Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 16. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 16  —  16. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stuðning við einstæða foreldra í námi.

Flm.: Hlynur Hallsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa starfshóp sem móti tillögur um aðgerðir til að bæta aðstöðu einstæðra foreldra í námi með fjárhagslegum og félagslegum stuðningi með það að markmiði að einstæðir foreldrar geti fylgt jafnöldrum sínum í námi á framhaldsskólastigi og stundað nám á efri skólastigum til jafns við aðra.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi af Bjarkeyju Gunnarsdóttur sem sat á þingi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í Norðausturkjördæmi. Tillagan var ekki útrædd en efni hennar er enn í fullu gildi og er hún því endurflutt óbreytt.
    Þann 1. desember 2003 voru á Íslandi 11.006 einstæðar mæður og 895 einstæðir feður með börn á framfæri, eða 11.901 alls, og hafði þá fjölgað um tæp 400 frá árinu 2002. Í þessum stóra hópi voru 143 einstæðar mæður og einn einstæður faðir 19 ára eða yngri. Samsvarandi tölur fyrir aldurshópinn 20–29 ára 1. desember 2003 eru 3.208 einstæðar mæður með börn og 80 einstæðir feður með börn.
    Hér er um gríðarstóran þjóðfélagshóp að ræða sem getur átt harla erfitt um vik þegar kemur að því að sækja sér menntun og stunda sitt nám. Eini stuðningurinn sem stendur þessum hópi til boða eru námsstyrkir úr sjóði sem komið var á fót af Rauða Krossi Íslands í samvinnu við Félag einstæðra foreldra um miðjan síðasta áratug. Úr þessum sjóði er úthlutað fimm til sjö styrkjum tvisvar á ári og eru þeir að upphæð 50–100 þús. kr. hver. Þrátt fyrir að þessir styrkir hafi án vafa komið mörgum yfir ákveðinn hjalla má ljóst vera að svo lítill námssjóður getur engan veginn gegnt því hlutverki að jafna aðstöðu barnafólks og barnlausra í framhaldsskólum eins og hér er lagt til. Undanfarin þrjú ár hafa umsóknir í sjóðinn verið á bilinu 40–60 á hverri önn þrátt fyrir að einungis félagsmenn eigi kost á úthlutunum. Þrátt fyrir allt gefur það vissa hugmynd um þörfina fyrir stuðning við þennan þjóðfélagshóp að umsóknir skuli vera 8–10 sinnum fleiri en veittir styrkir. Þess ber að gæta að rétt til að sækja um stuðning úr þessum sjóði hafa allir félagsmenn sem eru í námi, hvort heldur er á framhalds- eða háskólastigi, í verknámi, starfsnámi eða á styttri námskeiðum. Við þetta bætist að sjóðurinn er nú um það bil að tæmast og framtíð hans óvissu háð.
    Ef litið er nánar á fjölda einstæðra foreldra í námi og notast við fyrrnefnda skiptingu í aldurshópa sést að aðgerða er þörf. Einstæðar mæður skila sér illa í framhaldsskólanám, aðeins 32,9% þeirra sem eru 19 ára eða yngri stunda nám á framhaldsskólastigi. Aftur á móti er tiltölulega stór hópur á aldrinum 20–29 ára enn í framhaldsskóla, eða tæp 16%. Þá eru rúm 4% einstæðra mæðra 30 ára og eldri við nám á framhaldsskólastigi. Ekki verður dregin önnur ályktun af þessari tölfræði en sú að einstæðar mæður dragist verulega aftur úr jafnöldrum sínum í námi. Hlutfall einstæðra foreldra, feðra og mæðra, á aldrinum 20–29 ára sem stunda nám á háskóla- eða sérskólastigi er álíka og í framhaldsskólunum, eða 15,1%.

Fjöldi einstæðra foreldra í nemendaskrá Hagstofu Íslands
eftir skólastigi, kyni og aldri 15. október 2003.

(Heimild: Hagstofa Íslands.)


Skólastig Aldur Samtals Feður Mæður
1 Framhaldsskólastig 19 ára og yngri 47 0 47
1 Framhaldsskólastig 20–29 ára 519 8 511
1 Framhaldsskólastig 30 ára og eldri 334 14 320
2 Sérskóla- og háskólastig 19 ára og yngri 1 0 1
2 Sérskóla- og háskólastig 20–29 ára 496 7 489
2 Sérskóla- og háskólastig 30 ára og eldri 653 29 624
3 Í námi erlendis 20–29 ára 25 3 22
4 Í námi erlendis 30 ára og eldri 26 2 24
     2.101 63 2.038
Samtals í þjóðskrá: 11.901 895 11.006

    Kostnaðurinn við að afla sér menntunar getur hæglega orðið mörgum ofviða og þarf þá ekki einstæða foreldra til. Hins vegar gefur auga leið að fjárhagsstaða þeirra er yfirleitt erfiðari en vísitölunámsmannsins ef svo mætti að orði komast. Lánasjóður íslenskra námsmanna hleypur undir bagga með skólafólki upp að vissu marki en það takmarkast við háskólanám og það sérskólanám sem telst lánshæft samkvæmt reglum lánasjóðsins. Út af stendur allt almennt nám á framhaldsskólastigi og kemur það afar illa við einstæða foreldra sem hafa orðið að gera hlé á skólagöngu sinni vegna fjölskylduaðstæðna. Eðlilegt væri að sá starfshópur, sem hér er gerð tillaga um, færi vandlega yfir það hvort ekki þurfi að breyta lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna á þann veg að námslán verði einnig veitt til foreldra sem eru að hefja nám á framhaldsskólastigi á nýjan leik.
    Að fleiru er að hyggja en fjárhagslegum hliðum þessa máls. Félagslegar aðstæður verða að vera þannig að einstæðir foreldrar geti yfir höfuð sinnt sínu námi. Þar verður einkum að staldra við húsnæðismál, dagvistun og leikskólamál. Verðlag á almennum leigumarkaði hér á landi er með þeim hætti að slíkt húsnæði er engan veginn á færi venjulegra einstæðra foreldra ætli þeir sér að taka nám fram yfir vinnu. Víst er að margir eiga ekki annarra kosta völ en að búa í foreldrahúsum til að láta enda ná saman þótt sú leið sé ekki endilega ávísun á betri aðstæður til að sinna t.d. heimanámi.
    Einstæðum foreldrum er víða léttur róðurinn með lægri leikskólagjöldum en almennt tíðkast og er það vel þótt gjaldfrjálsir leikskólar séu markmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til framtíðar litið. Hins vegar þarf ekki síður að huga að leiðum til að auðvelda einstæðum foreldrum í námi að fá inni á leikskólum og í dagvistun fyrir börn sín.
    Hér hefur aðeins verið stiklað á helstu þáttum sem þurfa að koma til skoðunar ef jafna á aðstöðu einstæðra foreldra og annarra landsmanna til að afla sér menntunar. Við viljum öll státa af jafnrétti til náms í okkar þjóðfélagi og það felur m.a. í sér greiðan aðgang að námi á framhalds- og háskólastigi án tillits til efnahags, búsetu eða fjölskylduaðstæðna.