Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 144. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 334  —  144. mál.    
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2005.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir breytingartillögur við sundurliðun 1, tekjur A-hluta, en endurskoðuð tekjuáætlun gerir ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 11.240 m.kr. frá áætlun í frumvarpinu. Þá gerir meiri hlutinn 33 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 3.284,4 m.kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

        Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 113 m.kr.
101     Embætti forseta Íslands.
        1.01
Yfirstjórn. Lögð er til 98 m.kr. fjárveiting til að jafna út rekstrarhalla embættisins. Þar af eru 13,3 m.kr. vegna halla í ár en 84,7 m.kr. vegna uppsafnaðs halla frá fyrri árum. Á umliðnum árum hefur misræmi milli útgjalda og fjárveitinga aukist og brýnt er að það verði brúað. Í lok október 2004 fóru embætti forseta Íslands og forsætisráðuneytið þess á leit við Ríkisendurskoðun að stofnunin skoðaði ýmsa þætti í fjármálum embættis forseta Íslands. Tillagan byggist á niðurstöðu þeirrar skoðunar.
201     Alþingi.
        5.20
Fasteignir. Lögð er til 15 m.kr. fjárveiting til viðhalds Alþingishúss. Fjárveiting til þess nemur í ár 60 m.kr. en Framkvæmdasýsla ríkisins áætlaði í september að kostnaður gæti numið 86,2 m.kr. og orðið þannig 26,2 m.kr. hærri en fjárveitingu nemur. Alþingi getur ráðstafað 11,2 m.kr. af ónotuðum fjárveitingum til viðhalds fasteigna og framkvæmda til að brúa bilið svo að fjárþörf á fjáraukalögum verður 15 m.kr.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 38 m.kr.
919     Söfn, ýmis framlög.
        1.90
Söfn, ýmis framlög. Gerð er tillaga um 5,5 m.kr. fjárveitingu til Minjasafns Egils Ólafssonar að Hnjóti vegna rekstrarvanda safnsins síðustu tvö ár og ófyrirséðra atvika.
983     Ýmis fræðistörf.
        1.11
Styrkir til útgáfumála. Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag til að styrkja gerð spænsk-íslenskrar orðabókar. Áhugi á spænskunámi hefur vaxið verulega á síðustu árum hér á landi en það hefur hins vegar háð spænskukennslu og -námi á Íslandi að ekki hefur verið gefin út spænsk-íslensk orðabók. Unnin hafa verið drög að slíkri orðabók og er stefnt að því að í henni verði 40 þúsund orð og að vinnslu hennar ljúki á þremur árum. Heildarkostnaður við orðabókina er áætlaður 90 m.kr. og er farið fram á að ríkið styrki útgáfuna með 15 m.kr.
989     Ýmis íþróttamál.
        1.90
Ýmis íþróttamál. Gerð er tillaga um 2,5 m.kr. hækkun á safnliðnum vegna skákmóts á Grænlandi.
999     Ýmislegt.
        6.90
Ýmis stofnkostnaðarframlög. Gerð er tillaga um 15 m.kr. fjárveitingu til uppbyggingar í tengslum við Unglingalandsmót 2005 sem haldið var í Vík í Mýrdal.

03 Utanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði aukin um 18,1 m.kr.
391     Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi.
        1.30
Mannúðarmál og neyðaraðstoð. Gerð er tillaga um 18,1 m. kr. framlag vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um neyðaraðstoð í kjölfar jarðskjálftanna í Pakistan í september sl. Framlaginu verður skipt milli Rauða kross Íslands, 150.000 USD, UNICEF, 75.000 USD og World Food Program, 75.000 USD.

04 Landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 2.307,7 m.kr.
262     Landbúnaðarháskóli Íslands.
        1.01
Landbúnaðarháskóli Íslands. Lögð er til 69,2 m.kr. fjárveiting til að jafna út uppsafnaðan rekstrarhalla og er þá miðað við að stofnunin verði hallalaus í árslok 2005. Hallinn skiptist þannig að 6,2 m.kr. er áætlaður hallarekstur í ár vegna kostnaðar við sameiningu en 63 m.kr. er óuppgerður uppsafnaður rekstrarhalli þeirra stofnana sem sameinuðust í Landbúnaðarháskóla Íslands í árslok 2004. Tillagan kemur til viðbótar 38,5 m.kr. framlagi sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og samtals er því gerð tillaga um 107,7 m.kr. vegna hallareksturs og kostnaðar við sameiningu stofnananna.
        6.01
Tæki og búnaður. Gerð er tillaga um 30,5 m.kr. fjárveitingu til að gera upp halla á framkvæmdum við nýtt fjós á Hvanneyri. Er sú fjárhæð til viðbótar 22,3 m.kr. framlagi vegna virðisaukaskatts sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og samtals er því gerð tillaga um 52,8 m.kr. vegna fjósbyggingarinnar. Samkvæmt upphaflegum áætlunum var gert ráð fyrir að kostnaður við fjósbygginguna yrði 132,6 m.kr. en þar af var kostnaður við ýmsan búnað 11,2 m.kr. og gert ráð fyrir að 26,1 m.kr. virðisaukaskattur af framkvæmdunum fengist endurgreiddur. Heildarkostnaður að þessum liðum frádregnum var því áætlaður 95,3 m.kr. Þegar upp var staðið reyndist þessi kostnaður hafa orðið 91,7 m.kr., eða 3,6 m.kr. innan áætlunar. Kostnaður við búnað varð hins vegar mun meiri en áætlað var, eða 39,7 m.kr., og heildarkostnaður við framkvæmdina, án virðisaukaskatts, varð því 131,4 m.kr. Til framkvæmdanna hafði skólinn 70 m.kr. á fjárlögum og 25 m.kr. styrk frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins, auk þess sem smærri styrkir og vaxtatekjur námu 5,9 m.kr. Alls hefur skólinn því haft 100,9 m.kr. til framkvæmda við fjósið á móti 131,4 m.kr. kostnaði og nemur halli skólans af framkvæmdunum fyrir utan virðisaukaskatt því 30,5 m.kr.
331     Héraðsskógar.
        1.10
Skógræktarátak á Fljótsdalshéraði. Gerð er tillaga um að veita Héraðsskógum 8 m.kr. aukafjárveitingu til leiðréttingar á mistökum sem urðu vegna ósamræmis í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 og talnagrunni frumvarpsins.
891     Sérstakar greiðslur í landbúnaði.
        1.95
Lífeyrissjóður bænda. Lagt er til að 2.200 m.kr. af söluandvirði eigna Lánasjóðs landbúnaðarins verði látnar renna til Lífeyrissjóðs bænda. Samkvæmt lögum nr. 68/2005, um breytingu á lögum nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins, skal söluandvirði sjóðsins, að frádregnum kostnaði við sölu og niðurlagningu hans, renna til Lífeyrissjóðs bænda samkvæmt nánari ákvörðun í fjárlögum. Tillagan miðast við að eignir sjóðsins standi undir heildarskuldbindingum hans samkvæmt fyrirliggjandi úttekt á áætlaðri tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins í lok þessa árs. Umsamið grunnsöluverð helstu eigna sjóðsins að teknu tilliti til yfirtekinna skulda var 2.653 m.kr. Ýmsum uppgjörum í kringum söluna er ólokið og sjóðurinn á auk þess nokkrar eignir óseldar. Er lagt til að ráðstafað verði 2.200 m.kr. af söluandvirðinu til Lífeyrissjóðs bænda og á sjóðurinn þá að vera í jafnvægi miðað við skuldbindingar hans.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 10 m.kr.
203     Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
        1.01
Almenn starfsemi. Gerð er tillaga um 10 m.kr. aukafjárveitingu til að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins geti hafið rannsóknir og þróunarverkefni er hafa að markmiði að auka verðmæti sjávarfangs með áherslu á ál og humar. Annars vegar verði þróuð vinnslutækni og flutningatækni til að gera mögulegt að markaðssetja og selja lifandi humar á erlendum mörkuðum og hins vegar verði þróaðar aðferðir við eldi og vinnslu á ál. Þá verði markaðir kannaðir.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 47,5 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.93
Dómsmál, ýmis kostnaður. Lögð er til 3 m.kr. fjárveiting til að standa straum af kostnaði í tvo mánuði á þessu ári við sérstakan ríkissaksóknara í umfangsmiklu máli þar sem ríkissaksóknari sagði sig frá málinu til að gæta hæfisreglna. Fjárveitingin er ætluð til þess að standa undir launakostnaði, sérfræðiaðstoð og húsnæði. Samsvarandi tillaga verður sett fram við 2. umræðu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2006. Alls er gert ráð fyrir 18 m.kr. til verkefnisins á tólf mánaða tímabili.
701     Þjóðkirkjan.
        1.01
Biskup Íslands. Lagt er til að fjárheimild þjóðkirkjunnar hækki um 38,8 m.kr. Samkvæmt samningi milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar greiðir ríkið m.a. laun presta, prófasta, vígslubiskupa og biskups Íslands í samræmi við úrskurði kjaranefndar og Kjaradóms. Á þessu ári úrskurðaði Kjaradómur um 3% hækkun launa biskups Íslands frá 1. janúar eins og reiknað hafði verið með í fjárlögum en ákvað auk þess 2% hækkun frá 1. júlí. Kjaranefnd úrskurðaði einnig um 3% hækkun frá 1. janúar til presta, prófasta og vígslubiskupa í samræmi við forsendur fjárlaga en því til viðbótar ákvað nefndin að laun þeirra skyldu hækka um 4,5% frá 1. febrúar. Loks úrskurðaði kjaranefnd um breytingar á fyrirkomulagi launa presta þannig að 1,6 mánuðir sem þeir höfðu fengið greidda aukalega á hverju ári fyrir að leysa hver annan af í sumarleyfum og á vikulegum frídögum voru færðir inn í grunnlaunin frá 1. júlí. Samtals er áætlað að launakostnaður þjóðkirkjunnar aukist um tæplega 91 m.kr. við þessar breytingar á árinu 2005. Þar af höfðu þegar verið millifærðar 52,3 m.kr. til þjóðkirkjunnar af launa- og verðlagslið fjárlaga, einkum vegna hækkunarinnar 1. febrúar. Ekki var reiknað með að hækkun grunnlauna frá 1. júlí hefði teljandi áhrif þar sem á móti áttu að falla niður afleysingagreiðslur. Í ljós hefur komið að kjaranefnd ákvað að þær greiðslur féllu ekki niður á þessu ári heldur á næsta ári og framvegis og er því leitað eftir fjárheimild til að mæta því sem á vantar vegna kostnaðaráhrifa úrskurðanna. Í tillögunni er jafnframt gerð leiðrétting á tegundaskiptingu fjárheimilda fjárlaga fyrir árið 2005.
707     Kristnisjóður.
        1.10
Kristnisjóður. Lagt er til að fjárveiting til Kristnisjóðs hækki um 5,7 m.kr. Samkvæmt samningi milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar greiðir ríkið sjóðnum árlegt framlag sem svarar til 15 fastra árslauna presta í fámennustu prestaköllunum. Eins og fram kemur í skýringum við lið 06-701 Þjóðkirkjan hefur kjaranefnd hækkað laun presta og fært aukagreiðslur inn í föst laun þeirra í þremur úrskurðum á árinu. Fjárheimildinni er ætlað að mæta áhrifum úrskurðanna á framlagið til sjóðsins umfram það sem þegar hefur verið gert með millifærslu af launa- og verðlagslið fjárlaga fyrr á árinu.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði lækkuð um 100,6 m.kr.
700     Málefni fatlaðra.
        1.90
Ýmis verkefni. Lagt er til að 6,9 m.kr. verði varið til stofnana fatlaðra vegna ákvæða í kjarasamningum um vinnufatnað starfsmanna á heimilum fyrir fatlaða. Áformað er að félagsmálaráðuneyti móti reglur um framkvæmd greiðslna og millifæri fjárhæðir á einstakar stofnanir.
705     Málefni fatlaðra, Norðurlandi vestra.
        1.86
Samningur við Byggðasamlag um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra. Gerð er tillaga um 6 m.kr. fjárheimild til að mæta kostnaði við starfsmat sem samið var um í kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambandsins frá 2001 vegna starfsmanna sem sinna þjónustu við fatlaða. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 12,2 m.kr. framlagi sem er uppgjör fyrir árin 2002–2004 en ekki var gert ráð fyrir leiðréttingu vegna ársins 2005. Samtals er því gert ráð fyrir 18,2 m.kr. framlagi vegna starfsmatsins.
706     Málefni fatlaðra, Norðurlandi eystra.
        1.86 Samningur við Akureyrarbæ um þjónustu við fatlaða. Gerð er tillaga um 23 m.kr. fjárheimild til að mæta kostnaði við starfsmat sem samið var um í kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambandsins frá 2001 vegna starfsmanna sem sinna þjónustu við fatlaða. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 45 m.kr. framlagi sem er uppgjör fyrir árin 2002–2004 en ekki var gert ráð fyrir leiðréttingu vegna ársins 2005. Samtals er því gerð tillaga um 68 m.kr. framlag vegna starfsmatsins.
984     Atvinnuleysistryggingasjóður.
        1.11
Atvinnuleysisbætur. Lögð er til 125 m.kr. lækkun á fjárveitingum til atvinnuleysisbóta til viðbótar því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Tillagan tekur mið af nýjum upplýsingum um útstreymi úr sjóðnum það sem af er árinu. Í frumvarpinu hefur þegar verið gert ráð fyrir 518 m.kr. lækkun á greiðslum úr sjóðnum og samtals er því reiknað með að þær lækki um 643 m.kr. frá áætlun fjárlaga 2005.
989     Fæðingarorlof.
        1.01
Umsýslukostnaður Tryggingastofnunar ríkisins. Gerð er tillaga um 38,5 m.kr. fjárheimild til að mæta kostnaði Tryggingastofnunar ríkisins vegna umsýslu stofnunarinnar með Fæðingarorlofssjóði. Kostnaðurinn hefur reynst meiri en ráð var fyrir gert í samningi félagsmálaráðuneytisins og Tryggingastofnunar. Um er að ræða fjárhæð sem aðilar eru sammála um að hafi fallið til á árunum 2001–2005. Unnið er að endurskoðun samnings um umsýslu Tryggingastofnunar með Fæðingarorlofssjóði.
        1.11
Fæðingarorlofssjóður. Lögð er til 50 m.kr. lækkun á fjárveitingu til Fæðingarorlofssjóðs frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um þróun útgjalda það sem af er árinu 2005. Framlagið hækkar þá um 300 m.kr. í stað 350 m.kr. eins og áður var áætlað.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 290,9 m.kr.
201     Tryggingastofnun ríkisins.
        1.01
Tryggingastofnun ríkisins. Gert er ráð fyrir að 38,5 m.kr. hækkun sértekna stofnunarinnar vegna endurmats á greiðslum fyrir umsýslu með Fæðingaorlofssjóði aftur til ársins 2001. Fjárhæðin færist bæði sem sértekjur og sem fjárheimild til að mæta útlögðum kostnaði. Samkvæmt lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, sér Tryggingastofnun ríkisins um vörslu sjóðsins, reikningshald hans og afgreiðslu í umboði félagsmálaráðherra. Endurmat félagsmálaráðuneytis og Tryggingastofnunar á umsýslukostnaði sjóðsins fyrir liðin ár leiddi í ljós hærri kostnað við umsýslu sjóðsins en samningur kveður á um. Hins vegar er gert ráð fyrir lækkandi umsýslukostnaði samhliða lækkun greiðslna úr sjóðnum.
        6.01
Tæki og búnaður. Gerð er tillaga um 75 m.kr. fjárveitingu til að mæta auknum kostnaði við hönnun nýs greiðslukerfis lífeyristrygginga. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við verkefnið nemi 350–380 m.kr. og að því ljúki á árinu 2006. Kostnaður við verkefnið hefur reynst hærri en upphaflega var gert ráð fyrir og stofnunin hefur ekki fjárveitingar til að standa undir þeim útgjöldum sem stefnir í á þessu ári. Ekki er talið skynsamlegt að fresta framkvæmdum við verkefnið og því er óskað eftir þessari fjárheimild.
206     Sjúkratryggingar.
        1.11
Lækniskostnaður. Gerð er tillaga um 26 m.kr. til að mæta kostnaði við að fjölga einingum læknisverka í samningi sjálfstætt starfandi sérgreinalækna milli Tryggingastofnunar og Læknafélags Reykjavíkur. Fjöldi eininga í núverandi samningi er byggður á áætlun um fjölda læknisverka á árinu 2004 en lagt er til að raunverulegur fjöldi eininga 2004 verði lagður til grundvallar. Þá er gert ráð fyrir að bæta við einingum vegna svæfinga í kjölfar ákvörðunar um fjölgun læknisverka við bæklunarlækningar.
        1.31
Þjálfun. Lagt er til að millifærð verði 29,5 m.kr. fjárveiting af þjálfunarlið sjúkratrygginga til Reykjalundar vegna atvinnulegrar endurhæfingar. Reykjalundur hefur sinnt atvinnulegri endurhæfingu samkvæmt samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Gert er ráð fyrir að nýr þjónustusamningur milli ráðuneytisins og Reykjalundar taki einnig til þessa verkefnis og verði það ekki greitt af fjárveitingum Tryggingastofnunar eins og verið hefur.
305     Lýðheilsustöð.
        1.01
Lýðheilsustöð. Lögð er til 1,9 m.kr. hækkun á lögbundnu framlagi til tóbaksvarna þannig að það verði í samræmi við brúttósölu tóbaks eins og lög kveða á um.
373     Landspítali – háskólasjúkrahús.
        5.60
Viðhald. Gerð er tillaga um 40 m.kr. framlag til viðhalds eigna Landspítala – háskólasjúkrahúss.
379     Sjúkrahús, óskipt.
        1.01
Óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa. Lagt er til að veitt verði 20 m.kr. framlag til að stytta bið eftir aðgerðum á sjúkrahúsum.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi.
        1.98
Ýmis framlög heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Gerð er tillaga um 11 m.kr. til að mæta kostnaði við gagnkvæm starfsmannaskipti íslenskra og kínverskra heilbrigðisstofnana. Kínversk yfirvöld hafa óskað eftir að senda til Íslands einn kínverskan lækni og einn hjúkrunarfræðing til að kynna sér meðferðir og forvarnir við AIDS. Gert er ráð fyrir að ráðuneytið greiði húsnæði og uppihald vegna tveggja starfsmanna í níu mánuði. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær boðið verði upp á að íslenskir heilbrigðisstarfsmenn haldi til starfa í Kína, en reiknað er með að auglýsing þess efnis verði birt innan tíðar.
        6.91
Upplýsingatæknimál. Lagt er til að 17 m.kr. verði varið til verkefna á sviði rafrænnar sjúkrarskrár, þ.e. rafrænna lyfseðla og miðlægrar bólusetningarskrár. Rafrænir lyfseðlar munu hafa í för með sér mikinn fjárhagslegan ávinning og auka meðferðaröryggi lyfseðla. Miðlæg bólusetningarskrá hefur mikla þýðingu við skipulagningu sóttvarna og byggist á rafrænum samskiptum heilsugæslu við gagnagrunn sóttvarnalæknis. Uppbygging á samskiptabúnaði stofnana er nauðsynleg til að hægt sé að hrinda verkefninu í framkvæmd.
401     Hjúkrunarheimili, almennt.
        1.01
Hjúkrunarheimili, almennt. Gerð er tillaga um 100 m.kr. óskipt framlag vegna rekstrarvanda hjúkrunarheimila.
491     Reykjalundur, Mosfellsbæ.
        1.10
Reykjalundur, Mosfellsbæ. Lagt er til að millifærð verði 29,5 m.kr. fjárveiting af þjálfunarlið sjúkratrygginga til stofnunarinnar vegna atvinnulegrar endurhæfingar. Reykjalundur hefur sinnt atvinnulegri endurhæfingu samkvæmt samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Gert er ráð fyrir að nýr þjónustusamningur milli ráðuneytisins og Reykjalundar taki einnig til þessa verkefnis og verði það ekki greitt af fjárveitingum Tryggingastofnunar eins og verið hefur.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 85 m.kr.
721     Fjármagnstekjuskattur.
        1.11
Fjármagnstekjuskattur. Áætlað er að ríkissjóður greiði 85 m.kr. fjármagnstekjuskatt af hagnaði af sölu Lánasjóðs landbúnaðarins. Er fjárhæðin einnig færð sem tekjur hjá ríkissjóði og hefur því ekki áhrif á afkomu hans.

10 Samgönguráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 444,8 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.36
Athugun á samgöngumiðstöð í Vatnsmýri og Reykjavíkurflugvelli. Lagt er til að veitt verði 18 m.kr. framlag til verkefnis sem felur í sér úttekt á Reykjavíkurflugvelli og vinnu starfshóps sem samgönguráðherra hefur skipað með þátttöku Reykjavíkurborgar. Áætlað er að heildarkostnaður verði allt að 36 m.kr. og greiðir Reykjavíkurborg helming hans á móti ríkissjóði. Þar er einnig talinn með kostnaður við vinnuhóp um samgöngumiðstöð.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


        1.90
Ýmislegt. Gerð er tillaga um 26,8 m.kr. framlag vegna kostnaðar sem féll á samgönguráðuneytið við gjaldþrot ferðaskrifstofunnar Samvinnuferðir–Landsýn en ábyrgðir ferðaskrifstofunnar reyndust ekki halda þegar á reyndi. Málið fór fyrir Hæstarétt sem ekki féllst á að reisa mætti fjárkröfu á hendur útgefendum ábyrgðanna á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar þeirrar sem þeir höfðu afhent samgönguráðuneytinu.
211     Rekstur Vegagerðarinnar.
        1.07
Þjónusta. Gerð er tillaga um 100 m.kr. framlag vegna aukinna hálkuvarna. Með bættu vegakerfi og meira bundnu slitlagi á vegum en áður þarf að auka vetrarþjónustu. Nú er svo komið að nauðsynlegt er að uppfæra vetrarþjónustureglur sem Vegagerðin hefur stuðst við. Þessar breytingar þýða um 10% hækkun á kostnaði við vetrarþjónustu eða um 100 m.kr. kostnaðarauka.
212     Framkvæmdir Vegagerðarinnar.
        6.10
Framkvæmdir. Lagt er til að veitt verði 300 m.kr. framlag til endurbóta og öryggisaðgerða á veginum um Óshlíð. Tillaga þessi er gerð með vísan til samþykktar ríkisstjórnarinnar frá 30. september sl. um málið.

12 Viðskiptaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild viðskiptaráðuneytis verði aukin um 20 m.kr.
411     Samkeppniseftirlitið.
        1.01
Samkeppniseftirlitið. Lagt er til að veittar verði 20 m.kr. til að efla samkeppniseftirlit með því að fjölga starfsfólki.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 10 m.kr.
410     Veðurstofa Íslands.
        6.01
Tæki og búnaður. Gerð er tillaga um 10 m.kr. fjárveitingu til Veðurstofu Íslands til að endurnýja LORAN-tengdan móttökubúnað og koma upp GPS-staðsetningarbúnaði. Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hefur sagt upp samningi um háloftarannsóknir og búnaður sá, sem til rannsóknanna hefur verið notaður, er í eigu varnarliðsins. Jafnframt verður gerð tillaga um 5 m.kr. rekstrarfjárveitingu í fjárlögum fyrir árið 2006.


SKÝRINGAR VIÐ 3. GR.

    Í frumvarpinu er felld niður 8,7 milljarða kr. lánsfjárheimild vegna þess að Íbúðalánasjóður hætti að veita viðbótarlán fyrir hönd sveitarfélaganna. Hins vegar láðist að bæta þeirri lánsfjárheimild við heimild sjóðsins til almennra íbúðalána, en gera má ráð fyrir að stór hluti viðbótarlána sem húsnæðisnefndir sveitarfélaganna veittu færist þangað.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 11. nóv. 2005.



Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Bjarni Benediktsson.


Birkir J. Jónsson.


Drífa Hjartardóttir.



Guðmundur Hallvarðsson.