Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 327. máls.

Þskj. 359  —  327. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl.,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Orðin „í landbúnaði“ í 4. tölul. 1. mgr. falla brott.
     b.      6. tölul. 1. mgr. orðast svo: til nota á ökutæki sem ætluð eru til sérstakra nota og eru með varanlegum áföstum búnaði til þeirra nota og brenna að meginhluta til dísilolíu í kyrrstöðu, t.d. kranabifreiðar, vörubifreiðar með krana yfir 25 tonnmetrum, borkranabifreiðar, steypuhræribifreiðar, götuhreinsibifreiðar, holræsabifreiðar, borholumælingabifreiðar og úðunarbifreiðar.
     c.      7. tölul. 1. mgr. orðast svo: til nota á beltabifreiðar og námuökutæki sem eingöngu eru notuð utan vega eða á lokuðum vinnusvæðum.
     d.      3. mgr. orðast svo:
                      Óheimilt er að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, önnur en dráttarvélar skv. 4. tölul. 1. mgr. og ökutæki skv. 6. og 7. tölul. 1. mgr.
     e.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
                      Eigendum ökutækja skv. 6. tölul. 1. mgr. er heimilt að skrá umrædd ökutæki hjá Umferðarstofu sem ökutæki til sérstakra nota og öðlast þar með rétt á gjaldfrjálsri litaðri olíu samhliða því að þeir greiði sérstakt kílómetragjald skv. 6. mgr. 13. gr. Ökutæki skv. 7. tölul. 1. mgr. og ökutæki sem skráð hafa verið til sérstakra nota skal auðkenna með sérstökum hætti í ökutækjaskrá.
     f.      4. mgr. orðast svo:
                      Fjármálaráðherra er heimilt að kveða á um skilyrði fyrir undanþágu í reglugerð, þ.m.t. hvaða ökutæki falla undir 6. og 7. tölul. 1. mgr. og um fyrirkomulag skráningar ökutækja skv. 6. og 7. tölul. 1. mgr.

2. gr.

    Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Fjármálaráðherra er heimilt að kveða á um í reglugerð hvernig staðið skuli að sölu eða afhendingu á gjaldfrjálsri olíu.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „endurgreiðslu“ í 3. mgr. kemur: skv. 1. mgr.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Beiðnir um endurgreiðslu skv. 2. mgr. skulu afgreiddar af utanríkisráðuneytinu.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Við 1. tölul. 1. mgr. bætist: eða af ökutækjum skv. 7. tölul. 1. mgr. 4. gr.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
                      Greiða skal sérstakt kílómetragjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi, eru 5.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd og skráðar eru í ökutækjaskrá sem ökutæki til sérstakra nota skv. 6. tölul. 1. mgr. 4. gr.
     c.      Á eftir orðinu „kílómetragjalds“ í 2., 6. og 8. mgr. kemur: og sérstaks kílómetragjalds.
     d.      5. mgr. orðast svo:
                      Sérstakt kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 2. mgr. skal vera sem hér segir:
Leyfð Sérstakt Leyfð Sérstakt
heildarþyngd kílómetragjald heildarþyngd kílómetragjald
ökutækis, kg kr. ökutækis, kg kr.
5.000–6.000 9,00 19.001–20.000 22,57
6.001–7.000 9,56 20.001–21.000 23,73
7.001–8.000 10,13 21.001–22.000 24,89
8.001–9.000 10,69 22.001–23.000 26,62
9.001–10.000 11,25 23.001–24.000 28,34
10.001–11.000 12,10 24.001–25.000 30,07
11.001–12.000 13,27 25.001–26.000 31,79
12.001–13.000 14,43 26.001–27.000 33,52
13.001–14.000 15,59 27.001–28.000 35,24
14.001–15.000 16,75 28.001–29.000 36,97
15.001–16.000 17,92 29.001–30.000 38,69
16.001–17.000 19,08 30.001–31.000 41,54
17.001–18.000 20,24 31.001 og yfir 44,39
18.001–19.000 21,40
     e.      Á eftir orðunum „skv. 3. tölul. 1. mgr.“ í 9. mgr. kemur: og sérstakt kílómetragjald skv. 6. mgr.
     f.      Við fyrirsögn greinarinnar bætist: og sérstakt kílómetragjald.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður sem orðast svo: Sama á við um sérstakt kílómetragjald.
     b.      Í stað orðsins „þungaskatt“ í 3. mgr. kemur: kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald.

6. gr.

    Á eftir orðinu „kílómetragjald“ hvarvetna í 15. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: og sérstakt kílómetragjald.

7. gr.

    Á eftir orðinu „kílómetragjald“ í 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: og sérstakt kílómetragjald.

8. gr.

    Á eftir orðinu „kílómetragjalds“ í 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: og sérstaks kílómetragjalds, og á eftir orðinu „kílómetragjald“ í sömu málsgrein kemur: og sérstakt kílómetragjald.

9. gr.

    Við heiti II. kafla laganna bætist: og sérstakt kílómetragjald.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „12. og 17. gr.“ í 2. mgr. kemur: 12., 14. og 17. gr.
     b.      6. mgr. fellur brott.

11. gr.

    Á eftir orðinu „kílómetragjald“ hvarvetna í 21. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: og sérstakt kílómetragjald.

12. gr.

    Í stað orðanna „olíugjaldi og kílómetragjaldi“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: olíugjaldi, kílómetragjaldi og sérstöku kílómetragjaldi.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum. Eru breytingarnar lagðar til með hliðsjón af þeirri reynslu sem komin er á lögin frá gildistöku þeirra 1. júlí 2005.
    Í fyrsta lagi er með frumvarpinu lögð til ný skilgreining á ökutækjum til sérstakra nota sem undanþegin eru olíugjaldi. Samkvæmt núgildandi lögum eru þau ökutæki sem falla undir 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna, sem vísar í vörulið 8705 í viðauka I við tollalög, undanþegin greiðslu olíugjalds. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra falla hér undir margvísleg ólík ökutæki. Heiti ökutækjanna í vöruliðnum á sér sjaldnast samsvörun í skráningu í ökutækjaskrá sem gerir það að verkum að afar erfitt er að tilgreina nákvæmlega hvaða ökutæki falla undir þessa undanþágu. Þetta skapar réttaróvissu fyrir bæði gjaldendur og álagningaraðila auk þess sem allt eftirlit með því hvort óheimil notkun á litaðri olíu eigi sér stað verður ómarkvissara. Tengingin í lögunum við vörulið 8705 í viðauka I við tollalög hefur því skapað vanda í framkvæmd frá því lögin um olíugjald og kílómetragjald gengu í gildi. Við endurskoðun á 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna er með frumvarpi þessu haft að leiðarljósi að um sé að ræða ökutæki sem að meginhluta til brenna dísilolíu í kyrrstöðu, svo sem við framleiðslu eða vinnslu á tilteknum verkstað, og eru með varanlegum áföstum búnaði til sérstakra nota. Verði frumvarpið að lögum verða tilgreind nánar í reglugerð þau ökutæki sem falla þarna undir, á sambærilegan hátt og gert er í reglugerð nr. 602/2005, um skilyrði undanþágu frá greiðslu olíugjalds. Verða ökutækin jafnframt auðkennd í ökutækjaskrá þannig að fram komi í skráningarskírteini ökutækis hvort því sé heimilt að nota litaða olíu. Samkvæmt tillögum frumvarpsins verður eigendum þessara ökutækja ekki gert skylt að skrá fyrrgreind ökutæki sem ökutæki til sérstakra nota heldur geta þeir valið hvort þeir greiði olíugjald og kílómetragjald samkvæmt núgildandi lögum eða hvort þeir skrái ökutæki sín hjá Umferðarstofu sem ökutæki til sérstakra nota, fái áritun þess efnis í skráningarskírteini ökutækisins og eigi þar með rétt á að fá afgreidda litaða gjaldfrjálsa olíu samhliða því að þeim er gert skylt að greiða sérstakt kílómetragjald, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Með því að hafa skráninguna valkvæða, og með hliðsjón af hinu sérstaka kílómetragjaldi, er út frá jafnræðissjónarmiðum leitast við að tryggja að eingöngu eigendur ökutækja til sérstakra nota sem sannanlega brenna dísilolíu við vinnslu á verkstað telji það hagkvæmt að fá afhenta gjaldfrjálsa olíu.
    Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að dráttarvélar verði undanþegnar olíugjaldi, óháð því hvort þær eru ætlaðar til nota í landbúnaði eða ekki. Dráttarvélar hafa þá sérstöðu umfram aðrar vinnuvélar að vera skráðar bæði í ökutækjaskrá og vinnuvélaskrá. Ákvæðið í núgildandi lögum er komið úr dönskum rétti en þar eru eingöngu dráttarvélar og aðrar vinnuvélar í eigu bænda undanþegnar olíugjaldi. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga eru allar vinnuvélar undanþegnar olíugjaldi og er því lagt til að skilyrðið um notkun „í landbúnaði“ í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga verði afnumið, og þar með eigi allar dráttarvélar, óháð notkun, rétt á gjaldfrjálsri olíu.
    Í þriðja lagi er með frumvarpinu lagt til að sett verið í 4. gr. laganna skýr heimild fyrir námuökutæki og beltabifreiðar til að nota gjaldfrjálsa olíu. Slík heimild er nú í 2. gr. reglugerðar nr. 602/2005, um skilyrði undanþágu frá greiðslu olíugjalds, en rétt þykir að umrædd undanþága komi skýrt fram í lögunum. Er ákvæðið í samræmi við sams konar ákvæði í 3. mgr. 1. gr. fyrri laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, og afmarkað við belta- og námubifreiðar sem eingöngu eru notaðar utan vega eða á lokuðum vinnusvæðum.
    Í fjórða lagi er lagt til að samhliða endurskilgreiningu á ökutækjum til sérstakra nota verði sett sérstök gjaldskrá kílómetragjalds fyrir ökutæki sem falla undir sérstök not í 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt núgildandi lögum greiða umrædd ökutæki sama kílómetragjald og önnur ökutæki, þyngri en 10 tonn, sem einnig greiða olíugjald. Er það kílómetragjald töluvert lægra en í hinu eldra þungaskattskerfi sem aflagt var 1. júlí 2005, enda hugsað sem viðbót við olíugjald hjá þyngri ökutækjum, óháð eldsneytisgjafa, sem slíta vegakerfinu hlutfallslega meira en önnur ökutæki. Sumum þessara ökutækja til sérstakra nota er ekið nokkuð mikið, eins og t.d. steypuhræribifreiðum, og valda þau því sams konar sliti á vegakerfinu og önnur þyngri ökutæki sem greiða olíugjald og kílómetragjald. Með hliðsjón af samræmi í skattlagningu og meginreglunni um að notendur vegakerfisins greiði til uppbyggingar og viðhalds á vegakerfinu í hlutfalli við það slit sem viðkomandi ökutæki veldur er því lagt til með frumvarpi þessu að umrædd ökutæki til sérstakra nota, sem kjósa að vera undanþegin olíugjaldi, sbr. ofangreint, greiði sérstakt kílómetragjald vegna aksturs þeirra á vegakerfi landsins. Halda má því fram að sérstaka kílómetragjaldið sé ígildi olíugjalds þar sem leitast er við að jafnræði ríki í gjaldtöku milli ökutækja til sérstakra nota sem aka á gjaldfrjálsri olíu og annarra ökutækja svipaðrar gerðar miðað við sambærilegan akstur í almenna vegakerfinu. Samkvæmt frumvarpinu ætti 25 tonna steypuhræribifreið sem ekið er 15 þús. km á ári að greiða sambærilega fjárhæð í formi sérstaks kílómetragjalds og vörubifreið sömu þyngdar, miðað við sama akstur í formi olíugjalds og kílómetragjalds. Miðað við gildandi lög er gjaldbyrði steypuhræribifreiða vegna aksturs nær þrefalt lægri en vegna sams konar aksturs vörubifreiða. Í frumvarpinu er sú leið valin að stilla upp sérstakri gjaldskrá, þ.e. sérstöku kílómetragjaldi, frekar en að fara nokkurs konar endurgreiðsluleið, einkum vegna þess að gjald fyrir hvern ekinn kílómetra endurspeglar á einfaldan hátt slit á vegum landsins. Ef farin væri endurgreiðsluleið væri hætt við að setja þyrfti upp flóknar reglur um annars vegar not á olíu í hlutfalli við akstur og hins vegar olíunotkun við hina sérstöku vinnslu sem væri gjaldfrjáls. Samhliða tillögu frumvarpsins um sérstakt kílómetragjald er nauðsynlegt að gera viðeigandi breytingar á texta núgildandi laga og greina á milli „kílómetragjalds“ og „sérstaks kílómetragjalds“ þar sem við á.
    Í fimmta og síðasta lagi er með frumvarpinu lagt til að samræmdar verði reglur um meðferð endurgreiðslu olíugjalds við ákvæði í reglugerð nr. 398/2005, um endurgreiðslu olíugjalds til sendimanna erlendra ríkja.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið greinarinnar er afnumin sú takmörkun að eingöngu dráttarvélum í landbúnaði sé heimilt að nota litaða gjaldfrjálsa olíu.
    Í b-lið er kveðið á um að heimilt verði að afhenda gjaldfrjálsa litaða olíu á ökutæki sem ætluð eru til sérstakra nota og eru með varanlegum áföstum búnaði til þeirra nota og sem að meginhluta til brenna dísilolíu í kyrrstöðu. Nánari útfærsla og frekari upptalning á umræddum ökutækjum mun koma fram í reglugerð sem fjármálaráðherra setur verði frumvarpið að lögum. Er í frumvarpinu lagt til að texti núgildandi reglugerðarheimildar ráðherra verði nákvæmari hvað þetta varðar, sbr. f-lið 1. gr. frumvarpsins.
    Í c-lið er kveðið á um að heimilt verði að afhenda gjaldfrjálsa litaða olíu til nota á beltabifreiðar og námubifreiðar sem aka utan vega eða á lokuðum vinnusvæðum. Er þetta í samræmi við reglur sem giltu samkvæmt lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Gert er ráð fyrir að skýringar á orðunum „námuökutæki“, „utan vega“ og „á lokuðum vinnusvæðum“ komi fram í reglugerð sem fjármálaráðherra setur verði frumvarpið að lögum, sbr. f-lið 1. gr. frumvarpsins.
    Í d-lið eru leiðréttar tilvísanir innan 4. gr. laganna í samræmi við framangreindar breytingar.
    Í e-lið er lagt til að eigendur ökutækja til sérstakra nota geti valið hvort þeir greiði olíugjald og kílómetragjald samkvæmt núgildandi lögum eða hvort þeir skrái ökutæki sín hjá Umferðarstofu sem ökutæki til sérstakra nota, fái áritun þess efnis í skráningarskírteini ökutækisins og eigi þar með rétt á að fá afgreidda litaða gjaldfrjálsa olíu samhliða því að þeim er gert skylt að greiða sérstakt kílómetragjald, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Vísast nánar um þetta atriði í almennar athugasemdir við lagafrumvarpið. Hér er lagt til það skilyrði að ökutæki skv. 7. tölul. 1. mgr., og ökutæki sem skráð hafa verið til sérstakra nota, verði auðkennd með sérstökum hætti í ökutækjaskrá. Fyrirséð er að ökutæki sem falla undir 6. tölul. verði auðkennd þannig að fram komi í skráningarskírteini hvort notkun litaðrar olíu sé heimil og að beltabifreiðar og námuökutæki verði, sem hingað til hefur tíðkast, auðkennd með sérstökum skráningarmerkjum (utanvegamerki).
    Í f-lið er verið að skerpa á heimild ráðherra til að setja reglur um skilyrði fyrir notkun á litaðri gjaldfrjálsri olíu. M.a. er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt í reglugerð að kveða á um nánari skilyrði og framkvæmd við skráningu ökutækja skv. 6. og 7. tölul. og skráningu ökutækja aftur í almenna notkun.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að ráðherra verði heimilt að kveða á um í reglugerð hvernig staðið skuli að sölu eða afhendingu á gjaldfrjálsri olíu. Er talið æskilegt að hafa slíka heimild í lögunum, m.a. út frá hagsmunum þeirra aðila sem selja og afhenda gjaldfrjálsa olíu.

Um 3. gr.

    Í greininni eru lagðar til skýrari reglur um hvaða stjórnvald sinni endurgreiðslu olíugjalds, annars vegar fyrir almenningsvagna og hins vegar fyrir erlend sendiráð.

Um 4. gr.

    Í a-lið greinarinnar er kveðið á um að námuökutæki og beltabifreiðar verði undanþegnar greiðslu kílómetragjalds. Er það í samræmi við fyrri framkvæmd, sbr. lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, þar sem ekki er gert ráð fyrir að umrædd ökutæki hafi afnot af vegakerfi landsins.
    Í b-lið er kveðið á um skyldu til að greiða sérstakt kílómetragjald af ökutækjum sem falla undir sérstök not í 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna.
    Í c-lið er bætt við ákvæði um sérstakt kílómetragjald en sömu reglur gilda um ökumæla ökutækja hvort sem greitt er kílómetragjald eða sérstakt kílómetragjald.
    Í d-lið er kveðið á um nýja gjaldskrá sérstaks kílómetragjalds fyrir ökutæki sem falla undir sérstök not í 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í frumvarpinu er gjaldið nefnt sérstakt kílómetragjald til aðgreiningar frá kílómetragjaldi því sem núgildandi 13. gr. laganna kveður á um. Gjaldskrá sérstaks kílómetragjalds er, með hliðsjón af jafnræði í skattlagningu, reiknuð út frá skattbyrði þyngri ökutækja sem borga bæði olíugjald og kílómetragjald í samræmi við núgildandi lög. Þar sem ökutæki til sérstakra nota kunna í einhverjum tilfellum að vera léttari en 10 tonn tekur hin nýja gjaldskrá til ökutækja allt niður í 5.000 kg að heildarþyngd.
    Í e-lið er kveðið á um greiðslu sérstaks kílómetragjalds við brottför ökutækis úr landi.
    Í f-lið er til aðgreiningar lagt til að fyrirsögn greinarinnar breytist með hliðsjón af því að verði frumvarpið að lögum verða tvær kílómetragjaldskrár í 13. gr. laganna, þ.e. „kílómetragjald“ og „sérstakt kílómetragjald“.

Um 5.–9. gr. og 11.–12. gr.

    Í greinunum er verið að bæta „sérstöku kílómetragjaldi“ við ákvæði 14.–17. gr., kaflaheiti II. kafla og ákvæði 21. og 23. gr. laganna um kílómetragjald.

Um 10. gr.

    Í a-lið greinarinnar er bætt við kæruheimild vegna endurákvörðunar ríkisskattstjóra vegna 14. gr. laganna sem fjallar um endurákvörðun ríkisskattstjóra vegna brota á gjaldþyngd ökutækja.
    Í b-lið er kveðið á um að 6. mgr. 18. gr. laganna falli brott þar sem ákvæðinu er ofaukið en 22. gr. laganna fjallar einnig um dráttarvexti.

Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 87/2004,
um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um olíugjald og kílómetragjald eins og nánar er rakið í athugsemdum við frumarpið. Veigamesta breytingin er sú að lagt er til að sett verði sérstök gjaldskrá kílómetragjalds fyrir ökutæki sem ætluð eru til sérstakra nota og eru undanþegin olíugjaldi, t.d. kranabifreiðar og steypuhræribifreiðar. Sumum þessara ökutækja er ekið talsvert á vegakerfinu og valda þau því samskonar sliti á því og ýmis önnur þung ökutæki sem greiða bæði olíugjald og kílómetragjald. Nýja kílómetragjaldskráin fyrir ökutæki til sérstakra nota er byggð á skattbyrði þyngri ökutækja sem samkvæmt núgildandi lögum borga olíugjald og kílómetragjald. Ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar um akstur þessara ökutækja til að unnt sé að áætla tekjur ríkissjóðs af gjaldtökunni með neinni vissu en talið er að þær verði varla meiri en 20–30 m.kr. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til útgjalda fyrir ríkissjóðs verði það að lögum.