Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 298. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 319  —  298. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um átak í rannsóknum á loftslagsbreytingum við Norður-Atlantshaf.

Flm.: Halldór Blöndal, Guðrún Ögmundsdóttir, Hjálmar Árnason,


Sigurrós Þorgrímsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Sigurjón Þórðarson.


    Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2004, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að semja framkvæmdaáætlun um markvisst átak í rannsóknum á loftslagsbreytingum við Norður-Atlantshaf.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð var fram á 131. löggjafarþingi en varð þá eigi tekin á dagskrá. Tillagan er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2004 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 20.–24. ágúst 2004. Ályktunin var á þessa leið:
    „Vestnorræna ráðið hvetur ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands til að móta í sameiningu framkvæmdaáætlun í þeim tilgangi að efla markvisst átak í rannsóknum á loftslagsbreytingum og beina einkum rannsóknum sínum að Norður-Atlantshafi.
    Loftslagsbreytingar eru meðal hnattrænna vandamála sem sérfræðingar og vísindamenn glíma við og eru orðin áþreifanleg og sýnileg atvinnulífi, stjórnmálamönnum og almenningi um allan heim. Rannsóknir sem fram að þessu hafa verið gerðar á þessu sviði benda til þess að Vestur-Norðurlönd og Norður-Atlantshaf allt skipti höfuðmáli varðandi loftslagsbreytingar, ekki aðeins við Norður-Atlantshaf heldur einnig á heimsvísu. Meðal annars hefur verið bent á að leiðir hafstraumanna og skilin á heitum og köldum sjó í Norður-Atlantshafi skipti sköpum um þróun loftslags á norðurhveli jarðar.
    Markvissar rannsóknir á loftslagsbreytingum varða miklu um vitneskju okkar um framtíðarþróun lífskjara, breytingar á vistkerfum og efnahagslega möguleika á Vestur-Norðurlöndum og annars staðar við Norður-Atlantshaf. En þetta skiptir einnig miklu fyrir hnattrænar framkvæmdaáætlanir og aðgerðir á sviði umhverfis- og orkumála. Því liggur beint við að Vestur-Norðurlönd hafi frumkvæði að því að auka og skerpa rannsóknir á loftslagsbreytingum, og beina fyrst og fremst sjónum að Norður-Atlantshafinu í þeim efnum.
    Loftslagsrannsóknir geta orðið rannsóknarsvið þar sem Vestur-Norðurlönd eru í forustu. Slíkar rannsóknir snerta ekki einungis okkur sjálf, heldur hljóta athygli alls heimsins.
    Í Norrænu ráðherranefndinni var á árinu 1999 – að tillögu Færeyinga – ætlað fé til verkefna við rannsóknir á loftslagsbreytingum. Nú hlýtur að vera kominn tími til að Vestur- Norðurlönd móti í sameiningu framkvæmdaáætlun sem getur leitt þessi rannsóknarverkefni fram til varanlegri og kerfisbundnari rannsókna á loftslagsbreytingum.“