Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 60. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 60  —  60. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson,


Sigurður Kári Kristjánsson, Gunnar Örlygsson.


1. gr.

    2. og 3. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga vegna samninga um rekstrarverkefni sem ríkið kann að gera við sveitarfélög eða einkaaðila og fela í sér að þeir annist lögboðna þjónustu er ríkissjóði ber að greiða fyrir.
    Endurskoðun reikninga annarra stofnana, félaga og verkefna en getið er í 1. og 2. mgr. sem rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á að hluta skal boðin út eftir ákvæðum laga um opinber innkaup og skal Ríkisendurskoðun í umboði Alþingis hafa umsjón með og annast slík útboð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007 og gilda um endurskoðun reikninga vegna rekstrarársins 2007 og síðar.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 131. löggjafarþingi (þskj. 253, 242. mál) en varð ekki útrætt.
    Í 6. gr. laga nr. 86/1997 er Ríkisendurskoðun falið að annast endurskoðun reikninga stofnana, félaga og sjóða sem rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs. Þá er Ríkisendurskoðun jafnframt falin endurskoðun sérstakra rekstrarverkefna.
    Flutningsmenn telja að Ríkisendurskoðun gegni mjög veigamiklu hlutverki og að stofnunin njóti almenns trausts bæði hjá hinu opinbera og meðal almennings. Á hinn bóginn má segja að Ríkisendurskoðun sinni nú ýmsum verkefnum sem aðrir geta unnið og jafnvel æskilegt að sjálfstætt starfandi endurskoðendur vinni. Eðlilegra þykir í því viðskiptaumhverfi sem ríkir á íslenskum markaði að endurskoðun reikninga félaga í eigu ríkissjóðs sem rekin eru sem sjálfstæðar einingar og mörg hver standa í samkeppni við einkaaðila og þar sem eignarhaldi félaga og stofnana er skipt milli ríkis og einkaaðila fari fram með sama hætti og almennt gerist, þ.e. að sjálfstætt starfandi endurskoðendur annist hana. Af þeim sökum telja flutningsmenn rétt að leggja til breytingar á lögum um Ríkisendurskoðun.
    Hluti þeirra sem 2. mgr. 6. gr. laganna nær til starfar á samkeppnismarkaði. Ekki verður séð að rök standi til þess að láta ríkisstofnun annast endurskoðun reikninga sem sjálfstætt starfandi löggiltir endurskoðendur geta sinnt. Um endurskoðendur gilda lög nr. 18/1997 og um mörg verk þeirra gilda bindandi reglur og staðlar. Því þarf vart að efast um að sjálfstætt starfandi endurskoðendur geti sinnt þeim verkum sem hér er lagt til að þeim verði falin.
    Breytingarnar sem lagðar eru til miða að því að hluti þeirra verka sem Ríkisendurskoðun sinnir nú verði boðinn út. Flutningsmenn leggja til að útboð verkanna fari fram undir umsjá Ríkisendurskoðunar. Telja flutningsmenn útboð líklegustu leiðina til að ná fram hagræðingu samfara öðrum breytingum sem hér eru lagðar til.
    Miðað er við að núgildandi ákvæði 3. mgr. 6. gr. laganna falli brott þar sem verkefnin sem Ríkisendurskoðanda er þar veitt heimild til að taka gjald fyrir skulu boðin út samkvæmt frumvarpinu.
    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2007 og taki til endurskoðunar reikninga frá og með rekstrarárinu 2007. Með því móti ætti Ríkisendurskoðun að vera skapað svigrúm til að bjóða út þjónustu í samræmi við efni laganna.