Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 25. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 25  —  25. mál.
Tillaga til þingsályktunarum fullorðinsfræðslu.

Flm.: Einar Már Sigurðarson, Björgvin G. Sigurðsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir,
Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar,
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson,
Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir,
Mörður Árnason, Rannveig Guðmundsdóttir, Valdimar L. Friðriksson,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta semja og leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um fullorðinsfræðslu með það að markmiði að efla og treysta fullorðinsfræðslu í landinu og skýra hlutverk þeirra sem að þessari menntun koma, bæði hvað varðar fjármögnun og námsframboð. Við undirbúning lagafrumvarpsins verði haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, samtök sveitarfélaga og menntastofnanir. Lagafrumvarpið verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2006.

Greinargerð.


    Lykilatriði varðandi uppbyggingu þekkingarsamfélags og mannauðs er stóraukin áhersla á fullorðinsfræðslu og símenntun – menntun alla ævi. Stöðugt hraðari samfélagsbreytingar og ný tækni gera kröfu um stöðuga endurnýjun og nýsköpun þekkingar fyrir einstaklinga, atvinnulífið og samfélagið í heild.

Þróunin.
    Á síðustu árum hefur orðið mikill vöxtur á þessu sviði hér á landi. Margt áhugavert hefur komið fram á sjónarsviðið og er vel gert. Mestur hefur vöxturinn verið varðandi endur- og eftirmenntun fyrir háskólamenntaða og tæknifólk af ýmsu tagi. Þótt einnig hafi orðið mikil þróun varðandi framboð á menntun fyrir fólk með minni menntun hefur það ekki náð að fylgja eftir þróuninni á öðrum sviðum. Þannig gildir að þeir fá mesta endur- og eftirmenntun og fullorðinsfræðslu sem hafa mesta menntun fyrir. Þessi þróun er hættuleg og ýtir undir ójöfnuð ef allir hafa ekki jöfn tækifæri.
    Móta þarf stefnu varðandi fullorðinsfræðslu almennt. Skilgreina þarf hverjir eigi að bera ábyrgð á hvaða þáttum hennar og hvernig eigi að fjármagna hana. Slík stefna þarf að fela í sér hvata til að boðið sé upp á sem fjölbreyttasta fullorðinsfræðslu og símenntun og hvata til einstaklinga að sækja sér slíka menntun.
    Efla þarf fullorðinsfræðslu, endur- og eftirmenntun og gera hana markvissari en nú er, annars vegar út frá almennum þörfum einstaklinga fyrir nýja og breiðari þekkingu og hins vegar út frá þörfum atvinnulífsins fyrir meiri og markvissari þekkingu og hæfni í starfi. Oft fara þessi tvö markmið saman og mikilvægt er að þau fylgist að, en útiloki ekki hvort annað. Þannig styrkir almenn menntun og frístundanám af ýmsu tagi einstaklinga í starfi, um leið og hún eflir þá og eykur möguleika þeirra sem einstaklinga.

Ábyrgð og fjármögnun.
    Mikilvægt er að skilgreina hver ber ábyrgð og hvernig fjármagna skuli fullorðinsfræðslu almennt. Hér eru nokkrar hugmyndir nefndar:
     *      Fullorðinsfræðsla sem miðar að því að efla einstaklinga til að vera fullgildir og virkir þátttakendur í samfélaginu er á sameiginlegri ábyrgð samfélagsins, einstaklinga og atvinnulífsins. Mikilvægt er að samfélagið hafi frumkvæði og hvetji einstaklinga til að sækja sér slíka menntun. Hér geta opinber framlög til fullorðinsfræðslu og einstaklingsbundnir sparnaðarreikningar (menntareikningar) með framlagi frá atvinnurekendum og samfélaginu (í gegnum mótframlög og/eða skattaívilnanir) verið farsæl leið.
     *      Endur- og eftirmenntun sem miðar að því að efla almenna tækniþekkingu er á sameiginlega ábyrgð atvinnulífsins, samfélagsins og einstaklinga. Gagnvart þeim sem hafa góðan grunn á þessu sviði hlýtur atvinnulífið sjálft að bera meginþungann. Gagnvart þeim sem standa höllum fæti er nauðsynlegt að samfélagið axli ábyrgðina. Hér gegna fræðslusjóðir og fræðslustofnanir atvinnulífsins lykilhlutverki. Jafnframt þarf að tryggja sérstaklega möguleika þeirra sem hafa verið heima vegna umönnunar barna, verið lengi frá vinnu vegna veikinda eða hafa af öðrum ástæðum lítil og veik tengsl við vinnumarkaðinn. Ábyrgðin gagnvart þessum hópi liggur sameiginlega hjá ríki og sveitarfélögum.
     *      Endur- og eftirmenntun sem miðar að mjög sértækri verk- og tækniþekkingu í einstökum fyrirtækjum verður að vera á ábyrgð og kostnað fyrirtækjanna sjálfra.
     *      Fullorðinsfræðsla sem miðar að því að jafna menntunarstig fólks sem komið er á vinnumarkaðinn og auka almennt menntunarstigið í landinu kallar á ríka þátttöku og frumkvæði samfélagsins með þátttöku atvinnulífs og einstaklinga.
    Þegar vísað er til ábyrgðar og fjármögnunar fullorðinsfræðslu frá samfélaginu er nauðsynlegt að greina hvar ábyrgð og verkaskiptingin á milli ríkissjóðs og sveitarfélaganna liggur.

Aðferðir.
    Raunfærnimat er mikilvægt tæki í fullorðinsfræðslu, ekki aðeins fyrir þá sem hafa litla grunnmenntun og þurfa að bæta sig á því sviði. Raunfærnimat er mikilvæg aðferð til að meta styrkleika og veikleika í þekkingu einstaklinga, hvort heldur þegar þeir vilja afla sér frekari menntunar eða við mat á starfshæfni.
    Færnimöppur eru önnur aðferð til að halda utan um þekkingu og reynslu fólks. Þar er safnað saman upplýsingum um menntun og starfsreynslu viðkomandi, úr formlega menntakerfinu, óformlega menntakerfinu og annar staðar frá.
    Raunfærnimat og færnimöppur eru þannig mikilvæg verkfæri til að greina þekkingu starfsmanna og mannauðinn í atvinnulífinu og samfélaginu almennt. Þau eru einnig mikilvæg tæki til að efla sjálfsvitund einstaklinga þar sem þessi verkfæri eru til þess fallin að draga fram styrkleika viðkomandi.
    Þá er mikilvægt að þróa náms- og kennsluaðferðir sem best henta við fullorðinsfræðslu almennt og fyrir þá sem hafa stutta skólagöngu eða hafa ekki stundað nám í langan tíma.