Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 237. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 237  —  237. mál.
Tillaga til þingsályktunarum yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir, Jón Bjarnason,


Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.    Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka auk formanns sem utanríkisráðherra skipar án tilnefningar til að hafa yfirumsjón með og vera stjórnvöldum til ráðuneytis í viðræðum við bandarísk stjórnvöld um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar samhliða brottför hersins. Nefndin kanni einnig rækilega möguleika á að auka hvers kyns borgaralega atvinnustarfsemi í tengslum við flugvöllinn og geri tillögur um aðgerðir í því skyni. Nefndin leiti eftir hugmyndum og þátttöku heimamanna á Suðurnesjum í starfi sínu og eigi við þá náið samstarf. Nefndin skili ráðherra skýrslu sem lögð verði fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2006.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en varð ekki útrædd. Hún er því endurflutt enda efni hennar í fullu gildi.
    Síðastliðin 15 ár hafa bandarísk stjórnvöld dregið mjög úr umsvifum í rekstri herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Áhugi bandarískra hermálayfirvalda á því að draga enn frekar saman seglin og leggja herstöðina jafnvel niður hefur komið skýrt fram á allra síðustu árum. Slíkt þarf ekki að koma neinum á óvart í ljósi þess hve mikið hefur dregið úr spennu í okkar heimshluta frá því sem var undir lok 9. áratugarins. Í reynd er staðan sú að herinn er og hefur verið að fara í áföngum á undanförnum árum og ekkert bendir til annars en að sú þróun haldi áfram. Samhliða henni er eðlilegt að afnot af landsvæðum, húsnæði og annarri aðstöðu verði borgaraleg og að þeir möguleikar sem þannig skapast verði nýttir til að byggja upp annars konar umsvif sem efla atvinnulíf á svæðinu.
    Gildistími síðustu bókunar sem gerð var af ríkisstjórnum Íslands og Bandaríkjanna um framkvæmd varnarsamningsins frá 1951 rann út í apríl 2001. Engum hefur dulist að íslensk stjórnvöld þrýsta á um áframhaldandi rekstur herstöðvarinnar og hafa gert að sérstöku baráttumáli að halda hér í fjórar herþotur. Þessar kröfur ríkisstjórnarinnar hafa leitt til þess að hvorki gengur né rekur í viðræðum um framhaldið og óvissan hangir yfir heimamönnum á Suðurnesjum og öðrum sem sótt hafa vinnu sína á völlinn. Á meðan fara Bandaríkjamenn sínu fram og segja upp fólki og gera breytingar í rekstri alfarið á sínum forsendum. Nýleg dæmi eru uppsagnir í slökkviliðinu og skert þjónusta við brautir flugvallarins.
    Eins og fram kemur í fylgiskjali IV hefur hermönnum á Keflavíkurflugvelli fækkað um 56% frá árinu 1990 og flugvélum herliðsins þar um 70% á sama tímabili. Þessari þróun í átt til afvopnunar ber að fagna. Jafnvel fylgismenn herstöðvarinnar hljóta að viðurkenna að þessi þróun er rökrétt í ljósi þess að sá óvinur sem notaður var til að réttlæta veru Bandaríkjahers á Íslandi er ekki lengur til staðar.
    Það gefur augaleið að fyrrgreindar breytingar hafa haft mikil áhrif á atvinnu Íslendinga af þjónustu við herinn og starfsemi sem honum tengist. Íslenskir starfsmenn hersins voru 674 um áramótin 2004–2005 og hafði þá fækkað um tæp 40% frá árinu 1990. Ef litið er til heildarfjölda þeirra starfa sem herinn ber kostnað af, þ.e. bæði starfsmanna hans og starfsfólks verktaka og stofnana sem þjónusta herinn, þá hefur þeim fækkað gríðarlega á síðustu tveimur árum. Þannig nam fækkunin á tímabilinu 30. apríl 2003 til 31. desember 2004 a.m.k. 535 störfum. Í því sambandi er afar eftirtektarvert að þessa sér ekki eins stórlega stað og ætla mætti í atvinnuleysistölum á Suðurnesjum án þess að lítið sé gert úr þeim vanda sem þetta hefur skapað, sérstaklega fyrir viðkomandi einstaklinga og fjölskyldur.
    Samdrátturinn í starfsemi herstöðvarinnar á undanförnum 15 árum og sterkar vísbendingar um enn frekari samdrátt sýna að engin framtíð er í því fyrir Suðurnesjamenn að horfa til hersins sem einnar af undirstöðum atvinnulífs á svæðinu. Þrátt fyrir að ekki séu öll kurl komin til grafar varðandi afleiðingarnar af hinni miklu fækkun frá því í apríllok 2003 má segja að skammtímaáhrif hennar bendi í það minnsta til þess að atvinnulífið á suðvesturhorninu þurfi ekki eins tilfinnanlega á herstöðinni að halda og margir hafa viljað halda fram.
    Flutningsmenn telja að nú séu nánast sögulegar aðstæður til þess að binda endi á veru herliðsins á Keflavíkurflugvelli og þær harðvítugu deilur sem um herstöðina hafa staðið á Íslandi í meira en hálfa öld. Hin langa herseta hefur markað sín spor og þær tekjur, atvinna og umsvif sem leiddi af veru hersins voru lengi vel mjög þýðingarmikill og drjúgur hluti af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins hvort sem mönnum er ljúft eða leitt að viðurkenna það. En verulega hefur dregið úr efnahagslegu mikilvægi hersetunnar. Gjaldeyristekjur sem leitt hefur af henni hafa minnkað að raungildi á undanförnum árum og hlutfallslega töluvert ef miðað er við auknar útflutningstekjur af annarri starfsemi. Þar að auki er enginn vafi á því að ýmiss konar atvinnustarfsemi gæti komið í stað þjónustu við herstöðina og auðveldað þær breytingar sem brottför hersins hefur í för með sér. Ef stjórnvöld og heimamenn taka höndum saman og skapa hagstæð skilyrði til atvinnuþróunar og nýsköpunar, m.a. með því að bjóða fram þá aðstöðu sem losnar til borgaralegrar starfsemi á Keflavíkurflugvelli samhliða áframhaldandi samdrætti og síðan brottför hersins er ekki ástæða til annars en bjartsýni í þeim efnum. Ljóst er að bæta þarf fyrir ýmis spjöll á íslenskri náttúru og leggja í vinnufrekar aðgerðir til að hreinsa þau svæði sem hafa orðið fyrir mengun af völdum hersetunnar og eðlilegt að semja um þátttöku Bandaríkjamanna í þeim kostnaði.
    Borgaraleg flugumferð um Keflavíkurflugvöll hefur aukist mjög á síðustu árum. Þannig fjölgaði t.d. komufarþegum úr 514 þús. árið 2002 í 573 þús. árið 2003 og aftur í 693 þús. á síðasta ári samkvæmt upplýsingum á vef Samtaka ferðaþjónustunnar. Heildarfjöldi farþega sem fór um Flugstöð Leifs Eiríkssonar jókst um 20% milli áranna 2003 og 2004, úr 1.370 þús. í 1.640 þús. manns. Ný spá breska fyrirtækisins BAA Plc. gerir ráð fyrir að þessi fjöldi tvöfaldist á næstu tíu árum og verði um 3,1 milljón manns árið 2015. Þetta er 10% meiri fjöldi en síðasta spá BAA hljóðaði upp á og hlýtur að vera til marks um bjarta tíma fram undan í þjónustu við borgaralega flugumferð á Keflavíkurflugvelli. Líklegt verður að telja að húsnæði og aðstaða við flugvöllinn gæti nýst á ýmsan hátt í því sambandi.
    Þó svo að flest bendi til að miðstöð innanlandsflugs verði áfram á Reykjavíkurflugvelli, a.m.k. fram um 2016, er einnig líklegt að vaxandi þrýstingur verði á uppbyggingu innanlandsflugs af landsbyggðinni sem tengist millilandafluginu í Keflavík. Slíkt tengiflug mundi gagnast mjög vel í uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni og mæta þörf fyrir að dreifa álagi af ört vaxandi ferðamannastraumi um landið. Slík tenging mundi einnig nýtast þeim íbúum landsbyggðarinnar sem ferðast til og frá landinu og eiga ekki annað erindi til Reykjavíkur en að fara þar í gegn á leið sinni til Keflavíkur.
    Vaxtarmöguleikarnir liggja þó ekki aðeins í farþegaflugi. Rétt er að vekja athygli á því að með væntanlegri aðild Rússlands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) munu þarlend stjórnvöld að öllu óbreyttu heimila flug yfir Síberíu. Þar með opnast möguleikar á nýjum og hagkvæmari leiðum fyrir alþjóðlegt fraktflug yfir norðanverða Síberíu. Keflavíkurflugvöllur gæti þá orðið tengiflugvöllur fyrir fraktflutninga milli Ameríku, Asíu og Evrópu. Einnig hefur verið bent á möguleika sem gætu falist í uppbyggingu viðhaldsaðstöðu og lagerþjónustu fyrir flug þegar mikið af hentugu húsnæði til slíkra hluta losnar með minnkandi umsvifum og að endingu brottför hersins. Ýmis annar iðnaður og þjónusta tengd flugi og ferðaþjónustu gæti án efa dafnað á flugvallarsvæðinu og nýtt aðstöðu sem losnar til borgaralegra nota þegar um slíkt semst. Enn aðrir benda á möguleika Keflavíkurflugvallar og svæðisins sem miðstöðvar fyrir hraðflutningaþjónustu.
    Loks er rétt að nefna hugmyndir sem komnar eru frá Flugvirkjafélagi Íslands um nýtingu á aðstöðu í flugskýli nr. 885, sem áður hýsti ratsjárflugvélar hersins, til þess að annast breytingar á stórum flugvélum, sbr. fylgiskjal VI. Allt sem þarf til slíkrar starfsemi er til staðar hér á landi nema nógu stórt flugskýli en kostnaður við að reisa slíka byggingu hleypur á milljörðum. Því hafa flugvirkjar horft til þess möguleika að nýta umrætt flugskýli, enda svo komið að einungis þyrlusveit hersins hefur þar aðstöðu og nýtir húsnæðið ekki nema að litlum hluta.
    Flutningsmenn þessarar tillögu hafa ávallt talað fyrir því að Ísland yrði herlaust land og hvatt til þess að Bandaríkjamönnum yrði gert að hverfa með herlið sitt af landi brott enda er herstöðin á Miðnesheiði hluti af heildarvígbúnaðarkerfi Bandaríkjamanna og NATO. Kjarnorkuvopnastefna Bandaríkjamanna og NATO er óbreytt, þ.e. að áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði (e. first use policy). Einnig er sú stefna óbreytt að veita ekki neinar upplýsingar um þann vígbúnað sem er til staðar á Keflavíkurflugvelli eða hvers konar vopn Bandaríkjaher flytur um flugvöllinn þegar svo ber undir.
    Nú er svo komið að íslensk yfirvöld sækjast eftir áframhaldandi veru herliðsins á Miðnesheiði fyrst og síðast af efnahagslegum ástæðum þótt annað sé látið í veðri vaka. Rök fyrir nauðsyn þess að hér séu fjórar gamlar óvopnaðar herþotur til loftvarna, hvað sem það kostar, halda auðvitað ekki vatni. Því þykir flutningsmönnum ástæða til að beina sjónum að efnahags- og atvinnuþættinum umfram aðra. Aldrei hefur þótt hátt risið á þeim málflutningi að hér ætti að vera erlendur her í landinu til þess eins að græða á honum peninga. Sá þáttur er nú hvort eð er orðinn óverulegur og engin ástæða til annars en bjartsýni um framtíðina á Suðurnesjum, þ.e. ef menn snúa sér að því að takast á við hana í stað þess að ríghalda í óbreytt ástand með tilheyrandi óvissu. Öll önnur rök fyrir tilvist herstöðvarinnar eru löngu fallin hafi þau einhver verið.
    Í ljósi mikilvægis málsins og með hliðsjón af því hve gæfuríkt væri ef þjóðinni auðnaðist að sameinast á ný um áherslur í þessu viðkvæma máli, sem valdið hefur deilum um hálfrar aldar skeið, er lagt til að fulltrúar allra þingflokka eigi aðild að þeim viðræðum og vinnu sem hefst í framhaldi af samþykkt tillögunnar.


Fylgiskjal I.


Varnarsamningur milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna


á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins.


    Þar sem Íslendingar geta ekki sjálfir varið land sitt, en reynslan hefur sýnt, að varnarleysi lands stofnar öryggi þess sjálfs og friðsamra nágranna þess í voða, og þar sem tvísýnt er um alþjóðamál, hefur Norður-Atlantshafsbandalagið farið þess á leit við Ísland og Bandaríkin, að þau geri ráðstafanir til, að látin verði í té aðstaða á Íslandi til varnar landinu og þar með einnig til varnar svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, með sameiginlega viðleitni aðila Norður-Atlantshafssamningsins til að varðveita frið og öryggi á því svæði fyrir augum. Samningur sá, sem hér fer á eftir, hefur verið gerður samkvæmt þessum tilmælum.

1. gr.

    Bandaríkin munu fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins og samkvæmt skuldbindingum þeim, sem þau hafa tekist á hendur með Norður-Atlantshafssamningnum, gera ráðstafanir til varnar Íslandi með þeim skilyrðum, sem greinir í samningi þessum. Í þessu skyni og með varnir á svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, fyrir augum, lætur Ísland í té þá aðstöðu í landinu, sem báðir aðilar eru ásáttir um, að sé nauðsynleg.

2. gr.

    Ísland mun afla heimildar á landsvæðum og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að í té verði látin aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, og ber Bandaríkjunum eigi skylda til að greiða Íslandi, íslenskum þegnum eða öðrum mönnum gjald fyrir það.

3. gr.

    Það skal vera háð samþykki Íslands, hverrar þjóðar menn eru í varnarliðinu, svo og með hverjum hætti það tekur við og hagnýtir þá aðstöðu á Íslandi, sem veitt er með samningi þessum.

4. gr.

    Það skal háð samþykki íslensku ríkisstjórnarinnar, hversu margir menn hafa setu á Íslandi samkvæmt samningi þessum.

5. gr.

    Bandaríkin skulu framkvæma skyldur sínar samkvæmt samningi þessum þannig, að stuðlað sé svo sem frekast má verða að öryggi íslensku þjóðarinnar, og skal ávallt haft í huga, hve fámennir Íslendingar eru, svo og það, að þeir hafa ekki öldum saman vanist vopnaburði. Ekkert ákvæði þessa samnings skal skýrt þannig, að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenskum málefnum.

6. gr.

    Samningur sá, er gerður var hinn 7. október 1946 milli Íslands og Bandaríkjanna um bráðabirgðaafnot af Keflavíkurflugvelli, fellur úr gildi við gildistöku samnings þessa, og mun Ísland þá taka í sínar hendur stjórn og ábyrgð á almennri flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Ísland og Bandaríkin munu koma sér saman um viðeigandi ráðstafanir varðandi skipulag á rekstri flugvallarins til þess að samræma starfsemi þar því, að hann er jafnframt notaður í þágu varnar Íslands.

7. gr.

    Hvor ríkisstjórnin getur, hvenær sem er, að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstjórnarinnar, farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins, að það endurskoði, hvort lengur þurfi á að halda framangreindri aðstöðu, og geri tillögur til beggja ríkisstjórnanna um það, hvort samningur þessi skuli gilda áfram. Ef slík málaleitan um endurskoðun leiðir ekki til þess, að ríkisstjórnirnar verði ásáttar innan sex mánaða, frá því að málaleitunin var borin fram, getur hvor ríkisstjórnin, hvenær sem er eftir það, sagt samningnum upp, og skal hann þá falla úr gildi tólf mánuðum síðar. Hvenær sem atburðir þeir verða, sem 5. og 6. gr. Norður- Atlantshafssamningsins tekur til, skal aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, látin í té á sama hátt. Meðan aðstaðan er eigi notuð til hernaðarþarfa, mun Ísland annaðhvort sjálft sjá um nauðsynlegt viðhald á mannvirkjum og útbúnaði eða heimila Bandaríkjunum að annast það.

8. gr.

    Samningur þessi er gerður á íslensku, og á ensku, og eru báðir textar jafngildir. Hann gengur í gildi, er hann hefur verið undirritaður af réttum yfirvöldum Íslands og Bandaríkjanna og ríkisstjórn Íslands hefur afhent ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku tilkynningu um, að samningurinn hafi verið fullgiltur af Íslands hálfu.

Gert í Reykjavík hinn 5. maí 1951.

Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands:
Bjarni Benediktsson,
utanríkisráðherra Íslands.

Fyrir hönd ríkisstjórnar Bandaríkja Ameríku:
Edward B. Lawson,
sérlegur sendiherra og ráðherra með umboði fyrir
Bandaríki Ameríku á Íslandi.Fylgiskjal II.


Bókun 1994.


(Þýdd að beiðni flutningsmanna.)    Með hliðsjón af grundvallarbreytingum sem orðið hafa á öryggisumhverfinu í Evrópu og á Norður-Atlantshafinu í kjölfar endaloka kalda stríðsins, og í samræmi við tvíhliða varnarsamninginn frá 1951, hafa ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Íslands átt viðræður um viðeigandi viðbúnað í Keflavík til varnar Íslandi. Eftirfarandi samkomulag hefur náðst:
     1.      Bandaríkin staðfesta skuldbindingar sínar samkvæmt tvíhliða varnarsamningnum frá 1951.
     2.      Íslendingar staðfesta að Bandaríkin og herir bandalagsríkjanna skuli áfram vera í Keflavíkurstöðinni á Íslandi.
     3.      Fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins og í samræmi við skyldur sínar samkvæmt Norður- Atlantshafssamningnum staðfesta Bandaríkin þá skuldbindingu sína að gera ráðstafanir varðandi varnir Íslands með fyrirvara um þau skilyrði sem sett eru fram í Norður- Atlantshafssamningnum og í tvíhliða varnarsamningnum frá 1951.
     4.      Til varnar Íslandi og því svæði sem heyrir undir Norður-Atlantshafssamninginn munu Íslendingar láta í té þá aðstöðu á Íslandi sem gagnkvæmt samkomulag er um að nauðsynleg sé samkvæmt tvíhliða varnarsamningnum frá 1951.
     5.      Báðar þjóðir staðfesta þá skuldbindingu sína að hafa með sér náið samráð varðandi öryggismál, bæði á tvíhliða grundvelli og innan NATO, meðan Bandaríkin og bandalagið laga sig að nýjum varnarþörfum í kjölfar endaloka kalda stríðsins.
     6.      Ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna telja að nýleg þróun heimsmála geri mögulegt að gera breytingar á herafla til þess að uppfylla sameiginlegar skuldbindingar sínar varðandi öryggi og varnir. Þess vegna hafa Ísland og Bandaríkin, samkvæmt varnarskuldbindingum sínum, sbr. 3. mgr., komist að samkomulagi um eftirfarandi:
                  a.      að fækka orrustuflugvélum en halda a.m.k. fjórum til þess að viðhalda virkri loftvarnagetu með bækistöð á Íslandi,
                  b.      að viðhalda í Keflavík viðbúnaði og stoðveitum sem nauðsynlegar eru til þess að halda úti orrustuflugvélum,
                  c.      að viðhalda björgunarsveitinni,
                  d.      að viðhalda flugstöð flotans,
                  e.      að viðhalda loftvarnakerfi Íslands,
                  f.      að halda áfram heræfingunum Norðurvíkingur (Northern Viking) á tveggja ára fresti,
                  g.      að leggja niður tvær litlar flotaeiningar á þeim tíma sem báðar ríkisstjórnir koma sér saman um.
     7.      Báðir aðilar samþykkja að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að minnka kostnað við rekstur Keflavíkurstöðvarinnar.
     8.      Ríkisstjórnirnar munu taka aftur upp samráðsfundi með það fyrir augum að endurskoða og komast að sameiginlegum niðurstöðum um skilmála þessa samkomulags í lok tveggja ára tímabils er hefst 1. janúar 1994. Áður en sá tími er liðinn skulu ríkisstjórnirnar skuldbinda sig til þess að kanna leiðir til þess að Ísland taki á sig aukna ábyrgð á sviði björgunarmála.

                                   William J. Perry      Jón Baldvin Hannibalsson
                                  aðstoðarvarnarmálaráðherra.     utanríkisráðherra.

Reykjavík, 4. janúar 1994.

Fylgiskjal III.


Bókun 1996.
(Þýdd að beiðni flutningsmanna.)

    Með hliðsjón af þeirri þróun sem hefur orðið í öryggismálum í Evrópu og á Norður- Atlantshafi síðan ritað var undir bókun um tvíhliða varnarsamskipti 4. janúar 1994, og í samræmi við tvíhliða varnarsamninginn frá 1951, hafa ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Íslands átt viðræður um viðeigandi viðbúnað í Keflavík til varnar Íslandi og komist að eftirfarandi niðurstöðu:
     1.      Bandaríkin og Ísland staðfesta skuldbindingar sínar samkvæmt tvíhliða varnarsamningnum frá 1951.
     2.      Báðar þjóðir staðfesta þá skuldbindingu sína að hafa með sér náið samráð um öryggismál, bæði á tvíhliða grundvelli og innan NATO.
     3.      Báðar þjóðir eru sammála um að bókunin frá 1994 hafi verið framkvæmd að fullu og með góðum árangri.
     4.      Ísland staðfestir að herafli Bandaríkjanna og bandalagsríkja skuli áfram hafa bækistöð í Keflavík.
     5.      Fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins og í samræmi við skyldur sínar samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum staðfesta Bandaríkin þá skuldbindingu sína að gera ráðstafanir varðandi varnir Íslands samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru fram í Norður-Atlantshafssamningnum og tvíhliða varnarsamningnum frá 1951.
     6.      Til varnar Íslandi og í varnarskyni fyrir það svæði sem heyrir undir Norður-Atlantshafssamninginn munu Íslendingar láta í té þá aðstöðu á Íslandi sem gagnkvæmt samkomulag er um að nauðsynleg sé samkvæmt tvíhliða varnarsamningnum frá 1951.
     7.      Með hliðsjón af bókuninni frá 1994 og til þess að staðfesta þá skuldbindingu sína að rækja sameiginlegar skyldur sínar varðandi öryggi og varnir hafa ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna komist að samkomulagi um eftirfarandi:
                  a.      að tryggja virka loftvarnagetu með því að hafa a.m.k. fjórar orrustuflugvélar á Íslandi,
                  b.      að halda áfram að reyna eftir megni að bæta aðstöðu til æfinga yfir landi og með lágflugi innan lofthelginnar,
                  c.      að viðhalda í Keflavík viðbúnaði og stoðveitum sem nauðsynlegar eru til þess að halda úti orrustuflugvélum,
                  d.      að viðhalda þyrlubjörgunarsveitinni,
                  e.      að halda áfram að kanna leiðir til þess að Ísland taki á sig aukna ábyrgð á sviði björgunarmála,
                  f.      að viðhalda flugstöð flotans,
                  g.      að viðhalda loftvarnakerfi Íslands,
                  h.      að halda áfram heræfingunum Norðurvíkingur (Northern Viking).
     8.      Báðir aðilar munu halda áfram að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að minnka kostnað á samþykktum sviðum. Í þessu skyni mun nefnd háttsettra embættismanna um lækkun kostnaðar starfa áfram á vegum aðila.
     9.      Það er ætlun ríkisstjórnanna að þetta samkomulag gildi í fimm ár frá undirritunardegi þess. Að loknum fjórum árum er hvorri ríkisstjórn um sig heimilt að fara fram á endurskoðun þess. Hafi önnur hvor ríkisstjórnin farið fram á slíka endurskoðun munu Bandaríkin og Ísland leitast við að hefja samráð um endurskoðun skilmála þessa samkomulags innan fjögurra mánaða frá dagsetningu beiðninnar um endurskoðun.

                              Halldór Ásgrímsson,     Walter B. Slocombe,
                             utanríkisráðherra Íslands.     aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Reykjavík, 9. apríl 1996.
Fylgiskjal IV.


Upplýsingaskrifstofa
varnarliðsins:


Mannafli og verktaka á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.


(Febrúar 2005.)    Í lok desembermánaðar 2004 voru alls um 1.453 hermenn í varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Ásamt fjölskyldum þeirra og um 100 bandarískum borgaralegum starfsmönnum sem annast sérhæfð störf voru samtals um 3.335 manns hér á landi á vegum varnarliðsins. Þá voru íslenskir starfsmenn 674 að tölu í lok mánaðarins.
    Fjöldi varnarliðsmanna hefur breyst eins og hér segir á undanförnum árum:

Hermenn Þar af flugher Með fjölskyldum Íslenskir starfsmenn
1. mars 1990 3.294 1.335 4.987 1.086
1. jan. 1994 2.877 1.160 5.709 910
1. júlí 1995 2.280 796 4.742 951
1. jan. 1996 2.149 687 4.440 882
1. júlí 1997 2.019 699 4.265 883
1. júlí 2000 1.900 642 4.000 916
1. okt. 2001 1.898 635 4.000 870
1. okt. 2002 1.924 632 3.953 910
1. apríl 2003 1.946 653 4.035 897
1. okt. 2003 1.907 708 4.016 894
1. jan. 2004 1.889 733 4.047 885
1. apríl 2004 1.771 706 4.066 785
1. júlí 2004 1.693 720 3.844 754
1. okt. 2004 1.554 690 3.492 712
1. jan. 2005 1.453 672 3.335 674

    Hafa ber í huga að fjöldi hermanna er nokkuð breytilegur eftir því hvort allar stöður eru mannaðar. Mannafli er jafnan í lágmarki í árslok og fjöldi íslenskra starfsmanna í hámarki á sumrin. Þá eru gjarna sveiflur í fjölda liðsmanna flughersins eftir því hversu mikill mannafli fylgir orrustu- og eldsneytisflugvélum sem hér eru starfræktar hverju sinni. Fækkun hermanna á árunum 1990 til 1994 stafaði m.a. af fækkun í flughernum, m.a. með brottför ratsjárflugvéla og fækkun orrustuþotna svo og fækkun eftirlitsflugvéla flotans. Samt sem áður jókst heildarfólksfjöldi á Keflavíkurflugvelli í fyrstu sökum 40% aukningar sem varð á íbúðarhúsnæði fyrir fjölskyldur og gátu þá allir varnarliðsmenn sem vildu haft fjölskyldur sínar hjá sér. Fækkun frá janúar 1994 stafaði af frekari fækkun í flughernum í framhaldi af samkomulagi þar um og fækkun í eftirlitsflugsveit flotans og lokun fjarskiptastöðva. Íslenskum starfsmönnum fækkaði á fyrri helmingi þessa tímabils vegna strangra aðhaldsaðgerða Bandaríkjastjórnar við ráðningar í störf sem losnuðu og lítið eitt vegna færslu þjónustustarfa til verktaka.
    Heildarmannfjöldi á vegum varnarliðsins stóð þó í stað til ársins 2004 enda var fækkun til þess tíma einkum í röðum hermanna sem dvelja í varnarstöðinni í skamman tíma án fjölskyldna og samtímis fjölgaði í fjölskylduliði hinna. Lítil öryggissveit úr landgönguliði flotans var kölluð heim árið 2003 og eftirlitsflugsveit flotans sem lauk venjubundinni sex mánaða dvöl í febrúarmánuði árið 2004 var ekki leyst af hólmi. Þá var starfsemi viðgerðarstöðvar og stjórndeildar eftirlitsflugvélanna hætt á sama ári og skýrir það fækkun liðsmanna undanfarna 12 mánuði.
    Alls hefur flugvélum varnarliðsins fækkað um 70% og hermönnum um 56% frá árinu 1990. (Flugvélum úr 37 í 10 til 12 og hermönnum úr 3.294 í 1.453.) Um 230 íslenskir starfsmenn hafa hætt störfum eða horfið á brott vegna hagræðingaraðgerða frá 1. nóvember 2003 en auk rúmlega 670 íslenskra starfsmanna varnarliðsins sjálfs starfa nú um 450 manns að jafnaði hjá verktökum og stofnunum eins og Ratsjárstofnun sem annast þjónustu við varnarliðið. Stærstu verktakafyrirtækin á Keflavíkurflugvelli eru Íslenskir aðalverktakar og Keflavíkurverktakar og annast þau fyrst og fremst verklegar framkvæmdir. Þá má telja Kögun og Olíufélagið auk annarra þjónustuverktaka. Ríkisstofnanir sem annast starfsemi tengda varnarliðinu eru auk Ratsjárstofnunar: sýslumannsembættið, flugvallarstjóri og Veðurstofa Íslands með samtals rúmlega 180 starfsmenn sem ekki eru taldir með í ofangreindri samantekt utan fáeinir lögreglumenn og tollverðir sem varnarliðið ber beinan kostnað af. Engir íslenskir starfsmenn búa á varnarsvæðinu og laun þeirra og önnur kjör eru samkvæmt samningum á íslenskum vinnumarkaði.
    Varnarliðið er samsett úr deildum bandaríska flughersins sem annast loftvarnir og Bandaríkjaflota sem annast rekstur varnarstöðvarinnar. Flotastöðin, eða flugbækistöð flotans á Keflavíkurflugvelli, rekur öll mannvirki og þjónustu á varnarsvæðinu svo sem flugvöllinn, húsnæði, veitukerfi, mötuneyti, veitingastaði, verslanir, skóla og tómstundastarfsemi af ýmsu tagi sem gerir varnarliðsmönnum og fjölskyldum þeirra kleift að lifa sem eðlilegustu lífi.
    Flestir íslenskir starfsmenn varnarliðsins starfa hjá flotastöðinni. Má þar nefna stofnun verklegra framkvæmda sem m.a. annast viðhald og rekstur mannvirkja og veitukerfa; tómstundadeild sem rekur íþrótta- og tómstundastofnanir auk veitingahúsa, skemmtistaða og ferðaskrifstofu; verslun flotans, Navy Exchange, sem býður upp á flest annað en matvöru; matvöruverslun; birgðadeild sem annast innkaup, geymslu og dreifingu á hvers kyns vörum og eldsneyti, svo og fjármáladeild að ógleymdu slökkviliðinu sem, auk þess að annast brunavarnir í mannvirkjum og flugvélum, sér um hálkuvarnir og snjóruðning á flugbrautum, afgreiðslu herflutningaflugvéla og ýmsa aðra þjónustu við flugvélar. Eru þá ótaldar margar smærri deildir flotastöðvarinnar og annarra deilda varnarliðsins sem hafa færri íslenskum starfsmönnum á að skipa. Heildarkostnaður við rekstur varnarliðsins á síðasta ári var um 18 milljarðar kr. (250 milljónir Bandaríkjadala). Tekjur íslenska þjóðarbúsins af varnarliðinu námu 1,5% af vergri landsframleiðslu árið 2003 samkvæmt upplýsingum Seðlabankans.
    Verklegar framkvæmdir á vegum varnarliðsins eru fjármagnaðar af Bandaríkjastjórn eða Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Smæstu viðhaldsverkefnin eru framkvæmd af iðnaðarmönnum varnarliðsins sjálfs, en verktakar annast stærri viðhaldsverkefni og nýbyggingar. Um verkefni sem fjármögnuð eru af Bandaríkjamönnum er samið við íslenska verktaka sem valdir eru samkvæmt útboði. Öll verkefni sem fjármögnuð eru af mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins eru boðin út, innan lands eða í öllum ríkjum bandalagsins eftir stærð verksins. Samráð er haft um umfang verkefna á vegum varnarliðsins og greinir það utanríkisráðuneytinu frá þeim framkvæmdum sem það hyggst ráðast í. Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins annast forval þeirra íslensku fyrirtækja sem sækjast eftir verksamningum og sölu á vörum og þjónustu til varnarliðsins samkvæmt ákveðnum hæfniskröfum.Fylgiskjal V.

Seðlabanki Íslands:

Viðskipti við varnarliðið.
(Febrúar 2005.)


Varnarliðsviðskipti í millj. kr. Nettótekjur af varnarliðinu.
Verk-
takar
Olíu-
félög
Skipa-
félög
Aðrar
tekjur
Tekjur
samtals

Útgjöld
Nettó-
tekjur
Gengi
USD
Í millj.
USD
% af
útflutn.
% af
VLF
1970 6 0 1 5 12 1 11 0,88 12,9 5,4 2,6
1971 5 1 1 7 14 1 13 0,88 14,8 5,8 2,3
1972 6 1 1 8 16 2 14 0,87 16,5 5,5 2,1
1973 9 1 2 8 20 2 18 0,90 20,5 4,9 1,9
1974 7 3 2 12 24 2 22 1,00 22,1 4,6 1,6
1975 19 4 5 20 48 6 42 1,54 27,3 5,8 2,1
1976 29 5 9 27 70 8 62 1,82 34,0 5,9 2,2
1977 38 8 10 40 96 7 89 1,99 44,8 6,1 2,2
1978 62 10 15 67 155 8 146 2,71 53,9 5,9 2,3
1979 59 15 16 96 187 20 167 3,52 47,4 4,3 1,8
1980 103 20 26 206 355 23 332 4,79 69,3 5,7 2,1
1981 187 35 19 302 543 46 497 7,24 68,6 5,6 2
1982 559 57 97 456 1.169 80 1.089 12,52 87,0 8,3 2,8
1983 1.303 95 176 869 2.443 287 2.156 25,00 86,2 7,9 3,3
1984 1.600 113 139 1.137 2.989 223 2.766 31,66 87,4 8 3,1
1985 1.307 185 66 1.831 3.389 267 3.122 41,47 75,3 6,2 2,6
1986 2.356 234 60 2.193 4.843 415 4.428 41,04 107,9 7 2,8
1987 2.291 260 82 2.664 5.297 507 4.790 38,60 124,1 6,5 2,3
1988 3.029 323 132 2.289 5.773 663 5.110 43,09 118,6 6 2
1989 4.060 352 252 3.529 8.193 885 7.308 57,14 127,9 6,6 2,4
1990 4.875 315 268 4.577 10.035 801 9.234 58,23 158,6 7,2 2,6
1991 4.416 294 397 5.401 10.508 1.069 9.439 59,04 159,9 7,3 2,5
1992 4.190 245 252 5.541 10.228 471 9.757 57,52 169,6 7,7 2,5
1993 3.171 224 482 5.526 9403 342 9.061 67,74 133,8 6,4 2,3
1994 2.924 - - - - - 9.546 - 136,9 5,9 2,2
1995 3.262 - - - - - 8.983 - 138,9 5,4 2
1996 3.945 - - - - - 9.902 - 148,9 5,4 2
1997 4.703 - - - - - 10.943 - 154,6 5,5 2,1
1998 4.046 - - - - - 10.344 - 145,8 4,9 1,8
1999 3.684 - - - - - 10.411 - 144,2 4,7 1,7
2000 4.253 - - - - - 11.595 - 147,4 4,8 1,7
2001 3.652 - - - - - 11.726 - 120,2 3,7 1,6
2002 3.330 - - - - - 11.310 - 124,0 3,4 1,5
2003 2.623 - - - - - 11.932 - 155,9 3,8 1,5


Fylgiskjal VI.


Guðjón Valdimarsson:

Minnisblað um atvinnutækifæri fyrir flugvirkja
og eflingu atvinnustarfsemi á Suðurnesjum.

(Maí 2004.)    Minnisblað þetta er ritað með vísan til samtals við Svein Þorgrímsson, iðnaðarráðuneyti, og varðar möguleg atvinnutækifæri fyrir flugvirkja og eflingu atvinnustarfsemi á Suðurnesjum. Undanfarna mánuði hafa umsvif ameríska hersins á Keflavíkurflugvelli minnkað og gætu dregist enn frekar saman í náinni framtíð. Herinn hefur yfir að ráða flugskýli 885, sem kæmi þá til með að standa autt, þar sem það hýsir einungis þyrlusveit hersins um þessar mundir. Miklir fjármunir hafa verið lagðir í uppbyggingu skýlisins undanfarin 10 ár og er þarna um að ræða fjárfestingu sem þjóðhagslegir hagsmunir kalla á að nýtt verði eftir föngum. Skýlið sjálft er forsenda fyrir þeirri hugmynd sem hér verður sett fram en hún byggist á því að hérlendis er gríðarleg fagþekking og hátt menntunarstig flugvirkja, á sama tíma og eftirspurn eftir flugvirkjum er ekki meiri en svo að rúmlega 100 íslenskir flugvirkjar fá ekki starf í sínu fagi.
    Hugmyndin felst í því að stofnað yrði félag á vegum sveitarfélaga á Suðurnesjum, er sérhæfði sig annars vegar í að breyta flugvélum, bæði farþegavélum og hervélum, í vöruflutningavélar og tæki hins vegar að sér viðhald flugvéla, þ.m.t. herflugvéla. Mikil eftirspurn er eftir slíkri þjónustu. Sem dæmi má nefna að 34 farþegavélum af gerðinni 757 var breytt í flutningavélar á árunum 2001–2003, þ.e. um 17 vélum á ári. Áætluð þörf fyrir slíkar breytingar næstu 20 árin er milli 30 og 40 á ári samkvæmt tímaritinu Flight International sem gefið var út í apríl sl. Núna er verið að breyta 757 farþegavél í vöruflutningavél fyrir íslenska flugfélagið Bláfugl og eru þær breytingar framkvæmdar í Bandaríkjunum. Bent skal á að 95% flugvirkja eru sérmenntaðir í Bandaríkjunum og búa yfir þeirri þekkingu sem þarf til slíkra breytinga. Leitað yrði samninga við Boeing (Israel Aircraft Industries, Singapore Technologies Aerospace) um að breyta farþegavélum í vöruflutningavélar.
    Varðandi viðhald flugvéla, þá hefur því verið sinnt hérlendis, svo sem fyrir Air Iberia, Air Holland, Air Finland og fleiri flugfélög. Þá er það þekkt að óbreyttir borgarar sjái um viðhald hervéla. Þannig mætti gera viðhaldssamning við herinn um viðgerðir á vélum NATO, að orrustuvélum undanskildum og gæti slíkur samningur verið kjölfesta fyrir starfsemi félagsins sem hér er til umfjöllunar.
    Í þessu sambandi væri nauðsynlegt að ná samningum við sveitarfélög á Suðurnesjum og Hitaveitu Suðurnesja, í samvinnu við FVFÍ, þar sem hitunarkostnaður er töluverður. Þannig yrði óskað eftir að félagið keypti umframorku af hitaveitunni sem geymd yrði í heitavatnsgeymum sem fyrir eru á svæðinu og gætu þjónað því. Í þessu sambandi mætti hugsa sér samning er kvæði á um fastar greiðslur, stigvaxandi í samræmi við umfang félagsins hverju sinni.
    
Samantekt:
Markmið.
    Markmið þessa verkefnis eru tvö: annars vegar að bæta atvinnuástand á Suðurnesjum og atvinnuástand flugvirkja, hins vegar að nýta eignir sem annars færu til spillis. Þá er og nauðsynleg forsenda að eignarhald yrði á vegum sveitarfélaganna, með aðkomu Hitaveitu Suðurnesja. FVFÍ gæti veitt ráðgjöf í upphafi en hefði ekki aðild að rekstrinum með öðrum hætti.

Leiðir.
    Forsendur fyrir því að þessi hugmynd geti orðið að veruleika eru tvær:
          Annars vegar að skýli 885 verði ekki lengur nýtt af hálfu hersins og yrði fengið hinu nýja félagi til endurgjaldslausra afnota.
          Hins vegar að samningur yrði gerður við herinn og/eða önnur flugfélög um viðhald.
    Til viðbótar kæmu verkefni vegna breytinga og í því yrðu miklir hagnaðarmöguleikar fólgnir.

Menntun.
    Við þetta má bæta að frá árinu 2000 hefur FVFÍ haft ágætt samtarf við ráðuneyti menntamála og hefur m.a. yfirtekið hluta af menntunarmálum flugvirkja, svo sem gerð og umsjón sveinsprófa og kennslu vegna þeirra. Þá er verið að leggja drög að stofnun vinnuhóps í FVFÍ sem hefur það verkefni með höndum að leita eftir samvinnu við menntamálaráðuneytið við að þróa meistaranám og samræma erlent nám íslenska menntakerfinu, auk endurmenntunar. Þá hefur FVFÍ áhuga á að taka að sér kennslu í flugvirkjun í samvinnu við fjölbrautaskólann í Keflavík.
    Eins og sjá má hér að framan vill FVFÍ leggja sitt af mörkum til stefnumótunar og starfsmöguleika fyrir flugvirkja hérlendis. Hugmyndir sem hér hafa verið settar fram eru raunhæfar en verða ekki rökstuddar frekar að þessu sinni nema forsendur og vilji samstarfsaðila liggi til þess.