Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 286. máls.
Þskj. 301  —  286. mál.




Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/2004 og 134/2004, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/2004 frá 4. júní 2004 og 134/2004 frá 24. september 2004, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB frá 27. janúar 2003 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang og 2003/108/EB frá 8. desember 2003 um breytingu á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/2004 frá 4. júní 2004 og 134/2004 frá 24. september 2004, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB frá 27. janúar 2003 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang og 2003/108/EB frá 8. desember 2003 um breytingu á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang.
    Ákvarðanir þessar kalla á lagabreytingar hér á landi og voru teknar af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirra tilskipana sem hér um ræðir.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir eru prentaðar sem fylgiskjöl með tillögu þessari ásamt gerðunum sjálfum.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin

3. Tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB frá 27. janúar 2003 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang og 2003/108/EB frá 8. desember 2003 um breytingu á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang.
    Í tilskipun 2002/96/EB er fjallað um hvernig skuli fjármagna, safna, meðhöndla og endurnýta raftækja- og rafeindatækjaúrgang. Markmið tilskipunarinnar er að draga úr myndun raftækja- og rafeindatækjaúrgangs, auka endurnýtingu og endurnotkun á slíkum úrgangi og vinna að aukinni umhverfisvitund allra aðila sem koma að lífsferli vörunnar. Gerð er krafa um að safna 4 kg af raftækja- og rafeindatækjaúrgangi á hvern íbúa á ári hverju. Síðan ber að endurnota eða endurnýta ákveðið hlutfall af þeim raftækjum sem safnað er svo og að taka spilliefni úr tækjunum og meðhöndla þau sérstaklega. Gerður er greinarmunur á raftækjum og rafeindatækjum sem ætluð eru til heimilisnota og þeim sem notuð eru í atvinnulífinu. Þá eru gerðar mismunandi kröfur vegna raftækja- og rafeindatækjaúrgangs sem kom á markað fyrir 13. ágúst 2005 og þess sem seldur er eftir þann tíma.
    Innleiða átti tilskipunina fyrir 13. ágúst 2005 en ákvæði hennar skulu vera komin til framkvæmda eigi síðar en 31. desember 2006. Í viðauka I með tilskipuninni er skrá yfir þau raftæki og rafeindatæki sem falla undir gildissvið tilskipunarinnar, í viðauka II er tilgreint hvaða hluti þurfi að fjarlægja sérstaklega úr tækjabúnaðinum fyrir förgun. Í viðauka III eru sérkröfur um staði þar sem raftækja- og rafeindatækjaúrgangur skal geymdur og meðhöndlaður og í viðauka IV eru sýnd þau merki sem setja skal á tækin og sýna að þeim megi ekki henda með öðrum úrgangi.
    Tilskipun 2003/108/EB breytir 9. gr. í upphaflegu tilskipuninni og skýrir reglur sem eiga að gilda frá 13. ágúst 2005 um kostnað við förgun eldri raftækjabúnaðar annars en þess sem kemur frá heimilum. Ábyrgð á kostnaði við förgun slíks raftækjabúnaðar er færð yfir á þann framleiðanda sem leggur til sams konar nýjan búnað í stað þess eldri. Þegar eldri búnaði er ekki skipt út fyrir nýjan er kostnaður við förgun á ábyrgð síðasta eiganda.
    Umhverfisráðuneytið vinnur nú að undirbúningi frumvarps til innleiðingar gerðanna hér á landi.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 82/2004

frá 4. júní 2004

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XX. viðauka við samninginn var breytt með samningnum um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem undirritaður var 14. október 2003 í Lúxemborg ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB frá 27. janúar 2003 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 32f (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/76/EB) í XX. viðauka við samninginn:

„32fa.          32002 L 0096: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB frá 27. janúar 2003 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang (Stjtíð. ESB L 37, 13.2.2003, bls. 24).

                Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                Orðið „ , Ísland“ bætist við á eftir orðinu „Grikkland“ í a-lið 4. mgr. 17. gr.“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2002/96/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 5. júní 2004 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

Gjört í Brussel 4. júní 2004.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    S. Gillespie


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann


Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2002/96/EB
frá 27. janúar 2003
um raf- og rafeindabúnaðarúrgang


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans á grundvelli sameiginlegs texta sáttanefndarinnar frá 8. nóvember 2002 ( 4 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Markmiðin með umhverfisstefnu Bandalagsins eru einkum að varðveita, vernda og bæta gæði umhverfisins, vernda heilsu manna og nýta náttúruauðlindir af varfærni og skynsemi. Sú stefna er grundvölluð á varúðarreglunni og þeim meginreglum að girða skuli fyrir umhverfisspjöll, áhersla lögð á úrbætur þar sem tjón á upphaf sitt og bótaskylda lögð á þann sem veldur mengun.
2)          Í stefnu- og framkvæmdaáætlun Bandalagsins um umhverfi og sjálfbæra þróun (fimmta aðgerðaáætlunin á sviði umhverfismála) ( 5 ) kemur fram að til að ná fram sjálfbærri þróun þurfi að verða verulegar breytingar á núverandi þróunar-, framleiðslu-, neyslu-, hegðunar- og atferlismynstri, og þar er m.a. mælt með því að draga úr sóun við notkun náttúruauðlinda og koma í veg fyrir mengun. Í áætluninni er raf- og rafeindabúnaðarúrgangur nefndur sem eitt af þeim sviðum sem nauðsynlegt er að setja reglur um svo að beita megi meginreglunum um að koma í veg fyrir myndun úrgangs, endurnýta hann og farga honum á öruggan hátt.
3)          Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 30. júlí 1996 um endurskoðun á áætlun Bandalagsins varðandi meðferð úrgangs kemur fram að þegar ekki er hægt að komast hjá myndun úrgangs skuli endurvinna eða endurnýta efnivið hans eða orku.
4)          Í ályktun sinni frá 24. febrúar 1997 um áætlun Bandalagsins varðandi meðferð úrgangs ( 6 ) undirstrikaði ráðið þörfina á því að stuðla að endurnýtingu úrgangs með það fyrir augum að draga úr magni úrgangs til förgunar og spara náttúruauðlindir, einkum með endurnotkun, endurvinnslu, myltingu og endurnýtingu á orku úr úrgangi, og viðurkenndi að í hverju einstöku tilviki yrði að taka tillit til umhverfis- og efnahagsáhrifa við val á aðferðum en þar til framfarir hafi orðið í vísindum og tækni og greining á endingartíma þróast frekar skuli velja þann kost að endurnota og endurnýta efnivið þegar og að svo miklu leyti sem það er besti kosturinn frá umhverfislegu sjónarmiði. Ráðið hvatti einnig framkvæmdastjórnina til að þróa, eins fljótt og unnt er, viðeigandi leið til að fylgja eftir verkefnum áætlunarinnar um forgangsúrgang, þ.m.t. raf- og rafeindabúnaðarúrgang.
5)          Í ályktun sinni frá 14. nóvember 1996 ( 7 ) fór Evrópuþingið þess á leit við framkvæmdastjórnina að hún legði fram tillögur að tilskipunum um ýmsar tegundir forgangsúrgangs, þ.m.t. rafmagns- og rafeindaúrgangur, og að þessar tillögur væru byggðar á meginreglunni um ábyrgð framleiðanda. Í sömu ályktun fór Evrópuþingið þess á leit við ráðið og framkvæmdastjórnina að lagðar yrðu fram tillögur um það hvernig draga mætti úr magni úrgangs.
6)          Í tilskipun ráðsins 75/442/EBE frá 15. júlí 1975 um úrgang ( 1 ) er kveðið á um að heimilt sé að setja sérstakar reglur með sértilskipunum um ákveðin tilvik eða til viðbótar ákvæðum tilskipunar 75/442/EBE að því er varðar meðferð tiltekinna flokka úrgangs.
7)          Magn raf- og rafeindabúnaðarúrgangs, sem myndast í Bandalaginu, eykst hratt. Innihald hættulegra íhluta í raf- og rafeindabúnaði er verulegt áhyggjuefni við meðferð úrgangsins og raf- og rafeindabúnaðarúrgangur er ekki endurunninn í nægilega miklum mæli.
8)          Aðildarríkin geta ekki, hvert í sínu lagi, náð því markmiði á skilvirkan hátt að bæta meðferð raf- og rafeindabúnaðarúrgangs. Einkum getur mismunandi beiting ríkjanna á meginreglunni um ábyrgð framleiðandans leitt til verulegs misræmis í fjárhagsbyrði rekstraraðila. Mismunandi stefna aðildarríkjanna að því er varðar meðferð raf- og rafeindabúnaðarúrgangs hamlar gegn skilvirkri endurvinnslustefnu. Þess vegna ber að mæla fyrir um grundvallarviðmiðanir á vettvangi Bandalagsins.
9)          Ákvæði þessarar tilskipunar gilda um vörur og framleiðendur, óháð söluaðferðum, þ.m.t. fjarsala og rafræn sala. Í þessu sambandi skulu sömu skyldur lagðar á sama hátt á framleiðendur og dreifingaraðila, sem nota fjarsölu og rafræna sölu, til að forðast að þeir sem nota aðrar dreifingarleiðir þurfi að bera kostnað af að framfylgja þeim ákvæðum þessarar tilskipunar sem varða raf- og rafeindabúnaðarúrgang þar sem búnaðurinn er seldur í fjarsölu eða rafrænni sölu.
10)          Þessi tilskipun nær yfir allan raf- og rafeindabúnað fyrir neytendur og raf- og rafeindabúnað sem er ætlaður til notkunar í atvinnuskyni. Þessi tilskipun gildir með fyrirvara um löggjöf Bandalagsins um öryggis- og heilbrigðiskröfur til verndar öllum þeim sem komast í snertingu við raf- og rafeindabúnaðarúrgang og einnig sérstaka löggjöf Bandalagsins um meðferð úrgangs, einkum tilskipun ráðsins 91/157/EBE frá 18. mars 1991 um rafhlöður og rafgeyma sem innihalda tiltekin hættuleg efni ( 2 ).
11)          Endurskoða þarf tilskipun 91/157/EBE eins fljótt og unnt er, einkum með hliðsjón af þessari tilskipun.
12)          Ábyrgð framleiðenda, sem komið er á með þessari tilskipun, er ein leið til að hvetja til þess að raf- og rafeindabúnaður sé hannaður og framleiddur á þann hátt að tekið sé fullt tillit til og stuðlað að viðgerðum, hugsanlegum endurbótum, endurnotkun, sundurtekningu og endurvinnslu.
13)          Til að tryggja öryggi og heilbrigði starfsmanna dreifingaraðila sem vinna við endurviðtöku og meðhöndlun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs skulu aðildarríkin, í samræmi við landslög og löggjöf Bandalagsins um öryggis- og heilbrigðiskröfur, ákvarða skilyrði fyrir því að dreifingaraðilar geti synjað um endurviðtöku.
14)          Aðildarríkin skulu hvetja til þess að raf- og rafeindabúnaður sé hannaður og framleiddur á þann hátt að tekið sé tillit til sundurhlutunar og endurnýtingar og hún auðvelduð, einkum endurnotkun og endurvinnsla raf- og rafeindabúnaðarúrgangs, íhluta hans og efniviðar. Framleiðendur skulu ekki koma í veg fyrir endurnotkun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs með sérstakri hönnun eða framleiðsluferli nema þessi sérstaka hönnun eða framleiðsluferli hafi í för með sér yfirgnæfandi kosti, t.d. með tilliti til umhverfisverndar og/eða öryggiskrafna.
15)          Forsendan fyrir því að unnt sé að tryggja sérstaka meðhöndlun og endurvinnslu raf- og rafeindabúnaðarúrgangs er að honum sé safnað sérstaklega, og er það nauðsynlegt til að ná því verndarstigi sem ákveðið hefur verið fyrir heilsu manna og umhverfið í Bandalaginu. Til að slík söfnun geti tekist verða neytendur að leggja sitt af mörkum og skulu þeir hvattir til þess að skila raf- og rafeindabúnaðarúrgangi. Í því augnamiði er rétt að koma upp heppilegri aðstöðu fyrir skil á raf- og rafeindabúnaðarúrgangi, þ.m.t. almennar söfnunarstöðvar þar sem hægt er að skila úrgangi frá heimilum a.m.k. án þess að greiða fyrir það.
16)          Til að unnt sé að ná því verndarstigi sem ákveðið hefur verið, svo og samhæfðum umhverfismarkmiðum Bandalagsins, skulu aðildarríkin samþykkja viðeigandi ráðstafanir til að halda því í lágmarki að raf- og rafeindabúnaðarúrgangi sé fargað með óflokkuðu sorpi og ná því fram að miklum hluta slíks búnaðar sé safnað sérstaklega. Til að tryggja að aðildarríkin leitist við að koma upp skilvirkum söfnunarkerfum skal þeim gert að safna sem mestu af raf- og rafeindabúnaðarúrgangi frá heimilum.
17)          Óhjákvæmilegt er að raf- og rafeindabúnaðarúrgangur fái sérstaka meðhöndlun til að komast hjá því að mengunarefni berist í endurunna efnið eða úrganginn. Slík meðhöndlun er skilvirkasta aðferðin við að tryggja að virt sé það verndarstig fyrir umhverfið innan Bandalagsins sem ákveðið hefur verið. Allar starfsstöðvar eða fyrirtæki, sem annast endurvinnslu og meðhöndlun, skulu uppfylla lágmarksstaðla til að koma í veg fyrir að meðhöndlun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs hafi neikvæð áhrif á umhverfið. Nota skal fullkomnustu tækni sem völ er á við meðhöndlun, endurnýtingu og endurvinnslu, að því tilskildu að unnt sé að tryggja heilsu manna og öfluga umhverfisvernd. Skilgreina má nánar fullkomnustu tækni sem völ er á við meðhöndlun, endurnýtingu og endurvinnslu í samræmi við ákvæði tilskipunar 96/61/EB.
18)          Ef við á skal endurnotkun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs, íhluta hans, undireininga og aukahluta hafa forgang. Ef endurnotkun er ekki ákjósanleg skal senda allan raf- og rafeindabúnaðarúrgang, sem hefur verið safnað sérstaklega, til endurnýtingar með það að markmiði að ná sem mestri endurvinnslu og endurnýtingu. Auk þess skal hvetja framleiðendur til að nota endurunnið efni í nýjan búnað.
19)          Setja verður grundvallarreglur á vettvangi Bandalagsins um fjármögnun á meðferð raf- og rafeindabúnaðarúrgangs og þurfa fjárhagsáætlanir að stuðla að söfnun í miklum mæli og einnig að framkvæmd meginreglunnar um ábyrgð framleiðanda.
20)          Notendur raf- og rafeindabúnaðar á heimilum skulu eiga möguleika á því að skila raf- og rafeindabúnaðarúrgangi, a.m.k. án þess að greiða fyrir það. Það eru því framleiðendur sem eiga að fjármagna söfnun frá söfnunarstöðvum og meðhöndlun, endurnýtingu og förgun á raf- og rafeindabúnaðarúrgangi. Til að hugmyndin um ábyrgð framleiðanda beri sem mestan árangur skal hver framleiðandi bera ábyrgð á því að fjármagna meðferð úrgangs frá eigin framleiðslu. Framleiðandinn getur valið um það hvort hann uppfyllir þessa skyldu einn eða með því að taka þátt í sameiginlegu kerfi. Hver framleiðandi skal, þegar hann setur vöru á markaðinn, leggja fram fjárhagslega tryggingu til að koma í veg fyrir að kostnaður við meðferð raf- og rafeindabúnaðarúrgangs frá vöru, sem er ekki lengur framleidd, falli á samfélagið eða aðra framleiðendur. Rétt er að ábyrgðin af að fjármagna meðferð eldri úrgangs skiptist á milli allra starfandi framleiðenda í sameiginlegu fjármögnunarkerfi sem allir framleiðendur, sem starfa á markaðnum þegar kostnaðurinn verður til, leggja fjármagn til í réttu hlutfalli. Sameiginleg fjármögnunarkerfi skulu ekki hafa þau áhrif að útiloka þá sem framleiða fyrir markaðskima og í litlu magni, innflytjendur eða nýja aðila á markaðnum. Á aðlögunartímabili skal framleiðendum vera það í sjálfsvald sett hvort þeir vekja athygli kaupenda á kostnaðinum við söfnun, meðhöndlun og umhverfisvæna förgun eldri úrgangs við sölu nýrrar vöru. Framleiðendur, sem nýta sér þetta ákvæði, skulu sjá til þess að tilgreindur kostnaður sé ekki meiri en raunverulegur kostnaður.
21)          Til að söfnun á raf- og rafeindabúnaðarúrgangi verði árangursrík er óhjákvæmilegt að veita notendum upplýsingar um þá kröfu að slíkum búnaði sé ekki fargað sem óflokkuðu sorpi heldur safnað sérstaklega og um söfnunarkerfin og hlutverk þeirra sjálfra í meðferð raf- og rafeindabúnaðarúrgangs. Slíkar upplýsingar kalla á að raf- og rafeindabúnaður, sem gæti hugsanlega endað í sorptunnum eða áþekkum ílátum fyrir sorphirðu, sé merktur á viðeigandi hátt.
22)          Til að auðvelda meðferð raf- og rafeindabúnaðarúrgangs, einkum meðhöndlun hans og endurnýtingu/endurvinnslu, er mikilvægt að framleiðendur veiti upplýsingar um það hvað auðkennir íhluti og efnivið hans.
23)          Aðildarríkin skulu tryggja að skoðunar- og vöktunarkerfi geri kleift að sannreyna rétta framkvæmd þessarar tilskipunar, m.a. að teknu tilliti til tilmæla Evrópuþingsins og ráðsins 2001/331/EB frá 4. apríl 2001 þar sem kveðið er á um lágmarksviðmiðanir um umhverfiseftirlit í aðildarríkjunum ( 1 ).
24)          Til að fylgjast með því hvort markmið þessarar tilskipunar hafi náðst er nauðsynlegt að hafa upplýsingar um þyngd eða, ef það er ekki mögulegt, fjölda eininga raf- eða rafeindabúnaðar, sem settur er á markað í Bandalaginu, og um árangur af söfnun, endurnotkun (þ.m.t. endurnotkun heilla tækja eins og unnt er), endurnýtingu eða endurvinnslu og útflutningi á raf- og rafeindabúnaðarúrgangi sem hefur verið safnað í samræmi við þessa tilskipun.
25)          Aðildarríkin geta kosið að láta tiltekin ákvæði þessarar tilskipunar koma til framkvæmda með samningum milli lögbærra yfirvalda og þeirrar atvinnugreinar sem um er að ræða, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
26)          Framkvæmdastjórnin skal, með nefndarmeðferð, laga tiltekin ákvæði tilskipunarinnar að framförum á sviði vísinda og tækni, svo og skrána yfir vörur í flokkunum sem eru tilgreindir í I. viðauka A, sérmeðhöndlun á efnivið og íhlutum raf- og rafeindabúnaðarúrgangs, tæknilegar kröfur um geymslu og meðferð raf- og rafeindabúnaðarúrgangs og táknin sem raf- og rafeindabúnaður er merktur með.
27)          Samþykkja skal nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 2 ).
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Markmið

Markmiðið með þessari tilskipun er fyrst og fremst að koma í veg fyrir myndun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs en einnig að endurnota, endurvinna og endurnýta hann á annan hátt til að draga úr förgun úrgangs. Einnig er markmiðið að auka umhverfisvitund allra rekstraraðila sem koma að málum á endingartíma raf- og rafeindabúnaðar, t.d. framleiðenda, dreifingaraðila og neytenda og einkum þeirra rekstraraðila sem koma á beinan hátt að meðhöndlun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs.

2. gr.
Gildissvið

1.     Þessi tilskipun gildir um raf- og rafeindabúnað í flokkunum sem eru tilgreindir í I. viðauka A, að því tilskildu að viðkomandi búnaður sé ekki hluti af annarri gerð búnaðar sem fellur ekki undir gildissvið þessarar tilskipunar. Í I. viðauka B er skrá yfir vörur sem eru í flokkunum sem um getur í I. viðauka A.
2.     Tilskipun þessi gildir með fyrirvara um löggjöf Bandalagsins um öryggis- og heilbrigðiskröfur og sérstaka löggjöf Bandalagsins um meðferð úrgangs.
3.     Ákvæði þessarar tilskipunar gilda ekki um búnað sem tengist vernd grundvallaröryggishagsmuna aðildarríkjanna, vopnum, skotfærum og hergögnum. Þau gilda þó um vörur sem eru ekki ætlaðar sérstaklega til hernaðar.

3. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „raf- og rafeindabúnaður“: búnaður sem þarf rafstraum eða rafsegulsvið til að geta starfað á réttan hátt og búnaður til að framleiða, flytja og mæla slíkan rafstraum og rafsegulsvið, sem er í einhverjum af þeim flokkum sem eru tilgreindir í I. viðauka A og hannaður til notkunar við rafspennu sem fer ekki yfir 1000 volt þegar um er að ræða riðstraum og ekki yfir 1 500 volt þegar um er að ræða jafnstraum,
b)    „raf- og rafeindabúnaðarúrgangur“: raf- eða rafeindabúnaður sem telst til úrgangs í skilningi a- liðar 1. gr. í tilskipun 75/442/EBE, þ.m.t. allir íhlutir, undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af vörunni þegar henni er fleygt,
c)    „forvarnir“: ráðstafanir sem miða að því að draga úr magni og skaðsemi fyrir umhverfið af völdum raf- og rafeindabúnaðarúrgangs, efniviðar hans og efna sem í honum eru,
d)    „endurnotkun“: öll starfsemi þar sem úr sér genginn raf- og rafeindabúnaður eða íhlutar hans eru notaðir í sama tilgangi og þeim var ætlað upphaflega, þ.m.t. áframhaldandi notkun búnaðar eða íhluta hans sem er skilað til söfnunarstöðva, dreifingaraðila, endurvinnsluaðila eða framleiðenda,
e)    „endurvinnsla“: endurtekið framleiðsluferli úrgangsefnanna í upphaflegum tilgangi eða öðrum tilgangi að undanskilinni endurnýtingu orku, sem felst í að nota brennanlegan úrgang til að framleiða orku með því að brenna hann beint, einan sér eða með öðrum úrgangi þar sem hitinn er nýttur,
f)    „endurnýting“: allar viðeigandi aðgerðir sem kveðið er á um í II. viðauka B við tilskipun 75/442/EBE,
g)    „förgun“: allar viðeigandi aðgerðir sem kveðið er á um í II. viðauka A við tilskipun 75/442/EBE,
h)    „meðhöndlun“: öll starfsemi sem fer fram eftir að komið hefur verið með raf- og rafeindabúnaðarúrgang til stöðvar til hreinsunar, sundurtekningar, tætingar, endurnýtingar eða undirbúnings fyrir förgun og hvers kyns annarra aðgerða sem eru framkvæmdar til endurnýtingar og/eða förgunar raf- og rafeindabúnaðarúrgangs,
i)    „framleiðandi“: aðili sem, óháð þeirri sölutækni sem er notuð, þ.m.t. notkun fjarsamskiptamiðla í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga ( 1 ),
    i)    framleiðir og selur raf- og rafeindabúnað undir eigin vörumerki,
    ii)    endurselur búnað, undir eigin vörumerki, sem aðrir birgjar framleiða en endursöluaðilinn telst þó ekki vera „framleiðandi“ ef vörumerki framleiðandans er á búnaðinum eins og kveðið er á um í i-lið, eða
    iii)    flytur raf- og rafeindabúnað inn eða út úr aðildarríki í atvinnuskyni.
    Sá sem eingöngu leggur til fjármagn samkvæmt einhvers konar samningi um fjármögnun skal ekki teljast „framleiðandi“ nema hann starfi einnig sem framleiðandi í skilningi i- til iii liðar,
j)    „dreifingaraðili“: sá sem sér notanda raf- og rafeindabúnaðar fyrir slíkum búnaði á viðskiptagrundvelli,
k)    „raf- og rafeindabúnaðarúrgangur frá heimilum“: raf- og rafeindabúnaðarúrgangur sem kemur frá heimilum eða frá verslun, iðnaði, stofnunum og annars staðar frá og er að eðli og umfangi svipaður þeim sem kemur frá heimilum,
l)    „hættulegt efni eða efnablanda“: efni eða efnablanda sem verður að teljast hættuleg samkvæmt tilskipun ráðsins 67/548/EBE ( 2 ) eða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/45/EB ( 3 ),
m)    „fjármögnunarsamningur“: samningur eða fyrirkomulag varðandi lán, eignarleigu, leigu eða sölu með afborgunum á hvers konar búnaði, hvort sem skilmálar þess samnings eða fyrirkomulags eða hvers konar viðbótarsamningur eða -fyrirkomulag gerir ráð fyrir því að eignarréttur á þeim búnaði hafi verið eða verði framseldur.

4. gr.
Vöruhönnun

Aðildarríkin skulu hvetja til þess að raf- og rafeindabúnaður sé hannaður og framleiddur á þann hátt að tekið sé tillit til sundurhlutunar og endurnýtingar og hún auðvelduð, einkum endurnotkun og endurvinnsla raf- og rafeindabúnaðarúrgangs, íhluta hans og efniviðar. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að framleiðendur komi ekki í veg fyrir endurnotkun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs með sérstakri hönnun eða framleiðsluferli nema slík hönnun eða framleiðsluferli hafi í för með sér yfirgnæfandi kosti, t.d. með tilliti til umhverfisverndar og/eða öryggiskrafna.

5. gr.
Sérstök söfnun

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja viðeigandi ráðstafanir til að draga úr því að raf- og rafeindabúnaðarúrgangi sé fargað með óflokkuðu húsasorpi og ná því fram að verulegum hluta af slíkum búnaði sé safnað sérstaklega.
2.     Að því er varðar raf- og rafeindabúnaðarúrgang frá heimilum skulu aðildarríkin sjá til þess að eigi síðar en 13. ágúst 2005:
a)    sé komið upp kerfum sem gera síðustu eigendum og dreifingaraðilum kleift að skila slíkum úrgangi a.m.k. án þess að greiða fyrir það. Aðildarríkin skulu sjá til þess að nauðsynlegar söfnunarstöðvar séu tiltækar og aðgengilegar, einkum að teknu tilliti til þéttleika byggðar,
b)    að dreifingaraðilar séu ábyrgir fyrir því, þegar þeir bjóða fram nýja vöru, að hægt sé að skila slíkum úrgangi til þeirra á skiptigrundvelli (einn fyrir einn) til dreifingaraðilans a.m.k. án þess að greiða fyrir það svo lengi sem búnaðurinn er af sambærilegri gerð og gegndi sama hlutverki og búnaðurinn sem er í boði. Aðildarríkin geta vikið frá þessu ákvæði, að því tilskildu að þau tryggi að með því sé síðasta eiganda ekki gert það erfiðara að skila raf- og rafeindabúnaðarúrgangi og að því tilskildu að þessi kerfi verði áfram ókeypis fyrir síðasta eiganda. Aðildarríki, sem nýta sér þetta ákvæði, skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um það,
c)    með fyrirvara um ákvæði a- og b-liðar skal framleiðendum vera heimilt að setja upp og starfrækja, hver í sínu lagi og/eða sameiginlega, skilakerfi fyrir raf- og rafeindabúnaðarúrgang frá heimilum, að því tilskildu að þessi kerfi séu í samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar,
d)    með hliðsjón af heilbrigðis- og öryggiskröfum, innlendum og í Bandalaginu, er hægt, skv. a- og b-lið, að synja um viðtöku á raf- og rafeindabúnaðarúrgangi sem getur stofnað heilsu og öryggi starfsmanna í hættu vegna mengunar.
Aðildarríkin skulu gera sérstakar ráðstafanir vegna slíks raf- og rafeindabúnaðarúrgangs. Aðildarríkin geta gert sérstakar ráðstafanir vegna skila á raf- og rafeindabúnaðarúrgangi skv. a- og b-lið ef helstu íhluti vantar í búnaðinn eða ef hann inniheldur annan úrgang en raf- og rafeindabúnaðarúrgang.
3.     Þegar um er að ræða annan raf- og rafeindabúnaðarúrgang en frá heimilum, og með fyrirvara um 9. gr., skulu aðildarríkin sjá til þess að framleiðendur eða þriðju aðilar fyrir þeirra hönd sjá um að slíkum úrgangi sé safnað.
4.     Aðildarríkin skulu tryggja að allur raf- og rafeindabúnaðarúrgangur, sem er safnað skv. 1., 2. og 3. lið hér að framan, sé fluttur til viðurkenndra meðhöndlunarstöðva skv. 6. gr. nema tækin séu endurnotuð í heilu lagi. Aðildarríkin skulu sjá til þess að fyrirhuguð endurnotkun leiði ekki til þess að ákvæði þessarar tilskipunar séu sniðgengin, einkum að því er varðar 6. og 7. gr. Safna skal og flytja raf- og rafeindabúnaðarúrgang, sem hefur verið safnað sérstaklega, á þann hátt að endurnotkun og endurvinnsla íhluta eða heilla tækja, sem hægt er að endurnota eða endurvinna, verði sem mest.
5.     Með fyrirvara um 1. mgr. skulu aðildarríkin sjá til þess að eigi síðar en 31. desember 2006 verði hlutfall sérstakrar söfnunar á raf- og rafeindabúnaðarúrgangi frá heimilum komið í a.m.k. fjögur kíló að meðaltali á hvern íbúa á ári.
Að tillögu framkvæmdastjórnarinnar og að teknu tilliti til fenginnar reynslu aðildarríkjanna að því er varðar tæknilegu og fjárhagslegu hliðina skulu Evrópuþingið og ráðið setja nýtt, ófrávíkjanlegt markmið eigi síðar en 31. desember 2008. Það getur miðast við hundraðshluta þess magns raf- og rafeindabúnaðar sem hefur verið seldur til heimilisnota á undanfarandi árum.

6. gr.
Meðhöndlun

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að framleiðendur eða þriðju aðilar fyrir þeirra hönd í samræmi við löggjöf Bandalagsins setji upp kerfi til meðhöndlunar á raf- og rafeindabúnaðarúrgangi þar sem notuð er fullkomnasta tækni, sem völ er á, við meðhöndlun, endurnýtingu og endurvinnslu. Framleiðendur geta komið upp þessum kerfum hver í sínu lagi og/eða sameiginlega. Til að tryggja að farið sé að ákvæðum 4. gr. í tilskipun 75/442/EBE skal meðhöndlunin að lágmarki fela það í sér að allur vökvi er fjarlægður, svo og sérmeðferð í samræmi við II. viðauka þessarar tilskipunar.
Bæta má annars konar meðhöndlunartækni, er tryggi a.m.k. sama stig heilsu- og umhverfisverndar, við í II. viðauka, samkvæmt málsmeðferðinni sem um getur í 2. mgr. 14. gr.
Aðildarríkin geta sett lágmarksgæðastaðla fyrir meðhöndlun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs, sem hefur verið safnað, til verndar umhverfinu. Aðildarríki, sem kjósa að setja slíka gæðastaðla, skulu greina framkvæmdastjórninni frá því og skal hún birta staðlana.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að allar starfsstöðvar eða fyrirtæki, sem sjá um meðhöndlun, fái leyfi lögbærra yfirvalda í samræmi við 9. og 10. gr. tilskipunar 75/442/EBE.
Beita má undanþágunni frá tilskildu leyfi sem um getur í b-lið 1. mgr. 11. gr. í tilskipun 75/442/EBE þegar um er að ræða starfsemi til endurnýtingar á raf- og rafeindabúnaðarúrgangi ef lögbær yfirvöld láta fara fram skoðun áður en skráning fer fram til að tryggja að farið sé að ákvæðum 4. gr. tilskipunar 75/442/EBE.
Í skoðun þessari skal hafa eftirlit með:
a)    gerð og magni úrgangs sem meðhöndla á,
b)    almennum, tæknilegum kröfum sem uppfylla skal,
c)    öryggisráðstöfunum sem gerðar skulu,
Skoðunin skal fara fram a.m.k. einu sinni á ári og skulu aðildarríkin senda framkvæmdastjórninni niðurstöðurnar.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að allar starfsstöðvar og fyrirtæki, sem sjá um meðhöndlun, geymi og meðhöndli raf- og rafeindabúnaðarúrgang í samræmi við tæknilegu kröfurnar sem eru settar fram í III. viðauka.
4.     Aðildarríkin skulu tryggja að leyfið eða skráningin, sem um getur í 2. mgr., feli í sér öll nauðsynleg skilyrði fyrir því að kröfurnar í 1. og 3. mgr. séu uppfylltar og að unnt sé að ná endurnýtingarmarkmiðunum sem eru sett fram í 7. gr.
5.     Meðhöndlunin getur einnig átt sér stað utan viðkomandi aðildarríkis eða utan Bandalagsins, að því tilskildu að flutningur raf- og rafeindabúnaðarúrgangs sé í samræmi við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 259/93 frá 1. febrúar 1993 um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og út úr Evrópubandalaginu ( 1 ).
Raf- og rafeindabúnaðarúrgangur, sem er fluttur út úr Bandalaginu í samræmi við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 259/93, reglugerð ráðsins (EB) nr. 1420/1999 ( 2 ) frá 29. apríl 1999 um sameiginlegar reglur og málsmeðferð við flutning á tilteknum tegundum úrgangs til tiltekinna landa utan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1547/1999 ( 3 ) frá 12. júlí 1999 um eftirlitsaðferðir samkvæmt reglugerð ráðsins (EBE) nr. 259/93 sem gilda um flutning á tilteknum tegundum úrgangs til tiltekinna landa, sem lokagerð ákvörðunar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), C(92)39, gildir ekki um, skal einungis teljast uppfylla skyldur og markmið 1. og 2. mgr. 7. gr. þessarar tilskipunar ef útflytjandinn getur sannað að endurnýtingin, endurnotkunin og/eða endurvinnslan hafi farið fram við aðstæður sem eru sambærilegar við það sem krafist er í þessari tilskipun.
6.     Aðildarríkin skulu hvetja starfsstöðvar og fyrirtæki sem sjá um meðhöndlun til að koma á fót vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 761/2001 frá 19. mars 2001 um að heimila frjálsa aðild stofnana að umhverfisstjórnunarkerfi bandalagsins (EMAS) ( 4 ).

7. gr.
Endurnýting

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að framleiðendur, eða þriðju aðilar fyrir þeirra hönd, setji upp kerfi, annaðhvort einir eða sameiginlega í samræmi við löggjöf Bandalagsins, fyrir endurnýtingu á raf- og rafeindabúnaðarúrgangi sem er safnað sérstaklega í samræmi við 5. gr. Aðildarríkin skulu láta endurnotkun heilla tækja hafa forgang. Fram til þess dags, sem um getur í 4. mgr., skal ekki taka tillit til slíkra tækja við útreikning markmiðanna, sem um getur í 2. mgr.
2.     Að því er varðar raf- og rafeindabúnaðarúrgang sem sendur er til meðhöndlunar í samræmi við 6. gr. skulu aðildarríkin sjá til þess að framleiðendur nái eftirfarandi markmiðum eigi síðar en 31. desember 2006:
a)    að því er varðar raf- og rafeindabúnaðarúrgang í 1. og 10. flokki í I. viðauka A,
    –    skal endurnýtingarhlutfall hafa aukist í a.m.k. 80% miðað við meðalþyngd hvers tækis, og
    –    endurnotkun og endurvinnsla íhluta, efniviðar og efna skal hafa aukist í a.m.k. 75% miðað við meðalþyngd hvers tækis,
b)    að því er varðar raf- og rafeindabúnaðarúrgang í 3. og 4. flokki í I. viðauka A,
    –    skal endurnýtingarhlutfall hafa aukist í a.m.k. 75% miðað við meðalþyngd hvers tækis, og
    –    endurnotkun og endurvinnsla íhluta, efniviðar og efna skal hafa aukist í a.m.k. 65% miðað við meðalþyngd hvers tækis,
c)    að því er varðar raf- og rafeindabúnaðarúrgang í 2., 5., 6., 7. og 9. flokki í I. viðauka A,
    –    skal hlutfall endurnýtingar hafa aukist í a.m.k. 70% miðað við meðalþyngd hvers tækis, og
    –    endurnotkun og endurvinnsla íhluta, efniviðar og efna skal hafa aukist í a.m.k. 50% miðað við meðalþyngd hvers tækis,
d)    að því er varðar gasúrhleðslulampa skal endurnýtingar- og endurvinnsluhlutfall íhluta, efniviðar og efna ná 80% af þyngd lampanna.
3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess, m.t.t útreiknings á þessum markmiðum, að framleiðendur eða þriðju aðilar fyrir þeirra hönd haldi skýrslur yfir massa raf- og rafeindabúnaðarúrgangs, íhluta, efniviðar eða efna hans þegar hann kemur inn (ílag) eða fer út (frálag) úr meðhöndlunarstöðinni og/eða þegar hann fer inn (ílag) í endurnýtingar- eða endurvinnslustöðina.
Framkvæmdastjórnin skal, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 14. gr., setja nákvæmar reglur um eftirlit með því hvort aðildarríkin nái þeim markmiðum sem sett eru í 2. mgr., þ.m.t. um forskriftir fyrir efnivið. Framkvæmdastjórnin skal gera þessa ráðstöfun eigi síðar en 13. ágúst 2004.
4.     Að fenginni tillögu framkvæmdastjórnarinnar skulu Evrópuþingið og ráðið, eigi síðar en 31. desember 2008, setja ný markmið um endurnýtingu og endurnotkun/endurvinnslu, þ.m.t. endurnotkun tækja í heilu lagi, eftir því sem við á, og um vörur í 8. flokki í I. viðauka A. Þetta skal gert að teknu tilliti til umhverfislegs ávinnings af raf- og rafeindabúnaði sem í notkun er, svo sem betri nýtingar auðlinda í kjölfar þróunar á sviði efniviðar og tækni. Einnig ber að taka tilliti til tæknilega framfara að því er varðar endurnotkun, endurnýtingu og endurvinnslu, vörur og efnivið og fenginnar reynslu aðildarríkjanna og atvinnugreinarinnar.
5.     Aðildarríkin skulu hvetja til þróunar nýrrar tækni við endurnýtingu, endurvinnslu og meðhöndlun.

8. gr.
Fjármögnun á meðhöndlun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs frá heimilum

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að frá og með 13. ágúst 2005 fjármagni framleiðendur a.m.k. söfnun, meðhöndlun, endurnýtingu og umhverfisvæna förgun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs frá heimilum sem er afhentur í söfnunarstöðvar sem komið er á fót skv. 2. mgr. 5. gr.
2.     Þegar um er að ræða vörur sem settar eru á markað eftir 13. ágúst 2005 skal hver framleiðandi bera ábyrgð á því að fjármagna starfsemi sem um getur í 1. mgr. og tengist úrgangi frá hans eigin framleiðslu. Framleiðandinn getur valið um það hvort hann uppfyllir skyldur sínar einn eða með því að taka þátt í sameiginlegu kerfi.
Aðildarríkin skulu tryggja að hver framleiðandi leggi fram tryggingu, þegar hann setur vöru á markaðinn, fyrir því að meðferð alls raf- og rafeindabúnaðarúrgangs verði fjármögnuð og að framleiðendur merki vörur sínar greinilega í samræmi við 2. mgr. 11. gr. Þessi trygging skal taka af allan vafa um að starfsemin, sem um getur í 1. mgr. varðandi þessa vöru, verði fjármögnuð. Tryggingin getur verið í formi þátttöku framleiðandans í viðeigandi fjármögnunarkerfum fyrir meðferð raf- og rafeindabúnaðarúrgangs, endurvinnslutryggingar eða lokaðs bankareiknings.
Við sölu á nýjum búnaði skal ekki sýna kaupanda sérstaklega kostnað við söfnun, meðhöndlun og umhverfisvæna förgun.
3.     Ábyrgjast skal fjármögnun vegna kostnaðar við meðferð raf- og rafeindabúnaðarúrgangs vara, sem settar eru á markað fyrir þann dag, sem nefndur er í 1. mgr. (gamall úrgangur), með einu eða fleiri kerfum sem allir framleiðendur, sem eru á markaðnum þegar viðkomandi kostnaður myndast, leggja fram fé til hlutfallslega, þ.e. í réttu hlutfalli við hlut þeirra í mörkuðum fyrir hinar ýmsu gerðir búnaðar.
Aðildarríkin skulu sjá til þess að á 8 ára aðlögunartímabili (10 ár í 1. flokki í I. viðauka A) eftir gildistöku þessarar tilskipunar sé framleiðendum heimilt að sýna kaupendum kostnaðinn við söfnun, meðhöndlun og umhverfisvæna förgun þegar ný vara er seld. Tilgreindur kostnaður skal ekki vera meiri en raunverulegur kostnaður.
4.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að framleiðendur, sem nota fjarsamskiptamiðla til að bjóða fram raf- eða rafeindabúnað, uppfylli einnig kröfurnar sem eru settar í þessari grein varðandi búnað sem er boðinn fram í aðildarríkinu þar sem kaupandi hans er búsettur.

9. gr.
Fjármögnun á meðhöndlun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs frá öðrum en heimilum

Aðildarríkin skulu sjá til þess að eigi síðar en 13. ágúst 2005 fjármagni framleiðendur söfnun, meðhöndlun, endurnýtingu og umhverfisvæna förgun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs frá öðrum en heimilum að því er tekur til vara sem eru settar á markað eftir 13. ágúst 2005.
Að því er varðar raf- og rafeindabúnaðarúrgang vara, sem settar eru á markað fyrir 13. ágúst 2005 (gamall úrgangur), skulu framleiðendur fjármagna kostnaðinn við meðferð. Í annan stað geta aðildarríkin kveðið á um að aðrir notendur en á heimilum séu einnig, að hluta til eða að öllu leyti, ábyrgir fyrir þessari fjármögnun.
Framleiðendur og notendur, aðrir en á heimilum geta gert samninga þar sem aðrar fjármögnunaraðferðir eru ákveðnar, sbr. þó ákvæði þessarar tilskipunar.

10. gr.
Upplýsingar til notenda

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að notendur raf- og rafeindabúnaðar á heimilum fái nauðsynlegar upplýsingar um:
a)    þá kröfu að raf- og rafeindabúnaðarúrgangi sé ekki fargað sem óflokkuðu húsasorpi heldur sé honum safnað sérstaklega,
b)    endurnýtingar- og söfnunarkerfi sem þeir hafa aðgang að,
c)    hlutverk sitt varðandi endurnotkun, endurvinnslu og aðrar leiðir til endurnýtingar raf- og rafeindabúnaðarúrgangs,
d)    hugsanleg áhrif hættulegra efna í raf- og rafeindabúnaði á umhverfið og heilsu manna,
e)    merkingu táknsins sem er sýnt í IV. viðauka.
2.     Aðildarríki skulu samþykkja viðeigandi ráðstafanir til að fá neytendur til að taka þátt í söfnun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs og hvetja þá til að auðvelda endurnotkunar-, meðhöndlunar- og endurvinnsluferlið.
3.     Með það fyrir augum að halda því í lágmarki að raf- og rafeindabúnaðarúrgangi sé fargað sem óflokkuðu húsasorpi og til að auðvelda að honum sé safnað sérstaklega skulu aðildarríkin sjá til þess að framleiðendur merki raf- og rafeindabúnað sem settur er á markað eftir 13. ágúst 2005 á viðeigandi hátt með tákninu sem er sýnt í IV. viðauka. Í undantekningartilvikum, þegar það er nauðsynlegt vegna stærðar eða virkni búnaðarins, skal táknið vera prentað á umbúðir, notkunarleiðbeiningar og ábyrgðarskírteini raf- og rafeindabúnaðarins.
4.     Aðildarríkin geta krafist þess að framleiðendur og/eða dreifingaraðilar veiti sumar eða allar upplýsingarnar, sem um getur í 1. til 3. mgr., t.d. í notkunarleiðbeiningum eða á sölustað.

11. gr.
Upplýsingar til meðhöndlunarstöðva

1.     Til að auðvelda endurnotkun og rétta og umhverfisvæna meðhöndlun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs, þ.m.t. viðhald, uppfærsla, endurnýjun, og endurvinnsla, skulu aðildarríkin gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að framleiðendur veiti upplýsingar um endurnotkun og meðhöndlun hverrar gerðar af nýjum raf- og rafeindabúnaði, sem er settur á markað, innan eins árs frá því að búnaðurinn kemur á markaðinn. Í upplýsingunum skal tilgreina, að svo miklu leyti sem endurnotkunarmiðstöðvum, meðhöndlunar- og endurvinnslustöðvum er nauðsynlegt til að geta uppfyllt ákvæði þessarar tilskipunar, mismunandi íhluti og efnivið raf- og rafeindabúnaðar og einnig staðsetningu hættulegra efna og efnablandna í slíkum búnaði. Framleiðendur raf- og rafeindabúnaðar skulu hafa upplýsingarnar tiltækar fyrir endurnotkunarmiðstöðvar, meðhöndlunar- og endurvinnslustöðvar í formi handbóka eða á rafrænum miðlum (t.d. geisladiskum eða með beinlínuþjónustu).
2.     Aðildarríki skulu tryggja að öll raf- og rafeindatæki, sem sett eru á markað eftir 13. ágúst 2005, séu greinilega merkt framleiðanda. Til að ákvarða megi ótvírætt hvenær tækið er sett á markað skal enn fremur koma fram á merkingunni á tækinu að það hafi verið sett á markað eftir 13. ágúst 2005. Framkvæmdastjórnin skal stuðla að því að settir verði Evrópustaðlar í þessum tilgangi.

12. gr.
Upplýsingar og skýrslugjöf

1.     Aðildarríkin skulu taka saman skrá yfir framleiðendur og safna ár hvert upplýsingum, ásamt rökstuddu mati, um magn og flokka raf- og rafeindabúnaðar sem settur er á markað þeirra, er safnað eftir öllum leiðum, endurnotaður, endurunninn og endurnýttur í aðildarríkjunum, og um úrgang sem hefur verið safnað og hann fluttur út, eftir vigt eða, ef það er ekki hægt, eftir fjölda tækja.
Aðildarríkin skulu sjá til þess að framleiðendur, sem bjóða fram raf- eða rafeindabúnað með fjarsamskiptamiðlum, veiti upplýsingar um það hvort þeir uppfylla kröfurnar sem eru settar fram í 4. mgr. 8. gr. og um magn og flokka raf- og rafeindabúnaðar sem settur er á markað í aðildarríkinu þar sem kaupandi búnaðarins er búsettur.
Aðildarríkin skulu sjá til þess að upplýsingarnar, sem krafist er, séu sendar til framkvæmdastjórnarinnar annað hvert ár innan 18 mánaða frá lokum þess tímabils sem um er að ræða. Fyrsti hluti upplýsinganna skal ná yfir árin 2005 og 2006. Veita skal upplýsingarnar í formi sem skal ákveðið innan eins árs frá gildistöku þessarar tilskipunar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 14. gr. með það fyrir augum að koma á fót gagnasafni um raf- og rafeindabúnaðarúrgang og meðhöndlun hans.
Aðildarríkin skulu sjá til þess að upplýsingaskipti séu nægileg til að uppfylla ákvæði þessarar málsgreinar, einkum að því er varðar meðhöndlun sem um getur í 5. mgr. 6. gr.
2.     Með fyrirvara um kröfur 1. mgr. skulu aðildarríkin senda framkvæmdastjórninni skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar á þriggja ára fresti. Skýrslan skal byggjast á spurningalista eða eyðublaði sem framkvæmdastjórnin tekur saman í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 6. gr. tilskipunar ráðsins 91/692/EBE frá 23. desember 1991 um að staðla og einfalda skýrslur um framkvæmd tiltekinna tilskipana um umhverfismál ( 1 ). Spurningalistann eða eyðublaðið skal senda aðildarríkjunum sex mánuðum fyrir upphaf tímabilsins sem skýrslan fjallar um. Skýrslan skal send framkvæmdastjórninni innan níu mánaða frá lokum þriggja ára tímabilsins sem hún tekur til.
Fyrsta skýrslan skal ná yfir þriggja ára tímabilið frá 2004 til 2006.
Framkvæmdastjórnin skal gefa út skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar innan níu mánaða frá því að skýrslur aðildarríkjanna hafa borist henni.

13. gr.
Aðlögun að framförum í vísindum og tækni

Allar breytingar, sem eru nauðsynlegar til að laga 3. mgr. 7. gr., I. viðauka B (einkum með það í huga að bæta hugsanlega við ljósabúnaði á heimilum, glóþráðarperum og íspennuljósnemabúnaði, þ.e. sólarrafhlöðuplötum), II. viðauka (einkum með tilliti til nýjunga í tækniþróun við meðhöndlun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs) og III. og IV. viðauka að framförum í vísindum og tækni, skulu samþykktar samkvæmt málsmeðferðinni sem um getur í 2. mgr. 14. gr.
Áður en viðaukunum er breytt skal framkvæmdastjórnin m.a. hafa samráð við framleiðendur raf- og rafeindabúnaðar, endurvinnsluaðila, meðhöndlunaraðila, umhverfissamtök og starfsmanna- og neytendasamtök.

14. gr.
Nefnd

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar sem komið er á fót með 18. gr. tilskipunar 75/442/EBE.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Nefndin setur sér starfsreglur.

15. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu ákveða viðurlög sem gilda skulu um brot á innlendum ákvæðum sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun. Þessi viðurlög skulu vera árangursrík, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.

16. gr.
Skoðun og eftirlit

Aðildarríkin skulu sjá til þess að skoðun og eftirlit geri kleift að sannprófa að þessi tilskipun sé framkvæmd á réttan hátt.

17. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 13. ágúst 2004. Þau skulu tilkynna framkvæmdastjórninni það þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni ákvæði allra laga og stjórnsýslufyrirmæla sem þau samþykkja á því sviði sem tilskipun þessi nær til.
3.     Að því tilskildu að markmiðin, sem sett eru í þessari tilskipun, náist er aðildarríkjunum heimilt að taka upp ákvæðin sem mælt er fyrir um í 6. gr. (6. mgr.), 10. gr. (1. mgr.) og 11. gr. með samningum milli lögbærra yfirvalda og þeirra atvinnuvega sem um er að ræða. Þessir samningar skulu uppfylla eftirfarandi kröfur:
a)    samningar skulu vera framkvæmanlegir,
b)    í samningum verður að tilgreina markmið ásamt viðeigandi tímamörkum,
c)    samningar skulu birtir í innlendum stjórnartíðindum eða opinberu skjali, sem almenningur hefur jafnt aðgengi að, og komið á framfæri við framkvæmdastjórnina,
d)    reglulegt eftirlit skal vera með þeim niðurstöðum sem nást, gefa skal skýrslu um þær til lögbærra yfirvalda og framkvæmdastjórnarinnar og koma þeim á framfæri við almenning samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru í samningnum,
e)    lögbær yfirvöld skulu sjá til þess að framfarir, sem nást samkvæmt samningnum, verði kannaðar,
f)    ef ekki er staðið við samninginn skulu aðildarríkin beita viðeigandi ákvæðum þessarar tilskipunar með laga- eða stjórnsýslufyrirmælum.
4.     a)    Grikkland og Írland, sem, vegna:
        –    skorts á grunnvirkjum til endurvinnslu,
        –    landfræðilegra aðstæðna, s.s. mikils fjölda lítilla eyja og dreifbýlis- og fjallasvæða,
        –    strjálbýlis, og
        –    lítillar notkunar raf- og rafeindabúnaðar,
        eru hvorki eru fær um að ná markmiðinu um söfnun, sem um getur í fyrstu undirgrein 5. mgr. 5. gr., né markmiðunum um endurnýtingu, sem um getur í 2. mgr. 7. gr., og sem geta, samkvæmt þriðju undirgrein 2. mgr. 5. gr. í tilskipun ráðsins 1999/31/EB frá 26. apríl 1999 um urðun úrgangs ( 1 ), sótt um framlengingu frestsins sem um getur í þeirri grein,
        hafa heimild til að framlengja frestinn, sem um getur í 5. mgr 5. gr. og 2. mgr. 7. gr. þessarar tilskipunar, í allt að 24 mánuði.
        Þessi aðildarríki skulu greina framkvæmdastjórninni frá ákvörðunum sínum fyrir lögleiðingu þessarar tilskipunar.
    b)    Framkvæmdastjórninni ber að tilkynna öðrum aðildarríkjum og Evrópuþinginu um þessar ákvarðanir.
5.     Innan fimm ára frá gildistöku þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin senda Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu sem byggð er á reynslunni af beitingu þessarar tilskipunar, einkum að því er varðar kerfi fyrir sérstaka söfnun, meðhöndlun, endurnýtingu og fjármögnun. Enn fremur skal skýrslan byggjast á tækniþróuninni, fenginni reynslu, kröfum í umhverfismálum og starfsemi innri markaðarins. Þessari skýrslu skulu, eftir því sem við á, fylgja tillögur um endurskoðun á viðeigandi ákvæðum þessarar tilskipunar.

18. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

19. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 27. janúar 2003.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX G. DRYS
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI A
Flokkar raf- og rafeindabúnaðar sem þessi tilskipun gildir um

1.    Stór heimilistæki
2.    Lítil heimilistæki
3.    Upplýsingatækni- og fjarskiptabúnaður
4.    Neytendabúnaður
5.    Ljósabúnaður
6.    Raf- og rafeindatæki (að frátöldum stórum, föstum tækjum til iðnaðar)
7.    Leikföng, tómstunda-, íþrótta- og útivistarbúnaður
8.    Lækningatæki (að frátöldum ígræðsluvörum og vörum sem bera smit)
9.    Vöktunar og eftirlitstæki
10.    Sjálfsalar

I. VIÐAUKI B
Skrá yfir vörur sem taka skal tillit til að því er varðar þessa tilskipun og sem teljast til flokka I. viðauka A

1.    Stór heimilistæki
    Stór kælitæki
    Kæliskápar
    Frystar
    Önnur stór tæki notuð til kælingar, varðveislu og geymslu matvæla
    Þvottavélar
    Þurrkarar
    Uppþvottavélar
    Eldunartæki
    Rafmagnsarnar
    Rafmagnshellur
    Örbylgjuofnar
    Önnur stór tæki notuð til eldunar og annarrar vinnslu matvæla
    Rafmagnshitunartæki
    Rafmagnsofnar
    Önnur stór tæki til að hita upp herbergi, rúm eða sæti
    Rafmagnsviftur
    Loftjöfnunartæki
    Annar viftu- útblásturs- og loftjöfnunarbúnaður
2.    Lítil heimilistæki
    Ryksugur
    Teppahreinsarar
    Önnur hreingerningatæki
    Tæki sem eru notuð til að sauma, prjóna, vefa og til annarrar textílvinnslu
    Straujárn og önnur tæki sem eru notuð til að strauja, rulla og hirða um fatnað á annan hátt
    Brauðristar
    Steikarpönnur
    Kvarnir, kaffivélar og búnaður til að opna eða innsigla ílát eða umbúðir
    Rafmagnshnífar
    Hárskurðartæki, hárþurrkur, rafmagnstannburstar, rakvélar, nuddtæki og önnur tæki, notuð til snyrtingar
    Klukkur, armbandsúr og búnaður til að mæla, gefa til kynna eða skrá tíma
    Vogir
3.    Upplýsingatækni- og fjarskiptabúnaður
    Miðlæg gagnavinnsla:
    Stórtölvur
    Smátölvur
    Prenttæki
    Einkatölvur:
    Einkatölvur (miðverk, mús, skjár og lyklaborð meðtalið)
    Fartölvur (miðverk, mús, skjár og lyklaborð meðtalið)
    Fistölvur
    Lófatölvur
    Prentarar
    Afritunarbúnaður
    Rafmagns- og rafeindaritvélar
    Vasa- og borðreiknivélar og önnur tæki og búnaður til að safna, geyma, vinna úr, setja fram eða miðla upplýsingum með rafrænum hætti
    Endabúnaður og -kerfi notanda
    Bréfasími
    Fjarriti
    Símar
    Símasjálfsalar
    Þráðlausir símar
    Hólfskiptir símar
    Símsvarar og önnur tæki eða búnaður til að flytja hljóð, myndir eða aðrar upplýsingar með fjarskiptatækni
4.    Neytendabúnaður
    Útvarpstæki
    Sjónvarpstæki
    Myndbandsupptökutæki
    Myndbandstæki
    Hi-fi-upptökutæki
    Magnarar
    Hljóðfæri
    og önnur tæki eða búnaður sem er notaður til hljóð- eða myndupptöku eða -flutnings, þ.m.t. merki eða annars konar tækni við dreifingu hljóðs og myndar en með fjarskiptum
5.    Ljósabúnaður
    Ljós fyrir flúrlampa að frátöldum þeim sem eru notuð á heimilum
    Aflangir flúrlampar
    Samþjappaðir flúrlampar
    Hástyrksúrhleðslampar, þ.m.t. þrýstingsnatríumlampar og málmhalógenlampar
    Lágþrýstingsnatríumlampar
    Annars konar ljós eða ljósabúnaður sem þjónar þeim tilgangi að dreifa ljósi eða takmarka ljós, að frátöldum glóþráðarperum
6.    Raf- og rafeindatæki (að frátöldum stórum, föstum tækjum til iðnaðar)
    Borar
    Sagir
    Saumavélar
    Búnaður til að renna, sverfa, slípa, fínpússa, saga, skera, klippa, bora, hola, gata, brjóta saman, beygja eða vinna timbur, málm eða önnur efni á svipaðan hátt
    Verkfæri til að hnoða, negla eða skrúfa eða fjarlægja hnoð, nagla og skrúfur eða til svipaðra nota
    Tæki til að logsjóða eða lóða eða til svipaðra nota
    Búnaður til sprautunar, dreifingar, úðunar eða annarrar meðhöndlunar með vökva eða loftkenndum efnum
    Sláttutæki eða önnur tæki til garðvinnu
7.    Leikföng, tómstunda-, íþrótta- og útivistarbúnaður
    Rafknúnar lestar eða bílabrautir
    Handstjórnborð myndbandsleikja
    Skjáleikir
    Tölvur til hjólreiða, köfunar, hlaupa, róðrar o.s.frv.
    Íþrótta- og útivistarbúnaður með raf- eða rafeindaíhlutum
    Spilakassar
8.    Lækningatæki (að frátöldum ígræðsluvörum og vörum sem bera smit)
    Búnaður til geislameðferðar
    Hjartalækningatæki
    Skilunarbúnaður
    Öndunartæki
    Búnaður til geislalækninga
    Búnaður á rannsóknarstofu til sjúkdómsgreiningar í glasi
    Greiningartæki
    Frystar
    Búnaður til frjóvgunarprófana
    Önnur tæki til að greina, fyrirbyggja, vakta, veita meðferð og ráða bót á sjúkdómum, meiðslum og fötlun
9.    Vöktunar- og eftirlitstæki
    Reykskynjarar
    Hitajafnarar
    Hitastillar
    Mælitæki, vogir- eða stillibúnaður fyrir heimili eða rannsóknarstofur
    Önnur vöktunar- og eftirlitstæki sem notuð eru í iðjuverum (t.d. á stjórnborðum)
10.    Sjálfsalar
    Sjálfsalar fyrir heita drykki
    Sjálfsalar fyrir heitar eða kaldar flöskur eða dósir
    Sjálfsalar fyrir vörur í föstu formi
    Sjálfsalar til að skipta peningum
    Öll tæki sem afhenda sjálfvirkt hvers konar vörur

II. VIÐAUKI
Sérmeðhöndlun efniviðar og íhluta raf- og rafeindabúnaðarúrgangs í samræmi við 1. mgr. 6. gr.

1.    Að lágmarki skal fjarlægja eftirfarandi efni, efnablöndur og íhluti úr öllum raf- og rafeindabúnaðarúrgangi sem safnað er sérstaklega:
    –    fjölklóruð býfenýl (PCB) sem innihalda þétta í samræmi við tilskipun ráðsins 96/59/EB frá 16. september 1996 um förgun fjölklóraðra bífenýla og fjölklóraðra terfenýla (PCB/PCT) ( 1 ),
    –    íhluti sem innihalda kvikasilfur, s.s. rofa eða lampa til baklýsingar,
    –    rafhlöður,
    –    prentplötur, yfirleitt úr farsímum en einnig úr öðrum tækjum ef yfirborð prentplötunnar er stærra en 10 fersentimetrar,
    –    blekhylki, fljótandi eða krem, einnig litahylki,
    –    plast sem inniheldur brómað logavarnarefni,
    –    asbestúrgangur og íhlutir sem innihalda asbest,
    –    bakskautslampar,
    –    klórflúrkolefni (CFC), vetnisklórflúrkolefni (HCFC) eða vetnisflúrkolefni (HFC) og vetniskolefni (HC),
    –    gasúrhleðslulampar,
    –    vökvakristalskjáir (ásamt umgerð ef við á) með stærra yfirborð en 100 fersentimetra og allir slíkir skjáir sem eru baklýstir með gasúrhleðslulömpum,
    –    utanáliggjandi rafleiðslur,
    –    íhlutir sem innihalda eldfastar keramíktrefjar eins og lýst er í tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/69/EB frá 5. desember 1997 um aðlögun að tækniframförum á tilskipun ráðsins 67/548/EBE um flokkun, pökkun og merkingu hættulegra efna ( 1 ),
    –    íhlutar sem innihalda geislavirk efni, að frátöldum íhlutum sem eru undir undantekningarmörkunum sem eru sett í 3. gr. og I. viðauka tilskipunar ráðsins 96/29/KBE frá 13. maí 1996 um grundvallaröryggisstaðla um verndun heilbrigðis starfsmanna og almennings gegn hættu af völdum jónandi geislunar ( 2 ),
    –    rafkleyfir þéttar sem innihalda skaðleg efni (hæð > 25 mm, þvermál > 25 mm eða hlutfallslega svipað magn)
    Farga skal þessum efnum, efnablöndum og íhlutum eða endurnýta þau í samræmi við 4. gr. tilskipunar ráðsins 75/442/EBE.
2.    Eftirfarandi íhlutar raf- og rafeindabúnaðarúrgangs, sem er safnað sérstaklega, skulu meðhöndlaðir á eftirfarandi hátt:
    –    bakskautslampar: fjarlægja skal flúrhúðun,
    –    búnaður sem inniheldur lofttegundir sem eru ósoneyðandi eða hafa hitahækkunarmátt (GWP) sem fer yfir 15, t.d. í froðu og kælirásum: draga verður lofttegundirnar út og meðhöndla þær á réttan hátt. Ósoneyðandi lofttegundir verður að meðhöndla í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr 2037/2000 frá 29. júní 2000 um efni sem eyða ósonlaginu ( 3 ),
    –    gasúrhleðslulampar: fjarlægja skal kvikasilfur
3.    Að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða og þess hve endurnotkun og endurvinnsla er æskileg skal beita 1. og 2. lið á þann hátt að umhverfisvæn endurnotkun og endurvinnsla íhluta eða heilla tækja sé ekki hindruð.
4.    Við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 14. gr., skal framkvæmdastjórnin hafa það sem forgangsmál að meta, m.t.t. eftirfarandi færslna:
    –    prentplötur úr farsímum, og
    –    vökvakristalskjáir
    hvort þeim þurfi að breyta.

III. VIÐAUKI
Tæknilegar kröfur í samræmi við 3. mgr. 6. gr.

1.    Geymslustaðir (þ.m.t. bráðabirgðageymsla) raf- og rafeindabúnaðarúrgangs áður en meðhöndlun hefst (með fyrirvara um kröfurnar í tilskipun ráðsins 1999/31/EB):
    –    hentug svæði með ógagndræpu yfirborði þar sem fyrir hendi er aðstaða til lekasöfnunar og, ef við á, fellingar- og fituhreinsunarbúnaður,
    –    heppileg svæði með vatnsheldu yfirborði.
2.    Staðir fyrir meðhöndlun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs:
    –    vogir til að vigta meðhöndlaðan úrgang,
    –    hentug svæði með ógagndræpu yfirborði og vatnsþéttri yfirbyggingu þar sem fyrir hendi er aðstaða til lekasöfnunar og, ef við á, fellingar- og fituhreinsunarbúnaður,
    –    heppileg geymsla fyrir varahluti úr búnaði sem tekinn hefur verið í sundur,
    –    heppileg ílát til að geyma í rafhlöður, þétta sem innihalda PCB eða PCT og annan hættulegan úrgang, s.s. geislavirkan úrgang,
    –    búnaður til að hreinsa vatn, í samræmi við heilbrigðis- og umhverfisreglugerðir.

IV. VIÐAUKI
Tákn til merkingar á raf- og rafeindabúnaði

Táknið, sem gefur til kynna að raf- og rafeindabúnaði sé safnað sérstaklega, er mynd af yfirstrikaðri sorptunnu á hjólum eins og sýnt er hér á eftir. Merkið skal prentað þannig að það sé sýnilegt, læsilegt og óafmáanlegt.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 134/2004

frá 24. september 2004

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 113/2004 frá 9. júlí 2004 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/108/EB frá 8. desember 2003 um breytingu á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi bætist við í lið 32fa (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB) í XX. viðauka við samninginn:

„ , eins og henni var breytt með:

-         32003 L 0108: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/108/EB frá 8. desember 2003 (Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 106).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2003/108/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 25. september 2004 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 24. september 2004.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Kjartan Jóhannsson


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann




Fylgiskjal IV.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2003/108/EB
frá 8. desember 2003
um breytingu á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Við samþykkt málsmeðferðar varðandi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB frá 27. janúar 2003 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang ( 3 ) vöknuðu áhyggjur yfir hugsanlegum fjárhagslegum afleiðingum orðalags 9. gr. þeirrar tilskipunar fyrir framleiðendur viðkomandi búnaðar.
2)          Á fundi sáttanefndarinnar frá 10. október 2002 um tilskipunina settu Evrópuþingið, ráðið og framkvæmdastjórnin fram í sameiginlegri yfirlýsingu þá fyrirætlun sína að þeir myndu, eins fljótt og auðið er, rannsaka þau álitamál sem tengjast 9. gr. tilskipunar 2002/96/EB og varða raf- og rafeindabúnaðarúrgang frá notendum, öðrum en á heimilum.
3)          Framkvæmdastjórnin hefur kannað, í samræmi við sameiginlegu yfirlýsinguna, hvaða fjárhagslegu afleiðingar orðalagið í 9. gr. tilskipunar 2002/96/EB getur haft fyrir framleiðendur og hefur hún komist að raun um að endurviðtökuskylda að því er varðar raf- og rafbúnaðarúrgang, sem hefur þegar verið markaðssettur, skapar afturvirka skaðabótaábyrgð sem engin ákvæði hafa verið sett um og sem líklegt er að skapi alvarlega, efnahagslega áhættu fyrir tiltekna framleiðendur.
4)          Í því skyni að koma í veg fyrir slíka áhættu skulu framleiðendur bera fjárhagslega ábyrgð á söfnun, meðhöndlun, endurnotkun, endurheimt og endurvinnslu raf- og rafeindabúnaðarúrgangs frá notendum, öðrum en á heimilum, sem settur er á markað fyrir 13. ágúst 2005, þegar bjóða skal nýjar vörur sem koma í stað annarra af sambærilegri gerð eða sem gegna sama hlutverki. Ef nýjar vörur koma ekki í stað slíks úrgangs ber þessum notendum að axla ábyrgðina. Aðildarríkin, framleiðendur og notendur skulu eiga þess kost að finna aðrar lausnir.
5)          Aðildarríkin skulu, skv. 17. gr. tilskipunar 2002/96 /EB, samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 13. ágúst 2004. Í því skyni að koma í veg fyrir að breyta þurfi löggjöf, sem aðildarríkin hafa samþykkt fyrir þann dag, ber að samþykkja þessa tilskipun eins fljótt og auðið er og taka hana upp í löggjöf aðildarríkjanna á sama tíma og tilskipun 2002/96/EB.
6)          Breyta ber tilskipun 2002/96/EB til samræmis við þetta.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Í stað 9. gr. tilskipunar 2002/96/EB komi eftirfarandi:
     „9. gr.
     Fjármögnun í tengslum við raf- og rafeindabúnaðarúrgang frá notendum, öðrum en á heimilum
    1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að eigi síðar en 13. ágúst 2005 annist framleiðendur fjármögnun við söfnun, meðhöndlun, endurheimt og umhverfisvæna förgun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs frá notendum, öðrum en á heimilum, að því er tekur til vara sem settar eru á markað eftir 13. ágúst 2005. Aðildarríkin skulu sjá til þess að eigi síðar en 13. ágúst 2005 verði kostnaður við meðhöndlun úrgangs (gamals úrgangs), að því er tekur til vara sem settar eru á markað fyrir 13. ágúst 2005, fjármagnaður með þeim hætti sem segir í þriðju og fjórðu undirgreininni.
    Ef nýjar, sambærilegar vörur, sem gegna sama hlutverki, koma í stað gamals úrgangs skulu framleiðendurnir annast fjármögnun vegna kostnaðarins þegar þeir afhenda þær. Að öðrum kosti geta aðildarríkin kveðið á um að notendur, aðrir en á heimilum, séu einnig, að hluta til eða að öllu leyti, ábyrgir fyrir þessari fjármögnun.
    Þegar um er að ræða annan gamlan úrgang skulu notendur, aðrir en á heimilum, annast fjármögnun vegna kostnaðarins.
    2.     Framleiðendur og notendur, aðrir en á heimilum, geta samið um aðrar fjármögnunaraðferðir, sbr. þó ákvæði þessarar tilskipunar.“

2. gr.

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 13. ágúst 2004. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

3. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

4. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 8. desember 2003.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX F. FRATTINI
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 130, 29.4.2004, bls. 3 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 23, 29.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 37, 13.2.2003, bls. 24.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 365 E, 19.12.2000, bls. 184 og Stjtíð. EB C 240 E, 28.8.2001, bls. 298.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 116, 20.4.2001, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 148, 18.5.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 15. maí 2001 (Stjtíð. EB C 34 E, 7.2.2002, bls. 115), sameiginleg afstaða ráðsins frá 4. desember 2001 (Stjtíð. EB C 110 E, 7.5.2002, bls. 1) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 10. apríl 2002 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB). Ákvörðun Evrópuþingsins frá 18. desember 2002 og ákvörðun ráðsins frá 16. desember 2002.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB C 138, 17.5.1993, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB C 76, 11.3.1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB C 362, 2.12.1996, bls. 241.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 194, 25.7.1975, bls. 47. Tilskipuninni var síðast breytt með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 96/350/EB (Stjtíð. EB L 135, 6.6.1996, bls. 32).
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. EB L 78, 26.3.1991, bls. 38. Tilskipuninni var breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/101/EB (Stjtíð. EB L 1, 5.1.1999, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. EB L 118, 27.4.2001, bls. 41.
Neðanmálsgrein: 14
(2)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. EB L 144, 4.6.1997, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 16
(2)    Stjtíð. EB 196, 16.8.1967, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/59/EB (Stjtíð. EB L 225, 21.8.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 17
(3)    Stjtíð. EB L 200, 30.7.1999, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/60/EB (Stjtíð. EB L 226, 22.8.2001, bls. 5).
Neðanmálsgrein: 18
(1)    Stjtíð. EB L 30, 6.2.1993, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2557/2001 (Stjtíð. EB L 349, 31.12.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 19
(2)    Stjtíð. EB L 166, 1.7.1999, bls. 6. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2243/2001 (Stjtíð. EB L 303, 20.11.2001, bls. 11).
Neðanmálsgrein: 20
(3)    Stjtíð. EB L 185, 17.7.1999, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2243/2001.
Neðanmálsgrein: 21
(4)    Stjtíð. EB L 114, 24.4.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 22
(1)    Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 48.
Neðanmálsgrein: 23
(1)    Stjtíð. EB L 182, 16.7.1999, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 24
(1)    Stjtíð. EB L 243, 24.9.1996, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 25
(1)    Stjtíð. EB L 343, 13.12.1997, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 26
(2)    Stjtíð. EB L 159, 29.6.1996, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 27
(3)    Stjtíð. EB L 244, 29.9.2000, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 2039/2000 (Stjtíð. EB L 244, 29.9.2000, bls. 26).
Neðanmálsgrein: 28
(1)    Stjtíð. ESB L 376, 23.12.2004, bls. 51 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 65, 23.12.2004, bls. 34.
Neðanmálsgrein: 29
(2)    Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 106.
Neðanmálsgrein: 30
(*)    Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 31
(1)    Stjtíð. EB C 234, 30.9.2003, bls. 91.
Neðanmálsgrein: 32
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 21. október 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB) og ákvörðun ráðsins frá 19. nóvember 2003.
Neðanmálsgrein: 33
(3)    Stjtíð. EB L 37, 13.2.2003, bls. 24.