Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 178. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 178  —  178. mál.




Frumvarp til laga



um brottfall laga um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson.



Brottfall laga um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum.

1. gr.

    Lög um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum, eru felld úr gildi.

Breyting á lögum nr. 41/1919, um landamerki o.fl., með síðari breytingum.
2. gr.

    Í stað orðanna „þinglýsingar- og stimpilgjaldi“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: þinglýsingargjaldi.

Breyting á lögum nr. 51/1924, um ríkisskuldabréf.
3. gr.

    Orðið „stimpilgjalds“ í 5. gr. laganna fellur brott.

Breyting á víxillögum, nr. 93/1933, með síðari breytingum.
4. gr.

    Orðin „og stimpilgjaldi af gagnvíxlinum“ í 2. mgr. 52. gr. laganna falla brott.

Breyting á orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum.
5. gr.

    Orðið „stimpilgjaldi“ í 80. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 16/1971, um aðild Íslands
að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband.

6. gr.

    Í stað orðanna „veð- og stimpilgjöldum“ í f-lið 34. gr. laganna kemur: veðgjöldum.

Breyting á lögum nr. 54/1973, um norrænan tækni- og iðnþróunarsjóð.
7. gr.

    2. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 18/1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði,
með síðari breytingum.

8. gr.

    7. tölul. 3. gr. laganna orðast svo: Að lækka þinglýsingargjöld vegna stofnlána sem félagið tekur í sambandi við byggingu verksmiðjunnar.

Breyting á lögum nr. 4/1978, um aðild Íslands
að alþjóðasamningi um ræðissamband.

9. gr.

    Í stað orðanna „veðmála- og stimpilgjöldum“ í f-lið 1. mgr. 49. gr. laganna kemur: og veðmálagjöldum.

Breyting á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum.
10. gr.

    Orðið „stimpilgjöldum“ í 5. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 65/1982, um skattskyldu lánastofnana,
með síðari breytingum.

11. gr.

    6. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.
12. gr.

    Orðin „stimpilgjöldum vegna lána sem fyrirtækið tekur eða vegna eignaafsala til fyrirtækisins“ í 16. gr. laganna falla brott.

Breyting á lögum nr. 4/1987, um Þróunarsjóð
fyrir Færeyjar, Grænland og Ísland.

13. gr.

    Orðin „stimpilgjöldum og öðrum“ í 4. gr. laganna falla brott.

Breyting á lögum nr. 14/1989, um norrænan þróunarsjóð.
14. gr.

    Orðin „stimpilgjöldum og öðrum“ í 4. gr. laganna falla brott.

Breyting á lögum nr. 102/1990, um norrænt
fjármögnunarfélag á sviði umhverfisverndar.

15. gr.

    Orðin „stimpilgjöldum og öðrum“ í 4. gr. laganna falla brott.

Breyting á lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála,
með síðari breytingum.

16. gr.

    Í stað orðanna „stimpilgjald og þinglýsingar“ í 2. mgr. 85. gr. laganna kemur: þinglýsingargjald.

Breyting á lögum nr. 34/1992, um Jarðasjóð, með síðari breytingum.
17. gr.

    Orðin „stimpil- og“ í 1. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

Breyting á lögum nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands,
með síðari breytingum.

18. gr.

    2. málsl. 22. gr. laganna fellur brott.

Breyting á gildandi ákvæðum laga nr. 97/1993,
um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum.

19. gr.

    78. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð
sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

20. gr.

    16. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 146/1995, um Bjargráðasjóð, með síðari breytingum.
21. gr.

    Orðin „stimpilgjöldum og“ í 14. gr. laganna falla brott.

Breyting á lögum nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka
atvinnulífsins hf., með síðari breytingum.

22. gr.

    Lokamálsliður 2. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð
atvinnulífsins, með síðari breytingum.

23. gr.

    Síðari málsliður 17. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga
um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

24. gr.

    7. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka
eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, með síðari breytingum.

25. gr.

    Í stað orðanna „þinglýsingar- og stimpilgjöld“ í 3. mgr. 18. gr. laganna kemur: þinglýsingargjöld.

Breyting á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.
26. gr.

    2. mgr. 36. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 104/2001, um húsafriðun.
27. gr.

    Orðin „stimpilgjöld eða“ í 20. gr. laganna falla brott.

Breyting á lögum nr. 105/2001, um flutning menningarverðmæta úr landi
og um skil menningarverðmæta til annarra landa.

28. gr.

    Orðin „stimpilgjöld eða“ í 10. gr. laganna falla brott.

Breyting á þjóðminjalögum, nr. 107/2001.
29. gr.

    Orðin „stimpilgjöld eða“ í 26. gr. laganna falla brott.

Breyting á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis
um Orkuveitu Reykjavíkur, með síðari breytingum.

30. gr.

    Lokamálsliður 10. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 40/2002, um fasteignakaup.
31. gr.

    Í stað orðsins „stimpilgjöld“ í síðari málslið 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: þinglýsingargjöld.

Breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.
32. gr.

    Síðari málsliður 5. mgr. 73. gr. laganna fellur brott.

33. gr.

    2. málsl. 4. mgr. 106. gr. laganna fellur brott.

34. gr.

    115. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 12/2003, um heimild til samninga
um álverksmiðju í Reyðarfirði, með síðari breytingu.

35. gr.

    8. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.
36. gr.

    6. mgr. 23. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt
og eignarskatt, með síðari breytingum.

37. gr.

    Í stað orðanna „stimpilgjöld og þinglýsingarkostnað“ í 1. tölul. 1. mgr. 49. gr. laganna kemur: þinglýsingarkostnað og opinber gjöld.

Breyting á lögum nr. 99/2004, um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa,
með síðari breytingum.

38. gr.

    Orðið „stimpilgjald“ í e-lið 2. mgr. 11. gr. laganna fellur brott.


Breyting á lögum nr. 136/2004 um Lánasjóð sveitarfélaga.
39. gr.

    9. gr. laganna fellur brott.


Gildistaka.
40. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.

Greinargerð.


    Mál þetta var áður lagt fram á 130. og 131. löggjafarþingi.
    Í gildandi lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, er gert ráð fyrir að greitt sé stimpilgjald af íslenskum viðskiptaskjölum. Gjaldið er mishátt eftir skjölum.
    Skattheimta á borð við innheimtu stimpilgjalda hefur verið á hröðu undanhaldi í OECD- ríkjum síðustu áratugi. Slík skattheimta hefur neikvæð áhrif, t.d. mismunar hún aðilum innan lands og veikir samkeppnisstöðu fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum. Eins og íslenskt viðskiptaumhverfi hefur þróast er óhætt að halda því fram að stimpilgjöldin séu bein samkeppnishindrun fyrir íslensk fjármálafyrirtæki, sem og íslenska útgefendur verðbréfa sem hyggjast skrá þau á erlendum mörkuðum. Jafnframt má halda því fram að með tilkomu rafrænnar eignarskráningar verðbréfa sé hlutverki stimpilskyldu í raun lokið. Ekki er hægt að stimpla rafræn verðbréf, auk þess sem ekki er um skjöl í eiginlegri merkingu þess orðs að ræða. Þá er einnig á það að líta að stimpilgjöld geta lagst mjög þungt á þá sem kaupa sér húsnæði, sérstaklega þá sem eru að festa sér húsnæði í fyrsta sinn og þurfa að teygja sig svo langt sem þeir geta, t.d. ungt barnafólk. Þá benda flutningsmenn jafnframt á að óeðlilegt sé að við skuldbreytingar á lánum sem fjölskyldur hafa tekið sé stimpilgjald innheimt hvað eftir annað. Þarna er á ferðinni gjaldtaka sem er langt umfram það sem þjónustan kostar í raun.
    Tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi eru samkvæmt fjárlögum þessa árs áætlaðar á greiðslugrunni 4.600 millj. kr. og 6.000 millj. kr. samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2006.
    Undanþágur frá greiðslu stimpilgjalda er víða að finna í lögum og hefur það gert innheimtu þeirra flókna. Þá getur aukning rafrænna viðskipta einnig gert innheimtu gjaldanna vandasama og í sumum tilfellum nokkuð hjákátlega þar sem engin eiginleg stimplun fer fram í slíkum viðskiptum.
    Við niðurfellingu laga um stimpilgjald er nauðsynlegt að breyta með bandormi ákvæðum fjölmargra annarra laga sem kveða á um greiðslu stimpilgjalds. Í flestum þeirra lagaákvæða sem bandormurinn snertir er veitt undanþága frá greiðslu stimpilgjalda. Í nokkrum þeirra er þó kveðið á um að krafa um stimpilgjald skuli miðast við annað hlutfall en ákveðið er í lögum um stimpilgjald og er þá oftast um að ræða ívilnanir til handa erlendum aðilum vegna beinna fjárfestinga hér á landi. Þessir aðilar munu því njóta verulegrar ívilnunar líkt og aðrir verði frumvarp þetta að lögum og því geta stjórnvöld í einstaka tilfellum þurft að taka samninga við slíka aðila til endurskoðunar.