Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 223. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 223  —  223. mál.
Tillaga til þingsályktunarum stofnun alþjóðlegrar rannsóknamiðstöðvar á sviði landverndar og landgræðslu.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna möguleika á stofnun alþjóðlegrar rannsóknamiðstöðvar á Íslandi sem hafi það meginhlutverk að þróa aðferðir við rannsóknir á hnignun lands, jarðvegsrofi og endurheimt landgæða. Rannsóknamiðstöðin hafi jafnframt það hlutverk að miðla þekkingu á þessu sviði, m.a. til vísindamanna frá þróunarlöndum. Rannsóknamiðstöðin verði í Gunnarsholti.

Greinargerð.


    Ísland hefur þá sérstöðu að hafa glatað stærri hluta af þeim auðlindum sem felast í gróðri og jarðvegi en flestar ríkar þjóðir. Íslendingar eiga sér jafnframt óvenjulanga sögu hvað varðar stöðvun jarðvegseyðingar og endurreisn landgæða. Landgræðsla ríkisins er elsta stofnun heims á þessu sviði, en skipuleg barátta gegn uppblæstri lands hófst hér á landi árið 1907, áratugum fyrr en í öðrum löndum. Mikil þekking og reynsla hefur safnast saman um leiðir til að stöðva jarðvegsrof og endurreisa landkosti. Við eigum því miklu að miðla til annarra þjóða á þessum sviðum. Það kom m.a. vel í ljós þegar verkefni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins um rannsóknir á jarðvegsrofi og leiðir til að „lesa landið“ fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 1998.
    Hnignun landgæða er gríðarlegt vandamál í heiminum. Þessi vandi vex stöðugt og mun hafa mikil áhrif á ástand heimsmála næstu árin ef ekki tekst að efla varnir gegn eyðingaröflunum og vinna af meiri krafti að landbótum. Vandamálin eru erfiðust þar sem hagur íbúanna er bágastur, á jaðarsvæðum í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Vegna aðstæðna hér á landi hafa Íslendingar óvenjugóða möguleika á að rannsaka landhnignun og leiðir til úrbóta miðað við t.d. aðrar Evrópuþjóðir. Ísland staðfesti sáttmálann um varnir gegn eyðimerkurmyndun árið 1997. Íslendingar hafa samt sem áður ekki tekið nægjanlega virkan þátt í slíku starfi á alþjóðavettvangi sem er í mótsögn við mikla þekkingu okkar á þessu sviði. Íslendingar eru öflugir þátttakendur í alþjóðlegu starfi á öðrum sviðum þar sem sérstaða landsins er mikil, t.d. í tengslum við eldvirkni, jarðhita og fiskveiðar. Þetta samstarf veitir bæði hvatningu og leiðsögn um það hvernig unnt er að nýta sérstöðu Íslands hvað varðar vernd og endurreisn landkosta í alþjóðlegu samstarfi. Mikils er um vert að búa svo að faglegu landgræðslustarfi á Íslandi að unnt sé að taka þátt í öflugu alþjóðlegu vísindasamstarfi á þessu sviði. Einkum er mikilvægt að hingað geti komið sérfræðingar frá þróunarlöndunum til að afla sér þekkingar og nýrra viðhorfa á sviði endurheimtar landgæða.
    Til þess að svo megi verða þarf að auka og samræma faglegt starf við verndun og endurreisn landkosta á Íslandi með áherslu á alþjóðlegt samstarf. Því er hér lagt til að komið verði á fót alþjóðlegri rannsóknamiðstöð á þessu sviði. Rannsóknamiðstöðin hefði m.a. bein tengsl við Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskóla Íslands. Slík miðstöð gæti lagt mikla þekkingu af mörkum til þjóða sem berjast gegn eyðingu gróðurs og jarðvegs.