Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 313. máls.

Þskj. 340  —  313. mál.



Frumvarp til laga

um breytingar á lögum nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2005“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 31. desember 2008.
     b.      6. málsl. 1. mgr. orðast svo: Styrkupphæð vegna slíkra einkaframkvæmda getur aldrei verið hærri en sem nemur virðisaukaskatti vegna framkvæmdanna.

2. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Heimilt er að ráðstafa allt að 10 millj. kr. ár hvert til rannsókna á viðtökum fráveitu með það að markmiði að þær leiði til lækkunar kostnaðar við fráveituframkvæmdir á síðari stigum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvapi þessu eru lagðar til breytingar á 1. og 6. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995, auk þess sem lögð er til viðbót við 4. gr.
    Lög nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, gera ráð fyrir því að sveitarfélög geti notið styrks úr ríkissjóði vegna styrkhæfra fráveituframkvæmda, sem framkvæmdar eru á tímabilinu 1. maí 1995 til 31. desember 2005, sem nemur allt að 200 millj. kr. á ári eða eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum, þó aldrei hærri upphæð en sem nemur 20% af staðfestum heildarkostnaði styrkhæfra framkvæmda næstliðins árs. Þannig var gert ráð fyrir því að til málaflokksins færi á tímabilinu 2,2 milljarðar króna.
    Samkomulag hefur orðið milli ríkisins og sveitarfélaganna í samræmi við tillögur tekjustofnanefndar ríkis og sveitarfélaga að framlengja gildistíma laganna um þrjú ár eða frá 2006 til og með 2008 með óbreyttri árlegri fjárhæð sem yrði 200 millj. kr. á ári enda fóru þessar framkvæmdir hægar af stað en gert var ráð fyrir þannig að fyrst árið 2003 reyndi á 200 millj. kr. framlagið.
    Með lögum nr. 84/2005 var gerð breyting á lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum og opnað fyrir að sveitarstjórnir fái styrk til fráveituframkvæmda óháð því hvort sveitarfélögin fjármagna framkvæmdirnar beint eða farin er leið einkaframkvæmdar. Um leið var sett hámark á fjárhæð styrks sem nemur virðisaukaskatti vegna framkvæmdanna. Ljóst er að ætlunin var sú að þetta ætti aðeins við um einkaframkvæmdir. Þykir nauðsynlegt að það komi skýrar fram í lögunum. Aðrar framkvæmdir geta notið jöfnunar eins og framkvæmdin hefur verið hingað til.
    Kostnaður sveitarfélaganna vegna undirbúnings framkvæmda, svo sem rannsóknir, njóta ekki fjárstuðnings samkvæmt lögunum, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Þessi kostnaður getur lent með mismunandi þunga á sveitarfélögunum, allt frá því að vera hverfandi hluti kostnaðar við heildarframkvæmdina eða skipta verulegu máli þar sem viðtakinn er viðkvæmur, t.d. þar sem byggð er inni í landi og vatnasvæði eru viðkvæm. Sveitarfélögin eru því misvel sett hvað varðar þennan kostnað og á það ekki síst við um mörg þeirra sveitarfélaga sem skammt eru á veg komin í fráveituframkvæmdum. Því er lagt til að heimilað verði að verja allt að 10 millj. kr. ár hvert á gildistíma laganna til rannsókna á viðtökum og er nauðsynlegt að þannig verði staðið að þessum rannsóknum að þær nýtist sem best með landið í heild í huga.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, með síðari breytingu.

    Í frumvarpinu er lagt til að tímabil framkvæmda sem notið geta styrks úr ríkissjóði samkvæmt lögunum verði framlengt um þrjú ár og því ljúki í árslok 2008 í stað ársloka 2005. Einnig er lagt til að heimilt verði að ráðstafa allt að 10 m.kr. ár hvert til rannsókna á áhrifum fráveituframkvæmdanna á umhverfið.
    Verði frumvarp þetta að lögum má gera ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs geti orðið allt að 200 m.kr. hærri en ella hvert áranna 2007, 2008 og 2009.