Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 297. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 318  —  297. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samstarf Vestur-Norðurlanda um markmið í fiskveiðimálum gagnvart Evrópusambandinu.

Flm.: Halldór Blöndal, Guðrún Ögmundsdóttir, Hjálmar Árnason,


Sigurrós Þorgrímsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Sigurjón Þórðarson.


    Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2004, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að efla samstarf Vestur- Norðurlanda um ýmis markmið í fiskveiðimálum gagnvart Evrópusambandinu.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð var fram á 131. löggjafarþingi en varð þá eigi tekin á dagskrá. Tillagan er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2004 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 20.–24. ágúst 2004. Ályktunin var á þessa leið:
    „Vestnorræna ráðið mælist til þess að ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands beiti sér fyrir aðgerðum sem hafi þann tilgang að efla samstarf Vestur-Norðurlanda varðandi ýmis úrlausnarefni í tengslum við stefnu í fiskveiðimálum gagnvart Evrópusambandinu.
    Ekkert Vestur-Norðurlanda er aðili að Evrópusambandinu. Löndin eru þó öll tengd sambandinu: Grænland fyrir tilstilli fyrirkomulags Evrópusambandsins um lögsögur handan hafsins, Ísland með aðild að EES-samningnum og Færeyjar með viðskiptasamningi við sambandið.
    Sögulega hafa Vestur-Norðurlönd verið háð fiskútflutningi og svo er enn. Löndin hafa í dag enga sameiginlega stefnu gagnvart Evrópusambandinu á sviði fiskveiðimála. Vestur- Norðurlönd verða í þessu samhengi að leitast við að setja fram sameiginleg viðhorf í fiskveiðimálum sem setja má fram í sameiningu gagnvart framkvæmdastjórninni.
    Með því að setja fram sameiginleg sjónarmið á sviði fiskveiðimála er hugsanlegt að Vestur-Norðurlönd geti aukið líkur á að hafa áhrif innan Evrópusambandsins. Að öðrum kosti sjá Vestur-Norðurlönd líklega fram á það að sjónarmið þeirra á sviði fiskveiðimála verði undir og framsæknari óskir Evrópusambandsins og þarfir þess að tryggja samevrópskri stefnu í fiskveiðimálum viðgang ráði för.
    Horfast verður í augu við það að þær ákvarðanir sem teknar eru í Evrópusambandinu varðandi fiskveiðar hafa víðtækar afleiðingar fyrir Vestur-Norðurlönd. Einnig er mikilvægt að Evrópusambandið viðurkenni verðmæti og möguleika þeirrar sérstöku vitneskju um sjávarútveg sem er að finna á Vestur-Norðurlöndum. Hvað varðar stefnu í fiskveiðimálum og útflutning fiskafurða hafa Vestur-Norðurlönd og Evrópusambandið margt að bjóða hvert öðru.
    Vestur-Norðurlönd eiga þess vegna í sameiningu að leitast við að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru innan Evrópusambandsins og skipta máli varðandi sjávarútveg á Vestur- Norðurlöndum til hagsbóta fyrir lönd okkar og viðgang og afkomu fiskveiða okkar. Með því að standa saman og eftir því sem unnt er að tala einni röddu gætu Vestur-Norðurlönd náð fram markmiðum sínum og óskum varðandi stefnu í fiskveiðimálum.“