga, Neytendasamtakanna og Bandalags íslenskra listamanna auk þess sem útvarpsstjóri, framkvæmdastjórar hljóðvarps og sjónvarps og fulltrúi starfsmanna eigi sæti í ráðinu. Dagskrárráð verði ekki umsagnaraðili um mannaráðningar eða skipan mála innan stofnunarinnar eins og útvarpsráð er samkvæmt gildandi lögum ef frá er talin skipun útvarpsstjóra. Höfuðhlutverk þess verði að fjalla um útsenda dagskrá og er brýnt að þannig verði búið um hnútana að gagnrýni og fyrirspurnir fái skriflega afgreiðslu frá stofnuninni. Ráðið á að endurspegla ólík sjónarmið í þjóðfélaginu en ekki valdahlutföll, auk þess sem aðild starfsmanna stuðlar að tengslum við innra starf stofnunarinnar. Við skipun í ráðið skal þess gætt að bæði byggðasjónarmið og kynjasjónarmið séu höfð til hliðsjónar.
    Ákvæði gildandi laga um framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins í 5. mgr. 9. gr. fellur brott með vísan til 3. gr. frumvarpsins. Þá er einnig gerð tillaga um breytingu á 6. mgr. 9. gr. laganna er fjallar um mannaráðningar að teknu tilliti til efnisákvæða frumvarpsins.
    Þá er í frumvarpinu lagt til að sérstök lög verði sett um afnotagjöld Ríkisútvarpsins þar sem kveðið verði nánar á um gjaldið, stofn þess og innheimtu. Hingað til hafa gjöldin alltaf verið miðuð við skráð viðtæki með þeirri undantekningu að ekki er innheimt nema eitt gjald á hverju heimili þar sem viðtæki er skráð. Hins vegar er lögð til sú grundvallarbreyting frá gildandi lögum að stofn afnotagjalds verði íbúðir og atvinnuhúsnæði eftir því sem við á. Með þessu er afnotagjaldinu fundinn nýr farvegur sem tryggir jafnræði milli notenda og Ríkisútvarpinu eðlilegar tekjur af afnotagjaldi. Því er lagt til að gjaldið verði framvegis miðað við fjölda íbúða í landinu og atvinnuhúsnæði eftir því sem við á. Því er slegið föstu að hverri íbúð fylgi réttur til að nýta þá þjónustu sem Ríkisútvarpið veitir landsmönnum. Fyrir þann rétt sé síðan greitt afnotagjald eftir nánari reglum sem settar verða í sér lögum.