Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 29. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 29  —  29. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um könnun á viðhorfum og væntingum til stjórnmálaþátttöku, áhrifa og valda kvenna.

Flm.: Jónína Bjartmarz, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir,


Guðrún Ögmundsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Gunnar Örlygsson,
Magnús Stefánsson, Siv Friðleifsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon.


    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd er kanni viðhorf til kvenna í stjórnmálum, til áhrifa kvenna og valda og til gildis og þýðingar stjórnmálaþátttöku kvenna fyrir samfélagið. Nefndin kanni sérstaklega afstöðu almennra kjósenda, karla og kvenna, en leiti jafnframt eftir sjónarmiðum kvenna sem tekið hafa þátt í stjórnmálastarfi, svo og viðhorfum fjölmiðla, þ.e. blaðamanna og þáttastjórnenda af báðum kynjum.
    Ráðherra gefi Alþingi skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar og mat á þeim fyrir 1. desember 2006.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillagan var flutt á 131. löggjafarþingi en varð ekki útrædd og er hún því endurflutt. Greinargerðin sem fylgdi þá var svohljóðandi:
    „Jafnræði með körlum og konum á vettvangi stjórnmálanna snýst, eins og á öðrum sviðum, um að samfélaginu nýtist sá auður sem býr í krafti kvenna. Í orði ríkir um það almenn sátt í íslensku samfélagi að það sé bæði eðlilegt og sanngjarnt að konur og karlar komi jafnt að allri stefnumótun og ákvarðanatöku, áhrifum og völdum. Raunin er hins vegar önnur og eru Íslendingar vel meðvitaðir um það ef marka má Gallup-könnun sem gerð var haustið 2003. Þar kom fram að 83,9% þeirra sem spurðir voru töldu stöðu karla vera betri en stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Á vettvangi stjórnmálanna hefur hægt miðað við að ná því markmiði að tryggja jöfn lýðréttindi kvenna og karla og mun hægar á Íslandi en hjá nánustu frændþjóðum okkar, sem hafa í mun meira mæli beitt sérstökum úrræðum, eins og kynjakvótum og fléttulistum, til að tryggja aukinn hlut kvenna. Tölulegar kyngreindar upplýsingar og staðreyndir sýna svart á hvítu hver staða kvenna er, þær sýna afturför á ákveðnum sviðum og vekja jafnframt ugg um hvert stefnir.
    Annars vegar eru upplýsingar sem einar og sér sýna mjög sterka og þýðingarmikla stöðu kvenna í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Marktækt fleiri konur en karlar ljúka námi í framhaldsskólum, sérskólum og háskólum, þar sem hlutur kvenna er 63%. Menntun kvenna vegur því þyngra en karla fyrir mannauðinn sem talinn er grunnurinn að samkeppnishæfni þjóðarinnar. Íslenskar konur eiga hlutfallslega næstflest börn allra kvenna í Evrópu en barneignir eru ráðandi þáttur fyrir efnahagslega afkomu vegna aldurssamsetningar þjóðarinnar. Þá er atvinnuþátttaka kvenna meiri hér en í nokkru öðru OECD-ríki, eða 83%. Enn eru ekki merki um það hér að konur velji að eiga ekki börn til að geta óhindrað einbeitt sér að því að nýta menntun sína og ná frama í starfi, sem er orðið áhyggjuefni í sumum nágrannalöndum okkar.
    Hins vegar sýna staðreyndir og tölulegar upplýsingar hve illa konur standa gagnvart öllum áhrifum og völdum í samfélaginu. Innan stjórnsýslunnar eru aðeins tvær konur ráðuneytisstjórar, aðeins 15 deildarstjórar af 60 eru konur og meðaltalshlutur kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneyta er aðeins 30%. Engin kona er forstjóri eða stjórnarformaður í 10 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum né 10 stærstu fjármálafyrirtækjunum, en í fyrra tilvikinu eru tvær konur í stjórn af 55 og í því síðara 6 konur af 52. Í 50 stærstu íslensku fyrirtækjunum er aðeins einn kvenforstjóri og einn kvenstjórnarformaður. Af samanlagt 274 stjórnarmönnum í þessum 50 fyrirtækjum eru 25 konur. Ef litið er fram hjá lengd vinnutíma þá námu laun kvenna 2002 aðeins 59% af launum karla og hefur hlutfallið lækkað úr 61% árið 2000. Síðast en ekki síst var hlutur kvenna í sveitarstjórnum 2002 31,1% sem var 3% fjölgun frá kosningunum 1998 en konum fækkaði hins vegar á Alþingi í kosningunum 2003 úr 36,5% við lok kjörtímabilsins á undan í 30,2%.
    Í sjálfu sér er enginn ágreiningur um formleg markmið og leiðir í baráttunni fyrir jöfnum rétti og jafnri stöðu karla og kvenna. Jafnréttisáætlanir hafa verið samþykktar einróma af þingheimi og almenn samstaða er um samþættingarleiðina. Lagaleg staða karla og kvenna er orðin jöfn, þ.e. eftir orðanna hljóðan, eftir að karlar fengu sama rétt og konur til fæðingarorlofs. Á hinn bóginn standa eftir fjölmörg ákvæði í lögum sem eru ókynbundin í orði en koma misjafnlega við konur og karla, svo sem ýmis ákvæði kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.
    Lítið hefur miðað í rétta átt undanfarin ár í baráttunni fyrir jöfnum rétti og jafnri stöðu karla og kvenna. Auk þess þykjast margir sjá merki um bakslag á ýmsum sviðum, sem leita þurfi skýringa á, ekki síst því að þingkonum fækkaði í síðustu alþingiskosningum. Markmið þessarar tillögu er að leita að rót vandans, en tillagan er takmörkuð við könnun á stöðu kvenna í stjórnmálum og leit að ástæðum hennar í afstöðu og viðhorfum meðal almennings, kvennanna sjálfra og innan fjölmiðlanna.
    Konur hafa sýnt að þær standa körlum hvergi að baki, hvorki á vettvangi stjórnmálanna né annars staðar. Ein eða fleiri kvenfyrirmyndir eru til á nær öllum sviðum íslensks samfélags í hefðbundnum karlastörfum og stöðum. Konur hafa hin síðari ár öðru fremur gert þá kröfu að vera aðeins metnar að verðleikum og almennt ekki reynt að höfða til kjósenda sem konur, vegna kynbundinna verðleika eða sérstakra áherslna á hin svokölluðu mjúku mál. Hvorki konur né karlar hafa sérstaklega haldið á lofti árangri eða ávinningi samfélagsins af stjórnmálaþátttöku kvenna eða þeim breytingum sem orðið hafa á viðfangsefnum í stjórnmálum með auknum hlut kvenna. Altalað er að konur standi síður saman eða með öðrum konum en karlar með öðrum körlum í stjórnmálabaráttu, í prófkjörum og starfi innan stjórnmálaflokka almennt. Margir halda því fram að rýrari hlutur kvenna í stjórnmálum stafi fyrst og fremst af rýrari hlut þeirra sem félagsmanna í stjórnmálaflokkum og einnig er því oft haldið fram að starf í stjórnmálaflokkum sé allt á forsendum karla og veki mun síðar áhuga kvenna og laði þær síður að. Þá er því haldið fram að litlu skipti þó að konum fjölgi á Alþingi, jafnvel þó að þær næðu 40% hlut meðan þær vinni ekki saman þverpólitískt og verði raunverulegt pólitískt afl. Fleiri og fleiri halda því fram að kyrrstaðan undanfarin ár og bakslagið stafi öðru fremur af því að konur, með 30% hlut bæði í sveitarstjórnum og á Alþingi, séu farnar að ógna stöðu og stólum karla. Aðrir halda því fram að karlar í stjórnmálum noti konur til að sýna kjósendum jákvæða hlið sína og flokksins, þeim sé bara hossað og hampað fyrir kosningar en ýtt til hliðar og frá völdum og áhrifum að kosningum loknum. Þær vanti baklandið, sterkt bakland kvenna sem styðji þær og hvetji þær til að standa fyrir sínu. Þetta síðasta vekur spurninguna um það hvað konur standa fyrir í íslenskri pólitík í augum kjósenda. Sjá kjósendur skýrar ástæður til að styðja aukinn hlut kvenna í stjórnmálum? En óhjákvæmilega yrði það á kostnað karla því að valda- og áhrifastöður eru fyrir fram ákveðin stærð. Viðhorf kjósenda ráða í raun öllu um hvort konur ná jafnræði á við karla.
    Fjölmiðlar ráða miklu um viðhorf almennings. Bæði með því hvað þeir fjalla um og hvernig og með því sem þeir fjalla ekki um. Því vaknar áleitin spurning um kynbundin viðhorf blaðamanna og þáttastjórnenda. Hvað réð því í raun að hlutur kvenna sem þátttakenda í umræðuþáttum í undanfara síðustu alþingiskosninga var aðeins 24%, eins og rannsókn Þorgerðar Þorvaldsdóttur sagnfræðings leiddi í ljós? Gaf þessi fjórðungsþátttaka fyrir fram óyggjandi vísbendingu um hver uppskera kvenna yrði? Vegna skoðanamyndandi áhrifa fjölmiðla þykir eðlilegt að tillaga þessi taki til þess að kanna viðhorf á þeim bænum.
    Hugmyndin að viðfangsefni þessarar tillögu til þingsályktunar varð til í kjölfar málþings íslenskra, grænlenskra og færeyskra þingkvenna um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum sem haldið var á vegum færeyska þingsins í Þórshöfn á síðastliðnu sumri. Umræðurnar snerust öðru fremur um ástæður þess að ekki eru fleiri konur á þingi svo og um muninn sem er á hlut kvenna á þingum þessara þriggja landa. Gengi þingkvenna er mjög mismunandi í þeim. Konum fækkaði á Alþingi í síðustu alþingiskosningum. Þeim fjölgaði á hinn bóginn mikið á grænlenska þinginu og eru þær nú yfir 30% þingmanna, meðal annars vegna þeirrar breytingar að landið var gert að einu kjördæmi. Hins vegar eru ekki nema þrjár konur á færeyska þinginu, 9% þingmanna. Það stafar einkum af kosningafyrirkomulaginu en þær fengu samtals 20% atkvæða. Við lok málþingsins voru dregnar saman helstu áherslur í inngangserindum og umræðum. Ein þeirra laut að þörf þess að kanna viðhorf meðal kjósenda og hverjar væntingar þeirra væru til stjórnmálaþátttöku kvenna.
    Flutningsmönnum þykir vel við hæfi að Alþingi Íslendinga eigi frumkvæði að slíkri könnun sem þessar nánu frændþjóðir okkar geta síðar notið góðs af og haft til hliðsjónar við sambærilega vinnu.“
    Þingsályktunartillagan var send til umsagnar á 131. löggjafarþingi og bárust jákvæðar umsagnir. Í umsögn Jafnréttisstofu kom fram að hún teldi að tilgangur hennar þyrfti að vera ljós. Flutningsmenn telja að markmið tillögunnar komi skýrt fram í greinargerð, enda liggur í augum uppi gildi upplýsinga um viðhorf og væntingar kjósenda til stjórnmálaþátttöku kvenna því það eru kjósendur sem hafa einkum í hendi sér að veita konum brautargengi í stjórnmálum.