Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 191. máls.

Þskj. 191  —  191. mál.



Frumvarp til laga

um fjarskiptasjóð.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




    1. gr.
Fjarskiptasjóður.

    Stofna skal sérstakan sjóð, fjarskiptasjóð, sem hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála á grundvelli fjarskiptaáætlunar. Sjóðurinn er eign ríkisins. Varsla hans og dagleg umsýsla heyrir undir samgönguráðuneytið.

2. gr.
Hlutverk.

    Hlutverk sjóðsins er að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna, enda sé kveðið á um þau í fjarskiptaáætlun, og ætla má að ekki verði í þau ráðist á markaðsforsendum.

3. gr.

Stjórn.


    Samgönguráðherra skipar fimm menn í stjórn fjarskiptasjóðs, þar af formann og varaformann, auk varamanna. Skipunin gildir til þriggja ára í senn.
    Stjórn sjóðsins skal hafa yfirumsjón með fjármálum fjarskiptasjóðs í samræmi við hlutverk sjóðsins. Stjórn sjóðsins er jafnframt verkefnastjórn fjarskiptaáætlunar og skal hún skila skýrslu um starfsemi sjóðins til samgönguráðherra sem leggur hana fyrir Alþingi til upplýsingar.

4. gr.
Fjármögnun verkefna.

    Stjórnin ákveður framlög úr sjóðnum í samræmi við hlutverk sitt og fjarskiptaáætlun og semur greiðsluáætlun þar um innan heimilda fjárlaga. Stjórnin getur sett nánari reglur um framkvæmd einstakra verkefna, þar á meðal um faglegt eftirlit með verkefnum og framvindu þeirra. Stjórnin getur ákveðið tilfærslu fjármuna milli ára og/eða einstakra verkefna ef nauðsyn krefur.

5. gr.
Umsýsla og eftirlit.

    Þeir sem fá úthlutað fé úr fjarskiptasjóði skulu gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum sjóðstjórnar.
    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með framkvæmd verkefna sjóðsins sem njóta styrkja. Um framkvæmd útboða og eftirlit fer samkvæmt ákvæðum fjarskiptalaga.

6. gr.

Tekjur.


    Tekjur fjarskiptasjóðs eru framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis og tekjur af ávöxtun fjármuna sjóðsins.

7. gr.
Kostnaður af rekstri.

    Fjarskiptasjóður ber allan kostnað af starfsemi sinni.

8. gr.
Reglugerðarheimild.

    Samgönguráðherra er heimilt að kveða nánar á um skipulag sjóðsins og framkvæmd laga þessara með reglugerð.

9. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög þessi falla úr gildi í árslok árið 2011, inneign sjóðsins eftir uppgjör verkefna við þau tímamót rennur í ríkissjóð.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samgönguráðherra lagði fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010 sem samþykkt var 11. maí sl. Með samþykkt fjarskiptaáætlunar var lagður grunnur að stefnumótun stjórnvalda og aðkomu þeirra að uppbyggingu ýmissa þátta upplýsingasamfélagsins til næstu ára. Samhliða samþykkti Alþingi breytingar á fjarskiptalögum sem lögfesta gerð fjarskiptaáætlunar og endurskoðun hennar í ljósi þróunar og breyttra aðstæðna.
    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. sem forsætisráðherra leggur fram. Með því er skotið stoðum undir ályktun Alþingis um stefnu í fjarskiptamálum með stofnun sérstaks sjóðs til að ráðstafa fjármunum til framkvæmda á þessu sviði, svo og til að setja sjóðnum stjórn og skipulag. Gerð er tillaga um að sjóðurinn heyri stjórnskipulega undir samgönguráðuneytið.
    Ríkissjóður leggur sjóðnum til stofnfé að fjárhæð 2.500 millj. kr., sbr. framangreint frumvarp. Stjórn sjóðsins ákveður greiðslu fjárins til einstakra verkefna í samræmi við fjarskiptaáætlun og ákvæði fjarskiptalaga.
    Samgönguráðherra skipar stjórn sjóðsins sem jafnframt skipar verkefnastjórn. Verkefnastjórn hefur yfirumsjón með framkvæmd fjarskiptaáætlunar fyrir hönd ráðuneytisins og ber ábyrgð á störfum hennar. Verkefnisstjórnina skipar fimm manna hópur, auk þess sem tilnefndir verða tengiliðir frá stofnunum eða öðrum ráðuneytum vegna framkvæmdar einstakra verkefna sem undir þau heyra.
    Meginreglan verður að framlög taki mið af fjarskiptaáætlun og verði í samræmi við nánari útfærslu verkefna hverju sinni. Mikilvægt er að stjórn sjóðsins setji sér skýrar reglur um greiðslur úr sjóðnum, m.a. í samræmi við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að verja 2.500 millj. kr. til uppbyggingar á sviði fjarskiptamála er í samræmi við um fjarskiptaáætlun sem skilgreinir aðkomu og markmið stjórnvalda á þessu sviði til næstu ára. Með áætluninni er stefnt að því að auka samkeppnishæfni Íslands og stuðla að framþróun atvinnulífsins. Í þessum tilgangi er stofnaður sérstakur sjóður til að halda utan um fjárveitingar ríkisins til fjarskiptaáætlunar.
    Meginmarkmiðin eru m.a. stóraukin uppbygging GSM-senda á hringveginum, helstu stofnvegum og á fjölförnum ferðamannastöðum, dreifing stafræns sjónvarps um gervihnött, með stórbætta þjónustu fyrir sjófarendur að leiðarljósi og öflug uppbygging á háhraðatengingum á þeim svæðum sem fjarskiptafyrirtækin hafa ekki þjónað út frá markaðslegum forsendum hingað til.

Um 2. gr.


    Í greininni er hlutverk sjóðsins skýrt en honum er ætlað að standa straum af kostnaði við nauðsynlega uppbyggingu fjarskiptakerfis í samræmi við fjarskiptaáætlun. Áætlað er að greiða fyrir verkefni fjarskiptaáætlunar sem eru til almannaheilla, í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum og ætla má að skili ekki arði. Hér er fyrst og fremst miðað við stofnkostnað en ekki þjónustu.

Um 3. gr.


    Ráðherra skipar stjórn sjóðsins sem hefur umsjón með ráðstöfun fjármuna í samræmi við fjarskiptaáætlun. Auk þess er stjórninni ætlað að vera í náinni samvinnu við Póst- og fjarskiptastofnun og aðra sem hafa með framkvæmd einstakra verkefna að gera.
    Gert er ráð fyrir að stjórn sjóðsins, sem jafnframt skipar verkefnisstjórn um framkvæmd fjarskiptaáætlunar, skili skýrslu um starfsemi sjóðsins til samgönguráðherra sem leggur hana fyrir Alþingi ár hvert.

Um 4. gr.


    Stjórn sjóðsins er ætlað að ákveða framlög úr honum í samræmi við fjarskiptaáætlun og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og þær reglur sem hún setur sér.

Um 5. gr.


    Í greininni er kveðið á um að stjórnin semji áætlun um greiðslur úr sjóðnum sem taki mið af innstæðu sjóðsins og stöðu einstakra verkefna. Í samræmi við ákvæði fjarskiptalaga sér Póst- og fjarskiptastofnun um framkvæmd útboða, samningsgerð og eftirlit með þeim.

Um 6. gr.


    Ríkissjóður leggur sjóðnum til stofnframlag 1.000 millj. kr. og auk þess 500 millj. kr. fyrir árin 2007, 2008 og 2009, í samræmi við frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.
    Gert er ráð fyrir að sjóðurinn njóti ávaxta af inneign sinni.

Um 7. og 8. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Í greininni er sólarlagsákvæði þar sem sjóðnum er markaður tími til ársloka 2011. Þá rennur inneign í honum eftir uppgjör verkefna til ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að áður liggi fyrir mat á starfsemi sjóðsins og að þá verði tekin ákvörðun um framtíð hans.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um fjarskiptasjóð.

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. sem forsætisráðherra leggur fram. Ráðgert er að verja samtals 2.500 m.kr. af söluandvirði Landssímans í fjarskiptasjóð. Á árinu 2005 verða veittar 1.000 m.kr. og á árunum 2007–2009 verða veittar 500 m.kr. árlega. Í frumvarpinu er fjallað um hlutverk sjóðsins, stjórnsýslu og fjármögnun. Samgönguráðherra skipar stjórn sjóðsins, formann, varaformann og þrjá aðalmenn auk varamanna þeirra. Áætlað er að kostnaður við rekstur sjóðsins geti numið á bilinu 10–15 m.kr. eftir umfangi aðkeyptrar þjónustu, t.d. vegna útboðs. Kveðið er á um að fjarskiptasjóður beri allan kostnað af starfsemi sinni.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs verði 2.500 m.kr. á árunum 2005–2009.