Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 57. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 57  —  57. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Flm.: Halldór Blöndal.1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 8. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Landeigendum er óheimilt að selja skotveiðimönnum heimild til að skjóta fugla á landareign sinni. Þá er skotveiðimönnum óheimilt að bjóða fé fyrir slíka heimild.

2. gr.

    Á eftir orðunum „eða merktum vegaslóðum“ í 2. málsl. 17. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: sem taldir eru upp í reglugerð sem ráðherra setur.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. tölul. 1. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Frá 1. september til 31. desember: stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, duggönd, skúfönd, hávella, toppönd.
     b.      3. tölul. 1. mgr., er verður 4. tölul., orðast svo: Frá 1. september til 31. mars: fýll, dílaskarfur, toppskarfur, súla, blesgæs, helsingi, hvítmáfur, hettumáfur, rita, skúmur, kjói. Ætíð er heimilt að skjóta kjóa og skúm nærri æðarvarpi.
     c.      Í stað dagsetningarinnar „15. október“ í 5. tölul. 1. mgr., er verður 6. tölul., kemur: 15. nóvember.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Óheimilt er að veiða fugla frá sólarlagi til sólaruppkomu.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      3. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „og lunda“ í 4. mgr. kemur: lunda, silfurmáfs og hettumáfs.
     c.      Í stað orðanna „selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf“ í 4. málsl. 6. mgr. kemur: selja né kaupa.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á 131. löggjafarþingi lagði flutningsmaður fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (386. mál) auk breytingartillögu við frumvarp ráðherra til breytinga á sömu lögum (495. mál). Frumvarp þetta gengur í sömu átt og fyrri tillögur.
    Í 1. gr. er því slegið föstu að landeigendum sé óheimilt að þiggja fé fyrir að leyfa skotveiði á villtum fuglum á landareign sinni og skotveiðimönnum sömuleiðis óheimilt að bjóða fram fé fyrir slíka heimild. Fuglar himinsins eru ekki einkaeign eins eða neins. Og nú er svo komið að dauðar rjúpur mega ekki ganga kaupum og sölum sem væri þó nær en að selja skotveiðileyfi á þær lifandi. Ekki er hægt að bera saman laxveiði og fuglaveiði af augljósum ástæðum. Og rétt er að nefna til viðbótar að laxinum klekjum við ef þess er talin þörf og gerum sitthvað annað til að tryggja viðgang hans. Engin slík ráð eru til fyrir villta fugla.
    Í 17. gr. laganna eru not vélknúinna farartækja takmörkuð við vegi og merkta vegaslóða. Þessi grein er merkingarlaus nema fyrir liggi við hvað er átt með „merktum vegaslóðum“ en því er ekki til að dreifa og er 2. gr. frumvarpsins ætlað að ráða bót á því.
    Í d-lið 3. gr. er lagt til að óheimilt sé að veiða fugla frá sólarlagi til sólaruppkomu sem er óhjákvæmilegt þar sem komin er ný tækni, nefnilega nætursjónaukar. Það hefur færst í vöxt að skotveiðimenn liggi fyrir gæsum við vötn og fljót eftir að fer að rökkva og dimmt er orðið. Þegar gæsirnar koma síðan fljúgandi ofan af heiðunum eru þær auðveld bráð, sumar falla, aðrar flögra burt helsærðar og enn aðrar sleppa eins og gengur. Atgangur eins og þessi á ekkert skylt við íþróttir eða frjálsa útivist fremur en að skríða eftir bökkum áveituskurða og skjóta endur sem þar hafa leitað skjóls.
    Í 3. mgr. 20. gr. laganna kemur fram að í varpi kríu, silfurmáfs, hvítmáfs og hettumáfs skuli heimilt að taka egg þessara fugla en þó aldrei eftir 15. júní ár hvert. Í a-lið 4. gr. frumvarpsins er lagt til að málsgreinin falli brott.
    Að öðru leyti vísast til þess sem flutningsmaður sagði við umræður um frumvarp ráðherra um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum á síðasta þingi og tiltækar eru á netinu.