Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 267. máls.

Þskj. 280  —  267. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)



1. gr.

    13. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Stjórnsýslukæra og frestir.


    Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar sæta kæru til samgönguráðuneytis, í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Kæra skal berast innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi varð kunnugt um ákvörðun stofnunarinnar. Um málskot til dómstóla fer eftir almennum reglum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það miðar að því að leggja niður úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.
    Fyrstu ákvæði um úrskurðarnefndina voru sett með lögum nr. 147/1996, um Póst- og fjarskiptastofnun. Með þeim lögum varð Póst- og fjarskiptastofnun sjálfstæð og óháð ráðuneytinu í daglegum störfum sínum þrátt fyrir að hún heyrði undir það stjórnskipulega. Kveðið er á um að stjórnsýsluákvarðanir stofnunarinnar yrðu ekki kærðar til ráðuneytisins heldur til sérstakrar úrskurðarnefndar, til endanlegrar úrlausnar á stjórnsýslustigi. Höfð var hliðsjón af sérstakri áfrýjunarnefnd um samkeppnismál en lögð var áhersla á sjálfstæði nefndarinnar gagnvart stjórnvöldum (ráðherra), sbr. almennar athugasemdir í frumvarpi til laga um Póst- og fjarskiptastofnun (149. mál 121. löggjafarþings) og athugasemdir við 10. gr. frumvarps til laga um Póst- og fjarskiptastofnun (240. mál 125. löggjafarþings).
    Úrskurðarnefndin starfar nú skv. 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, sem tóku gildi 25. júlí 2003. Áður starfaði hún samkvæmt heimild í 10. gr. laga nr. 110/1999 og, eins og áður sagði, í upphafi skv. 8. gr. laga 147/1996, um sama efni. Samkvæmt núgildandi lögum verða ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar kærðar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslustigi en þeim má síðan skjóta til dómstóla. Óheimilt er að bera ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar undir dómstóla fyrr en niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir.
    Þegar ákvæðin um úrskurðarnefndina voru fyrst sett 1996 var megintilgangurinn að tryggja sjálfstæði úrskurðaraðilans gagnvart stjórnvöldum sem voru stærsti eignaraðilinn að hlutabréfum í Landssímanum hf. Fyrirtækið hefur nú verið selt. Ljóst er að ekki eru jafnríkar ástæður til sérstakrar sjálfstæðrar úrskurðarnefndar við þær aðstæður. Í gildistökuákvæðinu er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2006.

II. Tvö stjórnsýslustig og ábyrgð á stefnumörkun.
    Í réttarríki er leitast við að tryggja öryggi borgaranna með því að skapa aðgengilega og ódýra leið til að fá faglega og hlutlæga endurskoðun stjórnvaldsákvarðana. Í því efni eru einkum þrjár leiðir tiltækar, ákvörðun stjórnvalds er skotið til æðra setts stjórnvalds, til sérstaklega skipaðrar úrskurðarnefndar eða til stjórnsýsludómstóls. Þar sem stjórnsýsludómstól er ekki til að dreifa hér á landi stendur val löggjafans um tvær fyrstnefndu leiðirnar. Fjölmargar úrskurðarnefndir starfa samkvæmt lögum, hver á þröngu sviði. Reynslan hefur leitt í ljós að slíkt fyrirkomulag þykir heppilegast á sviðum þar sem mikill fjöldi mála er til úrlausnar, sbr. yfirskattanefnd og úrskurðarnefnd almannatrygginga.
    Úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála hefur, eins og áður segir, starfað í átta ár. Á síðustu þremur árum hefur hún kveðið upp samtals tólf úrskurði. Ef miðað er við hvernig aðilar málanna hafa unað úrskurðunum er reynslan góð af starfi nefndarinnar, en ráðuneytinu er ekki kunnugt um að neinn þeirra hafi farið fyrir almenna dómstóla. Aftur á móti er ráðuneytið reiðubúið til að axla sjálft ábyrgð á úrlausn ágreiningsefna á þessu sérsviði og mundi með því byggjast upp innan ráðuneytisins frekari þekking en nú er á póst- og fjarskiptamálum. Úrskurðarnefnd hefur ekki með höndum hlutverk við almenna stefnumörkun og hefur ekki stöðu til að fylgja úrskurðum sínum eftir.

III. Framkvæmd í öðrum ríkjum.
    Fyrirkomulag málskots er með ýmsum hætti í Evrópu en ekki um samræmda framkvæmd að ræða. Í flestum ríkjum verður niðurstöðu stjórnvalda (fjarskiptaeftirlitsstofnana) skotið beint til dómstóla eða stjórnsýsludómstóls. Má þar nefna Ítalíu, Sviss, Spán, Finnland, Lúxemborg, Ungverjaland, Kýpur, Holland, Svíþjóð, Þýskaland, Austurríki og Tékkland. Þetta er svipað í Portúgal, Frakklandi og Póllandi, en þar ræðst það af eðli ákvarðana hvort þeim verður skotið til stjórnsýsludómstóls eða almennra dómstóla. Í Danmörku verður ákvörðunum eftirlitsstofnunar skotið til stjórnarnefndar um kvartanir vegna fjarskiptamála (upplýsingar úr skýrsludrögum um samanburð á framkvæmd þessara mála innan IRG). Í Noregi verður ákvörðunum eftirlitsstofnunar skotið til æðra stjórnvalds líkt því sem lagt er til hér.

IV. Kostnaður o.fl.
    Ekki er reiknað með auknum heildarkostnaði af breytingunni. Ráða þarf sérfræðing á þessu sviði í ráðuneytið en á móti fellur niður kostnaður vegna úrskurðarnefndarinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með breytingu sem lögð er til á greininni er úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála lögð niður. Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar verða kæranlegar til samgönguráðuneytisins samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga. Kærufrestur er fjórar vikur sem er sami frestur og ætlaður var vegna kæru til úrskurðarnefndarinnar. Ástæða þykir til að hafa hann styttri en stjórnsýslulögin kveða almennt á um, m.a. til að tryggja tilvist fjarskiptagagna sem og að aðili sem vill kæra geri það án ástæðulauss dráttar. Um málskot til dómstóla fer eftir almennum reglum og ekki er lengur gert ráð fyrir að stjórnsýslukæra sé forsenda málshöfðunar fyrir almennum dómstólum. Stjórnsýslukæra er hins vegar skjótvirkara úrræði sem borgararnir eiga rétt á.

Um 2. gr.


    Um skýringar vísast til almennra athugasemda.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

    Markmiðið með frumvarpinu er að leggja niður úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála. Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar verða kæranlegar til samgönguráðuneytisins samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.