Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 288. máls.
Þskj. 304  —  288. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 57/1998,
um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Lögin taka einnig til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu.

2. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
    Rannsóknarleyfi skal veitt einum aðila á hverju svæði. Þó er heimilt að veita fleiri en einum aðila slíkt leyfi sameiginlega hafi þeir staðið saman að rannsóknarleyfisumsókn og gert með sér samning um skiptingu rannsóknarkostnaðar.

3. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Nú fær annar en rannsóknarleyfishafi leyfi til að nýta viðkomandi auðlind og getur þá sá sem kostaði rannsóknir krafið nýtingarleyfishafa um sannanlegan kostnað vegna rannsókna eða markaðsvirði þeirra, sé það fyrir hendi, gegn afhendingu á niðurstöðum rannsóknanna, enda geti þær nýst nýtingarleyfishafa. Rísi ágreiningur um greiðsluna skal skorið úr því með mati dómkvaddra matsmanna.

4. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 5. gr.“ í 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: 3. mgr. 5. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á síðasta þingi lagði iðnaðarráðherra fram frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Var því frumvarpi ætlað að leysa af hólmi lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, auk þess sem því var m.a. ætlað að taka til rannsókna á vatnsaflsvirkjunum. Í meðförum Alþingis ákvað iðnaðarnefnd að fresta afgreiðslu frumvarpsins. Hins vegar lagði nefndin fram nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998 þar sem kveðið var á um rannsóknir á vatnsaflsvirkjunum. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju með þeirri breytingu að fellt er niður ákvæði til bráðabirgða.
    Við gildistöku raforkulaga, nr. 65/2003, var samkeppni í vinnslu raforku innleidd hér á landi. Var ráðherra jafnframt veitt vald til að veita virkjunarleyfi á grundvelli laganna en fyrir gildistöku þeirra var vald ráðherra bundið því skilyrði að Alþingi hefði áður með sérstökum heimildarlögum veitt honum heimild til slíks. Fyrir gildistöku raforkulaga hafði Landsvirkjun jafnframt forgang til virkjunar vatnsafls í samræmi við skyldu sína til að sjá öllum sem þess óskuðu fyrir raforku. Nú þegar þessi forgangur Landsvirkjunar er ekki lengur til staðar hafa fleiri orkufyrirtæki sýnt vatnsaflsvirkjunum áhuga. Samkvæmt gildandi lögum hefur sá sem stundar rannsóknir á vatnsafli hins vegar ekki forgang til nýtingar, öfugt við það sem á við um jarðvarma, eða tryggingu fyrir því að fá rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan komi til þess að annar aðili fái nýtingar- eða virkjunarleyfi á viðkomandi svæði. Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu hefur komið í ljós að orkufyrirtækin eru tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli vegna þessa en heppilegt getur talist. Er því talið nauðsynlegt að tryggja að aðeins einn aðili fái rannsóknarleyfi á hverju svæði og jafnframt að hann geti fengið rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan sé nýtingar- eða virkjunarleyfi veitt öðrum aðila. Einnig verður að ætla að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að fleiri en einn aðili kosti sams konar rannsóknir á sömu stöðum þegar ljóst er að aðeins einu virkjunarleyfi verður úthlutað.
    Í samræmi við framangreint er lagt til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu:
    Lagt er til að gildissvið laganna verði víkkað þannig að lögin taki til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Við þessa breytingu munu ákvæði laganna, sbr. einkum ákvæði III. kafla laganna um rannsóknir og leit, taka til slíkra rannsókna eftir því sem við á. Samhliða þessu er í 2. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að rannsóknarleyfi samkvæmt lögunum séu veitt einum aðila með þeirri undantekningu að hafi aðilar sammælst um rannsóknir og sæki sameiginlega um rannsóknarleyfi skuli heimilt að veita þeim það sameiginlega. Dæmi eru um slíkt varðandi jarðhita og líklegt talið að slíkt geti komið upp varðandi rannsóknir á vatnsorku. Er því talið rétt að taka af tvímæli um að heimilt sé að veita rannsóknarleyfi sameiginlega til fleiri en eins aðila standi þeir saman að umsókn og hafi áður gert samkomulag sín á milli um kostnaðarskiptingu.
    Þá er í 3. gr. frumvarpsins mælt fyrir um endurkröfurétt þeirra sem fengið hafa rannsóknarleyfi og lagt í kostnað við rannsóknir en fá af einhverjum ástæðum ekki leyfi til nýtingar á viðkomandi auðlind. Gert er ráð fyrir að sá kostnaður sem endurgreiða beri sé í samræmi við rannsóknaráætlun og í beinum og efnislegum tengslum við fyrirhugaða nýtingu. Í 7. gr. gildandi laga er einungis kveðið á um að landeigandi geti krafið nýtingarleyfishafa um sannanlegan kostnað sem landeigandi eða aðilar á hans vegum hafa haft af rannsóknum á auðlindum á eignarlandi hans. Rétt er að slíkur endurkröfuréttur eigi við um alla þá sem fengið hafa rannsóknarleyfi og lagt í kostnað á grundvelli þess enda geti rannsóknarniðurstöður nýst nýtingarleyfishafa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um
rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998.

    Í frumvarpinu er meðal annars kveðið á um að rannsóknarleyfi skuli veitt einum aðila á hverju svæði. Einnig er bætt við ákvæði um að lögin taki til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.