Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 314. máls.

Þskj. 341  —  314. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir,
nr. 7/1998, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    23. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra ákveður í reglugerð kröfur um gæðastjórnun og innra eftirlit í fyrirtækjum sem eru eftirlitsskyld samkvæmt lögum þessum. Heimilt er ráðherra að kveða þar á um að innra eftirlit skuli að hluta eða í heild sæta úttekt faggilts aðila. Þar skal einnig m.a. kveðið á um umfang opinbers eftirlits og ákvörðun eftirlitsgjalda sem taka mið af innra eftirliti þeirra fyrirtækja sem eftirlitið beinist að.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að nýr málsliður, 2. málsl., verði felldur inn í núgildandi 23. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum. Í honum felst að ráðherra verði heimilt að kveða á um að innra eftirlit skuli að hluta eða í heild sæta úttekt faggilts aðila.
    Ábending um þetta kom frá nefnd sem gerði tillögur að reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim, nr. 942/2002. Nefndin ályktaði að rétt væri að kveða á um að aðalskoðun leikvallatækja yrði framkvæmd af faggiltum skoðunaraðila. Í faggildingu felst að viðkomandi aðili er metinn hæfur til að framkvæma umrædda skoðun, sbr. IV. kafla laga um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992.
    Ákvæðið er orðað með almennum hætti þar sem hugsanlegt er að æskilegt verði talið að kveða á um sams konar fyrirkomulag að því er varðar innra eftirlit í annarri starfsemi þar sem öryggi fólks er í húfi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lögð til heimild fyrir umhverfisráðherra til að kveða á um það í reglugerð að innra eftirlit í fyrirtækjum, sem eru eftirlitsskyld samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sé að hluta eða í heild framkvæmt af faggiltum skoðunaraðila, og hverjar kröfur þurfi að uppfylla til að hljóta slíka faggildingu.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.