Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 246. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 246  —  246. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um mat á stöðu og framtíð íslensku krónunnar.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhann Ársælsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir,


Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Björgvin G. Sigurðsson,
Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Lúðvík Bergvinsson,
Rannveig Guðmundsdóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa og leggja fyrir Alþingi skýrslu um stöðu og framtíð íslensku krónunnar. Í skýrslunni verði gerður samanburður við þann möguleika að taka upp annan gjaldmiðil hér á landi.
    Yfirstjórn og ábyrgð verkefnisins verði falin Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Seðlabanka Íslands með sérstöku samkomulagi þar sem kveðið verði á um umfang þess og aðkomu fræðimanna, stofnana og samtaka að verkefninu til ráðgjafar eða beinnar þátttöku.
    Skýrsluna skal leggja fram á Alþingi fyrir 15. október 2006.

Greinargerð.


    Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem samþykktur var á Alþingi 5. maí 1993, og þeim margháttuðu breytingum sem sigldu í kjölfar hans, var aukið til muna frelsi í viðskiptum milli Íslands og annarra landa sem eiga aðild að samningnum. Segja má að með þeirri ákvörðun hafi íslensk stjórnvöld ákveðið að láta á það reyna til fullnustu hvort þau sjálfstæðu stjórntæki sem tiltæk eru í peninga- og efnahagsmálum geti dugað til að halda viðunandi jafnvægi í viðskiptum og atvinnulífi hér á landi þrátt fyrir örsmæð íslenska hagkerfisins. Reynsla þeirra 12 ára sem liðin eru ætti að mati flutningsmanna að nægja til að meta hvernig til hefur tekist.
    Öllum er ljóst að við mjög veruleg hagstjórnarvandamál hefur verið að glíma á þeim tíma sem liðinn er. Hér hafa verið talsvert hærri vextir en tíðkast í löndunum sem samningurinn nær til. Ef aðeins er tekið mið af evrusvæðinu var raunvaxtamunurinn, sé miðað við þriggja mánaða ríkisvíxla, að jafnaði 1,7% frá 1994–2002 og fór hátt í 6% á tímabili. Eftir síðustu vaxtahækkun Seðlabankans er raunvaxtamunurinn nú um 3,2%. Auk viðvarandi og afar íþyngjandi vaxtabyrðar almennings og fyrirtækja hafa miklar sveiflur í gengi gert mönnum erfitt fyrir og er skemmst að minnast þess þegar krónan lækkaði um 30% frá vormánuðum 2000 til nóvember 2001. Í kjöfarið fylgdi umtalsverð verðbólga og samdráttur þjóðarútgjalda. Í mars 2003 var þessum miklu sveiflum í efnahagslífinu líkt við hamfarir í tímaritinu Peningamálum, sem gefið er út af Seðlabanka Íslands, og því haldið fram að þær mundu tæpast nokkurs staðar í þróuðum ríkjum teljast ,,mjúk lending“ nema á Íslandi.
    Staða mála nú er sú að gríðarháir vextir keyra upp gengi krónunnar þó að allir sem hafa þekkingu á hagstjórn séu sammála um að svo hátt gengi standist ekki til lengdar. Þetta veldur fjölda fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisiðnaði gríðarlegum vanda og hefur gert til margra ára. Atvinnurekendur í útflutnings- og samkeppnisgreinum eru flestir sammála um að þetta sé helsti og alvarlegasti vandinn í rekstri þeirra. Þetta ástand hafi staðið mest í vegi nýsköpunar og eflingar þessara greina og valdið því að fjöldi fyrirtækja hafi komist í þrot á undanförnum árum. Þá hefur hátt gengi krónunnar m.a. leitt til aukinnar einkaneyslu og innflutnings á neysluvörum með tilheyrandi viðskiptahalla.
    Fátt bendir til að betri stjórn þessara mála sé í vændum. Ráðherrar eru að vísu aftur teknir til við að tala um ,,mjúka lendingu“ en flestir munu þó sammála um að verulegur órói sé fram undan hvað varðar gengi krónunnar og að vextir verði áfram mjög háir. Eigi útflutnings- og samkeppnisgreinar að blómstra og bera uppi mannaflaaukninguna í landinu og hagvöxtinn í framtíðinni má ekki við svo búið standa. Eftir þá reynslu sem Íslendingar hafa fengið af opnun hagkerfisins á undanförnum árum er flestum ljóst að það verður að búa íslenskum fyrirtækjum sambærilegar aðstæður við þær sem gerast í samkeppnislöndunum. Traustur gjaldmiðill sem sveiflast ekki verulega úr takti við gjaldmiðla helstu viðskiptalanda okkar og sambærilegir vextir hér á landi og þar, eru mikilvægar forsendur þess að þetta takist.
    Flest fyrirtæki sem teljast stór á íslenskan mælikvarða reyna nú að tryggja sig með tilliti til viðskipta sinna erlendis. Þau treysta ekki íslensku krónunni. Flóttinn frá krónunni er því hafinn. Hvorki almenningur né smærri fyrirtæki eða einstaklingsrekstur í landinu á hins vegar greiðar flóttaleiðir frá háum vöxtum og kjaraskerðingum sem fylgja mikilli lækkun á gengi krónunnar.
    Flutningsmenn þessarar tillögu telja að nú sé kominn tími til að meta árangur hagstjórnarinnar á síðustu árum með sérstöku tilliti til gjaldmiðilsins og vaxtaþróunar. Talsvert hefur verið fjallað um mögulega upptöku evru eða tengingu krónunnar við hana og fræðimenn hafa sett fram röksemdir með og á móti hagkvæmni þess fyrir íslenskt efnahagslíf að taka upp annan gjaldmiðil. Sýnishorn af þeirri umfjöllun má sjá í fylgiskjali.
    Markmið tillögunnar er að stjórnvöld og landsmenn allir geti gert sér sem ljósasta grein fyrir þróun þessara mála á liðnum árum og í framtíðinni að óbreyttu. Til að hægt sé að leggja skynsamlegt mat á hvernig til hefur tekist og hvort óbreytt stjórntæki í hagstjórninni skili þjóðinni mestum ávinningi er nauðsynlegt að bera þá leið saman við aðra kosti, svo sem upptöku evru. Þá þarf einnig þarf að huga að öðrum leiðum sem til greina koma að mati þeirra sem besta þekkingu hafa í peninga- og efnahagsmálum.
    Flutningsmenn telja skynsamlegt að fela Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Seðlabankanum að hafa með höndum forustu og ábyrgð verkefnisins og leggja til að gert verði sérstakt samkomulag við þessar tvær stofnanir um verkið.
    Við gerð samkomulagsins er nauðsynlegt að tryggja aðkomu annarra sjálfstæðra fræðimanna sem og mikilvægra stofnana og samtaka. Í því sambandi gæti t.d. verið um að ræða innlenda sem erlenda fræðimenn og stofnanir ásamt helstu aðilum vinnumarkaðar og viðskipta hér í landinu sem stjórnendur verkefnisins telja mikilvægt að sækja ráðgjöf og þekkingu til.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal.

Arnór Sighvatsson:1

Hagkvæmt gjaldmiðlasvæði. Hversu smátt er of smátt?
(Fjármálatíðindi, 51. árg., seinna hefti, 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.