Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 93. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 258  —  93. mál.
Svarforsætisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um samráðsvettvang stjórnvalda og samtaka aldraðra.

     1.      Hvernig hefur samráði verið háttað milli stjórnvalda og samtaka aldraðra á samráðsvettvangi þessara aðila sl. þrjú ár, eftir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara frá 19. nóvember 2002 þar sem áréttaður var vilji til samráðs um aðgerðir sem snúa að aðbúnaði og skipulagi öldrunarþjónustu og hækkun á greiðslum almannatrygginga?
    Hinn 25. september 2002 skipaði ríkisstjórnin starfshóp sem ætlað var að verða farvegur formlegs samráðs stjórnvalda og Landssambands eldri borgara um breytingar á almannatryggingalögum og endurskoðun á lífeyrisgreiðslum er komi til framkvæmda á næstu árum. Þá var starfshópnum einnig ætlað að fjalla um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustu við aldraða með það að markmiði að stytta biðlista og bæta þjónustu.
    Ríkisstjórnin samþykkti 19. nóvember 2002 tillögur starfshópsins í níu liðum um aðgerðir stjórnvalda til að bæta aðstæður og lífskjör aldraðra næstu tvö til þrjú árin.
    Heilbrigðisráðherra hefur haft forgöngu um að hrinda tillögunum í framkvæmd í samráði við fjármálaráðherra og hlutaðeigandi aðila. Samtök aldraðra hafa fylgst með og fylgt eftir tillögum starfshópsins eftir því sem ástæða hefur verið til. Á þeim þremur árum sem liðin eru frá samþykkt ríkisstjórnarinnar hefur tekist að koma í framkvæmd flestum áhersluatriðunum. Nánar er greint frá framgangi tillagnanna í svari við 3. tölulið fyrirspurnarinnar hér á eftir.

     2.      Hve margir fundir hafa verið haldnir á þessum samráðsvettvangi frá 19. nóvember 2002? Hafa samtök aldraðra óskað eftir slíkum fundi? Ef svo er, hve oft? Hefur verið orðið við þeim óskum og hver voru viðfangsefni þeirra funda?
    Stjórnvöld hafa kappkostað að halda samtökum aldraðra upplýstum um framgang samkomulagsins frá 19. nóvember 2002. Heilbrigðisráðherra svo og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa átt fundi með fulltrúum samtaka aldraðra þar sem farið hefur verið yfir stöðu mála og horft til næstu áfanga. Fundir þessara aðila hafa ekki verið skráðir með formlegum hætti og fundargerðir ekki ritaðar.

     3.      Hverjum af þeim tillögum að aðgerðum stjórnvalda til að bæta aðstæður og lífskjör aldraðra, sem undirritaðar voru 19. nóvember 2002 og koma áttu til framkvæmda á næstu 2–3 árum þar á eftir, hefur ekki verið hrundið í framkvæmd? Óskað er eftir sundurliðun á hverjum einstökum þætti í tillögunum sem ekki hefur komið til framkvæmda, skýringa á ástæðum þess og upplýsingum um hvers er að vænta í þeim efnum.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði samstarfsnefnd Landssambands eldri borgara og þriggja ráðuneyta þann 31. maí 2005 til þess m.a. að fara yfir efndir á samkomulaginu frá 19. nóvember 2002.
    Nefndin er að störfum og mun skila í byrjun nóvember skýrslu um stöðu mála, þar sem farið verður nákvæmlega yfir einstaka þætti samkomulagsins og gerð grein fyrir hverjum þætti fyrir sig. Hér á eftir fer stutt greinargerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis um framvindu þeirra níu liða sem voru í áðurnefndu samkomulagi.

     1.      Lífeyrismál.
    Tryggðar lágmarkstekjur aldraðra verði hækkaðar til viðbótar við umsamdar launahækkanir í ársbyrjun 2004 og dregið úr jaðaráhrifum tekjutenginga. Greiðslurnar hækki sem hér segir:
     .      l. janúar 2003 hækki tekjutrygging um 3.028 kr. og verður frá þeim tíma 38.500 kr. í stað 34.372 kr. sem nú er.
     .      Frá sama tíma hækki tekjutryggingarauki um 2.255 kr. og verður frá þeim tíma 18.000 kr. fyrir einhleypa í stað 15.257 kr. sem nú er. Tekjutryggingarauki hjóna og sambýlisfólks hækkar um sömu krónutölu og verður 14.066 kr. í stað 11.445 kr. sem nú er.
     .      Frá sama tíma breytist ákvæði laga um tekjutengingu þannig að skerðingarhlutfall tekna gagnvart tekjutryggingarauka lækki úr 67% í 45%.
     .      1. janúar 2004 kemur til framkvæmda almenn hækkun samkvæmt ákvæðum almannatryggingalaga.
    Því til viðbótar og frá sama tíma hækki:
     .      tekjutrygging um 2.000 kr. og verði 40.500 kr. auk hækkunar samkvæmt framanskráðu;
     .      tekjutryggingarauki um 2.000 kr. og verði 20.000 kr. fyrir einhleypinga og 16.066 kr. fyrir hjón og sambýlisfólk auk áður talinnar almennrar hækkunar.
     Efndir: Að því er varðar hækkanir bóta frá Tryggingastofnun ríkisins þá var með reglugerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fjárhæð tekjutryggingar og tekjutryggingarauka frá Tryggingastofnun ríkisins hækkuð 1. janúar 2003. Frá sama tíma var ákvæðum almannatryggingalaga um tekjutengingu breytt þannig að skerðingarhlutfall tekna gagnvart tekjutryggingarauka lækkaði úr 67% í 45%.
     Framlög ársins 2003 hækkuðu um 1.600 millj. kr. vegna þessara breytinga.
    Tekjutrygging og tekjutryggingarauki hækkaði um 2.000 kr. hvort um sig þann 1. janúar 2004 í samræmi við reglugerð sem sett var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hinn 22. nóvember 2002.
     Framlög ársins 2004 hækkuðu um 1.090 millj. kr. vegna þessara breytinga.

     2.      Heimaþjónusta við aldraða verði efld.
    Heimaþjónusta við aldraða verði efld verulega frá því sem nú er með það að markmiði að aldraðir geti dvalið sem lengst á eigin vegum utan stofnana. Til að ná þessu marki er mikilvægt að einn aðili sé ábyrgur fyrir þjónustunni, hvort sem um er að ræða hjúkrun, aðhlynningu eða aðstoð við heimilishald, sem nú er ýmist á ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga. Lagt er til að stjórnvöld beiti sér fyrir samtvinnun þessarar þjónustu undir sameiginlegri stjórn þar sem einn aðili verði ábyrgur fyrir framkvæmd og fjárhag. Æskilegt er að öldrunarstofnanir og aðrir þjónustuaðilar geti tekið að sér svæðisbundna þjónustu innan þessa ramma. Lagt er til að ríkið leggi 150 millj. kr. til þessa verkefnis á næstu þremur árum til viðbótar þeim fjárveitingum sem nú ganga til verkefnanna. Til lengri tíma er eðlilegt að taka þetta upp í samningaviðræður um verkaskipti ríkis og sveitarfélaga. Á þeim vettvangi þarf einnig að fjalla um hlutverk sveitarfélaga í rekstri dvalarheimila og sambýla fyrir aldraða, en það síðarnefnda þykir hafa reynst vel.
     Efndir: Samtvinnun þjónustu heimahjúkrunar og heimaþjónustu sveitarfélaga var talin brýnust á höfuðborgarsvæðinu.
    Þann 18. nóvember 2003 gerði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra samkomulag við Reykjavíkurborg um samtvinnun félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar í Reykjavík. Samkomulagið fól í sér að sett var af stað tilraunaverkefni um sameiginlega stýringu heimaþjónustu í Reykjavík. Sameiginleg stýring heimaþjónustu felst í því að einstaklingur getur hvort heldur sem er leitað eftir heimaþjónustu hjá heilsugæslustöð, félagsþjónustunni í Reykjavík eða Miðgarði í Grafarvogi. Beiðnum um þjónustu er komið til sameiginlegs heimaþjónustuhóps sem setur upp sameiginlega þjónustuáætlun sem getur falið í sér félagslega heimaþjónustu, heimahjúkrun eða hvort tveggja. Tilraunin hófst þann 1. febrúar 2004 og stendur í tvö ár.
    Kostnaður við tilraunina er greiddur af fjárveitingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Framlög til heimahjúkrunar hækka um 50 millj. kr. á tímabilinu 2003–2005 hvert ár, eða samtals um 150 millj. kr., og er það í samræmi við samkomulag við aldraða.

     3.      Dagvistun og hvíldarinnlagnir verði aukin.
    Lagt er til að á næstu tveimur árum verði fjölgað dagvistarrýmum aldraðra, einkum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem sinna megi 100 manns sem þessarar þjónustu þarfnast. Jafnframt er lagt til að tryggt verði aukið framboð á rýmum til hvíldarinnlagna á hjúkrunarheimili og öldrunardeildir sem svarar 20 rúmum á næstu 12–15 mánuðum. Leitað verði samninga við rekstraraðila um báða þessa þætti og valið úr á grundvelli hagkvæmni, öryggis og gæða. Áætla má að árlegur rekstrarkostnaður þessara nýju þjónustuþátta geti numið 170 millj. kr.
     Efndir: Að því er varðar hvíldarinnlagnir þá var á árinu 2003 ótímabundnum rýmum fyrir hvíldarinnlagnir fjölgað um 30 og tímabundnum rýmum fyrir hvíldarinnlagnir á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 6. Fjölgun ótímabundinna hvíldarinnlagnarýma er eftirfarandi:

    Helgafell, Djúpavogi     1 rými
    Lundur, Hellu     3 rými
    Dalbær, Dalvík     1 rými
    Hlíð, Akureyri     2 rými
    Klausturhólar, Hvolsvelli     1 rými
    Kumbaravogur, Stokkseyri     2 rými
    Landspítali – háskólasjúkrahús     20 rými      *

* Heilsárshjúkrunar- og hvíldarrými frá og með árinu 2005.


Áður voru þessi rými tímabundin í þrjá mánuði yfir sumartímann.    Fjölgun tímabundinna rýma (þrír mánuðir yfir sumartímann) er eftirfarandi:

    St. Jósefsspítali     6 rými

    Framlög vegna fjölgunar á hvíldarinnlagnarrýmum námu 90 millj. kr. á árinu 2003.
    Dagvistunarrýmum fjölgaði um 94 á árunum 2003–2005. Fjölgun dagvistarrýma er eftirfarandi:

    Hvammur, Húsavík     3 rými
    Eir, Reykjavík     20 rými     (fyrir minnissjúka)
    Hulduhlíð, Eskifirði     4 rými
    Naust, Þórshöfn     2 rými
    Jaðar, Ólafsvík     2 rými
    Hlíð, Akureyri     4 rými     (fyrir minnissjúka)
    Holtsbúð, Garðabæ     10 rými
    Sæborg, Skagaströnd     2 rými
    Dagvistun Skagafjarðar     3 rými
    Hlaðhamrar, Mosfellsbæ     5 rými
    Dagvistun Árborgar     3 rými
    Dagvistun Grindavíkur      5 rými
    Heilbrigðisstofnunin Hvammstanga     2 rými
    Dagvistun, Blönduósi     2 rými
    Dagvistun, Seltjarnarnesi     5 rými
    Helgafell, Djúpavogi     2 rými
    Roðasalir, Kópavogi     20 rými     (fyrir minnissjúka)

    Til viðbótar framangreindu hefur fjórum dagvistarrýmum hjá Dagvistun aldraðra í Reykjanesbæ verið breytt í dagvistarrými fyrir minnissjúka. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 er gert ráð fyrir að 20 ný dagvistarrými fyrir minnissjúka bætist við í Hafnarfirði og 15 ný almenn dagvistarrými sem ekki er búið að ákveða hvar verði staðsett.
    Í samræmi við samkomulag við aldraða hækkuðu framlög til dagvistarrýma um 40 millj.kr. hvort ár, 2003 og 2004, eða samtals um 80 millj. kr. Í fjárlögum 2005 hækkaði framlag til dagvistunar um 40 millj. kr. vegna reksturs Roðasala í Kópavogi og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 er til viðbótar gert ráð fyrir 54 millj. kr. hækkun framlags til dagvistarrýma í Hafnarfirði og annars staðar á landinu. Samtals hækka framlög til dagvistunar um 174 millj. kr. á tímabilinu 2003 til 2006.
    Þann 1. janúar 2004 kom til framkvæmda sú breyting á almannatryggingalögum að lengt var það tímabil sem ellilífeyrisþegi getur verið á sjúkrahúsi án þess að missa lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Markmið með lagabreytingunni var að auðvelda öldruðum að njóta hvíldar á hjúkrunarheimili og sjúkrahúsi án þess að missa bætur og stuðla þar með að því að aldraðir geti búið sem lengst í heimahúsi.

     4.      Vífilsstaðaspítala breytt í hjúkrunarheimili.
    Húsnæði Vífilsstaðaspítala verði breytt hið allra fyrsta í hjúkrunarheimili án verulegra breytinga. Aldraðir hjúkrunarsjúklingar á sjúkrahúsum komast þar með í aðstæður sem henta betur þörfum þeirra og spítalanna. Unnt verður að veita þar allt að 70 manns þjónustu og má reikna með að árlegur rekstrarkostnaður verði þá allt að 330 millj. kr. Þess er vænst að hjúkrunarheimili á Vífilsstöðum geti hafið starfsemi í upphafi árs 2003.
     Efndir: Húsnæðið þurfti mun meiri lagfæringa við en í upphafi var ætlað þar sem það var ekki talið fullnægja ýmsum öryggiskröfum laga og reglugerða sem gerðar eru til húsnæðis hjúkrunarheimila. Lagfæringar tóku lengri tíma en áætlað var og var 50 rýma hjúkrunarheimili á Vífilsstöðum tekið í notkun 30. janúar 2004 eftir endurbætur sem kostuðu rúmar 300 millj. kr.
    Nýting húsnæðis Hólsins reyndist þegar til kom ekki henta starfseminni. Fjárveiting til þeirra rýma var því færð af Vífilsstöðum og rýmum fjölgað í staðinn á eftirfarandi hjúkrunarheimilum:

    Holtsbúð, Garðabæ     12 rými
    Hrafnista, Hafnarfirði      2 rými
    Hrafnista, Reykjavík      3 rými
    Skógarbær, Reykjavík     2 rými

    Samtals hækkuðu framlög um 330 millj. kr. vegna reksturs ofangreindra rýma, þar af um 240 millj. kr. vegna Hjúkrunarheimilisins að Vífilsstöðum.

     5.      Breytt hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra.
    Framkvæmdasjóður aldraðra fái formlega það hlutverk að greiða öldrunarstofnunum húsnæðisframlag, leiguígildi sem standi undir viðhaldskostnaði og stærstum hluta af fjárfestingarkostnaði nýrra hjúkrunarheimila. Á næstu árum verði samið við starfandi stofnanir um húsnæðisframlag sem annars vegar taki mið af áður fengnum opinberum fjárstuðningi til uppbyggingar en hins vegar áætlaðri viðhaldsþörf. Sjóðurinn fái að fullu álögð gjöld og geri samkomulag við rekstraraðila öldrunarstofnana um húsnæðisframlag sjóðsins. Nánari viðmið þarf að setja um hlutfall greiðslna af heildarkostnaði eftir fjármögnun, sem og hlutverki og þátttöku annarra opinberra aðila. Með þessum hætti á að fást aukið svigrúm til uppbyggingar öldrunarstofnana.
     Efndir: Með breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, sem samþykktar voru á vorþingi 2004 er komið til móts við þessa tillögu. Lögin heimila Framkvæmdasjóði aldraðra að greiða þann hluta húsaleigu sem telst stofnkostnaður vegna leigu á hjúkrunarheimili sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005 á kostnað annarra aðila en ríkisins, að undangengnu útboði.
    Tekin hefur verið upp greiðsla húsnæðisgjalds, en því gjaldi er ætlað að standa undir almennu viðhaldi öldrunarheimila. Var greiðsla þessa gjalds tekin upp á árinu 2003. Á því ári námu greiðslur á húsnæðisgjaldi til öldrunarheimila samtals um 280 millj. kr. Þar af var þátttaka Framkvæmdasjóðs aldraðra 188 millj. kr.
    Þá hefur þátttaka Framkvæmdasjóðs aldraða í almennum rekstri hjúkrunarheimila verið lækkuð frá árinu 2002 úr 409,5 millj. kr. í 231,5 millj. kr. á árinu 2006 (frumvarp 2006). Framlög til stofnkostnaðar og viðhalds hjá Framkvæmdasjóði aldraðra námu 312,5 millj. kr. á árinu 2002, 696,5 millj. kr. á árinu 2005 og munu nema 770,5 millj. kr. á árinu 2006. Á árinu 2002 var 56,7% af fjárveitingu Framkvæmdasjóðs aldraðra varið til reksturs hjúkrunarheimila en á árinu 2006 verður 23,1% fjárveitingarinnar varið til reksturs hjúkrunarheimila.

     6.      Bygging hjúkrunarheimila.
    Heilbrigðisyfirvöld leiti eftir samningum við rekstraraðila um 150–200 ný vistrými sem komist í notkun á næstu 2–3 árum. Ætla má að viðbótarrekstrarkostnaður vegna þessa geti orðið allt að 900 millj. kr. miðað við heilt ár.
     Efndir: Að því er varðar fjölgun hjúkrunarrýma á hjúkrunarheimilum gerði samkomulagið við aldraða ráð fyrir fjölgun hjúkrunarrýma um 150–200 rými á næstu 2–3 árum, þ.e. árunum 2003 til 2005, auk 69 hjúkrunarrýma á Vífilsstöðum (sjá svar við 4. tölul. fyrirspurnarinnar).
    Á tímabilinu 2003 til 2006 fjölgar hjúkrunarrýmum sem hér segir:

    Eir, Reykjavík     40 rými     jan. 2004
    Hrafnista, Reykjavík     60 rými     september–október 2004
    Roðasalir, Kópavogi     8 rými     nóvember 2004
    Naust, Þórshöfn     5 rými     2005     (framkvæmdir tafist)
    Droplaugarstaðir, Reykjavík     14 rými     október 2005     (framkvæmdir tafist)
    Hlíð, Akureyri     30 rými     2004 og 2005     (framkvæmdir tafist)
    Hlíð, Akureyri     30 rými     október 2006
    Fellsendi, Búðardal     11 rými     2005

    Hjúkrunarrýmum fjölgar samtals um 198 rými á árunum 2004 til 2006. Árlegur rekstrarkostnaður þessara 198 rýma nemur 1.017 millj. kr. á verðlagi ársins 2005.
    Auk fyrrgreindrar fjölgunar hefur dvalarrýmum verið breytt í hjúkrunarrými og hjúkrunarrýmum með þeim hætti fjölgað um 28 rými á árunum 2003 og 2004 og um 23 rými á árinu 2005. Gert er ráð fyrir frekari breytingum á dvalarrýmum í hjúkrunarrými á árinu 2006 eða að u.þ.b. 20 dvalarrýmum verði breytt í jafnmörg hjúkrunarrými.
    Í fjárlögum ársins 2004 og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 var gert ráð fyrir 437,5 millj. kr. stofnframlagi til uppbyggingar öldrunarþjónustu eða samtals 875 millj. kr. Framlagi þessu yrði annars vegar varið til uppbyggingar öldrunarþjónustu á Akureyri (nýbygging við Hlíð), en sú framkvæmd er í gangi. Hins vegar til uppbyggingar öldrunarþjónustu í Reykjavík, en heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að næsti áfangi í uppbyggingu öldrunarþjónustu verði í Reykjavík, enda biðlistar þar lengstir og þörfin mest. Áformað er að hefja framkvæmdir við uppbyggingu rúmlega 100 hjúkrunarrýma í Reykjavík á næsta ári, rýma sem þá ættu að vera komin í notkun á árinu 2007.

     7.      Ný rekstrar- og eignarform öldrunarstofnana.
    Skoðað verði samband hefðbundinna öldrunarstofnana og eiginfjármögnunar á íbúðarhúsnæði í tengslum við slíkar stofnanir. Áhugi á uppbyggingu fjölþjónustukjarna með öldrunaríbúðum eða vistrýmum í einkaeigu fer vaxandi. Settar verði skýrari reglur um réttarstöðu, einkum hvað varðar samhengi vistunarmats og forgang að þjónustu og möguleikann á að fá þjónustu í eigin þjónustukjarna.
     Efndir: Þessi tillaga er til skoðunar í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.

     8.      Samningar um rekstur.
    Gerðir verði formlegir samningar um rekstrarstyrki til dvalar- og hjúkrunarheimila sem kveði á um viðmið þjónustu, sem og réttindi og skyldur aðila. Óljósar reglur um viðmið fyrir rekstrarstuðning ríkissjóðs draga úr rekstrarábyrgð á sama tíma og þörf er á auknu sjálfstæði öldrunarstofnana. Mikill hallarekstur á öldrunarstofnunum dregur úr áhuga rekstraraðila á frekari uppbyggingu og vinnur því gegn markmiðum í öldrunarþjónustu. Rekstraraðilar verði valdir á grundvelli viðurkenndra viðmiða um gæði, reynslu og hagkvæmni.
     Efndir: Í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu hefur verið farið yfir allt verklag að því er varðar úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Einnig hefur verið farið yfir hlutverk og ábyrgð þeirra sem nú koma að ákvarðanatöku um úthlutun fjár til uppbyggingar öldrunarþjónustunnar með það að markmiði að skerpt verði á hlutverka- og ábyrgðarskiptingu þeirra sem að því ferli koma.
    Ráðuneytið hefur yfirfarið og endurskoðað allt ferli umsókna um framkvæmda- og rekstrarleyfi öldrunarstofnana. Um áramót 2004/2005 var tekið í notkun staðlað umsóknarblað um framkvæmda- og rekstrarleyfi og framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Sérstakt skilmálablað er hluti umsóknar og er ígildi samnings verði umsókn samþykkt. Þá hefur ráðuneytið gert flæðirit sem sýnir fyrirhugaða meðferð umsóknar um framkvæmda- og rekstrarleyfi innan ráðuneytis og afgreiðslu framlaga úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Flæðiritið sýnir annars vegar verkferla og hins vegar hlutverka- og ábyrgðarskiptingu allra þeirra sem að umsókn koma.
    Af hálfu ráðuneytis er gengið út frá því að skilmálar umsóknar um rekstrarleyfi verði ígildi samnings. Á sérstöku skilmálablaði sem er hluti umsóknar um framkvæmda- og rekstrarleyfi eru skilmálar raktir. Þar er m.a. gerð grein fyrir valkostum við fjármögnun öldrunarstofnana, fjármögnun rekstrar og greiðslutilhögun, kröfum til þjónustu og skyldum rekstraraðila.
    Tekið hefur verið upp samræmt greiðslukerfi fyrir öll hjúkrunarheimili og -deildir í landinu. Greiðslur til hjúkrunarrýma ákvarðast af reiknilíkani sem tekur mið af umönnunarþyngd íbúa og er stuðst við alþjóðlegt matskerfi (RAI) sem gefur vísbendingar um ástand og þarfir þeirra. Greiðslur eru í formi daggjalda og miðast við rými í notkun.
    Með tilkomu sérstaks reiknilíkans, sem er grundvöllur greiðslu fyrir þjónustu öldrunarstofnana, eru í reynd ekki lengur forsendur fyrir umfangsmiklum og tímafrekum samningaviðræðum við einstakar öldrunarstofnanir um kaup á þjónustu. Það er hins vegar nauðsynlegt að skilmálar fyrir uppbyggingu og rekstri öldrunarstofnana og skyldur rekstraraðila og ríkis, sem kaupanda þjónustunnar, séu öllum ljósar áður en leyfi fyrir framkvæmd og rekstri er gefið út.
    Það er mat ráðuneytisins að framangreint fyrirkomulag uppfylli fullkomlega þær væntingar sem bundnar voru við formlega samninga um rekstrarstyrki til öldrunarstofnana, sbr. umrætt samkomulag.

     9.      Sveigjanleg starfslok.
    Almannatryggingalögum verði breytt á þann veg að fólk hafi af því skýran ávinning að fresta töku lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins, eigi það þess kost og kjósi. Lagt er til að lífeyrisþegi, sem frestað hefur töku ellilífeyris og tengdra bóta almannatrygginga, fái álag á lífeyri sem svarar 0,5% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris hefur verið frestað fram yfir 67 ára aldur. Álagið reiknist á alla bótaflokka sem viðkomandi á rétt á við lífeyristöku en greiðist sérstaklega. Til að frestunin hafi örugglega þýðingu þarf að taka mið af henni við útreikning á áhrifum annarra tekna og er því lagt til að frítekjumörk hlutaðeigandi hækki sem því svarar þannig að ekki komi til skerðingar annarra bóta vegna áunnins álags á lífeyri.
     Efndir: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur þetta mál til skoðunar og mun hann skipa nefnd á næstunni sem ætlað er að leiða málið til lykta.