Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 320. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 352  —  320. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um framhaldsskóla í Borgarnesi.

Flm.: Jón Bjarnason, Guðjón A. Kristjánsson,


Kolbrún Halldórsdóttir, Sigurjón Þórðarson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja þegar í stað viðræður við sveitarstjórnir og aðra heimaaðila í Borgarfirði og nágrenni um stofnun framhaldsskóla í Borgarnesi, sbr. 37. og 39. grein laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla.
    Ráðherra geri Alþingi grein fyrir undirbúningsstarfi og tillögum sínum fyrir 1. apríl 2006.
    Stefnt verði að því að nýr framhaldsskóli taki til starfa í Borgarnesi haustið 2006.

Greinargerð.


    Megintilgangurinn með þessari tillögu er að auka framboð á menntun í Borgarbyggð og nágrenni og styrkja þar með almenna grunnmenntun í héraðinu. Jafnframt er hún liður í að laga skólakerfið að nútímakröfum um rétt til fjölskyldulífs og fjölskylduábyrgðar.
    Fólk lítur í auknum mæli, og það með réttu, á samveru fjölskyldna sem hluta af lífskjörum sínum. Það að unglingar geti stundað sem lengst nám sitt í heimangöngu er beint innlegg í jöfnun lífskjara.
    Viðurkennt er að á aldrinum 15–19 ára taka unglingar út mikinn þroska. Ytra álag er töluvert á þessu aldursskeiði og þá ræðst mjög til framtíðar gengi unglinga í námi og starfi. Því er mikilvægt að fjölskyldan geti verið sem mest samvistum þennan tíma og að unglingarnir fái nauðsynlegan stuðning af fjölskyldulífinu. Oftar en ekki velur fjölskylda að flytja til byggðarlags þar sem er framhaldsskóli þegar börnin komast á framhaldsskólaaldur.
    Þessar staðreyndir eru í raun áréttaðar með nýlegum sjálfræðislögum, en með þeim er foreldrum falin ábyrgð á unglingum að 18 ára aldri og því eðlilegt að skipulag menntunar taki mið af því.
    Jafnframt er ljóst að mikill námskostnaður þeirra sem þurfa að sækja framhaldsnám út fyrir heimabyggð sína er vaxandi vandamál á landsbyggðinni. Hækkun innritunargjalda og aukinn kostnaður nemenda við bóka- og efniskaup eykur enn á þennan mismun. Þrýstingur á að einkavæða skólakerfið og taka upp skólagjöld mun enn auka á misréttið til náms.
    Framhaldsskóli með nemendum sínum og starfsfólki styrkir mjög innviði hvers samfélags. Blómlegt félags- og tómstundastarf byggist jafnan upp í kringum framhaldsskóla sem þannig gefa hverju byggðarlagi sterkari sjálfsmynd.

Framhaldsskóli í Borgarnesi.
    Á árunum 2000–2004 fjölgaði nemendum í framhaldsskólum hér á landi úr 20.332 í 22.629, eða um rúm 11,2%, samkvæmt hagtölum frá Hagstofu Íslands. Þessi aukna sókn í menntun er mikið fagnaðarefni en hún leggur stjórnvöldum jafnframt skyldur á herðar í uppbyggingu framhaldsskóla. Í svari menntamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi nú í nóvember kom fram að 119 nemendur fengu ekki skólavist í framhaldsskóla á sl. hausti.
    Fyrir rúmlega 20 árum voru fimm framhaldsskólar í Borgarfirði en nú er það nám sem er þar enn á framhaldsskólastigi rekið í tengslum við háskóla og kemur sem lokaáfangi til undirbúnings fyrir þá skóla. Þó að vissulega sé góður framhaldsskóli á svæðinu, Fjölbrautarskóli Vesturlands á Akranesi, eru vegalengdir það miklar vestur á Mýrar og inn í dali Borgarfjarðar að óraunhæft er að nemendur geti sótt hann í daglegri heimangöngu. Borgarnes og Borgarfjarðarhérað er ört vaxandi byggðarlag og framhaldsskóli eðlilegur þáttur í hverju samfélagi þar sem því verður viðkomið.
    Mikill styrkur er að auknum umsvifum háskólanna á Bifröst og á Hvanneyri og nærvera þeirra er mikil fagleg stoð fyrir starf framhaldsskóla á svæðinu.

Íbúum fjölgar hratt í Borgarfirði og nágrenni.
    Sé litið til langs tíma hefur fjöldi framhaldsskólanema aukist jafnt og þétt og er sú aukning nokkuð umfram almenna fólksfjölgun í landinu. Frá árinu 1997 hefur framhaldsskólanemum fjölgað um 10% en Íslendingum fjölgað um 8% á sama tíma. 5% þeirra sem stunda framhaldsskólanám á Íslandi búa á Vesturlandi. Er það í réttu hlutfalli við þann aldurshóp sem helst stundar slíkt nám, en 5% íbúa landsins á aldrinum 16–29 ára búa á Vesturlandi.
    Í Borgarfirði hefur aldursdreifing íbúanna verið nokkuð frábrugðin aldursdreifingu á landinu öllu, að því leyti að sérstaklega vantar þar fólk á aldrinum 25–29 ára en á þeim aldri lýkur fólk námi, stofnar fjölskyldu og haslar sér völl á vinnumarkaði.
    Árið 2004 stunduðu 297 íbúar á svæðinu framhaldsskólanám. Ef litið er til Borgarfjarðar alls auk Dalasýslu fer fjöldinn upp í 365 íbúa. Eftir 10 ár má gera ráð fyrir að þeir verði a.m.k. 452 talsins, samkvæmt mjög vægum spám.
    Ljóst þykir að framhaldsskóli í Borgarnesi er nauðsynlegur eins og staðan er núna, og enn brýnni þörf verður fyrir slíkan skóla með hverju árinu sem líður. Því er lagt hér til að menntamálaráðherra hefji þegar í stað undirbúningsvinnu fyrir stofnun framhaldsskóla í Borgarnesi á grundvelli 37. og 39. gr. laga um framhaldsskóla og ungu fólki í Borgarfirði verði þannig tryggt að það geti stundað nám á framhaldsskólastigi í heimabyggð.

Menntun í heimabyggð.

    Framhaldsskólinn í Grundarfirði, sem tók til starfa haustið 2004, hefur gjörbreytt búsetuskilyrðum á norðanverðu Snæfellsnesi. Nú getur ungt fólk á Snæfellsnesi sótt framhaldsskóla í daglegri heimangöngu. Nálægðin við skólann gefur öðrum íbúum möguleika til náms sem þeir áttu ekki áður kost á. Framhaldsskóli Snæfellinga er nú þegar fullsetinn og aðsókn mun meiri en bjartsýnustu áætlanir höfðu gert ráð fyrir.
    Gert er ráð fyrir að framhaldsskólinn sem hér um ræðir yrði í Borgarnesi. Markmiðið er að skólinn þjóni íbúum í Borgarnesi og nágrannabyggðum sem almennur framhaldsskóli í heimangöngu. Við ákvörðun á námsframboði hans verði tekið mið af sérhæfingu Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og annarra skóla á framhalds- og háskólastigi í héraðinu þannig að hann stuðli að enn víðtækari faglegri samfellu í menntun á svæðinu.

Lög um framhaldsskóla.
    Í lögum um framhaldsskóla nr. 80 11. júní 1996 segir:

XII. KAFLI


Stofnun og bygging framhaldsskóla.


37. gr.


    Ríki eða sveitarfélög, eitt eða fleiri, geta haft frumkvæði að stofnun nýs framhaldsskóla en skóli verður þó eigi stofnaður nema með samþykki Alþingis. Ákvæði þetta á þó ekki við um skóla sem stofnaðir kunna að verða samkvæmt ákvæðum 41. gr.
    Standi ríki og sveitarfélag/sveitarfélög sameiginlega að stofnun framhaldsskóla skal gera samning milli aðila um nýframkvæmdir, stofnbúnað og endurbyggingu húsnæðis sem ríki og sveitarfélög samþykkja að standa að vegna framhaldsskóla. Þar skulu m.a. vera ákvæði um stjórn framkvæmda, byggingarhraða og greiðslustreymi. Heimilt er að fela sveitarfélögum, sem aðild eiga að framhaldsskóla, að fara með undirbúning og umsjón með byggingarframkvæmdum.
    Samningar um framkvæmdir skulu undirritaðir af menntamálaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum hins vegar. Fjármálaráðherra skal kynna fjárlaganefnd slíka samninga.
    Kostnaður við byggingarframkvæmdir, aðrar framkvæmdir á lóð og stofnbúnað framhaldsskóla og heimavista við þá skiptist þannig að ríkissjóður greiðir 60% áætlaðs kostnaðar samkvæmt viðmiðunarreglum (normkostnaður) þegar sveitarfélag eða sveitarfélög annast undirbúning og verkframkvæmd. Hlutur sveitarfélags eða sveitarfélaga er þá sá hluti kostnaðar sem ríkissjóður greiðir ekki. Lóðir undir framhaldsskóla skulu sveitarfélög leggja til án kvaða eða gjalda. Þegar ríkissjóður ber ábyrgð á undirbúningi verks og stjórnar framkvæmdum, án íhlutunar sveitarfélags eða sveitarfélaga, greiðir sveitarfélag eða sveitarfélög 40% miðað við normkostnað en ríkissjóður hinn hlutann. Heimilt er ráðuneytinu að semja um aðra kostnaðaraðild þegar um búnað verknámshúsnæðis er að ræða að fengnu samþykki fjárlaganefndar.
    Ákveði Alþingi að stofna skóla án aðildar sveitarfélags eða sveitarfélaga greiðist allur stofnkostnaður úr ríkissjóði.
    Þar sem heimavistir verða reistar í tengslum við framhaldsskóla má gerð húsnæðis og búnaðar miðast við að nýta megi aðstöðuna til gistihúsarekstrar utan reglulegs skólatíma. Um umframkostnað, sem af því kann að leiða, skal samið sérstaklega milli byggingaraðila. Um notkun heimavistarhúsnæðis utan skólatíma skal gerður sérstakur samningur í samráði við menntamálaráðuneyti og hann staðfestur af skólanefnd.
    Menntamálaráðherra skal í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja viðmiðunarreglur um stærð og gerð húsnæðis fyrir framhaldsskóla og málsmeðferð varðandi undirbúning framkvæmda samkvæmt þessari grein. Menntamálaráðuneytið skal að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja reglur um viðmiðun stofnkostnaðar og búnaðar (norm) er skipting áætlaðs byggingarkostnaðar miðist við.

[...]

XIII. KAFLI


Rekstur framhaldsskóla.


39. gr.


    Ríkissjóður greiðir samkvæmt lögum þessum rekstrarkostnað framhaldsskóla. Hver skóli er sjálfstæð rekstrareining og hefur sérstaka fjárveitingu á fjárlögum. Menntamálaráðherra gerir tillögur til fjárveitingar á fjárlögum til hvers skóla á grundvelli samþykktrar kennslu- og fjárhagsáætlunar skólans til þriggja ára. Áætlun þessi skal endurskoðuð árlega með tilliti til nemendafjölda skólans.
    Ríkissjóður greiðir allan launakostnað vegna kennslu, stjórnunar og annarra starfa. Menntamálaráðherra skal gefa út reglugerð þar sem settar eru fram reglur (reiknilíkan) til að reikna út kennslukostnað skóla. Við útreikninga þessa skal miðað við fjölda nemenda, lengd og tegund náms, fjölda kennslustunda á viku samkvæmt aðalnámskrá, kostnað sem leiðir af kjarasamningum og annað sem kann að skipta máli. Í reglugerð þessari skulu einnig vera viðmiðunarreglur um framlög til annarra starfa en kennslu.
    Auk launakostnaðar greiðir ríkissjóður annan rekstrarkostnað skóla, svo og viðhald húsa og tækja. Rekstrarframlag er greitt til skóla samkvæmt ákvæðum í samningi er gerður skal við menntamálaráðuneytið. Heimilt er skólanefnd, ef þörf krefur, að millifæra fé af rekstrarlið fjárlaga til launaliðar og af launalið til rekstrarliðar.
    Meiri háttar viðhald framhaldsskóla í eigu ríkissjóðs skal greitt af sérstakri fjárveitingu til þessa verkefnis sem ákveðin er í fjárlögum í samræmi við sérstaka viðhaldsáætlun til þriggja ára í senn sem menntamálaráðherra gerir. Um undirbúning viðhaldsframkvæmda og umsjón með þeim fer með sama hætti og aðrar slíkar framkvæmdir á vegum ríkisins.
    Heimilt er að ráða sérstakan fjármálafulltrúa til þess að annast fjárreiður skóla og bókhald og starfar hann undir stjórn skólameistara.