Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 37. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 37  —  37. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Magnús Þór Hafsteinsson, Sigurjón Þórðarson.



1. gr.

    Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, 2. tölul., sem orðast svo: Útgjöld vegna sannanlegs ferðakostnaðar til og frá vinnu sem er umfram 120.000 kr. á ári en þó aldrei hærri en 400.000 kr. á ári og er í samræmi við matsreglur fjármálaráðherra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006 og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2007.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á 130. og 131. löggjafarþingi.
    Hér er lagt til að kostnaður manna við ferðir til og frá vinnu sem er umfram 120.000 kr. verði frádráttarbær frá tekjum áður en til skattlagningar kemur, þó að hámarki 400.000 kr. á ári. Við framkvæmd ákvæðisins er gert ráð fyrir að sambærilegar reglur gildi um sönnun á útlögðum kostnaði og gilda um sönnun á kostnaði á móti ökutækjastyrkjum.
    Hér er um sanngirnismál að ræða enda um að ræða kostnað sem til fellur við öflun atvinnutekna. Eins og frumvarpið er fram sett er markmiðið einkum að koma til móts við þá sem þurfa að sækja vinnu um langan veg og bera af því mikinn kostnað.
    Frumvarp þetta samrýmist vel þeirri stefnu sem haldið hefur verið á lofti í byggðamálum og felst í því að stækka atvinnusvæði á landsbyggðinni. Mikill ferðakostnaður getur hamlað slíkri þróun og er til þess fallinn að draga úr samkeppnishæfni byggðarlaga um vinnuafl. Mikill ferðakostnaður getur einnig virkað vinnuletjandi með þeim afleiðingum að menn sjá hag sínum betur borgið með því að þiggja atvinnuleysisbætur en að sækja vinnu í næsta byggðarlag.
    Þess má geta að í Noregi eru í gildi reglur um skattalega ívilnun til þeirra sem bera mikinn kostnað af ferðalögum til og frá vinnu en aðstæður þar eru að mörgu leyti svipaðar og hér á landi.
    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2006 og komi til framkvæmda við álagningu árið 2007.