Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 328. máls.

Þskj. 360  —  328. mál.Frumvarp til laga

um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota
á hugverkaréttindum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

    Samkvæmt því sem mælt er fyrir um í lögum þessum verður sönnunargagna aflað vegna ætlaðra brota gegn eftirfarandi hugverkaréttindum:
     a.      Höfundarétti og skyldum réttindum skv. 3. gr., 4. gr., 3. mgr. 11. gr., 45. gr., 46. gr. og 48.–52. gr. höfundalaga.
     b.      Hönnunarrétti.
     c.      Vörumerkjarétti.
     d.      Félagamerkjarétti.
     e.      Einkaleyfarétti.
     f.      Rétti samkvæmt lögum um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum.
     g.      Yrkisrétti.

2. gr.

    Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra veita atbeina til öflunar sönnunargagna á grundvelli laganna að undangengnum dómsúrskurði, sbr. 1. mgr. 9. gr.
    Um hæfi sýslumanna og fulltrúa þeirra til aðgerða samkvæmt lögunum fer eftir reglum laga um hæfi dómara til að fara með einkamál í héraði, eftir því sem við getur átt.
    Ef sýslumaður er vanhæfur til aðgerða samkvæmt lögunum setur dómsmálaráðherra annan löghæfan mann til að vinna verkið í hans stað. Þóknun hans greiðist samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra úr ríkissjóði.

3. gr.

    Nú gerir sá sem telur sig rétthafa hugverkaréttinda er getur í 1. gr. eða sá sem lögum samkvæmt hefur heimild til að hagnýta þau réttindi sennilegt að einhver hafi brotið gegn þeim réttindum og er þá heimilt að kröfu hans sem gerðarbeiðanda að afla sönnunargagna samkvæmt lögunum hjá viðkomandi sem gerðarþola.
    Sönnunargagna verður ekki aflað á grundvelli laganna:
     a.      vegna brota sem talin verða minni háttar ef beiðni beinist að einstaklingi og þau hafa ekki verið liður í atvinnustarfsemi,
     b.      ef stórfelldur munur er á hagsmunum gerðarþola af því að sönnunargagna verði ekki aflað og hagsmunum gerðarbeiðanda af því að afla slíkra gagna.

4. gr.

    Sönnunar verður aflað á stað sem gerðarþoli hefur umráð yfir með athugun á öllum þeim gögnum og tækjum sem haft geta þýðingu við mat á því hvort og í hvaða mæli brotið hafi verið gegn þeim hugverkaréttindum sem getur í 1. gr. Nær könnunin meðal annars til söluvöru, véla og framleiðslutækja, bókhaldsgagna, pöntunarseðla, kynningarefnis, tölvugagna og hugbúnaðar.
    Athugun á gögnum og tækjum miðar ekki að því að leiða í ljós hvort framleiðslutæki eða vélar gerðarþola brjóta gegn einkaleyfi.
    Sönnunar verður ekki aflað með gögnum sem hafa að geyma upplýsingar sem óheimilt væri að gefa vitnaskýrslu um í einkamáli fyrir dómi.

II. KAFLI
Meðferð máls fyrir dómi.
5. gr.

    Beiðni gerðarbeiðanda um öflun sönnunargagna skal send héraðsdómi í því umdæmi þar sem gerðarþoli á heimilisvarnarþing.
    Beiðni skal vera skrifleg. Í henni skal greina svo skýrt sem verða má:
     a.      Fullt nafn gerðarbeiðanda, kennitölu og lögheimili.
     b.      Fullt nafn gerðarþola, kennitölu, lögheimili og upplýsingar um atvinnurekstur viðkomandi ef því er að skipta.
     c.      Hvaða hugverkaréttindum ætlað brot beinist gegn og í hverju það felst.
     d.      Kröfu gerðarbeiðanda um hvaða sönnunargagna eigi að afla.
     e.      Hvar leita eigi sönnunargagna og á hvaða grunni gerðarbeiðandi telur að þau sé þar að finna.
     f.      Aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir meðferð málsins.
    Með beiðni skulu fylgja þau gögn sem gerðarbeiðandi styður málatilbúnað sinn við.
    Beiðni ásamt fylgiskjölum skal senda héraðsdómi í tvíriti.

6. gr.

    Eftir að beiðni hefur borist ákveður héraðsdómari stað og stund þinghalds og tilkynnir það aðilum með hæfilegum fyrirvara og sannanlegum hætti. Í tilkynningu til gerðarþola skal tekið fram hverju það varði ef ekki verður sótt þing af hans hálfu auk þess sem tilkynningunni skulu fylgja gögn málsins.
    Nú leikur hætta á að sönnunargögnum verði komið undan, þeim eytt eða breytt eða að dráttur vegna tilkynningar geti valdið réttarspjöllum og er þá heimilt eftir rökstuddri beiðni gerðarbeiðanda að víkja frá skyldu skv. 1. mgr. til að tilkynna gerðarþola um þinghaldið.
    

7. gr.

    Ef gerðarbeiðandi sækir ekki þing þegar beiðni hans er tekin fyrir eða ekki verður af þingsókn hans síðar skal beiðnin talin fallin niður. Héraðsdómari getur úrskurðað gerðarþola ómaksþóknun úr hendi gerðarbeiðanda ef sótt hefur verið þing af hans hálfu og þóknunar verið krafist.
    Nú sækir gerðarþoli ekki þing eða hann hefur ekki verið boðaður til þinghaldsins, sbr. 2. mgr. 6. gr., og skal málið þá tekið til úrskurðar. Áður skal þó héraðsdómari leita svara við sérhverju því sem hann telur óljóst eða ónógar upplýsingar komnar fram um og getur haft þýðingu við mat á því hvort orðið verður við beiðninni. Í því skyni og til að leggja fram frekari gögn getur héraðsdómari veitt gerðarbeiðanda skamman frest.

8. gr.

    Nú er sótt þing af hálfu gerðarþola og er honum þá heimilt að leggja fram greinargerð í þinghaldi sem héraðsdómari hefur ákveðið skv. 1. mgr. 6. gr.
    Ef beiðni gerðarbeiðanda er andmælt skal málið sótt og varið munnlega eins og málið liggur fyrir eftir að aðilar hafa lagt fram gögn við þingfestingu. Skýrslutökur fara ekki fram og verður málinu ekki frestað til frekari gagnaöflunar en þó má veita skamman frest til undirbúnings fyrir munnlegan málflutning.

9. gr.

    Svo fljótt sem verða má eftir að beiðni hefur verið tekin til úrskurðar skal héraðsdómari kveða upp úrskurð um hvort aflað skuli sönnunargagna vegna ætlaðs brots gegn hugverkaréttindum. Í úrskurði héraðsdómara skal afmarkað hvaða gagna verði aflað og hvar þeirra skuli leitað hjá gerðarþola.
    Héraðsdómari skal gæta þess af sjálfsdáðum hvort lagaskilyrði séu fyrir hendi til að sönnunargagna verði aflað á grundvelli laganna þótt beiðni hafi ekki verið mótmælt.

III. KAFLI
Meðferð máls hjá sýslumanni.
10. gr.

    Gerðarbeiðandi skal senda úrskurð héraðsdóms um heimild til að afla sönnunargagna vegna ætlaðs brots á hugverkaréttindum til sýslumanns í því umdæmi þar sem sönnunargagna verður aflað.
    Nú verður sönnunargagna aflað í fleiri umdæmum og er þá heimilt að beina úrskurðinum samtímis að viðkomandi sýslumönnum.

11. gr.

    Áður en sönnunargagna verður aflað er sýslumanni rétt að setja það skilyrði að gerðarbeiðandi setji tiltekna tryggingu fyrir kostnaði við meðferð málsins og fyrir greiðslu skaðabóta sem gerðarþoli kynni að öðlast rétt til vegna beiðninnar og meðferðar hennar.
    Fjárhæð tryggingar skal sundurgreind eftir því hvort um er að ræða tryggingu fyrir kostnaði sýslumanns við meðferð málsins eða hugsanlegu tjóni sem beiðni og meðferð hennar kann að valda gerðarþola.
    Meðan mál er til meðferðar hjá sýslumanni getur hann breytt ákvörðun sinni um tryggingu eftir því sem rétt þykir í ljósi framvindu málsins.
    Nú leggur gerðarbeiðandi ekki fram tryggingu innan hæfilegs frests sem sýslumaður ákveður og er þá málið fallið niður.
    Ef gerðarbeiðandi vill ekki una ákvörðun sýslumanns getur hann krafist úrlausnar héraðsdómara um trygginguna. Um meðferð ágreiningsmálsins fer eftir 14. kafla laga um aðför, eftir því sem við getur átt.

12. gr.

    Sýslumaður aflar sönnunargagna með leit hjá gerðarþola. Að því marki sem nauðsynlegt er til að tryggja sönnun á ætluðu broti er sýslumanni rétt að leggja hald á hluti eða skjöl og taka myndir eða afrita gögn, þar með talið á tölvutæku formi. Nú er hlutur tekinn úr vörslum gerðarþola við aðgerð samkvæmt lögunum og skal þá sýslumaður að kröfu gerðarþola varðveita hlutinn á kostnað gerðarbeiðanda.
    Við leit skal þess gætt að ekki verði gengið lengra en nauðsynlegt er með hliðsjón af þeim ætluðu brotum sem afla á sönnunar um.
    Sýslumaður getur kvatt til menn sem hafa viðeigandi sérfræðiþekkingu til að annast leit eða nánar afmarkaða þætti hennar. Eftir þörfum felur sýslumaður þeim sem hann hefur kvatt til að taka saman skýrslu um athugunina. Sýslumaður ákveður þóknun þeirra sem hann hefur kvatt til sér til aðstoðar.
    Sýslumanni er rétt að beita valdi að því marki sem nauðsynlegt er til að framkvæma leit hjá gerðarþola. Eftir þörfum ber lögreglu að veita sýslumanni liðsinni í því skyni.

13. gr.

    Gerðarbeiðanda er eingöngu heimilt að vera viðstaddur þegar sönnunargagna er aflað að því marki sem nauðsynlegt er til að veita upplýsingar. Sýslumaður tekur ákvörðun um viðveru gerðarbeiðanda og er heimilt að ákveða að athugun fari fram að honum fjarstöddum.

14. gr.

    Sýslumaður skal með hæfilegum fyrirvara og sannanlegum hætti tilkynna gerðarþola hvar og hvenær hafist verður handa við að afla sönnunargagna, nema úrskurður hafi gengið án þess að gerðarþola væri tilkynnt um málið, sbr. 2. mgr. 6. gr.
    Nú hittist gerðarþoli ekki fyrir, umboðsmaður hans eða fyrirsvarsmaður og er sýslumanni þá rétt að fela maka eða öðrum heimilismanni 18 ára og eldri að gæta hagsmuna viðkomandi ef einstaklingur á í hlut. Ef beiðni beinist að öðrum en einstaklingi felur sýslumaður stjórnanda eða starfsmanni gerðarþola að gæta hagsmuna hans. Ekki stendur í vegi þess að sönnunargagna verði aflað þótt enginn hittist fyrir en heimilt er að fresta leit ef þannig stendur á og það þykir geta greitt fyrir meðferð málsins. Ef enginn er viðstaddur fyrir gerðarþola skal sýslumaður kveðja til vott til að vera við aðgerðina.

15. gr.

    Nú hefur úrskurður gengið um heimild til öflunar sönnunargagna án þess að gerðarþola hafi verið tilkynnt um málið, sbr. 2. mgr. 6. gr., og snýr sýslumaður sér þá fyrirvaralaust að gerðarþola.
    Ef gerðarþoli eða fyrirsvarsmaður hittast ekki fyrir er sýslumanni rétt að fresta því að fram fari leit ef það er unnt án þess að spilla hagsmunum gerðarbeiðanda. Verði því ekki komið við getur sýslumaður falið þeim sem getur í 2. mgr. 14. gr. að gæta hagsmuna viðkomandi eða framkvæmt leit án þess að nokkur sé viðstaddur. Ef enginn er viðstaddur fyrir gerðarþola skal sýslumaður kveðja til vott til að vera við aðgerðina.
    Eftir ósk gerðarþola eða þess sem falið hefur verið að gæta hagsmuna hans skal sýslumaður gera stutt hlé á meðferð málsins til að unnt verði að kveðja til lögmann. Hlé verður þó ekki gert ef hætt er við að hagsmunir gerðarbeiðanda kunni að spillast.

16. gr.

    Gerðarbeiðandi greiðir sýslumanni allan kostnað sem fellur til við öflun sönnunargagna samkvæmt lögunum. Ef sett hefur verið trygging fyrir kostnaði má ganga að henni nema gerðarbeiðandi kjósi að gera upp með öðrum hætti sem sýslumaður samþykkir. Að loknu uppgjöri skal tryggingu fyrir kostnaði eða eftirstöðvum hennar skilað til gerðarbeiðanda.
    Sönnunargögn verða ekki afhent gerðarbeiðanda nema kostnaður við öflun þeirra hafi verið greiddur.

17. gr.

    Tryggingu vegna hugsanlegrar skaðabótakröfu gerðarþola skal skilað að fullnægðu einhverju eftirtalinna skilyrða:
     a.      Gerðarþoli höfðar ekki mál í samræmi við 22. gr.
     b.      Gerðarbeiðandi er sýknaður í dómsmáli af skaðabótakröfu gerðarþola.
     c.      Aðilar ná samkomulagi um að tryggingu verði skilað.

18. gr.

    Sýslumaður færir gerðabók um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum. Fer um form hennar eftir reglum sem dómsmálaráðherra setur.
    Í gerðabók skal greint hvar og hvenær sönnunargagna var leitað, hverjir hafi verið viðstaddir, hvaða gögn hafi legið frammi og hvað hafi að öðru leyti farið fram. Þá skal rakið hvaða sönnunargagna var aflað og hvernig.
    Við lok fyrirtöku málsins les sýslumaður upp bókun sína fyrir viðstadda eða kynnir þeim meginatriði hennar ef þeir telja það nægja. Þeim skal gefinn kostur á að undirrita bókunina ásamt sýslumanni.
    Nú hefur sönnunargagna verið aflað án þess að nokkur væri viðstaddur af hálfu gerðarþola og sendir þá sýslumaður viðkomandi svo fljótt sem verða má endurrit úr gerðabók um fyrirtöku málsins.

IV. KAFLI
Kæra og endurupptaka.
19. gr.

    Úrskurður héraðsdómara um heimild til öflunar sönnunargagna samkvæmt lögunum sætir kæru til Hæstaréttar. Um kærufresti, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Hæstarétti gilda sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli.
    Kæra úrskurðar héraðsdómara frestar ekki aðgerðum samkvæmt lögunum. Þó skal sýslumaður ekki afhenda gerðarbeiðanda sönnunargögn sem aflað hefur verið fyrr en að liðnum kærufresti hafi málskot ekki átt sér stað en ella ekki fyrr en leyst hefur verið úr málinu fyrir æðra dómi. Nú er úrskurði héraðsdómara hnekkt að einhverju leyti eða öllu fyrir Hæstarétti og skal sýslumaður þá skila gerðarþola sönnunargögnum í samræmi við þá niðurstöðu.

20. gr.

    Nú hefur úrskurður gengið um heimild til öflunar sönnunargagna án þess að gerðarþola væri tilkynnt um málið, sbr. 2. mgr. 6. gr., og er honum þá heimilt að krefjast endurupptöku málsins fyrir héraðsdómi innan tveggja vikna frá því hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um úrskurðinn.
    Um málsmeðferðina eftir endurupptöku fer eftir II. kafla, þó þannig að falli þingsókn gerðarþola niður eftir endurupptöku stendur upphaflegur úrskurður óhaggaður.
    Sýslumaður skal ekki afhenda gerðarbeiðanda sönnunargögn sem aflað hefur verið fyrr en að liðnum fresti skv. 1. mgr. ef ekki er krafist endurupptöku en ella ekki áður en úrskurður hefur gengið á ný.
    Ef heimilt er að krefjast endurupptöku skv. 1. mgr. verður úrskurður héraðsdómara ekki kærður til Hæstaréttar. Úrskurður héraðsdómara í kjölfar endurupptöku verður kærður eftir því sem segir í 19. gr.

V. KAFLI
Málshöfðunarfrestur, skaðabætur o.fl.
21. gr.

    Gerðarbeiðandi skal innan fjögurra vikna frá því sönnunargögn standa honum til reiðu höfða dómsmál á grundvelli þeirra á hendur gerðarþola. Nú hefur mál ekki verið höfðað að liðnum þeim fresti og skal gerðarbeiðandi þá skila þeim sönnunargögnum sem aflað var.
    Ef mál er höfðað að liðnum fresti skv. 1. mgr. verður dómur ekki reistur á þeim sönnunargögnum sem aflað var. Þetta á þó ekki við ef gerðarþoli leggur gögnin fram.

22. gr.

    Nú hefur ekki verið leitt í ljós að brotið hafi verið gegn þeim hugverkaréttindum sem um getur í 1. gr. og á þá gerðarþoli kröfu um skaðabætur fyrir fjártjón og miska úr hendi gerðarbeiðanda.
    Höfða skal dómsmál skv. 1. mgr. innan sex mánaða frá því frestur leið fyrir gerðarbeiðanda til að höfða mál skv. 1. mgr. 21. gr. eða máli lauk án þess að kröfur hans næðu fram að ganga.

23. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði sérstakt úrræði til að afla sönnunargagna vegna ætlaðra brota gegn hugverkaréttindum. Tekur frumvarpið mið af þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir til að tryggja vernd hugverkaréttinda og er frumvarpinu ætlað að búa svo um hnútana að vafi leiki ekki á hvort þeim skuldbindingum sé fullnægt.
    Frumvarp þetta er afrakstur af starfi nefndar sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði 27. apríl 2005. Í skipunarbréfi kemur fram að nefndinni var ætlað að kanna hvort ástæða væri til að breyta lögum þannig að fyrir hendi væru einkaréttarleg úrræði fyrir rétthafa til að leggja hald á og varðveita sönnunargögn vegna ætlaðra brota á hugverkarétti. Jafnframt var nefndinni falið að athuga hvernig yrði staðið að innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins 2004/ 48/EB um fullnustu hugverkaréttinda, auk þess sem lagt var fyrir nefndina að taka mið af ákvæðum svonefnds TRIPS-samnings, sem er viðauki við samning um Alþjóðaviðskiptastofnunina og lýtur að vernd hugverkaréttinda í viðskiptum. Formaður nefndarinnar var Benedikt Bogason, dómstjóri og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, en með honum áttu sæti í nefndinni Borghildur Erlingsdóttir, lögfræðingur hjá Einkaleyfastofu, tilnefnd af iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, og Jón Vilberg Guðjónsson, lögfræðingur hjá menntamálaráðuneytinu, tilnefndur af því ráðuneyti. Ritari nefndarinnar var Ásgerður Ragnarsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
    Þegar nefndin var að störfum var óskað eftir umsögn um lagatexta frumvarpsins frá Félagi umboðsmanna einkaleyfa og vörumerkja, höfundaréttarnefnd og Samtökum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Eingöngu barst svar frá Félagi umboðsmanna einkaleyfa og vörumerkja og voru ekki gerðar athugasemdir við frumvarpið. Einnig var Hróbjartur Jónatansson, hæstaréttarlögmaður, boðaður á fund nefndarinnar en hann hefur gætt hagsmuna alþjóðlegra samtaka tölvuforritaframleiðenda, The Business Software Alliance, hér á landi. Loks var haft samráð við réttarfarsnefnd við samningu frumvarpsins.

II.

    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (EB), nr. 2004/48, um fullnustu hugverkaréttinda var samþykkt 29. apríl 2004 og ber aðildarríkjum Evrópusambandsins að innleiða ákvæði hennar innan tveggja ára. Á vettvangi EFTA-ríkjanna, sem aðild eiga að EES-samningnum, hefur verið hugað að því hvort ákvæði tilskipunarinnar séu þess eðlis að þau beri að taka upp í EES-samninginn. Samkvæmt 2. tölul. 1. gr. bókunar 28 við EES-samninginn eru EFTA- ríkin skuldbundin til að aðlaga hugverkalöggjöf sína meginreglunni um frjáls viðskipti með vörur og þjónustu og því stigi í verndun hugverkaréttinda sem náðst hefur í lögum sambandsins, þar á meðal um fullnustu þessara réttinda. Síðastnefnd tilvísun hefur þó ekki verið skilin svo að hún taki til þess hvernig úrræði til fullnustu hugverkaréttinda skuli framkvæmd. Þegar til þess var litið að ákvæði tilskipunarinnar hafa mestmegnis að geyma réttarfarsreglur um málsaðild, sönnunargögn og ýmsar bráðabirgðaaðgerðir til að koma í veg fyrir brot gegn hugverkaréttindum var um það einhugur á fundi viðkomandi undirnefndar fastanefndar EFTA-ríkjanna 21. júní 2005 að ákvæði tilskipunarinnar væru ekki þess eðlis að hún yrði tekin upp í EES-samninginn.
    Þótt ekki beri að innleiða tilskipunina hér á landi sökum þess að hún hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn er litið til efnis hennar við samningu frumvarpsins. Tilskipunin gengur þó lengra í sumu tilliti en fyrrgreindur TRIPS-samningur og er þá lagt til í frumvarpinu að tekið verið mið af samningnum.

III.

    Hinn 30. desember 1994 var fullgiltur af Íslands hálfu samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization eða WTO) sem gerður var í Marakess 15. apríl 1994. Samningurinn öðlaðist gildi 1. janúar 1995. Í 1. viðauka C með samningnum er að finna samning um hugverkarétt í viðskiptum, en sá viðauki er fyrrnefndur TRIPS-samningur (Agreement on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights). Marakess- samningurinn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar ásamt viðaukum var birtur sem fylgiskjal með auglýsingu utanríkisráðuneytisins nr. 62 frá 29. desember 1995 í C-deild Stjórnartíðinda en jafnframt er viðaukinn sem hefur að geyma TRIPS-samninginn fylgiskjal með frumvarpi þessu.
    Markmiðið með TRIPS-samningnum er að auka vernd hugverkaréttinda á heimsvísu. Í því skyni eru gerðar ákveðnar kröfur til löggjafar aðildarríkjanna um hugverkaréttindi, sbr. II. hluta samningsins sem hefur að geyma ákvæði um eftirfarandi efni: Höfundarétt og skyld réttindi, vörumerki, landfræðilegar merkingar, iðnhönnun, einkaleyfi, formhönnun (svæðislýsingar) smárása, vernd trúnaðarupplýsinga og eftirlit með samkeppnishamlandi starfsháttum í tengslum við samningsbundin nytjaleyfi. Jafnframt leggur samningurinn tilteknar skyldur á aðildarríkin til að tryggja vernd hugverkaréttinda, sbr. III. hluta samningsins sem fjallar um fullnustu hugverkaréttar. Í þeim hluta samningsins er að finna ákvæði um almennar skyldur (41. gr.), málsmeðferð og úrræði í einkamálum og innan stjórnsýslunnar (42.–49. gr.), bráðabirgðaráðstafanir (50. gr.), sérstakar kröfur í tengslum við landamæraeftirlit (51.–60. gr.) og málsmeðferð í refsimálum (61. gr.). Þau ákvæði samningsins sem einkum snerta öflun sönnunargagna vegna brota gegn hugverkaréttindum eru 41. gr. og 50. gr. og eru því efni til að gera nánari grein fyrir þeim ákvæðum.
    Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. samningsins skulu aðildarríkin sjá til þess að fyrir hendi séu skilvirk úrræði sem unnt er að grípa til í því skyni að koma í veg fyrir og hindra brot gegn hugverkaréttindum. Í 2.–4. mgr. eru nánari ákvæði sem miða að því að tryggja réttláta og vandaða málsmeðferð. Í 5. mgr. ákvæðisins segir síðan að III. hluti samningsins feli ekki í sér þá skyldu fyrir aðildarríkin að innleiða sérstakar reglur um fullnustu hugverkaréttinda aðskilið frá almennum reglum um hvernig lögum verði framfylgt.
    Í 1. mgr. 50. gr. samningsins er gert ráð fyrir að dómstólar hafi vald til að fyrirskipa tafarlausar og skilvirkar ráðstafanir til bráðabirgða til að koma í veg fyrir brot á hugverkarétti, og einkum til að koma í veg fyrir að vörur komist í umferð innan lögsögu aðildarríkjanna, þar með taldar innfluttar vörur strax og tollafgreiðslu er lokið (a-liður) og til að varðveita sönnunargögn er tengjast hinu meinta broti (b-liður). Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skulu dómstólar í vissum tilvikum geta tekið ákvarðanir um bráðabirgðaráðstafanir án tilkynningar til gagnaðila (inaudita altera parte), einkum ef líkur eru á að tafir muni valda rétthafa óbætanlegu tjóni eða sýnt þykir að hætta er á að sönnunargögn verði eyðilögð. Í 3.–7. mgr. 50. gr. er síðan að finna nánari reglur um málsmeðferðina þegar tekin er ákvörðun um bráðabirgðaráðstöfun fyrir dómi. Þannig er í 3. mgr. mælt fyrir um að dómstólar hafi heimild til að krefja rétthafa um tiltæk sönnunargögn fyrir því að hann njóti réttindanna og að réttur hans hafi verið brotinn eða að slíkt brot sé yfirvofandi. Einnig skulu dómstólar hafa heimild til að krefja rétthafa um tryggingu til hagsbóta fyrir gagnaðila og til að koma í veg fyrir misnotkun. Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að gagnaðila verði tilkynnt um bráðabirgðaráðstöfun í síðasta lagi þegar hún fer fram ef ákvörðun um hana hefur verið tekin án vitneskju gagnaðila. Þegar þannig hefur verið staðið að ákvörðun skal endurskoða hana eftir beiðni gagnaðila innan hæfilegs tíma með það fyrir augum að ákvörðun verði breytt, hún felld úr gildi eða staðfest. Samkvæmt 5. mgr. er unnt að krefja rétthafa um nauðsynlegar upplýsingar til að yfirvald sem framkvæmir bráðabirgðaráðstöfun geti borið kennsl á þær vörur sem snerta málið. Af 6. mgr. leiðir að fella ber úr gildi bráðabirgðaráðstöfun eftir kröfu gagnaðila ef rétthafi höfðar ekki mál á hendur honum vegna meintra brota innan nánar tilgreinds frests. Þá er í 7. mgr. gert ráð fyrir að dómstólar geti gert rétthafa að greiða bætur ef bráðabirgðaráðstafanir eru felldar úr gildi eða þær falla niður vegna aðgerða eða aðgerðarleysis rétthafa eða síðar er komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið um brot að ræða. Loks er í 8. mgr. 50. gr. að finna ákvæði um málsmeðferð hjá stjórnvöldum ef þeim er falið að taka ákvörðun um bráðabirgðaráðstöfun.

IV.

    Í tilefni af erindi frá menntamálaráðuneytinu fór dómsmálaráðuneytið þess á leit 21. september 1998 að réttarfarsnefnd kannaði hvort nauðsynlegt væri að breyta lögum til að Ísland fullnægði þjóðréttarlegum skuldbindingum samkvæmt TRIPS-samningnum. Í umsögn réttarfarsnefndar frá mars 1999 til ráðuneytisins segir svo:

        „…
        Réttarfarsnefnd hefur farið yfir þau ákvæði viðauka 1C … sem fylgir samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Hún telur að ákvæði laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, sbr. 26. gr. fyrrgreindra laga nr. 31/1990, sbr. 8. gr. sömu laga og 21. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, ásamt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, einkum X. kafli laganna um hald á munum o.fl. og XI. kafli um leit, hafi að geyma reglur sem fullnægja ákvæðum fyrrgreinds þjóðréttarsamnings að öllu leyti. Þetta á einnig við um ákvæði 50. gr. samningsins sem kveða á um að stjórnvöld skuli hafa heimild til að grípa til bráðabirgðaúrræða í tilefni af réttarbrotum samkvæmt samningnum „inaudita altera parte“. Enn fremur ber að hafa í huga í þessu sambandi ákvæði VII. kafla höfundalaga nr. 73/1972 ásamt síðari breytingum um refsiákvæði, bætur, ákærureglur o.fl., ákvæði VII. kafla laga nr. 45/1997 um vörumerki, ákvæði IX. kafla laga nr. 17/1991 um einkaleyfi og ákvæði VII. kafla laga nr. 48/1993 um hönnunarvernd.

        Réttarfarsnefnd telur að þau málefni sem hér eru til umræðu séu í þróun í Evrópu og víðar. Til greina kemur að styrkja nú þegar réttarstöðu rétthafa eigenda hugverkaréttinda í viðskiptum frá því sem gildandi löggjöf gerir ráð fyrir. Einkum virðist nauðsynlegt að veita rétthafa einkaréttarleg úrræði til að koma í veg fyrir eyðingu sönnunargagna og til að tryggja varðveislu þeirra. Þetta á einkum við þegar sérhver töf getur valdið rétthafa óbætanlegu tjóni eða þegar yfirvofandi hætta er á því að sönnunargögnum verði spillt. Eðli þessara mála og tækni í tengslum við þau er einmitt þannig að auðvelt er að spilla sönnunargögnum á örstuttum tíma.

        Sum gögn benda til þess að brotatíðni sé há í þessum málum hér á landi og að þau réttarfarsúrræði sem fyrir hendi eru séu ekki nægjanlega virk. Úrbætur myndu væntanlega einkum snúast um endurskoðun fyrrgreindra ákvæða að nokkru leyti eða öllu. Réttarfarsnefnd stefnir að því að hefja frekari athugun á því hvernig styrkja megi réttarstöðu rétthafa að hugverkum þegar um viðskipti er að ræða einkum með hliðsjón af því hvernig brugðist verður við á næstu misserum í nágrannalöndunum.“

    Hinn 15. október 1998 skilaði framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins svonefndri grænni bók um aðgerðir gegn eftirlíkingum á vörumerkjum og „sjóræningjaútgáfum“ á mynd- og hljóðefni og hugbúnaði á innri markaði sambandsins. Þar kemur fram að þessi brot gegn hugverkaréttindum nemi á bilinu 5–7% af heimsviðskiptum. Þetta ógni innri markaðinum með því að skekkja samkeppni og dragi úr verðgildi fjárfestinga. Áhrifin séu þó ekki eingöngu efnahagsleg og félagsleg með samdrætti á atvinnumarkaði heldur komi þau einnig fram gagnvart neytendum. Hér á landi hefur umfang brota gegn hugverkaréttindum ekki verið kannað ítarlega. Þess má þó geta að ríkisendurskoðanda var falið í tilefni af samkomulagi ríkisstjórnarinnar og Microsoft-tölvufyrirtækisins frá 20. janúar 1999 að kanna lögmæti hugbúnaðar hjá ríkisaðilum. Í skýrslu embættisins frá desember 1999 kom fram að 59% alls hugbúnaðar sem könnunin tók til reyndist verða ólögmætur eða að lögmæti hans var óþekkt. Meðal algengustu ástæðna fyrir ólögmætum hugbúnaði samkvæmt könnuninni var að hugbúnaður var uppsettur á fleiri vinnustöðum en hugbúnaðarleyfi kváðu á um. Ástæðulaust er að ætla að lögmæti hugbúnaðar hjá fyrirtækjum á almennum markaði sé betra en hjá ríkinu. Jafnframt bendir ekkert til að tíðni brota af öðru tagi gegn hugverkaréttindum sé önnur og lægri hér á landi en í nágrannalöndunum. Má því ganga út frá að hér að landi sé í einhverjum mæli markaður með ólöglegar fjölfaldanir á mynd- og hljóðefni á geisladiskum, eftirlíkingar af merkjavöru og ólöglegan hugbúnað, svo nefnd séu algengustu tilvik brota gegn hugverkaréttindum. Á sumum sviðum má jafnframt reikna með að tíðni brota sé umtalsverð og á það einkum við um fjölföldun tölvuforrita eins og reynslan hefur leitt í ljós erlendis. Þá hefur vafalaust áhrif hér á landi eins og annars staðar að tækni hefur fleygt fram þannig að unnt er að fjölfalda efni með litlum kostnaði og fyrirhafnarlaust og oft án þess að gæði verði lakari.
    Svo sem áður er rakið skulu dómstólar aðildarríkja TRIPS-samningsins hafa vald til að fyrirskipa tafarlausar og skilvirkar ráðstafanir til bráðabirgða til að varðveita sönnunargögn er tengjast meintu broti gegn hugverkaréttindum, sbr. b-lið 1. mgr. 50. gr. samningsins. Tilgangurinn með því að afla sönnunargagna um ætlað brot er ekki eingöngu að stöðva frekari athafnir af því tagi heldur einnig að gera rétthafa kleift að sækja rétt sinn, eftir atvikum með því að hafa uppi skaðabótakröfu á hendur hinum brotlega. Til að unnt sé að setja fram slíka kröfu sem svarar til þess tjóns sem rétthafi hefur orðið fyrir verða að liggja fyrir sönnunargögn um umfang brotanna.
    Samkvæmt IV. kafla laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, sbr. nánar 24. gr. laganna. Með lögbanni er því unnt að hindra brot gegn hugverkarétti eða stöðva slíkar athafnir, svo sem sölu eða dreifingu á eftirlíkingum af merkjavöru eða ólöglega fjölfölduðu efni. Þannig hefur réttarskipanin hér á landi upp á að bjóða úrræði sem er fullnægjandi með tilliti til a-liðar 1. mgr. 50. gr. TRIPS-samningsins sem leggur þá skyldu á aðildarríkin að hafa á að skipa skilvirkum bráðabirgðaúrræðum til að koma í veg fyrir brot. Í sérlögum á sviði hugverkaréttar er einnig gert ráð fyrir að lögbanni verði beitt til að stöðva byrjaðar eða yfirvofandi athafnir sem brjóta gegn slíkum rétti, sbr. 41. gr. laga um vörumerki, nr. 45/1997. Þá má gera ráð fyrir að lögbanni verði beitt þótt sérlög hafi ekki að geyma ákvæði af þessu tagi. Við lögbann til að hindra brot gegn hugverkaréttindum kann vissulega eitt og annað að upplýsast um þær athafnir sem lögbannið beinist gegn. Markmiðið með lögbanni er þó ekki að afla sönnunargagna um þau brot sem þegar kunna að hafa verið framin og um umfang þeirra. Því er ekki að finna lagaheimild fyrir sýslumann til að kanna bókhald og önnur gögn gerðarþola sem varpað gætu frekara ljósi á þetta þegar lagt er á lögbann.
     Samkvæmt XI. kafla laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, er heimilt að leita í húsum sakbornings í því skyni að hafa uppi á munum eða gögnum sem hald skal leggja á, sbr. 1. mgr. 89. gr. laganna. Þá má leita hjá öðrum mönnum en sökuðum þegar brot hefur verið framið þar eða gildar ástæður eru til að ætla að þar sé að finna muni eða gögn sem leggja skal hald á, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Í X. kafla laganna er fjallað um hald en þar kemur fram að leggja skuli hald á muni, þar með talin skjöl, ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í opinberu máli, ef þeirra hefur verið aflað á refsiverðan hátt eða ef ætla má að þeir kunni að verða gerðir upptækir, sbr. 1. mgr. 78. gr. laganna. Á grundvelli þessara heimilda væri unnt við rannsókn lögreglu á refsiverðu broti gegn hugverkaréttindum að afla sönnunargagna. Markmið rannsóknarinnar er hins vegar að finna gögn um ætlaða refsiverða háttsemi til að leggja fram í sakamáli en ekki að afla sönnunargagna fyrir rétthafa til að hafa uppi kröfu á einkaréttarlegum grundvelli um skaðabætur. Þá er þess ekki að vænta að lögreglu sé kleift að rannsaka öll tilvik þar sem grunur leikur á því að brotið hafi verið gegn hugverkaréttindum og má reikna með að lögregla einbeiti sér að stærri og grófari tilvikum. Verður ekki hjá því litið að rannsókn á öðrum og alvarlegri brotum kann að hafa forgang hjá lögreglu og því er hætt við að kærur vegna brota gegn hugverkaréttindum sitji á hakanum.
    Að virtu því sem hér hefur verið rakið skortir nokkuð á að fyrir hendi séu nægjanlega trygg og skilvirk úrræði fyrir rétthafa hugverkaréttinda til að verja hagsmuni sína og afla sönnunargagna vegna ætlaðra brota gegn slíkum rétti. Því leikur í öllu falli vafi á hvort Ísland fullnægi þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu sem leiðir af b-lið 1. mgr. 50. gr. TRIPS-samningsins um að fyrir hendi séu tafarlausar og skilvirkar ráðstafanir til bráðabirgða til að varðveita sönnunargögn er tengjast meintu broti gegn hugverkaréttindum. Þótt hér verði ekki fullyrt að löggjöfin sé að þessu leyti í ósamræmi við alþjóðasamning sem Ísland hefur gengist undir er ástæða til að taka af allan vafa í þeim efnum. Má í því sambandi nefna að á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar var fjallað um hvort löggjöf Danmerkur og Svíþjóðar, sem var í öllum meginatriðum hliðstæð við gildandi íslensk lög að þessu leyti, fullnægði ákvæðum TRIPS-samningsins. Af þessu tilefni var dönskum lögum breytt með lögum nr. 809/2001 og nýjum kafla 57 a bætt við dönsku réttarfarslögin (Retsplejeloven) en þar er að finna úrræði á einkaréttarlegum grundvelli til að afla sönnunarganga vegna brota gegn hugverkaréttindum. Einnig var lögum breytt í Svíþjóð 1. janúar 1999 á þann veg að mæla fyrir um heimild til öflunar sönnunargagna í ýmsum lögum á sviði hugverkaréttar. Þá tóku gildi 1. maí 2000 sérstök lög um þetta efni í Finnlandi. Loks var gerð viðeigandi breyting á norsku réttarfarslögunum (tvistemålsloven) með lögum nr. 49/2004 til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt TRIPS-samningnum.
    Við mat á því hvort þörf sé á sérstöku úrræði fyrir rétthafa hugverkaréttinda til að afla sönnunargagna vegna ætlaðra brota gegn slíkum réttindum er einnig til þess að líta að oft er unnt á svipstundu að eyða eða koma undan sönnunargögnum um brotið. Á það sérstaklega við um hugbúnað fyrir tölvur og önnur gögn sem vistuð eru rafrænt. Þannig stendur rétthafi gjarnan höllum fæti gagnvart þeim sem brotið hefur gegn réttindum hans og valdið honum tjóni. Því er rétt að löggjöfin taki mið af þessu og sé hagað þannig að gætt sé að sérstöku eðli þessara mála svo komið verði í veg fyrir að rétthafi verði fyrir réttarspjöllum sem hætt er við að óbreyttum lögum.
    Þegar hugað er að því hvort rétt sé að lögfesta úrræði af því tagi sem lagt er til í frumvarpinu vaknar eðlilega sú spurning hvort á öðrum sviðum kunni ekki að vera sama þörf fyrir hliðstætt úrræði til að afla sönnunarganga vegna réttarbrota gegn hagsmunum af einhverju tagi. Um tilvik af því tagi hafa meðal annars verið nefnd samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum og umboðs- og leyfissamningar af ýmsu tagi. Brot gegn hugverkaréttindum hafa þó sérstöðu að þessu leyti þar sem engu samningssambandi er venjulega til að dreifa milli rétthafa og þess sem brýtur gegn réttindum hans. Rétthafi hugverkaréttinda hefur því ekki sömu tök á að verja hagsmuni sína og sá sem velur sér samningsaðila og getur hagað samningsákvæðum í ljósi örðugleika við að sanna samningsbrot.

V.

     Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að afla sönnunargagna með leit hjá þeim sem grunur leikur á að hafi brotið gegn tilteknum hugverkaréttindum. Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 9. gr. laga nr. 97/1995, skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í 2. mgr. kemur síðan fram að ekki megi leita í húsakynnum manns eða munum nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Þá segir í 3. mgr. að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. megi með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Umrætt ákvæði stjórnarskrárinnar tekur mið af mannréttindasáttmála Evrópu, sem öðlaðist lagagildi hér á landi með lögum nr. 62/1994. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sáttmálans skal sérhver maður eiga rétt á friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Í 2. mgr. sömu greinar er síðan að finna undantekningu frá þessari reglu sem felur það í sér að opinberum stjórnvöldum er heimilt að ganga á þennan rétt samkvæmt því sem lög mæla og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi meðal annars til að vernda réttindi annarra.
    Með heimild þeirri sem lögð er til í frumvarpinu um að leit geti farið fram hjá þeim sem grunur leikur á að hafi brotið gegn hugverkaréttindum er vikið frá grundvallarreglunni um friðhelgi einkalífs og heimilis. Í þeim efnum er til þess að líta að 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu gera beinlínis ráð fyrir að þeim réttindum sem þar eru varin verði raskað vegna réttinda annarra. Við mat á því hvort slík heimild verði lögfest vegna hugverkaréttinda ber að gæta þess að slík réttindi eru einnig varin af stjórnarskránni, sbr. 72. gr. um friðhelgi eignarréttar. Jafnframt má nefna að leit á þeim grundvelli sem frumvarpið gerir ráð fyrir er í sjálfu sér ekki frábrugðin þeirri heimild sem þegar er fyrir hendi í lögum til að leita hjá sakborningi í þágu rannsóknar opinbers máls vegna ætlaðs brots gegn hugverkarétti sem varðað getur refsingu. Þá skiptir máli að sönnunargagna verður venjulega ekki aflað með öðru móti sem ekki gengur jafn nærri þeim sem á í hlut. Þvert á móti er í mörgum tilvikum hætt við að sönnunargögnum verði komið undan eða þeim spillt ef ekki eru fyrir hendi nægjanlega virk úrræði til að afla þeirra. Að þessu virtu orkar ekki tvímælis að frumvarpið heggur ekki of nærri stjórnarskrárvörðum réttindum og rúmast innan þeirra undantekninga sem stjórnarskráin sjálf gerir beinlínis ráð fyrir.
    Með hliðsjón af því að frumvarpið gerir ráð fyrir að raskað verði réttindum sem njóta verndar stjórnarskrár kemur ekki annað til álita en að dómstólum verði falið að taka ákvörðun um hvort sönnunargagna verði aflað með leit hjá þeim sem grunur leikur á að hafi brotið gegn hugverkaréttindum. Með því móti er leitast við að tryggja sem best réttaröryggi allra þeirra sem hlut eiga að máli, auk þess sem leit er venjulega bundin því skilyrði að aflað sé dómsúrskurðar, sbr. ákvæði XI. kafla laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

VI.

    Í frumvarpinu er lagt til að sönnunargagna verði aflað með því að sýslumaður veiti atbeina sinn og leiti hjá þeim sem á í hlut að undangengnum dómsúrskurði. Þykir heppilegast að sýslumönnum verði falið þetta verkefni enda á það sér nokkra samsvörun í verkum sem sýslumenn fara með á sviði fullnusturéttarfars eins og aðfarargerðum og lögbanni. Með hliðsjón af þessu er reglum frumvarpsins hagað til samræmis við löggjöf á því sviði, þó þannig að tekið er mið af séreðli þessara mála. Í dæmaskyni um það má nefna heimild í 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins fyrir sýslumann til að kalla til menn með viðeigandi sérfræðiþekkingu til að annast leit eða einstaka þætti hennar. Þá þykir heppilegast að nota sömu hugtök um aðila máls og á sviði fullnusturéttarfars og er því sá sem óskar eftir að sönnunargagna verði aflað nefndur gerðarbeiðandi en sá sem beiðnin beinist gegn nefndur gerðarþoli. Er þetta einnig réttnefni þar sem um er að ræða ákveðna gerð í merkingunni athöfn sem sýslumaður hefur með höndum.
    Svo sem áður er vikið að er algengast að brotið sé gegn hugverkaréttindum með því að fjölfalda og dreifa mynd- eða hljóðefni á geisladiskum, framleiða og selja eftirlíkingar af merkjavöru eða með ólöglegri hagnýtingu hugbúnaðar. Til að leiða í ljós brot af þessu tagi getur verið nauðsynlegt að leggja hald á sýnishorn af söluvöru sem talin er brjóta gegn hugverkaréttindum. Einnig getur verið mikilvægt til að meta umfang hugsanlegra brota að kanna vörubirgðir viðkomandi. Þegar dreifing hefur þegar farið fram eða framleitt er eftir pöntun verður umfang brota þó ekki ráðið af birgðum og því getur einnig verið nauðsynlegt að afla gagna um sölu úr bókhaldi og kanna önnur gögn eins og pöntunarseðla eða kynningarefni. Sú athugun getur bæði tekið til skjala og gagna sem geymd eru á tölvutæku formi. Einnig er nauðsynlegt að kanna tölvur ef grunur leikur á ólöglegri hagnýtingu hugbúnaðar eða annars verndaðs efnis. Hér verður ekki tæmandi talið hvaða sönnunargagna verður aflað en heimildin tekur til allra þeirra gagna sem leitt geta í ljós ætluð brot gegn hugverkaréttindum og umfang þeirra. Á það skal þó lögð áhersla að frumvarpið hefur eingöngu að geyma úrræði til að afla sönnunargagna. Frumvarpið felur því ekki í sér heimild til að taka vörur í heild sinni úr vörslum viðkomandi í þeim tilgangi að hindra brot gegn hugverkaréttindum. Til þess standa önnur úrræði eins og lögbann og eftir atvikum heimild lögreglu til haldlagningar við rannsókn opinbers máls. Þá skal tekið fram að sönnunar verður ekki aflað með gögnum sem hafa að geyma upplýsingar sem óheimilt væri að gefa vitnaskýrslu um í einkamáli fyrir dómi. Um það vísast til 53. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
    Við athugun á því hvort framleiðsla á vörum brjóti gegn hugverkaréttindum getur verið nauðsynlegt að kanna þau tæki sem notuð eru til framleiðslunnar. Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir að athugun miði að því að kanna hvort framleiðslutækin sjálf eða vélar gerðarþola brjóti gegn einkaleyfi. Með slíkri athugun er hætt við að gengið sé of nærri þeim sem á í hlut, auk þess sem tækni við framleiðsluna getur hvílt á atvinnuleyndarmálum sem mikilvægt er að ekki verði upplýst. Hvað það varðar má benda á að tilgangur frumvarpsins er að skapa úrræði fyrir rétthafa til að afla sönnunargagna um brot sem venjulega eru augljós. Frumvarpinu er hins vegar ekki ætlað að leysa úr flóknum álitaefnum á sviði einkaleyfa sem nær er að leyst séu á þeim vettvangi. Má geta þess að við þessu hefur verið brugðist með reglu um öfuga sönnunarbyrði, sbr. 1. mgr. 64. gr. a laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, en þar segir að taki einkaleyfi til aðferðar við framleiðslu nýrrar afurðar beri að líta svo á að sama afurð, sem framleidd er af öðrum en einkaleyfishafa, hafi verið framleidd með einkaleyfðu aðferðinni, nema annað verði sannað. Með því að sönnunarbyrðinni er snúið við hlýtur að sama skapi að draga úr þörf rétthafa á því að sönnunargagna verði aflað.
    Þegar fram fer leit hjá gerðarþola til að afla sönnunargagna ber sýslumanni að gæta að því að athugunin taki ekki til gagna sem ekki geta snert með neinu móti þau ætluðu brot sem athugunin beinist að. Því væri venjulega ástæðulaust að fara í heild sinni yfir öll gögn og atriði sem varða starfsemi gerðarþola. Í þessu tilliti ber því að gæta meðalhófs þannig að ekki verði gengið lengra við leit en nauðsynlegt er með hliðsjón af þeim ætluðu brotum sem afla á sönnunar um. Þá skal tekið fram að sýslumaður sjálfur eða þeir sem hann kveður til framkvæma leit og kemur gerðarbeiðandi hvergi þar nærri, sbr. þó 13. gr. frumvarpsins.
    Þau sönnunargögn sem aflað verður hjá gerðarþola geta falið í sér vísbendingu um brot annarra gegn þeim hugverkaréttindum sem athugunin beinist að. Hér má til dæmis nefna kvittanir frá birgjum gerðarþola eða pantanir og gögn um sölu á vöru til nafngreindra viðskiptamanna. Upplýsingar af því tagi geta því gefið tilefni til að sett verði fram fleiri beiðnir um öflun sönnunargagna eftir því sem frekara ljósi er varpað á málið.
    Frumvarpið gerir eingöngu ráð fyrir að leit fari fram hjá þeim sem grunur leikur á að hafi brotið gegn hugverkaréttindum. Þannig er ekki miðað við að leit fari fram hjá þriðja manni sem kunni að hafa í sínum vörslum sönnunargögn sem varpað geta ljósi á brotið nema þá að viðkomandi hafi sjálfur gerst brotlegur og því sé unnt að setja fram beiðni gegn honum á þeim grundvelli. Þá er ekki gert ráð fyrir að leit fari fram þegar ekkert brot hefur verið framið þannig að athugunin miði eingöngu að því að afla sönnunargagna um að uppi séu áform um að brjóta gegn hugverkarétti.
    Með frumvarpinu er lagt til að sýslumaður fái heimild til að beita valdi til að afla sönnunargagna ef þau eru ekki fúslega látin í té. Almennt má gera ráð fyrir að sá sem liggur undir grun um að hafa brotið gegn hugverkaréttindum sé samvinnuþýður og veiti allar nauðsynlegar upplýsingar. Ef það á við kunna aðilar í kjölfarið að ná samkomulagi þannig að hugverkaréttur verði virtur, eftir atvikum með greiðslu skaðabóta til rétthafa. Í öðrum tilvikum má gera ráð fyrir að mál fái ekki þessar lyktir og leiðir reynslan í ljós að nauðsynlegt er að þvingun búi að baki til að tryggja að gagna verði aflað.
    Í frumvarpinu er ekki lagt til að upplýsingaskylda verði lögð á þann sem liggur undir grun um að hafa brotið gegn hugverkaréttindum hliðstætt við það sem á við um aðfarargerðir, sbr. 25. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, en samkvæmt því ákvæði er gerðarþola eða málsvara hans skylt að segja satt og rétt frá öllu sem sýslumaður krefur hann svara um og máli kann að skipta við framgang gerðarinnar. Færist gerðarþoli undan að veita upplýsingar er heimilt að skerða frelsi hans þar til gerðarþoli uppfyllir upplýsingaskyldu sína, sbr. nánar 29. gr. sömu laga. Hér er til þess að líta að þeim sem grunur leikur á að hafi framið brot gegn hugverkaréttindum verður ekki sjálfum gert að láta í té upplýsingar um eitthvað sem síðar getur leitt til refsiábyrgðar viðkomandi lögum samkvæmt. Væri slík upplýsingaskylda ekki í samræmi við meginreglur opinbers réttarfars um réttindi sakbornings. Upplýsingar þær sem gerðarþoli er hins vegar venjulega krafinn um við aðför snerta ekki refsinæma háttsemi að neinu leyti. Hér má geta þess að innan Evrópusambandsins virðist gengið lengra í þessu tilliti, sbr. 8. gr. tilskipunar nr. 2004/48/EB um fullnustu hugverkaréttinda. Samkvæmt því ákvæði er beinlínis gert ráð fyrir að upplýsingaskylda um uppruna og dreifingu vöru eða þjónustu verði bæði lögð á þann sem brotið hefur gegn hugverkaréttindum og á aðra sem snerta brotið með nánar tilgreindum hætti. Þó er tekið fram að þetta eigi ekki að raska lögbundnum rétti til að neita að svara spurningum um eigið brot og brot náinna vandamanna. Aftur á móti gengur TRIPS- samningurinn skemur í þessu tilliti en þar er eingöngu að finna heimildarákvæði fyrir aðildarríki samningsins til að leggja þá skyldu á þann sem brotið hefur gegn hugverkarétti að upplýsa rétthafa um þriðja mann sem tók þátt í að framleiða og dreifa ólöglegum vörum eða þjónustu og um dreifingarleiðir þeirra nema slíkt sé ekki í samræmi við alvarleika brotsins, sbr. 47. gr. samningsins.
    Þótt ekki sé lagt til í frumvarpinu að upplýsingaskylda verði lögð á gerðarþola getur vitanlega haft áhrif við leit hjá honum hvort hann er samvinnufús og veitir viðhlítandi upplýsingar. Má í þeim tilvikum gera ráð fyrir að leitin gangi greiðar fyrir sig og feli í sér minna inngrip í málefni gerðarþola en þegar hann veitir ekki liðsinni sitt.

VII.

    Hugverkaréttindi eru samheiti þeirra eignarréttinda sem varða fyrst og fremst andleg sköpunarverk af einhverju tagi. Verða hugverkaréttindi greind annars vegar í höfundarétt og hins vegar í hugverkarétt á sviði iðnaðar. Á sviði hugverkaréttar gildir sú meginregla að eigandi hugverkaréttinda hefur einkarétt til að hagnýta þau í atvinnuskyni. Þannig hefur höfundur að riti einkarétt samkvæmt höfundalögum, nr. 73/1972, á að birta verk sitt í þeim tilgangi að gera það aðgengilegt almenningi, svo sem með sölu. Að sama skapi hefur uppfinningamaður í skilningi laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, einkarétt á að hagnýta uppfinningu sína í atvinnuskyni og eigandi að vörumerki einkarétt til að nota það í starfsemi sinni, sbr. lög um vörumerki, nr. 45/1997.
    Brot gegn hugverkarétti felst í því að einhver hagnýtir sér vernduð hugverk heimildarlaust. Svo sem áður er vikið að eru algengustu brot gegn hugverkaréttindum ólögmætar eftirgerðir eða fjölfaldanir (sjóræningjaútgáfur) af tónlist, kvikmyndum og hugbúnaði. Þá má nefna ólögmætar merkingar á fatnaði og lyfjum með vernduðum vörumerkjum eða það sem einnig er oft nefnt eftirlíkingar.
    Brot gegn ákvæðum sérlaga á sviði hugverkaréttar geta varðað refsingum eða skaðabótum. Er þá venjulega miðað við að þeim sem gerst hefur brotlegur gegn hugverkarétti verði gert að greiða bætur fyrir það tjón sem hlýst af og eftir atvikum endurgjald fyrir hagnýtingu þessara réttinda. Þá getur verið unnt að vernda hugverkarétt með lögbanni í samræmi við ákvæði laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., svo sem áður er nánar vikið að.
    Í 1. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um gildissvið þess en þar er nánar afmarkað til hvaða hugverkaréttinda frumvarpið tekur. Þykir rétt að gera í helstu atriðum grein fyrir þessum hugverkaréttindum og þeim lögum sem um þau gilda.

1.     Höfundaréttur og skyld réttindi.
    Um höfundarétt og skyld réttindi gilda höfundalög, nr. 73/1972. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna á höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eignarrétt á því með þeim takmörkunum sem leiðir af lögunum. Í 2. og 3. mgr. sömu greinar er síðan nánar lýst þeim hugverkum sem njóta verndar samkvæmt lögunum. Veigamestu réttindi sem tryggð eru með lögunum eru einkaréttur höfundar til að gera eintök að verki sínu og birta það almenningi, sbr. 3. gr. laganna. Með 4. gr. laganna er sæmdarréttur höfundar einnig verndaður en í þeim rétti felst að skylt er að geta nafns höfundar þegar við á, auk þess sem höfundur þarf ekki að þola breytingar á verkinu. Samkvæmt 43. gr. laganna helst höfundaréttur uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát höfundar.
    Í V. kafla höfundalaga er fjallað um réttindi skyld höfundarétti. Hér er um að ræða rétt listflytjenda vegna listflutnings, réttindi framleiðenda vegna myndrita og hljóðrita, réttindi útgefenda og útvarpsfyrirtækja, rétt til ljósmynda sem ekki njóta verndar laganna sem listaverk og rétt þess sem framleiðir skrár, töflur, eyðublöð, gagnagrunn eða svipuð verk sem hafa að geyma umtalsvert safn upplýsinga eða eru árangur verulegrar fjárfestingar.
    Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laganna hafa listflytjendur einkarétt til eintakagerðar af listflutningi sínum og dreifingu hans til almennings. Nánar tiltekið er um að ræða upptöku til endurflutnings á beinum listflutningi, útvarp á beinum listflutningi, dreifingu beins listflutnings með tækniaðferðum um þráð eða þráðlaust frá flutningsstað til almennings og eftirgerð á upptöku listflutnings og dreifingu til almennings. Réttur listflytjenda er verndaður uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram. Framleiðendur myndrita og hljóðrita hafa einkarétt til eftirgerðar og dreifingar eintaka til almennings, sbr. 1. mgr. 46. gr. laganna, en verndartími mynd- og hljóðrita er 50 ár. Samkvæmt 48. gr. laganna hefur útvarpsfyrirtæki einkarétt á endurvarpi af útsendingum sínum og dreifingu þeirra um þráð, upptöku endurflutnings á útvarpi, birtingu á sjónvarpi í atvinnuskyni og eftirgerð á áður framkvæmdri upptöku, en síðast greind réttindi eru vernduð í 25 ár. Þá eru réttindi ljósmyndara eða þess sem rétt hans hefur hlotið til eftirgerðar ljósmynda, sem ekki njóta verndar laganna sem listaverk, vernduð í 25 ár, sbr. 49. gr. laganna. Loks eru vernduð tiltekin réttindi þess sem framleiðir skrár, töflur, eyðublöð, gagnagrunn eða svipuð verk í 15 ár, svo sem nánar er rakið í 50. gr. laganna.
    Í 54. gr. laganna eru lagðar refsingar við brotum gegn lögunum en fyrir brot skal því aðeins refsað að þau séu framin af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Þau brot sem getur í 2. mgr. ákvæðisins varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, en þar eru meðal annars talin brot gegn 3. gr., 1. og 2. mgr. 4. gr., 1. og 3. mgr. 45. gr., 1. mgr. 46. gr., 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 49. gr. og 1. mgr. 50. gr. Efni þessara ákvæði hefur nánar verið rakið hér að framan. Þá eru einnig lýst refsiverð brot gegn 51. gr. um listamannanöfn og 52. gr. um misnotkun á höfundarnafni eða auðkenni höfundar. Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna sæta brot á lögunum opinberri ákæru, en jafnan skal málshöfðun heimil þeim sem misgert er við.
    Í 1. mgr. 55. gr. laganna er að finna heimild til upptöku á eintökum af verkum til handa þeim sem misgert var við þegar eintök af verkum hafa verið gerð, flutt hingað til lands eða birt almenningi þannig að í bága fari við fyrirmæli laganna. Einnig er heimilt að ákveða að viðkomandi verði afhent verkin gegn endurgjaldi, sem ekki má nema hærri fjárhæð en framleiðslukostnaði. Í stað upptöku er heimilt að ákveða að munir eða eintök verði eyðilagðir að öllu leyti eða nokkru eða gerð á annan hátt óhæf til hinna ólöglegu nota, sbr. 2. mgr. sömu greinar.
    Þá er mælt fyrir um skaðabætur í 56. gr. laganna en þar segir að bæta beri fjártjón sem saknæmt brot gegn lögunum hefur í för með sér eftir almennum reglum fébótaréttar. Jafnframt er heimilt að dæma höfundi eða listflytjanda miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti þeirra með ólögmætum hætti. Loks er heimilt að dæma þann sem í grandleysi veldur réttarröskun til að greiða bætur sem nema ávinningi hans af brotinu.
    Lagt er til að aflað verði sönnunargagna eftir reglum frumvarpsins vegna ætlaðra brota gegn eftirtöldum ákvæðum höfundalaga:
     1.      3. gr. um einkarétt höfundar til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu eða öðrum aðlögunum.
     2.      4. gr. um sæmdarrétt höfundar.
     3.      3. mgr. 11. gr. um rétt höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, til sérstaks endurgjalds vegna upptöku verka þeirra til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Jafnframt skal greiða endurgjald af tækjum sem einkum eru ætluð til slíkrar upptöku. Þessu ákvæði var bætt við lögin með lögum nr. 60/2000.
     4.      45. gr. um einkarétt listflytjenda til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings.
     5.      46. gr. um bann við eftirgerð og hvers kyns dreifingu til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum.
     6.      48. gr. um bann við aðgerðum án samþykkis útvarpsstofnunar, sem felast í endurvarpi á útvarpi, upptöku endurflutnings á útvarpi og dreifingu þess um þráð, birtingu á sjónvarpi í atvinnuskyni og eftirgerð á áður framkvæmdri upptöku útvarps hennar.
     7.      49. gr. um eftirgerð ljósmynda sem ekki njóta verndar laganna sem listaverk.
     8.      50. gr. um rétt þess sem framleiðir skrár, töflur, eyðublöð, gagnagrunn eða svipuð verk sem hafa að geyma umtalsvert safn upplýsinga eða eru árangur verulegrar fjárfestingar.
     9.      51. gr. um bann við því að birta verk með sams konar listamannaauðkenni og höfundur hefur notað eða svo áþekku auðkenni að líklegt sé að villst verði á verkum eða höfundum þeirra.
     10.      52. gr. um bann við því að setja nafn höfundar eða höfundareinkenni á listaverk án samþykkis hans og um bann við því að setja nafn höfundar eða höfundarauðkenni á eftirgerð af listaverki ef hætt er við að villst verði á því og frumverkinu.
    Ekki þykja efni til að reglur frumvarpsins um öflun sönnunargagna taki til annarra ákvæða höfundalaga en hér hafa verið rakin.

2.     Hönnunarréttur.
    Samkvæmt 1. gr. laga um hönnun, nr. 46/2001, getur hönnuður eða sá sem sækir rétt sinn til hans öðlast einkarétt á hönnun (hönnunarrétt) með skráningu samkvæmt lögunum. Með hönnun er átt við útlit vöru eða hluta vöru sem ræðst af einstökum þáttum eða skreytingum hennar, einkum línum, útlínum, litum, lögun, gerð og/eða efni, sbr. 1. tölul. 2. gr. Hönnunarréttur nær eingöngu til nýrrar og sérstæðrar hönnunar en í því felst að hönnun hafi ekki áður verið gerð aðgengileg almenningi, svo sem nánar er rakið í 3.–6. gr. laganna.
    Í 9. gr. laganna segir að öðrum en hönnuði sé óheimilt að hagnýta hönnun, en frá þessu er þó vikið í nokkrum atriðum í 10.–12. gr. laganna án þess að þau ákvæði verði rakin hér nánar. Í hönnunarrétti felst meðal annars að ekki má heimildarlaust framleiða, bjóða til sölu, markaðssetja, flytja inn eða út eða nota vöru sem einkennist af hönnuninni, svo og safna birgðum í áðurgreindu skyni. Með hagnýtingu hönnunar er átt við not í hagnaðarskyni.
    Í VII. kafla laganna er fjallað um refsi- og bótaábyrgð. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laganna skal sá sem af ásetningi brýtur gegn hönnunarrétti sæta sektum. Refsing getur þó varðað fangelsi allt að einu ári ef brot er alvarlegt, einkum ef ætlunin var að afla verulegs og augljóslega ólögmæts ávinnings með brotinu. Jafnframt er heimilt að gera lögaðila fésekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins á sá sókn sakar sem misgert er við en þó sæta alvarleg brot opinberri ákæru eftir kröfu þess sem misgert er við. Um skaðabætur er fjallað í 38. gr. laganna en þar segir að sá sem brjóti af ásetningi eða gáleysi gegn hönnunarrétti skuli greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu hönnunar og skaðabætur fyrir annað tjón sem brotið hefur haft í för með sér. Ef ekki hefur verið brotið gegn hönnunarrétti með saknæmum hætti er heimilt að gera hinum brotlega að greiða endurgjald eða skaðabætur eftir því sem sanngjarnt þykir en bætur mega þó ekki vera hærri en ætla má að nemi hagnaði af brotinu.
    Samkvæmt 39. gr. laganna geta dómstólar gripið til ráðstafana til að girða fyrir frekari brot gegn hönnunarrétti, en í þessu felst að ákveða má að vörum verði breytt, þeim eytt eða þær afhentar brotaþola gegn endurgjaldi.

3.     Vörumerkjaréttur.
    Samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga um vörumerki, nr. 45/1997, geta aðrir en eigandi vörumerkis ekki heimildarlaust notað í atvinnustarfsemi sinni tákn sem eru eins eða lík vörumerki hans ef notkunin tekur til sömu eða svipaðrar vöru eða þjónustu og vörumerkjarétturinn nær til og hætt er við ruglingi, þar með talið að tengsl séu með merkjum. Brot gegn vörumerkjarétti felst í því að vörurnar eða þjónustan sem um ræðir eru notaðar í viðskiptum.
    Í VII. kafla vörumerkjalaga er fjallað um réttarvernd vörumerkja. Samkvæmt 41. gr. laganna er unnt að krefjast lögbanns við athöfn sem þegar er hafin eða er sannanlega yfirvofandi og brýtur eða mun brjóta gegn vörumerkjarétti. Einnig segir í 42. gr. laganna að banna megi með dómi óréttmæta notkun vörumerkis, auk þess sem lagðar eru refsingar við slíkum brotum. Þá er í 43. gr. laganna lögð skylda á þann sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn vörumerkjarétti til að greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu vörumerkis og skaðabætur fyrir annað tjón sem af brotinu hefur hlotist. Í þeim tilvikum sem brotið er gegn vörumerkjarétti í góðri trú er kveðið á um greiðslu hæfilegs endurgjalds ef um er að ræða hagnað af brotinu.
    Í 44. gr. laganna er mælt fyrir um ráðstafanir sem dómstóll getur gripið til í þeim tilgangi að hindra misnotkun á vörumerki. Felast ráðstafanirnar meðal annars í því að merkið skuli numið brott af vörum, þær ónýttar eða afhentar þeim sem misgert var við.

4.     Félagamerkjaréttur.
    Um félagamerki gilda lög nr. 155/2002. Samkvæmt 1. gr. laganna geta félög eða samtök öðlast einkarétt fyrir félagsmenn sína til að nota í atvinnustarfsemi sameiginlegt auðkenni fyrir vörur eða þjónustu. Einnig geta stjórnvöld, stofnanir, félög eða samtök, sem hafa eftirlit með eða ákveða staðla fyrir vöru eða þjónustu, öðlast einkarétt til að nota eða heimila notkun auðkennis fyrir þær vörur eða þjónustu sem eftirlitið eða staðlarnir taka til. Nefnast auðkenni sem lögin taka til félagamerki.
    Að svo miklu leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum laga um félagamerki gilda ákvæði laga um vörumerki, nr. 45/1997, um félagamerki eftir því sem við getur átt, sbr. 2. gr. fyrrgreindu laganna.
    Samkvæmt 7. gr. laga um félagamerki getur aðeins sá höfðað mál vegna brota gegn félagamerki sem er eigandi merkisins. Í ákvæðinu segir einnig að sá sem brýtur gegn félagamerki og er skaðabótaskyldur samkvæmt lögum um vörumerki skuli bæta það tjón sem eigandi merkis, eða sá sem hefur rétt til að nota það, verður fyrir.
    Sá sem brýtur af ásetningi gegn félagamerkjarétti skal sæta sektum eða eftir atvikum fangelsi í allt að þrjá mánuði, sbr. 1. mgr. 10. gr. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að fésektir verði lagðar á lögaðila án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans, auk þess sem lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar starfsmanns ef brot er tengt starfi hjá lögaðilanum.

5.     Einkaleyfaréttur.
    Samkvæmt 1. gr. laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, hefur uppfinningamaður eða sá sem öðlast hefur rétt hans rétt á að fá einkaleyfi fyrir uppfinningunni. Í einkaleyfi felst einkaréttur til að hagnýta uppfinningu í atvinnuskyni. Í 1. gr., 1. gr. a og 2. gr. laganna er nánar fjallað um hvaða uppfinningar geta notið einkaleyfisverndar. Samkvæmt 3. gr. laganna felur einkaréttur sá sem menn öðlast með einkaleyfi meðal annars í sér að aðrir en einkaleyfishafinn mega ekki án samþykkis hans hagnýta sér uppfinninguna með því að framleiða, bjóða til sölu, setja á markað, nota eða flytja inn eða hafa í fórum sínum tæki í þeim tilgangi eða aðrar afurðir sem veitt hefur verið einkaleyfi fyrir. Einnig er óheimilt að nota aðferð sem nýtur einkaleyfisverndar eða bjóða, setja á markað eða nota afurð sem framleidd er með aðferð verndaðri af einkaleyfi eða flytja inn, eiga eða hafa í fórum sínum slíka afurð í þeim tilgangi.
    Í IX. kafla laganna er fjallað um refsi- og bótaábyrgð. Samkvæmt 57. gr. laganna skal sá sem af ásetningi skerðir einkarétt þann sem einkaleyfi veitir sæta sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum ef sök er mikil. Jafnframt er heimilt að gera lögaðila fésekt. Sókn sakar á sá sem misgert er við. Í 58. gr. laganna er fjallað um skaðabætur en þar kemur fram að sá sem af ásetningi eða gáleysi skerðir einkaleyfisrétt skuli greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu uppfinningar og að auki skaðabætur fyrir annað tjón sem skerðingin hefur haft í för með sér. Hafi brot ekki verið saknæmt ber hinum brotlega jafnframt að greiða endurgjald og skaðabætur að því marki sem það telst sanngjarnt.
    Samkvæmt 59. gr. laganna geta dómstólar mælt fyrir um ráðstafanir til að koma í veg fyrir misnotkun afurða sem framleiddar hafa verið samkvæmt einkaleyfðri uppfinningu eða misnotkun tækja, útbúnaðar eða annars sem hefði skerðingu einkaleyfisréttar í för með sér. Í þessu skyni má mæla fyrir um að hlut verði breytt á ákveðinn hátt, hann eyðilagður eða, þegar um er að ræða einkaleyfisverndaðan hlut, að hann verði afhentur gegn endurgjaldi frá þeim sem misgert var við.

6.     Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum.
    Um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum er fjallað í lögum með sama heiti, nr. 78/1993. Hálfleiðarar eða tölvukubbar eru gerðir úr lagskiptu hálfleiðandi efni svo sem kísil, germanium eða gallium arseníð, ásamt einangrandi efni, sem til samans mynda hluti til að setja í rafeindarás. Mismunandi lög smárása í hálfleiðurum eru skyggð á fyrir fram ákveðnum stöðum með eins konar mynstri og síðan eru öll lögin felld saman, ásamt lögum af einangrun og málmi sem þannig mynda tölvukubbinn. Mótun lagskiptingarinnar er ákveðin með því að beina ljósamynstri á ljósnæma fleti, ýmist í gegnum skapalón eða með tölvustýrðum ljósgeisla sem dregur upp viðkomandi smárás. Smárás sem gerð er með framangreindum hætti ræður virkni tölvukubbsins.
    Þessi svæðislýsing smárása í tölvukubbum er afar kostnaðarsöm en hins vegar er auðvelt að framleiða eftirlíkingar þar sem sjálf framleiðsluaðferðin við gerð tölvukubba er þekkt. Af þessum sökum hefur verið talið nauðsynlegt að vernda hönnun svæðislýsinga smárása í tölvukubbum. Þar sem hönnun svæðislýsinganna féll ekki undir hefðbundin hugverkaréttindi voru sett sérstök lög um verndun svæðislýsinga smárása í Bandaríkjunum árið 1984 (Semiconductor Chip Protection Act). Vegna gagnkvæmnisákvæðis í bandarísku lögunum var Evrópusambandið knúið til að taka upp sambærilega vernd og var það gert í tilskipun ráðsins 87/54/EBE frá 16. desember 1986 um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum. Með aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var nauðsynlegt að setja umrædd lög nr. 78/1993 til að laga íslensk lög að ákvæðum tilskipunarinnar.
    Í 1. gr. laganna er mælt fyrir um einkarétt þess sem hannar svæðislýsingu smárása í hálfleiðara til hagnýtingar hennar. Sama rétt á sá sem öðlast hefur rétt hönnuðar fyrir löggerning. Skilyrði verndarinnar er að um nýja hönnun sé að ræða, að hluta eða í heild, að um eigið verk hönnuðar sé að ræða og að svæðislýsingin sé ekki almennt þekkt. Samkvæmt 3. gr. laganna tekur einkaréttur hönnuðar til afritunar svæðislýsingar smárása, réttar til hagnýtingar svæðislýsingar smárása í atvinnuskyni, auk réttar til innflutnings svæðislýsingar eða smárásar sem framleidd var með þeirri svæðislýsingu til nota í atvinnuskyni. Undanskilið einkarétti hönnuðar er afritun svæðislýsinga smárása sem ekki tengist atvinnurekstri, afritun svæðislýsinga smárása sem gerð er í rannsókna- eða fræðsluskyni, svæðislýsing smárása sem hefur orðið til vegna rannsókna og síðari nýting verndaðra svæðislýsinga smárása sem ekki fer fram í atvinnuskyni. Verndartími svæðislýsinga smárása fellur niður 10 árum eftir lok þess almanaksárs er svæðislýsingin var fyrst hagnýtt í atvinnuskyni einhvers staðar í heiminum. Hafi svæðislýsing ekki enn verið notuð í atvinnuskyni fellur verndin niður 15 árum frá því að svæðislýsingin var fyrst kynnt, sbr. 5. gr. laganna.
    Brot gegn lögunum varða sektum, sbr. 7. gr. laganna. Einnig er þeim sem brýtur af ásetningi eða gáleysi gegn lögunum skylt að bæta það tjón sem af hefur hlotist. Skaðabætur mega þó ekki vera hærri en nemur hagnaði hins bótaskylda af brotinu, sbr. 6. gr. laganna.

7.     Yrkisréttur.
    Um yrkisrétt gilda ákvæði laga nr. 58/2000, um yrkisrétt. Samkvæmt lögunum getur aðili, sem hefur ræktað, eða uppgötvað og þróað, nýtt yrki (afbrigði eða stofn af plöntutegund) eða öðlast rétt hans, yrkishafi, öðlast einkarétt til hagnýtingar þess í atvinnuskyni. Um yrkisrétt er síðan fjallað nánar í 1. gr. a og 2. gr. laganna. Samkvæmt 17. gr. laganna felur yrkisréttur í sér að aðrir en yrkishafi megi ekki án hans samþykkis nýta stofnþætti yrkis eða uppskeru af hinu verndaða yrki með tilgreindum hætti sem nánar er rakinn í ákvæðinu.
    Sá sem skerðir yrkisrétt samkvæmt lögunum eða reglum á grundvelli þeirra skal sæta sektum. Jafnframt er heimilt að gera lögaðila fésekt, sbr. 25. gr. Þá skal greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu yrkis og að auki skaðabætur fyrir annað tjón sem skerðing yrkisréttar af ásetningi eða gáleysi hefur haft í för með sér, sbr. 26. gr. laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er að finna afmörkun á gildissviði frumvarpsins. Lagt er til að frumvarpið taki til allra helstu tegunda hugverkaréttinda. Rétt þykir þó að tilgreina nákvæmlega og tæmandi þessi hugverkaréttindi en nánar er gerð grein fyrir þessum réttindum í almennum athugasemdum með frumvarpinu. Af þessu leiðir að brot gegn öðrum hugverkaréttindum falla utan gildissviðs frumvarpsins og verður því sönnunargagna vegna þeirra ekki aflað eftir reglum þess. Verður því að gera viðeigandi breytingu á ákvæðinu ef fella á önnur hugverkaréttindi undir reglur frumvarpsins. Að gildandi rétti verður ekki séð að nein hugverkaréttindi falli utan gildissviðs frumvarpsins þar sem vandkvæði eru við öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota en þó er vert að gefa þessu gaum eftir því sem tækninni vindur fram og löggjöf þróast á þessu réttarsviði.
    Viðamikill lagabálkur á sviði hugverkaréttinda eru höfundalög, nr. 73/1972. Í a-lið greinarinnar er vísað nákvæmlega til þeirra réttinda samkvæmt höfundalögum sem lagt er til að frumvarpið taki til. Um önnur hugverkaréttindi, sem talin eru í b–g-liðum, þykir hins vegar fullnægjandi að vísa almennt til réttindanna en sérlög gilda um öll þessi réttindi, eins og áður er rakið.

Um 2. gr.

    Lagt er til að sýslumönnum, hverjum í sínu umdæmi, verði falið að gengnum dómsúrskurði að veita atbeina sinn við að afla sönnunargagna vegna brota á þeim hugverkaréttindum sem ákvæði frumvarpsins taka til og eftir atvikum að beita valdi í því skyni. Eins og áður er vikið að þykir þetta viðfangsefni eiga sér nokkra samsvörun í ýmsum þeim verkefnum sem sýslumenn fara með. Í þeim efnum má benda á fullnustugerðir en við þær er unnt að þvinga fram efndir á skyldu einhvers án tillits til vilja viðkomandi. Framsetning frumvarpsins tekur mið af löggjöf á sviði fullnusturéttarfars að því marki sem það þykir eiga við.
    Í 2. mgr. er að finna reglu um sérstakt hæfi sýslumanna og fulltrúa þeirra til þeirra aðgerða sem frumvarpið mælir fyrir um. Þykir rétt að um þetta gildi sömu reglur og um hæfi dómara til að fara með einkamál í héraði, sbr. 5. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Hér er lagt til að sama regla gildi um sérstakt hæfi sýslumanns og þegar hann fer með fullnustugerðir.
    Þá er í 3. mgr. að finna venjubundna heimild fyrir ráðherra til að bregðast við ef sýslumaður reynist vanhæfur skv. 2. mgr.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um skilyrði þess að aflað verði sönnunargagna vegna ætlaðra brota gegn þeim hugverkaréttindum sem frumvarpið tekur til.
    Samkvæmt 1. mgr. er heimilt að afla sönnunargagna ef sá sem telur sig rétthafa hugverkaréttinda sem um getur í 1. gr. eða sá sem lögum samkvæmt hefur heimild til að hagnýta sér þau réttindi gerir sennilegt að einhver hafi brotið gegn þeim rétti. Miðað er við að gerðarbeiðandi geti ekki eingöngu verið rétthafi heldur einnig sá sem hefur heimild til að nýta sér þessi réttindi, svo sem nytjaleyfishafi, sbr. 38. og 46. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, og 49. og 50. gr. laga nr. 46/2001, um hönnun. Þá er gert ráð fyrir því að gerðarbeiðandi geti beint kröfu sinni að hverjum þeim sem nýtur aðildarhæfis, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og eru engar takmarkanir gerðar í þeim efnum. Þannig getur gerðarþoli verið einstaklingur, félag eða stofnun, þar með talið stofnanir ríkis og sveitarfélaga. Með broti gegn hugverkarétti er átt við hverja þá ráðstöfun sem hlutlægt séð fær ekki samrýmst réttindum gerðarbeiðanda og því þarf brotið ekki að vera þess eðlis að það geti haft í för með sé bóta- eða refsiábyrgð.
    Til að fallist verði á kröfu gerðarbeiðanda verður hann að gera sennilegt að brotið hafi verið gegn hugverkarétti sem hann nýtur. Þannig þarf gerðarbeiðandi ekki að færa fram örugga sönnun fyrir brotinu heldur nægir að færðar séu ákveðnar líkur fyrir því að brot hafi verið framið. Þetta er hliðstætt við skilyrði til að fá lögbann lagt við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn sem talið er að brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðanda, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990. Hér skal þó áréttað að ekki er gert ráð fyrir að leit fari fram nema talið verði sennilegt að brot hafi verið framið og verður því ekki aflað sönnunargagna um áform um að brjóta gegn hugverkarétti. Samhliða því að gerð sé krafa um að sönnunargagna verði aflað má reikna með að gerðarbeiðandi leitist við að vernda réttindi sín með því að krefjast lögbanns. Er því heppilegt að hliðstæð skilyrði gildi til að gerðarbeiðnir þessar nái fram að ganga. Þó verður að gæta að því að markmið og framkvæmd þessara gerðarbeiðna verður ekki jafnað saman en það gæti haft þau áhrif að þessi skilyrði verði í framkvæmd ekki virt með sama hætti. Hér er ekki unnt að lýsa nákvæmlega hvenær gerðarbeiðandi hefur leitt nægar líkur að því að brotið hafi verið gegn hugverkarétti og kemur því í hlut dómstóla að meta þetta í hverju falli fyrir sig. Í dæmaskyni má þó nefna að næg líkindi fyrir broti ættu venjulega að vera fyrir hendi ef gerðarbeiðandi hefur staðfestar og áreiðanlegar upplýsingar frá núverandi eða fyrrverandi starfsmanni gerðarþola eða ef upplýsingar um starfsemi gerðarþola eru í ósamræmi við greiðslur fyrir hagnýtingu hugverkaréttar. Auk þess sem gerðarbeiðandi þarf að gera sennilegt að brotið hafi verið gegn rétti hans verður gerðarbeiðandi að sýna fram á að hann njóti þeirra hugverkaréttinda sem hann leitast við að vernda, hvort heldur sem hann er eigandi réttindanna eða hefur að lögum heimild til að nýta sér þau.
    Samkvæmt a-lið 2. mgr. verður sönnunargagna ekki aflað eftir reglum frumvarpsins vegna brota sem talin verða minni háttar ef beiðni beinist að einstaklingi og þau hafa ekki verið liður í atvinnustarfsemi. Frumvarpið girðir því ekki fyrir að leit verði gerð á einkaheimili til að afla sönnunargagna vegna ætlaðra brota gegn hugverkaréttindum. Aftur á móti er markmiðið með þessu ákvæði að veita heimili og einkalífi einstaklings aukna vernd þannig að úrræði frumvarpsins verði ekki beitt nema brýnt tilefni sé til. Hér má nefna sem dæmi að tæplega kæmi til álita að leit færi fram á einkaheimili í þeim tilgangi einum að afla sönnunargagna um ólögmætan hugbúnað sem gerðarþoli hagnýtir aðeins í eigin þágu. Hins vegar kæmi til greina að veita slíka heimild ef gerðarþoli fjölfaldaði efni til dreifingar án endurgjalds, enda má þá gera ráð fyrir að brotið verði talið meiri háttar. Ef gerðarþoli áskilur sér hins vegar þóknun fyrir framlag sitt er um atvinnustarfsemi að ræða og því nýtur hann ekki verndar ákvæðisins.
    Í b-lið 2. mgr. er komið í veg fyrir að sönnunargagna verði aflað ef stórfelldur munur er á hagsmunum gerðarþola af því að gagna verði ekki aflað miðað við hagsmuni gerðarbeiðanda af því að fá slík gögn. Þetta ákvæði tekur mið af 2. tölul. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sem hindrar að lögbanni verði beitt við slíkar aðstæður. Þykja sömu rök eiga hér við og búa að baki þeirri reglu.
    Þær reglur 2. mgr. sem hér hafa verið raktar draga vissulega nokkuð úr þeirri vernd hugverkaréttinda sem markmiðið er að tryggja. Með þessu er þó hagsmunum þeirra sem njóta hugverkaréttar tæplega teflt í tvísýnu, enda er nær útilokað að þessar undantekningar geti náð til þeirra sem leggja stund á umfangsmikil brot gegn hugverkaréttindum. Hér verður einnig að gæta að því að með frumvarpinu er lagt til að raskað verði réttindum sem varin eru af stjórnarskrá, svo sem rakið hefur verið. Er því mikilvægt að búa svo um hnútana að ekki verði gengið lengra í þeim efnum en brýnt tilefni er til.

Um 4. gr.

    Í þessu ákvæði er fjallað um hvar sönnunargagna verður aflað hjá gerðarþola og að hverju athugunin beinist.
    Samkvæmt 1. mgr. verður sönnunargagna aflað á stað sem gerðarþoli hefur umráð yfir. Yfirleitt má gera ráð fyrir að athugun hjá gerðarþola færi fram á atvinnustöð hans, hvort sem um er að ræða eigið húsnæði gerðarþola eða annað húsnæði sem hann hefur aðgang að fyrir starfsemi sína. Einnig getur athugun farið fram á heimili gerðarþola ef um er að ræða einstakling og skilyrði eru fyrir hendi til að taka slíka beiðni til greina. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir að athugun fari fram hjá þriðja manni sem kann að hafa í sínum umráðum sönnunargögn nema ætla megi að hann hafi sjálfur gerst brotlegur en þá væri hægt að beina beiðni gegn honum á þeim grundvelli. Ef grandlaus þriðji maður hefur í vörslum sínum sönnunargögn um brot gegn hugverkaréttindum má gera ráð fyrir að hann afhendi þau gerðarbeiðanda eða eftir atvikum skili gögnum til gerðarþola þegar honum verður ljós þýðing þeirra. Að öðrum kosti kann hann að taka þá áhættu að verða talinn hafa átt hlut að máli þannig að beiðni um öflun sönnunargagna verði beint að honum. Það veltur þó á nánari atvikum hverju sinni.
    Athugun sú sem fjallað er um í 1. mgr. nær til allra þeirra gagna og tækja sem haft geta þýðingu við mat á því hvort og í hvaða mæli brotið hafi verið gegn þeim hugverkaréttindum sem frumvarpið tekur til. Nær könnunin meðal annars til söluvöru, véla og framleiðslutækja, bókhaldsgagna, pöntunarseðla, kynningarefnis, tölvugagna og hugbúnaðar. Þessi talning er ekki tæmandi en ætti að fela í sér upptalningu á öllu því helsta sem athugunin getur beinst að. Með hliðsjón af þessari upptalningu má yfirleitt gera ráð fyrir að sönnunargögn sé að finna á skrifstofu gerðarþola, í skjalasafni eða vistuð í tölvum, á vörulager eða í þeim húsakynnum sem hann hefur undir framleiðslu af einhverju tagi. Að þessu er nánar vikið í VI. kafla í almennum athugasemdum með frumvarpinu.
    Í 2. mgr. segir að athugun á gögnum eða tækjum miði ekki að því að leiða í ljós hvort framleiðslutæki eða vélar gerðarþola brjóti gegn einkaleyfi. Til að kanna hvort brotið hafi verið gegn hugverkaréttindum getur verið nauðsynlegt að kanna tæki og vélar gerðarþola til að fá viðhlítandi upplýsingar um starfsemi hans, svo sem hvað hann framleiði og í hve miklum mæli. Sú athugun á þó ekki að beinast að því að leiða í ljós hvort vélbúnaðurinn sjálfur brjóti gegn einkaleyfi. Með því yrði gengið of nærri gerðarþola, auk þess sem framleiðslan getur hvílt á atvinnuleyndarmálum sem mikilvægt er fyrir gerðarþola að ekki verði afhjúpuð. Er gert ráð fyrir að álitamál af þessu tagi komi til kasta löggjafar á sviði einkaleyfaverndar en við sönnunarvanda af slíkum toga hefur verið brugðist á þeim vettvangi svo sem áður er rakið.
    Samkvæmt 3. mgr. verður ekki aflað sönnunar hjá gerðarþola með gögnum sem hafa að geyma upplýsingar sem óheimilt væri að gefa vitnaskýrslu um í einkamáli fyrir dómi. Um þetta vísast til 53. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Verður því ekki farið á svig við það ákvæði með því að afla sönnunargagna eftir reglum frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. segir að senda skuli beiðni um öflun sönnunargagna til héraðsdóms í því umdæmi þar sem gerðarþoli á heimilisvarnarþing, sbr. 32. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Er þetta í samræmi við meginreglur réttarfars og þarfnast ekki nánari skýringar.
    Samkvæmt 2. mgr. skal beiðni til héraðsdóms vera skrifleg og í henni ber að greina svo skýrt sem verða má fullt nafn gerðarbeiðanda og gerðarþola, kennitölur og lögheimili og upplýsingar um atvinnurekstur gerðarþola ef við á, sbr. a- og b-lið. Jafnframt skal koma fram í beiðni hvaða hugverkaréttindum ætlað brot beinist gegn og í hverju það felist, sbr. c-lið. Með þessu er málinu markaður grundvöllur þannig að leit hjá gerðarþola beinist að því að afla sönnunargagna um þau brot sem gerðarbeiðandi hefur tilgreint í beiðni sinni. Því er mikilvægt að vandað sé til þessarar lýsingar. Þá skal koma fram í beiðni krafa gerðarbeiðanda um hvaða sönnunargagna eigi að afla og hvar þeirra eigi að leita, auk þess sem gerðarbeiðanda ber að greina frá því á hvaða grunni hann telur að þau sé þar að finna, sbr. d- og e- lið. Þetta þarf að koma glögglega fram þar sem afmarkað skal í úrskurði dómara hvaða gagna verði aflað og hvar þeirra skuli leitað hjá gerðarþola, sbr. 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins. Loks skulu koma fram í beiðni aðrar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir meðferð málsins, sbr. f-lið.
    Í 3. mgr. segir að beiðni skuli fylgja þau gögn sem gerðarbeiðandi styður málatilbúnað sinn við. Þessi fylgigögn geta bæði varðað þann hugverkarétt sem ætlað brot beinist gegn og gögn um athafnir þær sem gerðarbeiðandi telur að brjóti gegn þeim rétti. Einnig geta önnur gögn komið til álita án þess að þau verði tæmandi talin eða þeim lýst nánar.
    Beiðni skal senda héraðsdómi í tvíriti svo sem fram kemur í 4. mgr. Tekur þetta mið af því að senda ber gerðarþola málsgögn með tilkynningu dómsins um hvar og hvenær málið verði þingfest, sbr. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. skal héraðsdómari ákveða stað og stund þinghalds eftir að honum hefur borist beiðni um öflun sönnunargagna og tilkynna það aðilum með hæfilegum fyrirvara og sannanlegum hætti. Í tilkynningu til gerðarþola skal tekið fram hverju það varði ef ekki er sótt þing af hans hálfu. Einnig skulu fylgja tilkynningunni gögn málsins.
    Í 2. mgr. er að finna heimild til að víkja frá skyldu til að tilkynna gerðarþola um þingfestingu málsins. Verður það gert eftir rökstuddri beiðni gerðarbeiðanda ef hætta leikur á að sönnunargögnum verði komið undan, þeim eytt eða breytt eða dráttur vegna tilkynningar geti valdið réttarspjöllum fyrir gerðarbeiðanda. Þessi heimild helgast af 2. mgr. 50. gr. TRIPS- samningsins, en þar er gert ráð fyrir því að dómstólar geti gripið til ráðstafana án tilkynningar til gagnaðila ef líkur eru á að tafir muni valda óbætanlegu tjóni eða sýnt þykir að hætta er á að sönnunargögn verði eyðilögð. Með hliðsjón af því að oft er unnt á svipstundu að eyða eða koma undan sönnunargögnum um ætlað brot gegn hugverkaréttindum má gera ráð fyrir að þessari heimild verði beitt í allnokkrum mæli. Í 3. mgr. 21. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, er að finna hliðstæða heimild af sambærilegu tilefni til að víkja frá skyldu til að tilkynna gerðarþola um hvenær aðför hjá honum muni byrja. Það ákvæði aðfararlaga tekur einnig til kyrrsetningar, löggeymslu og lögbanns, sbr. 4. mgr. 8. gr., 2. mgr. 23. gr. og 3. mgr. 26. gr. laga nr. 31/1990.

Um 7. gr.

    Hér er fjallað um áhrif útivistar málsaðila, hvort sem er við þingfestingu máls fyrir héraðsdómi eða í síðara þinghaldi. Einnig er fjallað um málsmeðferðina þegar gerðarþola hefur ekki verið tilkynnt um fyrirtöku málsins á grundvelli heimildar í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 1. mgr. skal beiðni um öflun sönnunargagna talin fallin niður ef gerðarbeiðandi sækir ekki þing þegar beiðnin er tekin fyrir eða þingsókn af hans hálfu fellur niður á síðari stigum. Þegar þannig stendur á er héraðsdómara heimilt að úrskurða gerðarþola ómaksþóknun úr hendi gerðarbeiðanda ef gerðarþoli hefur sótt þing og gert slíka kröfu.
    Í 2. mgr. segir að taka skuli mál til úrskurðar ef gerðarþoli sækir ekki þing. Sama á við ef gerðarþoli hefur ekki verið boðaður til þinghalds þar sem þingfesta á málið. Í báðum tilvikum skal héraðsdómari áður en mál er tekið til úrskurðar leita svara við sérhverju því sem hann telur óljóst eða ónógar upplýsingar komnar fram um og getur haft þýðingu við mat á því hvort orðið verður við beiðninni. Í því skyni og til að leggja fram frekari gögn má veita gerðarbeiðanda skamman frest. Þessi ákvæði helgast af því að dómara ber að gæta af sjálfsdáðum að því hvort lagaskilyrði séu fyrir hendi til að sönnunargagna verði aflað eftir reglum frumvarpsins þótt beiðni hafi ekki verið mótmælt, sbr. 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um málsmeðferðina fyrir héraðsdómi þegar gerðarþoli sækir þing og andmælir kröfu gerðarbeiðanda. Er þá gert ráð fyrir því í 1. mgr. að gerðarþoli leggi fram greinargerð við þingfestingu málsins en honum eiga að hafa borist málsgögn með tilkynningu frá héraðsdómara um þinghaldið, sbr. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Þetta tekur mið af því að brýnt er með hliðsjón af hagsmunum gerðarbeiðanda að rekstur málsins gangi greiðlega fyrir sig. Jafnframt á gerðarþola að vera unnt með skömmum fyrirvara að undirbúa vörn sína fyrir dómi, enda er þess síður að vænta að reynt geti á flókin úrlausnarefni.
    Þegar málsaðilar hafa lagt fram gögn við þingfestingu verður málið flutt munnlega í þeim búningi sem það liggur fyrir dóminum. Þó má veita skamman frest til undirbúnings fyrir munnlegan málflutning. Hins vegar verður málinu ekki frestað til frekari gagnaöflunar auk þess sem skýrslutökur fara ekki fram fyrir dómi. Ef gerðarbeiðandi getur ekki leitt nægar líkur að því að gerðarþoli hafi brotið gegn hugverkarétti með þeim sönnunargögnum sem færð verða fyrir dóminn verður beiðni hafnað.

Um 9. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu skal héraðsdómari svo fljótt sem verða má eftir að beiðni hefur verið tekin til úrskurðar kveða upp úrskurð um hvort aflað skuli sönnunargagna vegna ætlaðs brots gegn hugverkaréttindum gerðarbeiðanda. Þessi fyrirmæli eru í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins sem miða við að meðferð þessara mála sé hraðað eftir föngum. Þá er tekið fram að afmarka skuli í úrskurði héraðsdómara hvaða gagna verði aflað og hvar þeirra skuli leitað hjá gerðarþola. Svo sem áður er vikið að er gert ráð fyrir að grundvöllur málsins að þessu leyti liggi fyrir í beiðni um öflun sönnunargagna, sbr. d- og e-lið 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Í úrskurði gæti dómari einnig markað máli þrengri farveg að þessu leyti en lagt er upp með í beiðni þannig að tiltekinna gagna verði ekki aflað eða að leit fari ekki fram á þann veg sem gerðarbeiðandi óskar. Þegar leyst er úr þessu hefur dómari hliðsjón af þeim vörnum sem gerðarþoli hefur haft uppi auk þess sem dómara ber sjálfum á grundvelli eigin athugunar að leggja mat á hvort lagaskilyrði séu fyrir hendi til að fallist verði á beiðni. Þykir rétt með hliðsjón af eðli þeirra athafna í garð gerðarþola sem leiðir af ákvæðum frumvarpsins að dómari gæti að þessu af sjálfsdáðum. Hér er einnig til þess að líta að gert er ráð fyrir að heimilt verði að reka mál af þessu tagi fyrir dómstólum án þess að gerðarþola hafi verið tilkynnt um fyrirtöku málsins.

Um 10. gr.

    Þegar héraðsdómur hefur að einhverju leyti eða öllu fallist á beiðni um heimild til að afla sönnunargagna vegna ætlaðs brots gegn hugverkaréttindum skal gerðarbeiðandi senda úrskurð dómsins til sýslumanns í því umdæmi þar sem sönnunargagna verður aflað. Ef sönnunargagna verður aflað í fleiri umdæmum er heimilt að beina úrskurði samtímis að þeim sýslumönnum sem eiga í hlut. Á þessa heimild gæti meðal annars reynt þegar gerðarþoli er með dreifða starfsemi.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um tryggingu sem sýslumanni er rétt að krefja gerðarbeiðanda um áður en sönnunargagna verður aflað. Hér er höfð hliðsjón af 3. mgr. 50. gr. TRIPS-samningsins. Tekur tryggingin annars vegar til kostnaðar við meðferð málsins hjá sýslumanni og hins vegar til skaðabóta sem gerðarþoli kynni að öðlast rétt til vegna beiðninnar og meðferðar hennar. Ber sýslumanni að sundurgreina fjárhæðina eftir því hvort um er að ræða tryggingu fyrir kostnaði eða skaðabótum vegna tjóns gerðarþola. Trygging verður lögð fram í því formi sem sýslumaður samþykkir en fullnægjandi í þeim efnum væru peningar eða bankaábyrgð.
    Lagt er til í 3. mgr. að sýslumaður geti breytt ákvörðun sinni um tryggingu eftir því sem eðlilegt þykir í ljósi framvindu málsins. Þetta gæti átt við ef til fellur frekari kostnaður en reiknað var með þegar sýslumaður tók upphaflega ákvörðun um tryggingu. Einnig gæti verið að mál raskaði í meira mæli hagsmunum gerðarþola en gert var ráð fyrir. Að sama skapi getur komið í ljós að trygging hafi í upphafi verið ákveðin óþarflega há og getur sýslumaður þá breytt ákvörðun sinni til lækkunar á fjárhæð tryggingar.
    Samkvæmt 4. mgr. fellur mál niður ef gerðarbeiðandi leggur ekki fram tryggingu innan hæfilegs frests sem sýslumaður ákveður.
    Í 5. mgr. er lagt til að gerðarbeiðandi sem vill ekki una ákvörðun sýslumanns um tryggingu geti krafist úrlausnar héraðsdómara. Um meðferð ágreiningsmálsins fer þá eftir 14. kafla laga um aðför, nr. 90/1989, eftir því sem við getur átt. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að gerðarþoli geti borið ágreining um tryggingu undir héraðsdóm. Verður að gera ráð fyrir að sýslumaður hafi lokið meðferð málsins áður en slíkrar úrlausnar yrði aflað frá héraðsdómi en ekki kæmi til álita að mál hvíli meðan slíkrar úrlausnar yrði aflað. Væri gerðarþola þá í lófa lagið að hindra meðferð málsins með því einu að gera ágreining um tryggingu sem gerðarbeiðanda er gert að leggja fram. Að þessu virtu þykja ekki efni til að gerðarþola verði heimilað að bera ágreining um tryggingu undir dóm.

Um 12. gr.

    Í þessu ákvæði er fjallað um hvernig sýslumaður stendur að öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota gegn hugverkarétti. Fjallar greinin bæði um hvaða gagna verður aflað og hvernig þeirra verður aflað. Felur ákvæðið í sér nánari fyrirmæli að þessu leyti um framkvæmdina en áður er í 4. gr. frumvarpsins fjallað um hvar gagna verður aflað og að hverju athugunin beinist.
    Samkvæmt 1. mgr. aflar sýslumaður sönnunargagna með leit hjá gerðarþola. Ber sýslumanni að haga þeirri leit í samræmi við þann dómsúrskurð sem liggur henni til grundvallar. Að því marki sem nauðsynlegt er til að tryggja sönnun um ætlað brot er sýslumanni rétt við leitina að leggja hald á hluti eða skjöl og taka myndir eða afrita gögn, þar með talið á tölvutæku formi. Það skal áréttað að frumvarpið felur eingöngu í sér heimild til að afla sönnunargagna til að leiða í ljós brot gegn hugverkarétti. Þær heimildir sem frumvarpið hefur að geyma standa því ekki til þess að taka vörubirgðir úr vörslum gerðarþola í þeim tilgangi að koma í veg fyrir brot gegn hugverkarétti. Í því skyni eru gerðarbeiðanda önnur úrræði tæk eins og lögbann eða kæra til lögreglu sem gæti hugsanlega leitt til haldlagningar skv. 78. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Að þessu gættu kæmi ekki til álita að leggja hald á vörur gerðarþola í frekari mæli en nauðsynlegt er til að tryggja sönnun um ætlað brot, svo sem með því að taka sýnishorn af vörulager. Til að afla jafnframt sönnunargagna um umfangið væri unnt að kanna birgðir með vörutalningu. Einnig getur verið nauðsynlegt að taka gögn úr vörslum gerðarþola um skamman tíma til að kanna þau nánar og eftir atvikum til afritunar. Að því loknu bæri hins vegar að skila gögnum til gerðarþola. Til að vernda hagsmuni gerðarþola er lagt til að hann geti krafist þess að sýslumaður varðveiti hluti, sem teknir hafa verið úr vörslum gerðarþola, á kostnað gerðarbeiðanda. Þótt hlutir séu í umsjá sýslumanns er vitanlega gert ráð fyrir að gerðarbeiðandi hafi að þeim nauðsynlegan aðgang til að gæta hagsmuna sinna og færa fram sönnun fyrir dómi ef til málsóknar kemur á hendur gerðarþola í kjölfar þess að sönnunargagna hefur verið aflað vegna ætlaðra brota gegn hugverkaréttindum.
    Heimild frumvarpsins til að leita að sönnunargögnum í húsakynnum gerðarþola felur í sér frávik frá réttindum sem varin eru af stjórnarskrá, svo sem áður er nánar rakið. Með það í huga er mikilvægt að búa svo um hnútana að ekki verði gengið frekar á þann rétt en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með frumvarpinu. Hér verður einnig að gæta að því að reglur frumvarpsins rúmist innan þess svigrúms sem löggjafinn hefur samkvæmt mannréttindaákvæðum stjórnarskrár. Í samræmi við þetta er tekið fram í 2. mgr. að þess skuli gætt við leit hjá gerðarþola að ekki verði gengið lengra en nauðsynlegt er með hliðsjón af þeim ætluðu brotum sem afla á sönnunar um. Þetta leiðir af almennum reglum en rétt þykir að undirstrika þetta sérstaklega. Í þessari reglu felst einnig að gæta ber meðalhófs við framkvæmd leitar og öflun sönnunargagna. Þannig bæri að gæta varfærni við leitina og einskorða hana við það sem haft getur sönnunargildi með tilliti til þeirra ætluðu brota sem athugunin beinist að. Með hliðsjón af þessu væri til dæmis rétt að taka útdrátt úr þeim gögnum sem jafnframt hafa aðrar upplýsingar málinu óviðkomandi.
    Í 3. mgr. er að finna heimild fyrir sýslumann til að kveða til menn með viðeigandi sérfræðiþekkingu til að annast leit eða afmarkaða þætti hennar og getur sýslumaður falið þeim eftir þörfum að taka saman skýrslu um athugunina. Þeir sérfræðingar sem hér gætu helst komið til álita eru kerfisfræðingar, endurskoðendur og aðrir þeir sem hafa þekkingu sem kemur að notum, svo sem lögreglumenn með reynslu af því að annast leit hjá sakborningum. Þóknun til þeirra sem kvaddir hafa verið til aðstoðar fer eftir ákvörðun sýslumanns.
    Samkvæmt 4. mgr. er sýslumanni heimilt að beita valdi að því marki sem nauðsynlegt er til að framkvæma leit hjá gerðarþola. Ber lögreglu eftir föngum að veita sýslumanni liðsinni í því skyni. Yfirleitt má gera ráð fyrir að gerðarþoli sé samvinnuþýður en svo þarf ekki að vera í öllum tilvikum. Því getur verið nauðsynlegt að grípa til valdbeitingar auk þess sem heimildin og sú þvingun sem í henni felst ætti að tryggja nauðsynlega samvinnu af hálfu gerðarþola við leitina.

Um 13. gr.

    Hér er fjallað um viðveru gerðarbeiðanda við leit hjá gerðarþola. Lagt er til að gerðarbeiðanda verði eingöngu heimilt að vera viðstaddur þegar sönnunargagna er aflað að því marki sem nauðsynlegt er til að veita upplýsingar. Tekur sýslumaður ákvörðun um nærveru gerðarbeiðanda og er heimilt að ákveða að athugun fari fram að honum fjarstöddum. Yfirleitt ætti að vera hægt að framkvæma leit hjá gerðarþola að gerðarbeiðanda fjarstöddum. Að því marki sem afla þarf upplýsinga hjá gerðarbeiðanda ætti jafnframt að vera hægt að nálgast þær greiðlega án þess að gerðarbeiðandi eða umboðsmaður hann séu viðstaddir sjálfa leitina, hvort heldur sem er símleiðis eða með viðveru í nágrenninu. Hér verður að gæta að þeim augljósu hagsmunum gerðarþola að röskunin verði ekki meiri en nauðsyn ber til. Í samræmi við það er rétt að gerðarbeiðandi og aðrir á hans vegum séu fjarstaddir nema nærvera þeirra sé nauðsynleg til að veita viðhlítandi upplýsingar.

Um 14. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. skal sýslumaður með hæfilegum fyrirvara og sannanlegum hætti tilkynna gerðarþola hvar og hvenær verði hafist handa við að afla sönnunargagna. Þetta ákvæði á við þegar gerðarþoli hefur verið boðaður til fyrirtöku málsins fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Þegar neytt er heimildar 2. mgr. sömu greinar til að fjalla um málið fyrir dómi án boðunar til gerðarþola fer um málsmeðferðina eftir 15. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er fjallað um hverjir komi fram fyrir gerðarþola þegar mál er tekið fyrir í því skyni að afla sönnunargagna og gerðarþoli sjálfur hittist ekki fyrir, umboðsmaður hans eða fyrirsvarsmaður. Ef um er að ræða einstakling er sýslumanni rétt að fela maka hans eða öðrum heimilismanni að gæta hagsmuna viðkomandi. Beinist beiðni að lögaðila felur sýslumaður stjórnanda eða starfsmanni gerðarþola að gæta hagsmuna hans. Hér er lagt til að hliðstæð ákvæði gildi að þessu leyti og eiga við um málsvara gerðarþola við aðför, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Ef enginn hittist fyrir er gert ráð fyrir að það tálmi ekki öflun sönnunargagna en heimilt er að fresta leit ef þannig stendur á og það þykir geta greitt fyrir meðferð málsins. Má gera ráð fyrir að oft sé heppilegra að standa þannig að máli til að freista þess að hitta einhvern fyrir sem gætir hagsmuna gerðarþola ef það er unnt án þess að spilla hagsmunum gerðarbeiðanda. Hér verður einnig að gæta að sjónarmiðum um meðalhóf með hliðsjón af þeim hagsmunum gerðarþola sem geta verið í húfi. Ef leit fer fram án þess að nokkur sé viðstaddur af hálfu gerðarþola skal sýslumaður hlutast til um að vottur verði viðstaddur aðgerðina.

Um 15. gr.

    Í þessu ákvæði er fjallað um meðferð málsins hjá sýslumanni þegar úrskurður um heimild til öflunar sönnunargagna hefur gengið án þess að gerðarþola hafi verið tilkynnt um málið svo sem heimild stendur til í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Er þá miðað við að sýslumaður snúi sér fyrirvaralaust að gerðarþola í því skyni að afla sönnunargagna í samræmi við úrskurðinn. Eðli máls samkvæmt er mikilvægt að það gerist undanbragðalaust, enda hefur málið verið metið þannig fyrir dómi að hætta leiki á að gerðarbeiðandi geti orðið fyrir réttarspjöllum.
    Samkvæmt 2. mgr. er sýslumanni rétt að fresta því að fram fari leit ef gerðarþoli eða fyrirsvarsmaður hittast ekki fyrir og það er unnt án þess að spilla hagsmunum gerðarbeiðanda. Hér gæti komið til álita að fresta máli um skamma hríð til að ná fundi gerðarþola eða fyrirsvarsmanns hans ef ganga má út frá að gerðarþoli viti ekki hvað hann á í vændum. Ef því verður ekki komið við ræðst framhald málsins af 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins. Fari leit fram án þess að nokkur sé viðstaddur af hálfu gerðarþola ber sýslumanni að kalla til vott til að vera við aðgerðina.
    Þegar mál sætir meðferð samkvæmt þessu ákvæði má gera ráð fyrir að gerðarþola verði fyrst kunnugt um fyrirhugaðar aðgerðir þegar leit er í þann mund að hefjast. Með hliðsjón af því þykir rétt að gerðarþoli fá ráðrúm til að kveðja til lögmann sinn til að vera viðstaddan. Hlé verður þó ekki gert í því skyni ef hætt er við að hagsmunir gerðarbeiðanda spillist. Hér skal áréttað að eingöngu er gert ráð fyrir að aðgerðir bíði um skamma hríð svo lögmanni sé kleift að koma á vettvang.

Um 16. gr.

    Samkvæmt þessu ákvæði ber gerðarbeiðanda að greiða sýslumanni allan kostnað sem fellur til við öflun sönnunargagna samkvæmt reglum frumvarpsins. Almennt er gert ráð fyrir að gerðarbeiðandi hafi sett tryggingu fyrir þessum kostnaði eftir fyrirmælum 11. gr. frumvarpsins og er þá heimilt að ganga að henni nema gerðarbeiðandi kjósi að gera upp á annan veg sem sýslumaður samþykkir. Þegar uppgjör hefur farið fram skilar sýslumaður tryggingu sem sett hefur verið fyrir kostnaði eða eftirstöðvum hennar til gerðarbeiðanda. Á þessu stigi verður gerðarþoli ekki krafinn um kostnað vegna málsins en vitanlega getur gerðarbeiðandi gert þá kröfu síðar eftir atvikum í dómsmáli að gerðarþoli haldi honum skaðlausum að þessu leyti ef unnt er sýna fram á að hugverkaréttur hafi verið brotinn.
    Í 2. mgr. segir að sönnunargögn verði ekki afhent gerðarbeiðanda nema kostnaður við öflun þeirra hafi verið greiddur. Þessu ákvæði er ætlað að knýja á um að gerðarbeiðandi standi í skilum með greiðslu fyrir kostnaði.

Um 17. gr.

    Hér er fjallað um hvenær tryggingu sem gerðarbeiðandi hefur lagt fram vegna hugsanlegrar skaðabótakröfu gerðarþola verði skilað. Í fyrsta lagi verður tryggingu skilað ef gerðarþoli höfðar ekki dómsmál til heimtu skaðabóta á hendur gerðarbeiðanda innan þess frests sem tilgreindur er í 22. gr. frumvarpsins. Í annan stað verður tryggingu skilað ef gerðarbeiðandi er sýknaður í dómsmáli af skaðabótakröfu gerðarþola. Loks verður tryggingu skilað ef um það næst samkomulag milli aðila. Má gera ráð fyrir að slíkt samkomulag geti verið liður í heildarsamkomulagi aðila sem felur jafnframt í sér að hugverkaréttindi verði framvegis virt og gerðarbeiðanda gerð skil í samræmi við réttindi hans, eftir atvikum með greiðslu skaðabóta.

Um 18. gr.

    Í 1. og 2. mgr. kemur fram að sýslumaður færi gerðabók um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum. Er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji reglur um form gerðabókar. Í gerðabók skal sýslumaður greina hvar og hvenær sönnunargagna var aflað, hverjir hafi verið viðstaddir, hvaða gögn hafi legið frammi og hvað hafi að öðru leyti farið fram. Loks skal rakið hvaða sönnunargagna var aflað og hvernig.
    Samkvæmt 3. mgr. á sýslumaður við lok fyrirtöku máls að lesa upp bókun sína fyrir viðstadda eða kynna þeim meginatriði hennar ef það þykir nægja. Jafnframt skal viðstöddum gefinn kostur á að undirrita bókunina ásamt sýslumanni.
    Ef sönnunargagna hefur verið aflað án þess að nokkur hafi verið viðstaddur af hálfu gerðarþola ber sýslumanni að senda viðkomandi svo fljótt sem verða má endurrit úr gerðabók um fyrirtöku málsins. Er þetta nauðsynlegt svo gerðarþoli geri sér grein fyrir málinu og þeim aðgerðum sem hann hefur þurft að þola svo hann geti tekið ákvörðun um viðbrögð af sinni hálfu. Í þeim efnum er hugsanlegt að gerðarþoli grípi til aðgerða á grundvelli IV. kafla frumvarpsins eða höfði dómsmál á hendur gerðarbeiðanda til heimtu bóta eftir reglum 22. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. verður úrskurði héraðsdóms um heimild til öflunar sönnunargagna eftir reglum frumvarpsins skotið til Hæstaréttar með kæru. Um kærufrestinn, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Hæstarétti gilda sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli, sbr. XXIV. kafli laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Úrskurður héraðsdómara verður ekki kærður ef unnt er að krefjast endurupptöku á grundvelli 20. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er fjallað um réttaráhrif kæru til Hæstaréttar. Samkvæmt almennum reglum frestar kæra frekari framkvæmdum á grundvelli úrskurðar þar til leyst hefur verið úr máli fyrir æðra dómi, sbr. 3. mgr. 144. gr. laga um meðferð einkamála. Hér er hins vegar lögð til gagnstæð regla um að kæra úrskurðar héraðsdómara fresti ekki aðgerðum eftir reglum frumvarpsins. Þetta tekur mið af eðli þessara mála og þeim augljósu hagsmunum gerðarbeiðanda að málsmeðferðin verði eins greið og unnt er. Frá þessari reglu er þó vikið að því leyti að sýslumanni er ekki heimilt að afhenda gerðarbeiðanda sönnunargögn sem aflað hefur verið fyrr en að liðnum kærufresti hafi málskot ekki átt sér stað en ella ekki fyrr en leyst hefur verið úr máli fyrir æðra dómi. Með þessu er tryggt að lögvörðum hagsmunum gerðarþola af því að fá leyst úr kæru fyrir Hæstarétti verður ekki raskað þótt sönnunargagna hafi þegar verið aflað, enda verður sönnunargögnum skilað í samræmi við dóm Hæstaréttar ef úrskurði héraðsdóms er hnekkt að einhverju leyti eða öllu.

Um 20. gr.

    Í 1. mgr. er að finna heimild fyrir gerðarþola til að krefjast endurupptöku máls fyrir héraðsdómi innan tveggja vikna frá því gerðarþoli eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um úrskurðinn ef úrskurður hefur gengið án þess að gerðarþola væri tilkynnt um málið, sbr. 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Þessi heimild tekur mið af fyrirmælum 4. mgr. 50. gr. TRIPS-samningsins. Þegar varnir hafa ekki komið fram af hálfu gerðarþola þykir rétt í samræmi við almennar reglur réttarfars að málið verði aftur tekið til meðferðar fyrir lægra dómstigi í stað þess að málinu verði skotið til Hæstaréttar í þeim búningi sem það lá fyrir héraðsdómi. Frestur til að krefjast endurupptöku er sá sami og gildir um kæru og miðast við sama tímamark. Bæði endurupptaka fyrir héraðsdómi og kæra til Hæstaréttar getur því ekki átt við um einn og sama dómsúrskurð.
    Samkvæmt 2. mgr. gildir II. kafli frumvarpsins um málsmeðferðina eftir endurupptöku, þó þannig að upphaflegur úrskurður stendur óhaggaður ef þingsókn gerðarþola fellur niður eftir endurupptöku. Í því tilviki þarf því ekki að kveða á ný upp úrskurð í málinu.
    Í 3. mgr. er lagt til að hliðstæð regla eigi við um endurupptöku og gildir um réttaráhrif kæru skv. 2. mgr. 19. gr. frumvarpsins. Sönnunargögn sem aflað hefur verið fyrir atbeina sýslumanns verða því ekki afhent gerðarbeiðanda fyrr en að liðnum fresti til að leita endurupptöku ef hennar er ekki krafist en ella ekki áður en úrskurður héraðsdóms gengur á ný í kjölfar endurupptöku. Að gengnum þeim úrskurði verða gögn síðan ekki afhent fyrr en útséð er með kæru og afdrif hennar fyrir æðra dómi.
    Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið er lagt til í 4. mgr. að úrskurði héraðsdóms verði ekki skotið til Hæstaréttar með kæru ef heimild stendur til endurupptöku máls. Úrskurður héraðsdóms í kjölfar endurupptöku verður hins vegar kærður eftir almennum reglum.     

Um 21. gr.

    Hér er fjallað um frest gerðarbeiðanda til að höfða mál á hendur gerðarþola á grundvelli þeirra sönnunargagna sem aflað hefur verið eftir ákvæðum frumvarpsins um ætlað brot gegn hugverkarétti. Þetta ákvæði tekur mið af 6. mgr. 50. gr. TRIPS-samningsins.
    Samkvæmt 1. mgr. ber gerðarbeiðanda að höfða málið innan fjögurra vikna frá því sönnunargögn standa honum til reiðu. Er í þeim efnum miðað við að sá frestur byrji að líða þegar gögnin liggja fyrir til afhendingar og sýslumanni er heimilt að láta þau af hendi eftir ákvæðum IV. kafla frumvarpsins. Verði mál ekki höfðað innan frestsins skal gerðarbeiðandi skila gerðarþola þeim sönnunargögnum sem aflað var hjá honum. Ef gerðarbeiðandi hlítir ekki þessu og skilar ekki gögnum væri gerðarþola væntanlega kleift að freista þess að fá gögnin afhent með beinni aðfarargerð hjá gerðarbeiðanda skv. 12. kafla laga um aðför, nr. 90/1989.
    Með málshöfðunarfresti er komið í veg fyrir að gerðarþoli þurfi að þola óvissu um framhald málsins. Með hliðsjón af þeim aðgerðum sem frumvarpið gerir ráð fyrir er einnig rétt frá sjónarhóli gerðarþola að greiðlega verði leyst úr máli um ætluð brot hans. Fyrr getur gerðarþoli ekki brugðist við þeim aðgerðum sem hann hefur þurft að þola en gert er ráð fyrir því að gerðarþoli öðlist skaðabótarétt á hendur gerðarbeiðanda ef ekki er leitt í ljós að brotið hafi verið gegn hugverkaréttindum. Þó skal tekið fram að vitanlega geta málsaðilar komist hjá málaferlum á báða bóga með því að ná samkomulagi sín á milli um þá hagsmuni sem eru í húfi.
    Með frumvarpinu er ekki lagt til að girt verði fyrir að gerðarbeiðandi geti höfðað mál á hendur gerðarþola vegna brota gegn hugverkarétti að liðnum fresti skv. 1. mgr. Réttaráhrifin eru hins vegar þau að dómur verður ekki reistur á sönnunargögnum sem aflað var eftir reglum frumvarpsins, svo sem beinlínis er tekið fram í 2. mgr. Þótt sönnunargögn verði ekki lögð fram af gerðarbeiðanda í dómsmáli sem hann höfðar að liðnum fresti gæti hann eftir atvikum skorað á gerðarþola að leggja fram tiltæk gögn, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga um meðferð einkamála, og yrði þá dómur reistur á gögnum sem gerðarþoli sjálfur leggur fram. Er hugsanlegt að slík áskorun hafi áhrif við sönnunarmatið, sbr. 1. mgr. 68. gr. sömu laga. Einnig geta upplýsingar sem gerðarbeiðandi hefur fengið þegar gagna var aflað haft áhrif, svo sem um möguleg vitni sem borið geta um ætlað brot gegn hugverkarétti.

Um 22. gr.

    Í þessu ákvæði er mælt fyrir um skaðabótaskyldu gerðarbeiðanda vegna aðgerða á grundvelli reglna frumvarpsins. Er ákvæðið reist á 7. mgr. 50. gr. TRIPS-samningsins.
    Samkvæmt 1. mgr. á gerðarþoli skaðabótakröfu á hendur gerðarbeiðanda vegna fjártjóns og miska ef ekki hefur verið leitt í ljós að brotið hafi verið gegn þeim hugverkaréttindum sem frumvarpið tekur til. Ábyrgðin er hlutlæg og nægir það eitt til bótaskyldu að ætlað brot gerðarþola hafi ekki verið sannað. Í dómsmáli sem gerðarbeiðandi höfðar á hendur gerðarþola yrði leyst úr því hvort gerðarþoli hefði gerst brotlegur gegn hugverkarétti. Hvort slíkt mál er höfðað ræður þó ekki úrslitum í þessu efni og því verður bótaskylda ekki felld á gerðarbeiðanda af því tilefni einu að hann lætur undir höfuð leggjast að ganga að gerðarþola með málsókn. Má allt eins vera að gerðarbeiðandi telji ekki þjóna hagsmunum sínum vegna kostnaðar eða fyrirhafnar að höfða dómsmál á hendur gerðarþola þótt brot sé auðsannað. Kjósi gerðarþoli aftur á móti að ganga að gerðarbeiðanda og krefjast bóta gæti hann haldið uppi vörnum á þeim grundvelli að gerðarþoli hafi gerst brotlegur gegn þeim hugverkaréttindum sem í hlut eiga. Hins vegar gæti verið óhægar um vik fyrir gerðarbeiðanda að sýna fram á brotið eftir að hann hefur þurft að skila þeim sönnunargögnum sem aflað var hjá gerðarþola. Þó ætti gerðarbeiðandi að geta skorað á gerðarþola að leggja fram gögn eftir almennum reglum, eins og nánar er vikið að í athugasemdum við 21. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að frestur gerðarþola til að höfða skaðabótamál á hendur gerðarbeiðanda séu sex mánuðir frá því að frestur gerðarbeiðanda til að höfða mál skv. 1. mgr. 21. gr. frumvarpsins leið eða máli lauk án þess að kröfur hans næðu fram að ganga. Þykir rétt að mæla fyrir um þennan málshöfðunarfrest með hliðsjón af því að torvelt getur verið fyrir gerðarbeiðanda að halda uppi vörnum ef langt er um liðið frá atburðum.

Um 23. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist ekki gildi fyrr en 1. júlí 2006 svo ráðrúm gefist til að undirbúa gildistöku þeirra.Fylgiskjal I.


SAMNINGUR
UM HUGVERKARÉTT Í VIÐSKIPTUM
(TRIPS-SAMNINGUR)

1. VIÐAUKI C VIÐ MARAKESS-SAMNING UM STOFNUN ALÞJÓÐAVIÐSKIPTASTOFNUNARINNAR


     Aðilar,
    sem æskja þess
að draga úr röskun og hindrunum í alþjóðaviðskiptum, með hliðsjón af nauðsyn þess að stuðla að haldgóðri og fullnægjandi vernd hugverkaréttar, og tryggja að ráðstafanir og málsmeðferð við fullnustu hugverkaréttar hindri ekki lögmæt viðskipti,
    sem viðurkenna að í þessu skyni er þörf á nýjum reglum og verklagsreglum varðandi:
a)    beitingu grundvallarreglna GATT-samningsins frá 1994 og viðkomandi alþjóðasamninga eða sáttmála um hugverk;
b)    setningu viðeigandi staðla og meginreglna um hvernig hægt sé að öðlast hugverkarétt í viðskiptum, gildissvið hans og notkun;
c)    skilvirkar og heppilegar leiðir til fullnustu hugverkaréttar í viðskiptum, með tilliti til ólíkra réttarkerfa eftir löndum;
d)    skilvirka og skjótvirka málsmeðferð til að fyrirbyggja og leysa deilumál milli stjórnvalda á alþjóðavettvangi; og
e)    aðlögunarfyrirkomulag sem miðar að því að sem flestir geti tekið þátt í að móta niðurstöður samningaviðræðnanna;
    sem viðurkenna að þörf er á marghliða ramma meginreglna, verklagsreglna og annarra reglna um alþjóðaviðskipti með sviknar vörur,
    sem viðurkenna hugverkarétt sem einkarétt,
    sem viðurkenna stefnumið hins opinbera sem innlendar reglur um vernd hugverkaréttar byggjast á, þar með talin markmið er varða þróun og tækni,
    sem viðurkenna sérstaka þörf þeirra aðildarlanda, sem eru skemmst á veg komin í þróun, fyrir mesta mögulegan sveigjanleika þegar lögum og reglum er framfylgt innanlands til að geta skapað sér traustan og lífvænlegan tæknigrundvöll,
     sem leggja áherslu á mikilvægi þess að draga úr spennu með auknum skuldbindingum um að leysa deilur um hugverk í viðskiptum með marghliða málsmeðferð,
     sem æskja þess að komið verði á sambandi um gagnkvæman stuðning milli Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og Alþjóðahugverkastofnunarinnar svo og annarra hlutaðeigandi alþjóðastofnana,
    koma sér hér með saman um eftirfarandi:

I. HLUTI
ALMENN ÁKVÆÐI OG GRUNDVALLARREGLUR
1. gr.
Eðli og umfang skyldna.

1.     Aðilar skulu hrinda ákvæðum þessa samnings í framkvæmd. Aðilum er heimilt, en ekki skylt, að setja lög um víðtækari vernd en kveðið er á um með þessum samningi, að því tilskildu að slík vernd brjóti ekki í bága við ákvæði þessa samnings. Aðilum skal vera frjálst að ákvarða heppilega aðferð við að koma ákvæðum þessa samnings í framkvæmd í samræmi við eigin réttarkerfi og venjur.
2.     Í þessum samningi vísar hugtakið „hugverk“ til allra flokka hugverka sem fjallað er um í 1.–7. þætti II. hluta.
3.     Aðilar skulu veita ríkisborgurum annarra aðila 1 þá meðferð sem kveðið er á um í þessum samningi. Að því er viðkomandi hugverkarétt varðar ber að líta á ríkisborgara annarra aðila sem einstaklinga eða lögpersónur er uppfylla skilyrði um rétt til verndar samkvæmt Parísarsamningnum (1967), Bernarsáttmálanum (1971), Rómarsamningnum og samningnum um hugverk er varða samrásir, ef allir aðilar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru aðilar að þessum samningum. 2 Aðili, sem nýtir sér möguleika, sem kveðið er á um í 3. mgr. 5. gr. eða 2. mgr. 6. gr. Rómarsamningsins, skal senda tilkynningu, eins og gert er ráð fyrir í þessum ákvæðum, til ráðsins um hugverkarétt í viðskiptum („hugverkaréttarráðsins“).

2. gr.
Samningar um hugverk.

1.     Að því er varðar II., III. og IV. hluta þessa samnings skulu aðilar hlíta ákvæðum 1.–12. gr. og 19. gr. Parísarsamningsins (1967).
2.     Með I.–IV. hluta þessa samnings skal í engu vikið frá skyldum sem aðilar kunna að hafa hver gagnvart öðrum samkvæmt Parísarsamningnum, Bernarsáttmálanum, Rómarsamningnum og samningnum um hugverk er varða samrásir.

3. gr.
Innlend meðferð.

1.     Sérhver aðili skal veita ríkisborgurum annarra aðila eigi óhagstæðari meðferð en hans eigin ríkisborgarar njóta með tilliti til verndar 3 á hugverkum, með fyrirvara um undantekningar sem þegar hefur verið kveðið á um í Parísarsamningnum (1967), Bernarsáttmálanum (1971), Rómarsamningnum eða samningnum um hugverk er varða samrásir. Fyrir listflytjendur, framleiðendur hljóðrita og útvarps- og sjónvarpsstöðvar gildir þessi skylda eingöngu að því er varðar réttindi sem kveðið er á um í þessum samningi. Aðili, sem nýtir sér möguleika sem kveðið er á um í 6. gr. Bernarsáttmálans (1971) eða í b-lið 1. mgr. 16. gr. Rómarsamningsins, skal tilkynna hugverkaréttarráðinu um það, eins og gert er ráð fyrir í þeim ákvæðum.
2.     Aðilar mega einungis nýta sér undantekningar sem eru leyfðar samkvæmt 1. mgr. í tengslum við laga- og stjórnsýslumeðferð, þar með talið að tilnefna þjónustuaðila eða umboðsmann innan lögsögu aðila, ef slíkar undantekningar eru nauðsynlegar til að tryggja að farið sé að lögum og reglum sem samrýmast ákvæðum þessa samnings og slíkum reglum er ekki beitt á þann hátt sem telst vera duldar viðskiptahindranir.

4. gr.
Bestukjarameðferð.

    Hagræði, sérkjör, forréttindi eða friðhelgi, sem aðili veitir ríkisborgurum annars lands að því er varðar vernd hugverka, skal þegar í stað og skilyrðislaust veita ríkisborgurum allra hinna aðilanna. Undanþegið frá þessari skyldu er hagræði, sérkjör, forréttindi eða friðhelgi sem aðili veitir:
a)    á grundvelli alþjóðasamninga um lagalega aðstoð eða fullnustu laga sem eru almenns eðlis og takmarkast ekki sérstaklega við vernd hugverka;
b)    í samræmi við ákvæði Bernarsáttmálans (1971) eða Rómarsamningsins er heimila að meðferð miðist ekki við innlenda meðferð heldur meðferð sem er veitt í öðru landi;
c)    að því er varðar réttindi listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarps- og sjónvarpsstöðva sem ekki er kveðið á um í þessum samningi;
d)    á grundvelli alþjóðasamninga í tengslum við vernd hugverka sem öðluðust gildi fyrir gildistöku samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina, að því tilskildu að slíkir samningar hafi verið tilkynntir til hugverkaréttarráðsins og í þeim felist ekki geðþóttabundin eða óréttlætanleg mismunun gagnvart ríkisborgurum annarra aðila.

5. gr.
Marghliða samningar um öflun eða viðhald verndar.

    Skyldur skv. 3. og 4. gr. eiga ekki við um málsmeðferð sem kveðið er á um í marghliða samningum, gerðum á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar, er varða öflun eða viðhald hugverkaréttar.

6. gr.
Réttindaþurrð.

    Að því er varðar lausn deilumála samkvæmt þessum samningi skal ekkert í þessum samningi vera grundvöllur umfjöllunar um tæmingu hugverkaréttar, sbr. þó ákvæði 3. og 4. gr.

7. gr.
Markmið.

    Vernd og fullnusta hugverkaréttar ætti að ýta undir tækninýjungar um miðlun og útbreiðslu á tækni á þann hátt er nýtist bæði framleiðendum og notendum tækniþekkingar og stuðlar að félagslegri og efnahagslegri velferð og jafnvægi milli réttinda og skyldna.

8. gr.
Meginreglur.

1.     Aðilum er heimilt, þegar þeir semja eða breyta lögum sínum og reglum, að samþykkja nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda heilbrigði og fæðu manna og til að efla áhuga almennings á sviðum sem hafa grundvallarþýðingu fyrir hagfélagslega og tæknilega þróun í löndum þeirra, að því tilskildu að slíkar ráðstafanir samrýmist ákvæðum þessa samnings.
2.     Nauðsynlegt getur verið að gera viðeigandi ráðstafanir, að því tilskildu að þær samrýmist ákvæðum þessa samnings, til að koma í veg fyrir að rétthafar misbeiti hugverkarétti eða til að koma í veg fyrir starfshætti sem hamla viðskiptum á óeðlilegan hátt eða hafa skaðleg áhrif á miðlun tækni milli landa.

II. HLUTI
STAÐLAR UM HUGVERKARÉTT, GILDISSVIÐ HANS OG NOTKUN
1. þáttur: Höfundarréttur og skyld réttindi.
9. gr.
Tengsl við Bernarsáttmálann.

1.     Aðilar skulu fara að ákvæðum 1.–21. gr. Bernarsáttmálans (1971) og ákvæðum í viðauka við hann. Aðilar hafa þó ekki réttindi eða skyldur samkvæmt þessum samningi að því er varðar réttindi sem eru veitt skv. 6. gr. a í Bernarsáttmálanum eða réttindi sem eiga rætur að rekja til hans.
2.     Vernd höfundarréttar skal taka til framsetningar en ekki til hugmynda, málsmeðferðar, starfsaðferða eða stærðfræðihugtaka sem slíkra.

10. gr.
Tölvuforrit og gagnasöfnun.

1.     Tölvuforrit, hvort sem um er að ræða frumkóða eða viðfangskóða, skal vernda á sama hátt og bókmenntaverk samkvæmt Bernarsáttmálanum (1971).
2.     Söfn gagna eða annars efnis, hvort heldur er á tölvutæku eða öðru formi, sem teljast til hugverka sökum efnisvals eða niðurröðunar efnis, skal vernda sem slík. Slík vernd, sem skal ekki taka til sjálfra gagnanna eða sjálfs efnisins, skal ekki hafa áhrif á höfundarrétt er kann að fylgja sjálfum gögnunum eða sjálfu efninu.

11. gr.
Leiguréttur.

    Aðilar skulu, að minnsta kosti að því er varðar tölvuforrit og kvikmyndaverk, veita höfundum og síðari handhöfum réttinda rétt til að heimila eða banna leigu til almennings í ábataskyni á frumritum eða afritum verka sinna sem höfundarréttur er á. Aðili skal vera undanþeginn þessari skyldu að því er varðar kvikmyndaverk nema slík leiga hafi leitt til almennrar fjölföldunar slíkra verka er skaðar verulega einkarétt til fjölföldunar sem sá aðili veitir höfundum og síðari handhöfum réttinda þeirra. Að því er varðar tölvuforrit gildir þessi skylda ekki um leigu ef það er ekki fyrst og fremst forritið sjálft sem er leigt út.

12. gr.
Gildistími verndar.

    Þegar gildistími verndar vegna verks, annars en ljósmyndaverks eða nytjalistar, er reiknaður út á öðrum forsendum en ævi einstaklings skal hann ekki vera skemmri en 50 ár frá lokum almanaksárs hinnar heimiluðu útgáfu eða, ef ekki er um slíka heimilaða útgáfu að ræða innan 50 ára frá því að verkið er búið til, 50 ár frá lokum þess almanaksárs þegar verkið er búið til.

13. gr.
Takmarkanir og undantekningar.

    Aðilar skulu einskorða takmarkanir á einkarétti eða undantekningar frá honum við sérstök tilvik sem stangast ekki á við eðlilega nýtingu verks og skaða ekki í óeðlilegum mæli réttmæta hagsmuni rétthafa.

14. gr.
Vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita (hljóðritana) og útvarps- og sjónvarpsstöðva.

1.     Listflytjendur skulu, að því er varðar hljóðupptöku á flutningi þeirra, eiga þess kost að koma í veg fyrir að eftirfarandi eigi sér stað án heimildar þeirra: upptaka á listflutningi þeirra, sem ekki hefur áður verið tekinn upp, og fjölföldun slíkrar upptöku. Listflytjendur skulu enn fremur eiga kost á að koma í veg fyrir að eftirfarandi eigi sér stað án heimildar þeirra: þráðlaus útsending og bein útsending til almennings frá listflutningi þeirra.
2.     Framleiðendur hljóðrita hafa rétt til að heimila eða banna beina eða óbeina fjölföldun á hljóðritum þeirra.
3.     Útvarps- og sjónvarpsstöðvar hafa rétt til að banna að eftirfarandi eigi sér stað án heimildar þeirra: upptaka, fjölföldun á upptökum og þráðlaust endurvarp á útsendingum og sjónvarpssendingar sama efnis til almennings. Veiti aðilar útvarps- og sjónvarpsstöðvum ekki slík réttindi skulu þeir gefa eigendum höfundarréttar að útsendu efni kost á að koma í veg fyrir áðurnefnt athæfi, með fyrirvara um ákvæði Bernarsáttmálans (1971).
4.     Ákvæði 11. gr. skulu, að því er varðar tölvuforrit, gilda að breyttu breytanda um framleiðendur hljóðrita og aðra rétthafa hljóðrita eftir því sem segir í lögum aðila. Ef kerfi yfir sanngjarna þóknun til rétthafa fyrir leigu hljóðrita er í gildi hjá aðila 15. apríl 1994, getur hann viðhaldið slíku kerfi, að því tilskildu að leiga hljóðrita í ábataskyni skerði ekki að verulegu leyti einkarétt rétthafa til fjölföldunar.
5.     Gildistíma verndar, sem listflytjendur og framleiðendur hljóðrita njóta samkvæmt þessum samningi, lýkur ekki fyrr en að minnsta kosti 50 ár eru liðin frá lokum þess almanaksárs er upptakan eða listflutningurinn átti sér stað. Gildistíma verndar á grundvelli 3. mgr. lýkur ekki fyrr en að minnsta kosti 20 ár eru liðin frá lokum þess almanaksárs er útsendingin átti sér stað.
6.     Aðila er heimilt, með hliðsjón af réttindum skv. 1., 2. og 3. mgr., að kveða á um skilyrði, takmarkanir, undantekningar og fyrirvara eftir því sem Rómarsamningurinn leyfir. Ákvæði 18. gr. Bernarsáttmálans (1971) skulu þó einnig gilda að breyttu breytanda um réttindi listflytjenda og framleiðenda hljóðrita að því er hljóðritanir varðar.

2. þáttur: Vörumerki.
15. gr.
Efni sem nýtur verndar.

1.     Vörumerki geta verið hvers konar tákn eða samsetning tákna sem eru til þess fallin að greina vörur eða þjónustu fyrirtækis frá vörum eða þjónustu annarra fyrirtækja. Slík tákn, einkum orð sem í eru mannanöfn, bókstafir, tölustafir, myndeiningar og litasamsetningar og samsetningar slíkra tákna, skal vera unnt að skrá sem vörumerki. Ef tákn eru ekki til þess fallin að greina milli vara eða þjónustu geta aðilar ákveðið að skráningarhæfi fari eftir aðgreiningarhæfi sem hefur áunnist við notkun. Aðilar geta sett það skilyrði fyrir skráningu að tákn séu sýnileg.
2.     Ekki ber að líta svo á að ákvæði 1. mgr. komi í veg fyrir að aðili geti neitað skráningu vörumerkis af öðrum ástæðum, að því tilskildu að þessar ástæður fari ekki í bága við ákvæði Parísarsamningsins (1967).
3.     Aðilum er heimilt að láta skráningarhæfi byggjast á notkun. Raunveruleg notkun vörumerkis skal þó ekki vera skilyrði fyrir því að unnt sé að leggja fram umsókn um skráningu. Ekki má hafna umsókn eingöngu vegna þess að fyrirhuguð notkun hefur ekki átt sér stað innan þriggja ára frá umsóknardegi.
4.     Eiginleikar vöru eða þjónustu, sem vörumerki á að standa fyrir, skulu í engu tilviki vera hindrun í vegi fyrir skráningu vörumerkisins.
5.     Aðilar skulu birta sérhvert vörumerki áður en það er skráð eða þegar í stað að skráningu lokinni og veita sanngjarnt tækifæri til að leggja fram beiðni um ógildingu skráningar. Þar að auki er aðilum heimilt að gefa kost á andmælum gegn skráningu vörumerkis.

16. gr.
Réttindi.

1.     Eigandi skráðs vörumerkis hefur einkarétt á að koma í veg fyrir að þriðju málsaðilar, sem ekki hafa til þess samþykki eiganda, noti merki sem eru sams konar eða svipuð og skráð vörumerki, í viðskiptum með sams konar eða svipaða vöru eða þjónustu og vörumerkið er skráð fyrir, ef slíkri notkun fylgir hætta á ruglingi. Við notkun sams konar merkis fyrir sams konar vörur eða þjónustu skal gera ráð fyrir að hætta sé á ruglingi. Réttindin, sem er lýst hér að framan, hafa ekki áhrif á réttindi sem fyrir eru né á möguleika aðila til að veita réttindi á grundvelli notkunar.
2.     Ákvæði 6. gr. a í Parísarsamningnum (1967) gildir að breyttu breytanda um þjónustu. Við ákvörðun á því hvort vörumerki er vel þekkt skulu aðilar taka tillit til þess hvort það er vel þekkt á viðkomandi sviði, meðal annars hvort það er þekkt hjá hlutaðeigandi aðila vegna kynningar á vörumerkinu þar.
3.     Ákvæði 6. gr. a í Parísarsamningnum (1967) gilda að breyttu breytanda um vöru eða þjónustu sem er ekki svipuð þeirri sem vörumerkið er skráð fyrir, að því tilskildu að notkun þess vörumerkis í sambandi við þá vöru eða þjónustu bendi til tengsla milli þessarar vöru eða þjónustu og eiganda hins skráða vörumerkis og að því tilskildu að líkur séu á að slík notkun skaði hagsmuni eiganda hins skráða vörumerkis.

17. gr.
Undantekningar.

    Aðilar geta kveðið á um takmarkaðar undantekningar frá þeim rétti sem vörumerki veita, til að mynda að því er varðar eðlilega notkun lýsandi heita, að því tilskildu að í slíkum undantekningum sé tekið tillit til lögmætra hagsmuna eiganda vörumerkis og þriðju málsaðila.

18. gr.
Gildistími verndar.

    Upphafleg skráning og sérhver endurnýjun skráningar á vörumerki skal ekki gilda skemur en í sjö ár. Skráningu vörumerkis skal vera unnt að endurnýja í ótiltekinn fjölda skipta.

19. gr.
Kröfur um notkun.

1.     Ef notkun er forsenda þess að unnt sé að viðhalda skráningu er eingöngu heimilt að ógilda skráningu þegar notkun hefur ekki átt sér stað í þrjú ár samfellt, nema eigandi vörumerkis sýni fram á gildar ástæður sem hindra slíka notkun. Aðstæður sem skapast óháð ásetningi eiganda vörumerkis og hindra notkun þess, til að mynda innflutningshöft eða aðrar kröfur hins opinbera vegna vöru eða þjónustu sem nýtur vörumerkjaverndar, skulu teljast gildar ástæður fyrir því að vörumerkið hefur ekki verið notað.
2.     Notkun annars einstaklings á vörumerki er viðurkennd sem notkun sem viðheldur skráningu ef hún er undir stjórn eiganda vörumerkisins.

20. gr.
Aðrar kröfur.

    Ekki skal hamla að óþörfu notkun vörumerkis í viðskiptum með sérstökum kröfum á borð við að það sé notað ásamt öðru vörumerki, notað í sérstöku formi eða notað með þeim hætti sem rýrir eiginleika þess til að aðgreina vörur eða þjónustu eins viðskiptaaðila frá vörum eða þjónustu annars viðskiptaaðila. Þetta útilokar ekki kröfu um að nota beri vörumerki sem auðkennir viðskiptaaðila sem framleiðir vörurnar eða veitir þjónustuna ásamt, en án þess að tengja það við, vörumerki sem auðkennir hinar sérstöku vörur eða þjónustu þess viðskiptaaðila.

21. gr.
Leyfisveiting og framsal.

    Aðilar geta ákvarðað skilyrði um leyfisveitingu og framsal vörumerkja og er þá gert ráð fyrir að skyldubundin veiting nytjaleyfis skuli ekki leyfð og að eigandi skráðs vörumerkis hafi rétt til að framselja vörumerki með eða án framsals þess fyrirtækis sem vörumerkið tilheyrir.

3. þáttur: Landfræðilegar merkingar.
22. gr.
Vernd landfræðilegra merkinga.

1.     Landfræðilegar merkingar í þessum samningi eru merkingar sem tákna að vara er upprunnin á yfirráðasvæði aðila, eða á landsvæði eða stað á því yfirráðasvæði, ef rekja má tiltekin gæði, orðspor eða aðra eiginleika vöru í aðalatriðum til landfræðilegs uppruna hennar.
2.     Að því er varðar landfræðilegar merkingar skulu aðilar sjá til þess að þeir sem eiga hagsmuna að gæta geti á löglegan hátt komið í veg fyrir:
a)    að í merkingu eða kynningu vöru sé með einhverjum hætti tilgreint eða gefið til kynna að varan sé upprunnin á öðru landsvæði en hinu rétta upprunasvæði með þeim hætti að almenningur fái villandi upplýsingar um landfræðilegan uppruna vörunnar;
b)    notkun sem telst til óréttmætrar samkeppni í skilningi 10. gr. a í Parísarsamningnum (1967).
3.     Aðili skal, annaðhvort að eigin frumkvæði, ef slíkt er leyfilegt samkvæmt lögum hans, eða að beiðni málsaðila sem á hagsmuna að gæta, synja um eða ógilda skráningu vörumerkis sem felur í sér eða samanstendur af landfræðilegri merkingu að því er varðar vörur sem eru ekki upprunnar á því yfirráðasvæði sem merkingin vísar til, ef þess háttar merking á vörumerki slíkra vara í landi aðila veitir almenningi villandi upplýsingar um réttan landfræðilegan uppruna vörunnar.
4.     Verndarákvæðin skv. 1., 2. og 3. mgr. skulu gilda um landfræðilega merkingu sem, enda þótt hún sé rétt í bókstaflegum skilningi með tilliti til yfirráðasvæðis, landsvæðis eða staðar sem vörurnar eru upprunnar frá, gefur almenningi ranglega til kynna að vörurnar séu upprunnar á öðru yfirráðasvæði.

23. gr.
Viðbótarvernd fyrir landfræðilegar merkingar á víni og brenndum drykkjum.

1.     Sérhver aðili skal sjá til þess að þeir sem eiga hagsmuna að gæta geti á löglegan hátt komið í veg fyrir notkun landfræðilegrar merkingar á víni sem er ekki upprunnið á þeim stað sem landfræðilega merkingin segir til um eða landfræðilegrar merkingar á brenndum drykkjum sem eru ekki upprunnir á þeim stað sem landfræðilega merkingin segir til um, jafnvel þótt réttur uppruni vörunnar sé tilgreindur eða landfræðilega merkingin notuð í þýðingu eða henni fylgi athugasemd eins og „tegund“, „gerð“, „aðferð“, „eftirlíking“ o.fl. 4
2.     Synja skal um eða ógilda skráningu vörumerkis fyrir vín sem felur í sér eða samanstendur af landfræðilegri merkingu, eða skráningu vörumerkis fyrir brennda drykki sem felur í sér eða samanstendur af landfræðilegri merkingu, annaðhvort að eigin frumkvæði ef slíkt er leyfilegt samkvæmt löggjöf aðila eða að beiðni málsaðila sem á hagsmuna að gæta, sé um að ræða vín eða brennda drykki sem eru ekki af þessum uppruna.
3.     Að því er samhljóða landfræðilegar merkingar á víni varðar skal sérhver merking njóta verndar, sbr. þó ákvæði 4. mgr. 22. gr. Sérhver aðili skal ákvarða hvernig aðgreina beri hinar samhljóða merkingar, að teknu tilliti til nauðsynjar þess að tryggja að hlutaðeigandi framleiðendur fái sambærilega meðferð og neytendur fái ekki villandi upplýsingar.
4.     Til að auðvelda vernd landfræðilegra merkinga á víni skal hugverkaréttarráðið annast samningaviðræður um að koma á fót marghliða tilkynninga- og skráningarkerfi fyrir landfræðilegar merkingar á víni sem uppfylla skilyrði um vernd í löndum aðila sem kerfið tekur til.

24. gr.
Alþjóðlegar samningaviðræður:
Undantekningar.

1.     Aðilar hafa komið sér saman um að hefja samningaviðræður í þeim tilgangi að auka vernd einstakra landfræðilegra merkinga á grundvelli 23. gr. Aðili skal ekki beita ákvæðum 4.–8. mgr. hér á eftir í því skyni að neita að taka þátt í samningaviðræðum eða gera tvíhliða eða marghliða samninga. Í tengslum við slíkar samningaviðræður skulu aðilar vera reiðubúnir að íhuga að beita þessum ákvæðum áfram gagnvart einstökum landfræðilegum merkingum sem slíkar samningaviðræður hafa fjallaðu um.
2.     Hugverkaréttarráðið skal sjá um að endurskoða beitingu ákvæða þessa þáttar; sú fyrsta af þessum endurskoðunum skal fara fram innan tveggja ára frá gildistöku samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Heimilt er að vekja athygli ráðsins á málum sem hafa áhrif á að skyldum samkvæmt þessum ákvæðum sé framfylgt. Ráðið skal, að beiðni aðila, eiga viðræður við einn eða fleiri aðila um slík mál sem ekki hefur fundist viðunandi lausn á með tvíhliða eða fjölhliða viðræðum milli hlutaðeigandi aðila. Ráðið skal grípa til þeirra aðgerða sem kunna að verða samþykktar til að auðvelda og stuðla að því að markmið þessa þáttar náist.
3.     Þegar aðili hrindir ákvæðum þessa þáttar í framkvæmd skal hann ekki skerða þá vernd landfræðilegra merkinga sem var í gildi hjá þeim aðila fyrir gildistökudag samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina.
4.     Ekkert í þessum þætti skal leggja aðila þá skyldu á herðar að koma í veg fyrir að einhver af ríkisborgurum hans, eða einhver þeirra sem hafa lögheimili á yfirráðasvæði hans, noti áfram á svipaðan hátt tiltekna landfræðilega merkingu annars aðila á víni eða brenndum drykkjum í tengslum við vörur eða þjónustu, ef þeir hafa notað þessa landfræðilegu merkingu samfellt fyrir sömu eða skyldar vörur eða þjónustu á yfirráðasvæði þess aðila í a) að minnsta kosti 10 ár fyrir 15. apríl 1994 eða b) í góðri trú fyrir þann dag.
5.     Ef vörumerki hefur verið notað eða skráð í góðri trú eða réttur til vörumerkis er áunninn með notkun í góðri trú annaðhvort:
a)    áður en þessum ákvæðum er beitt hjá þeim aðila samkvæmt skilgreiningu í VI. hluta; eða
b)    áður en landfræðilega merkingin hlýtur vernd í upprunalandi sínu;
skulu ráðstafanir, sem eru samþykktar til að hrinda ákvæðum þessa þáttar í framkvæmd, ekki skerða skráningarhæfi eða skráningargildi vörumerkis, eða réttinn til að nota vörumerki, á þeim forsendum að slíkt vörumerki sé sams konar eða svipað og ákveðin landfræðileg merking.
6.     Ekkert í þessum þætti skal leggja aðila þá skyldu á herðar að beita ákvæðum sínum gagnvart landfræðilegum merkingum annars aðila að því er varðar vörur eða þjónustu ef viðkomandi merking fyrir þessar vörur eða þjónustu er sams konar og hugtak sem venjan er að nota sem almennt heiti á slíkum vörum eða þjónustu á yfirráðasvæði þess aðila. Ekkert í þessum þætti skal leggja aðila þá skyldu á herðar að beita ákvæðum sínum á landfræðilegar merkingar frá öðrum aðila að því er varðar vínafurðir ef viðkomandi merking fyrir þessar vínafurðir er sú sama og heiti sem venja er að nota um þrúgutegund á yfirráðasvæði þess aðila á gildistökudegi samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina.
7.     Aðili getur kveðið á um að leggja beri fram beiðni samkvæmt þessum þætti í tengslum við notkun eða skráningu vörumerkis innan fimm ára frá því að misnotkun hinnar vernduðu merkingar er orðin almenn vitneskja á yfirráðasvæði þess aðila eða frá skráningardegi vörumerkisins á yfirráðasvæði þess aðila, að því tilskildu að vörumerkið hafi verið birt í síðasta lagi þann dag, ef það gerist áður en misnotkunin varð almenn vitneskja á yfirráðasvæði þess aðila, að því tilskildu að landfræðilega merkingin sé ekki notuð eða skráð gegn betri vitund.
8.     Ákvæði þessa þáttar skulu í engu skaða rétt neins einstaklings til að nota nafn sitt eða nafn fyrirrennara síns í viðskiptum, nema notkun á slíku nafni sé með þeim hætti að það villi um fyrir almenningi.
9.     Ekki er skylt samkvæmt þessum samningi að vernda landfræðilegar merkingar sem njóta ekki verndar eða njóta ekki lengur verndar í upprunalandi þeirra, eða eru ekki lengur notaðar í því landi.

4. þáttur: Iðnhönnun.
25. gr.
Skilyrði fyrir vernd.

1.     Aðilar skulu kveða á um vernd iðnhönnunar þegar um er að ræða ný, sjálfstæð sköpunarverk eða upprunaleg verk. Aðilum er heimilt að kveða á um að hönnun sé ekki ný eða upprunaleg ef hún er ekki að verulegu leyti frábrugðin þekktri hönnun eða samblandi úr þekktum hönnunarþáttum. Aðilum er heimilt að kveða á um að slík vernd skuli ekki taka til hönnunar sem í meginatriðum ræðst af tækni- eða nytsemissjónarmiðum.
2.     Sérhver aðili skal sjá til þess að kröfur til að tryggja vernd textílhönnunar, einkum að því er varðar kostnað, rannsókn eða birtingu, minnki ekki að óþörfu möguleikann á að leita eftir slíkri vernd og fá hana. Aðilum skal vera frjálst að uppfylla þessa skyldu með lögum um iðnhönnun eða höfundarrétt.

26. gr.
Vernd.

1.     Eigandi hönnunar, sem nýtur verndar, skal eiga rétt á að koma í veg fyrir að þriðju málsaðilar, sem hafa ekki til þess samþykki eiganda, búi til, selji eða flytji inn muni sem fela í sér hönnun sem er eftirmynd eða að mestu leyti eftirmynd af hinni vernduðu hönnun, þegar slíkt er gert í ábataskyni.
2.     Aðilar geta kveðið á um takmarkaðar undantekningar á vernd iðnhönnunar, að því tilskildu að slíkar undantekningar stríði ekki óeðlilega gegn eðlilegri nýtingu iðnhönnunar sem nýtur verndar og skaði ekki í óeðlilegum mæli lögmæta hagsmuni eiganda hinnar vernduðu hönnunar, að teknu tilliti til lögmætra hagsmuna þriðju málsaðila.
3.     Vernd skal vara í að minnsta kosti 10 ár.

5. þáttur: Einkaleyfi.
27. gr.
Efni sem einkaleyfi gildir um.

1.     Með fyrirvara um ákvæði 2. og 3. mgr. skal vera unnt að fá einkaleyfi fyrir uppfinningum á öllum tæknisviðum, hvort sem um er að ræða vörur eða aðferð, að því tilskildu að um sé að ræða eitthvað nýtt sem er framlag til uppfinninga og nýtanlegt í atvinnulífi. 5 Þrátt fyrir 4. mgr. 65. gr., 8. mgr. 70. gr. og 3. mgr. þessarar greinar skal vera unnt að fá einkaleyfi og nýta einkaleyfisrétt án mismununar eftir uppfinningastað, tæknisviði og því hvort vörurnar eru innfluttar eða framleiddar innanlands.
2.     Aðilum er heimilt að synja um einkaleyfi fyrir uppfinningar ef nauðsynlegt er að koma í veg fyrir að þær séu nýttar í ábataskyni á yfirráðasvæði þeirra til að vernda allsherjarreglu eða siðgæði, meðal annars til að vernda líf eða heilbrigði manna, dýra eða plantna eða koma í veg fyrir skaðleg áhrif á umhverfið, svo framarlega sem slík synjun stafar ekki eingöngu af því að nýting er bönnuð samkvæmt lögum þeirra.
3.     Aðilum er enn fremur heimilt að synja um einkaleyfi fyrir:
a)    aðferðir við sjúkdómsgreiningu, lækningar og skurðlækningar á mönnum eða dýrum;
b)    plöntur og dýr, að undanskildum örverum, og vinnsluaðferðir sem eru líffræðilegar í meginatriðum og notaðar við ræktun plantna eða dýra, að undanskildum vinnsluaðferðum sem ekki eru líffræðilegar og örverufræðilegum vinnsluaðferðum. Samt sem áður skulu aðilar kveða á um vernd plöntustofna, annaðhvort með einkaleyfum eða sérstöku skilvirku kerfi eða samblandi af hvoru tveggja. Ákvæði þessarar undirgreinar ber að endurskoða fjórum árum eftir gildistökudag samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina.

28. gr.
Réttindi.

1.     Einkaleyfi veitir eiganda eftirfarandi einkarétt til:
a)    ef leyfið tekur til vöru, að koma í veg fyrir að þriðju málsaðilar, sem hafa ekki til þess samþykki eiganda, búi til, noti, hafi til sölu, selji eða flytji inn 6 þá vöru í því skyni;
b)    ef leyfið tekur til vinnsluaðferðar, að koma í veg fyrir að þriðju málsaðilar, sem hafa ekki til þess samþykki eiganda, noti aðferðina og að þeir noti, hafi til sölu, selji eða flytji inn í því skyni að minnsta kosti þá vöru sem er framleidd með þeirri vinnsluaðferð.
2.     Eigendur einkaleyfa hafa einnig rétt til að framselja einkaleyfið, eða yfirfæra til síðari rétthafa, og til að gera leyfissamninga.

29. gr.
Skilyrði sem umsækjendum um einkaleyfi eru sett.

1.     Aðilar skulu fara fram á að umsækjandi um einkaleyfi lýsi uppfinningunni nægilega skýrt og ítarlega til að fagmaður í viðkomandi grein geti beitt henni og er aðilum heimilt að fara fram á að umsækjandi tilgreini bestu aðferðina við að beita uppfinningunni sem uppfinningamanninum er kunnugt um á umsóknardegi eða, ef farið er fram á forgangsrétt, þeim degi sem forgangsréttar er krafist samkvæmt umsókninni.
2.     Aðilar geta krafist þess að umsækjandi um einkaleyfi veiti upplýsingar um tilsvarandi umsóknir sínar og leyfisveitingar erlendis.

30. gr.
Undantekningar á réttindum.

    Aðilar geta kveðið á um takmarkaðar undantekningar á einkaleyfisrétti, að því tilskildu að slíkar undantekningar stríði ekki óeðlilega gegn eðlilegri nýtingu einkaleyfis og skaði ekki í óeðlilegum mæli lögmæta hagsmuni eiganda einkaleyfis, að teknu tilliti til lögmætra hagsmuna þriðju málsaðila.

31. gr.
Önnur notkun án heimildar rétthafa.

    Þegar lög aðila heimila aðra notkun, 7 án heimildar rétthafa, á viðfangsefni sem einkaleyfi er á, þar með talin notkun stjórnvalda eða notkun þriðju aðila sem stjórnvöld heimila, ber að virða eftirfarandi ákvæði:
a)    meta skal heimild fyrir slíkri notkun eftir málsástæðum í hverju tilviki fyrir sig;
b)    slíka notkun má einungis leyfa ef væntanlegur notandi hefur reynt að fá heimild rétthafa með sanngjörnum viðskiptaskilmálum og -skilyrðum áður en til slíkrar notkunar kemur og slíkar tilraunir hafa ekki borið árangur innan hæfilegs tíma. Aðili getur veitt undanþágu frá þessari kröfu þegar um er að ræða neyðartilvik eða annað alvarlegt hættuástand innanlands eða notkun hins opinbera sem ekki er í ábataskyni. Í neyðartilvikum eða þegar annað hættuástand ríkir innanlands skal rétthafa samt sem áður tilkynnt um notkun eins skjótt og frekast er unnt án óeðlilegrar fyrirhafnar. Þegar um er að ræða notkun hins opinbera sem ekki er í ábataskyni og stjórnvöldum eða verktaka er eða ætti að vera kunnugt um, án þess að einkaleyfisréttur sé kannaður, að lögmætt einkaleyfi sé eða muni verða notað af stjórnvöldum eða á vegum þeirra skal láta rétthafa vita þegar í stað;
c)    umfang slíkrar notkunar og sá tími sem hún stendur yfir skal takmarkast við þann tilgang sem heimildin var veitt fyrir og fyrir hálfleiðaratækni gildir hún einungis um opinbera notkun sem ekki er í ábataskyni eða til að bæta starfshætti sem dómstóll eða stjórnvöld hafa ákvarðað að séu samkeppnishamlandi;
d)    slík notkun skal ekki útheimta einkarétt;
e)    slík notkun skal vera óframseljanleg, nema með þeim hluta fyrirtækis eða viðskiptavildar sem nýtur góðs af slíkri notkun;
f)    slík notkun skal aðallega heimiluð vegna birgðaöflunar fyrir innanlandsmarkað aðila sem heimilar slíka notkun;
g)    heimild til slíkrar notkunar skal felld niður, með fyrirvara um að réttmætra hagsmuna þeirra sem hafa slíka heimild sé nægilega vel gætt, ef og þegar aðstæður, sem voru forsenda hennar, eru ekki lengur fyrir hendi og ólíklegt er að þær muni koma upp aftur. Þar til bært yfirvald skal hafa heimild til að endurskoða, að fenginni rökstuddri beiðni, hvort þessar aðstæður séu enn fyrir hendi;
h)    rétthafa skal greidd hæfileg þóknun miðað við aðstæður í hverju tilviki, að teknu tilliti til þess hvert fjárhagslegt gildi heimildin hefur;
i)    lögmæti ákvörðunar um heimild fyrir slíkri notkun skal vera með fyrirvara um endurskoðun dómsvalda eða óháða endurskoðun annars æðra yfirvalds hjá þeim aðila;
j)    ákvörðun um þóknun sem fyrir slíka notkun skal vera með fyrirvara um úrskurð dómsvalda eða óháða endurskoðun annars æðra yfirvalds hjá þeim aðila;
k)    aðilum er ekki skylt að beita skilyrðum b- og f-liðar hafi slík notkun verið leyfð í því skyni að bæta starfshætti sem ákvarðað er eftir dóms- eða stjórnsýslumeðferð að séu samkeppnishamlandi. Þegar þóknun er ákvörðuð í slíkum tilvikum er heimilt að taka tillit til þess hversu brýnt er að leiðrétta samkeppnishamlandi starfshætti. Þar til bær yfirvöld skulu hafa heimild til að synja um niðurfellingu heimildar ef og þegar líkur eru á að aðstæður, sem lágu til grundvallar slíkri heimild, endurtaki sig;
l)    ef heimild til slíkrar notkunar er veitt í þeim tilgangi að leyfa nýtingu einkaleyfis („síðara einkaleyfi“) sem ekki er unnt að nýta án þess að brjóta annan einkaleyfisrétt („fyrra einkaleyfi“) skulu eftirtalin skilyrði einnig gilda:
    i)    uppfinningin, sem tilkall er gert til í síðara einkaleyfinu, skal vera mikilvægt tæknilegt framfaraskref sem hefur verulega efnahagslega þýðingu borið saman við uppfinninguna sem tilkall er gert til í fyrra einkaleyfinu;
    ii)    eigandi fyrra einkaleyfisins skal eiga rétt á leyfavíxlun með sanngjörnum skilmálum til að geta notað uppfinninguna sem tilkall er gert til í síðara einkaleyfinu; og
    iii)    notkun, sem er heimiluð með tilliti til fyrra einkaleyfisins, skal vera óframseljanleg nema með framsali síðara einkaleyfisins.

32. gr.
Afturköllun/svipting einkaleyfis.

    Ákvörðun um að afturkalla eða nema einkaleyfi úr gildi skal vera unnt að skjóta til úrskurðar dómstóla.

33. gr.
Gildistími verndar.

    Gildistími verndar skal ekki renna út fyrr en tuttugu ár eru liðin frá umsóknardegi. 8

34. gr.
Aðferðareinkaleyfi: Sönnunarbyrði.

1.     Í einkamálum, er varða brot á réttindum eiganda sem um getur í b-lið 1. mgr. 28. gr., ef einkaleyfið varðar vinnsluaðferð til framleiðslu vöru, geta dómsyfirvöld gert stefnda að sanna að vinnsluaðferð sams konar vöru sé öðruvísi en aðferðin sem einkaleyfið tekur til. Þess vegna skulu aðilar kveða á um, í að minnsta kosti einu eftirtalinna tilvika, að sams konar vara, sem er framleidd án samþykkis eiganda einkaleyfis, skuli, nema unnt sé að sanna hið gagnstæða, teljast framleidd með þeirri vinnsluaðferð sem einkaleyfið tekur til:
a)    ef varan, sem er framleidd með þeirri vinnsluaðferð sem einkaleyfið tekur til, er ný;
b)    ef verulegar líkur eru á að sams konar vara hafi verið framleidd með hinni vernduðu aðferð og eigandi einkaleyfis hefur ekki, eftir hæfilegar tilraunir, getað ákvarðað hvaða aðferð var notuð.
2.     Aðilum skal einungis vera frjálst að kveða á um að sönnunarbyrðin, sem er tilgreind í 1. mgr., hvíli á þeim sem telst hafa framið brotið ef skilyrðið, sem um getur í a-lið, er uppfyllt eða ef skilyrðið, sem um getur í b-lið, er uppfyllt.
3.     Þegar færð eru fram mótrök skal taka tillit til lögmætra hagsmuna stefndu með tilliti til þess að vernda framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál þeirra.

6. þáttur: Formhönnun (svæðislýsingar) smárása.
35. gr.
Tengsl við sáttmálann um hugverk er varða smárásir.

    Aðilar hafa komið sér saman um vernd formhönnunar (svæðislýsinga) smárása (í þessum samningi nefnd „formhönnun“), í samræmi við 2.–7. gr. (nema 3. mgr. 6. gr.), 12. gr. og 3. mgr. 16. gr. sáttmálans um hugverk er varða smárásir, og að fara auk þess að eftirfarandi ákvæðum.

36. gr.
Gildissvið verndar.

    Með fyrirvara um ákvæði 1. mgr. 37. gr. skulu aðilar telja eftirfarandi verknaði ólöglega hafi rétthafi 9 ekki heimilað þá: innflutningur, sala, eða önnur dreifing í viðskiptalegum tilgangi á formhönnun sem nýtur verndar, smárás sem slík formhönnun er hluti af eða vöru sem slík smárás er hluti af, en eingöngu að því leyti sem varan eða tækið felur áfram í sér ólöglega eftirmynd formhönnunar.

37. gr.
Athæfi sem krefst ekki heimildar rétthafa.

1.     Þrátt fyrir 36. gr. skal enginn aðili líta svo á að verknaður, sem um getur í þeirri grein, að því er varðar smárásir sem ólögleg eftirmynd formhönnunar er hluti af eða vöru sem slík smárás er hluti af, sé ólöglegur ef sá sem framdi eða fyrirskipaði slíkan verknað vissi ekki og gat ekki vitað með eðlilegu móti, þegar hann fékk smárásina eða vöruna sem slík smárás er hluti af, að ólögleg eftirmynd formhönnunar væri hluti af henni. Aðilar skulu kveða á um, eftir að viðkomandi hefur hlotið nægilega aðvörun um að formhönnunin sé ólögleg eftirmynd, að honum sé heimilt að fremja verknað að því er varðar birgðir sem eru fyrirliggjandi eða hafa verið pantaðar áður, en honum beri að greiða rétthafa fjárhæð er jafngildir eðlilegri einkaleyfis- eða höfundarþóknun sem bæri að greiða samkvæmt nytjaleyfi sem samið væri um af fúsum og frjálsum vilja vegna slíkrar formhönnunar.
2.     Skilyrðin, sem eru sett fram í a- til k-lið 31. gr., skulu gilda að breyttu breytanda ef um er að ræða nauðungarleyfisveitingu fyrir formhönnun eða notkun hennar af hálfu hins opinbera eða fyrir hið opinbera án heimildar rétthafa.

38. gr.
Gildistími verndar.

1.     Hjá aðilum, þar sem skráning er skilyrði fyrir vernd, skal gildistími verndar fyrir formhönnun ekki renna út fyrr en 10 ár eru liðin frá umsóknardegi eða frá þeim degi að nýting í ábataskyni átti sér fyrst stað, hvar í heiminum sem það gerist.
2.     Hjá aðilum, þar sem skráning er ekki skilyrði fyrir vernd, skal gildistími verndar fyrir formhönnun ekki renna út fyrr en minnst 10 ár eru liðin frá þeim degi að nýting í ábataskyni átti sér fyrst stað, hvar í heiminum sem það gerist.
3.     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er aðila heimilt að kveða á um að vernd falli niður þegar 15 ár eru liðin frá því að formhönnunin varð til.

7. þáttur: Vernd trúnaðarupplýsinga.
39. gr.

1.     Þegar verið er að tryggja haldgóða vernd gegn óheiðarlegri samkeppni, eins og kveðið er á um í 10. gr. a í Parísarsamningnum (1967), skulu aðilar vernda óbirtar upplýsingar í samræmi við 2. mgr. og gögn sem eru afhent stjórnvöldum eða opinberum stofnunum í samræmi við 3. mgr.
2.     Einstaklingar og lögpersónur skulu eiga þess kost að koma í veg fyrir að upplýsingar, sem þeir eiga lögmætt tilkall til, séu látnar öðrum í té, þeirra sé aflað eða þær notaðar af öðrum án samþykkis þeirra með þeim hætti sem er andstætt heiðarlegum viðskiptaháttum 10 svo framarlega sem slíkar upplýsingar:
a)    eru leyndarmál í þeim skilningi að þær eru ekki, í heild sinni eða einstakir þættir þeirra og samsetning, almennt þekktar eða tiltækar einstaklingum í því umhverfi þar sem algengt er að fjalla um þá tegund upplýsinga sem um ræðir;
b)    hafa viðskiptalegt gildi af því að þær eru leyndarmál; og
c)    sá sem hefur þær undir höndum á löglegan hátt hefur gert eðlilegar ráðstafanir, miðað við aðstæður, til að halda þeim leyndum.
3.     Þegar aðilar setja það skilyrði fyrir samþykki á markaðssetningu lyfjavara- eða efnaafurða fyrir landbúnað, sem hafa að geyma nýjar efnaeiningar, að lögð verði fram óbirtar prófanir eða önnur gögn sem verulega erfitt er að fá fram skulu þeir vernda slík gögn gegn óréttmætri viðskiptanotkun. Enn fremur skulu aðilar sjá til þess að slík gögn séu ekki birt, nema það sé nauðsynlegt til að vernda almenning eða gerðar séu ráðstafanir til að tryggja að gögnin séu vernduð gegn óréttmætri notkun í viðskiptum.

8. þáttur: Eftirlit með samkeppnishamlandi starfsháttum
í tengslum við samningsbundin nytjaleyfi.
40. gr.

1.     Aðilar eru sammála um að tilteknir starfshættir eða skilyrði, er varða leyfisveitingu viðvíkjandi hugverkarétti og takmarka samkeppni, kunni að hafa skaðleg áhrif á viðskipti og hindra miðlun og útbreiðslu á tækni.
2.     Ekkert í þessum samningi skal koma í veg fyrir að aðilar setji í löggjöf sína ákvæði um starfshætti eða skilyrði er varða leyfisveitingu sem í sérstökum tilvikum kann að vera misnotkun á hugverkarétti sem hefur óhagstæð áhrif á samkeppni á viðkomandi markaði. Eins og kveðið er á um hér að framan er aðila heimilt að samþykkja, í samræmi við önnur ákvæði þessa samnings, viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða hafa eftirlit með slíkum starfsháttum, til dæmis með skilyrðum um endurútgáfu einkaréttarleyfa, skilyrðum er koma í veg fyrir að nytjaleyfi sé véfengt eða með því að viðbótarleyfum er bætt við upprunalega leyfið með þvingunaraðgerðum, í ljósi viðkomandi laga og reglna þess aðila.
3.     Sérhver aðili skal, að fenginni beiðni, hefja viðræður við annan aðila sem hefur ástæðu til að ætla að eigandi hugverkaréttar, sem er ríkisborgari eða hefur lögheimili á yfirráðasvæði þess aðila sem óskað var eftir viðræðum við, beiti starfsháttum er brjóta í bága við lög og reglur aðilans sem fer fram á viðræður um efni þessa þáttar og sem vill tryggja að farið sé að slíkri löggjöf, með fyrirvara um rétt aðila til löglegra aðgerða og fullt frelsi hvors aðila um sig til að taka endanlega ákvörðun. Aðilinn, sem fær beiðnina, skal fjalla ítarlega og með velvilja um hana og veita nægileg tækifari til viðræðna við aðilann sem leggur fram beiðnina og láta í té upplýsingar, sem almenningur hefur aðgang að en eru ekki trúnaðarupplýsingar og tengjast viðkomandi máli, og aðrar upplýsingar sem aðilinn hefur aðgang að, með fyrirvara um innlend lög og samninga sem kunna að hafa verið gerðir og málsaðilar sætta sig við, um að aðilinn sem leggur fram beiðnina gæti trúnaðar.
4.     Þegar mál er höfðað á hendur ríkisborgurum aðila, eða þeim sem eiga lögheimili í landi hans, í landi annars aðila fyrir meint brot á lögum og reglum þess aðila varðandi efni þessa þáttar skal síðarnefndi aðilinn gefa fyrrnefnda aðilanum, að fenginni beiðni, kost á viðræðum með sömu skilmálum og gert er ráð fyrir í 3. mgr.

III. HLUTI
FULLNUSTA HUGVERKARÉTTAR
1. þáttur: Almennar skyldur.
41. gr.

1.     Aðilar skulu sjá til þess að til sé málsmeðferð um fullnustu í samræmi við lög þeirra, eins og lýst er í þessum hluta, til að unnt sé að grípa til skilvirkra aðgerða gegn athæfi sem er brot á hugverkarétti er fellur undir þennan samning, þar með talin skjót úrræði til að koma í veg fyrir brot og úrræði sem hamla frekari brotum. Beita skal slíkri málsmeðferð á þann hátt að forðast sé að skapa hindranir í lögmætum viðskiptum og skulu gerðar verndarráðstafanir gegn því að slíkri málsmeðferð sé misbeitt.
2.     Málsmeðferð við fullnustu hugverkaréttar skal vera réttlát og sanngjörn. Hún skal ekki vera óþarflega flókin eða kostnaðarsöm, eða leiða til þess að sett verði óeðlileg tímamörk eða óréttlætanlegar tafir verði.
3.     Ákvarðanir varðandi málsatvik skulu helst vera skriflegar og rökstuddar. Málsaðilar, að minnsta kosti, skulu hafa aðgang að þeim án ótilhlýðilegrar tafar. Ákvarðanir varðandi málsatvik skulu einungis byggðar á sönnunargögnum sem málsaðilar hafa fengið tækifæri til að láta í ljós álit sitt á.
4.     Í málarekstri skulu málsaðilar eiga möguleika á endurskoðun dómsvalds á endanlegum stjórnvaldsákvörðunum og, með fyrirvara um lögsagnarákvæði í lögum aðila um mikilvægi máls, að minnsta kosti lagalegar hliðar upphaflegrar dómsniðurstöðu varðandi málsatvik. Samt sem áður skal ekki skylt að kveða á um tækifæri til endurskoðunar sýknu í refsimálum.
5.     Þessi hluti samningsins hefur ekki í för með sér þá skyldu að innleiða dómskerfi fyrir fullnustu hugverkaréttar, aðskilið frá dómskerfi til að framfylgja lögum almennt, né hefur hann áhrif á getu aðila til að framfylgja lögum sínum almennt. Ekkert í þessum hluta hefur í för með sér skyldu að því er varðar skiptingu fjármagns til fullnustu hugverkaréttar annars vegar og hins vegar til að framfylgja almennum lögum.

2. þáttur: Málsmeðferð og úrræði í einkamálum og innan stjórnsýslunnar.
42. gr.
Réttlát og sanngjörn málsmeðferð.

    Aðilar skulu sjá til þess að rétthafar 11 hafi aðgang að málsmeðferð fyrir almennum dómstólum til fullnustu hugverkaréttar sem fellur undir þennan samning. Stefndi skal eiga rétt á skriflegri aðvörun með nægum fyrirvara og fullnægjandi upplýsingum, þar með eru taldar forsendur kröfunnar. Málsaðilar mega hafa óháðan lögmann og málsmeðferð skal ekki fela í sér óhóflegar kröfur um skyldu einstaklinga til að mæta. Allir málsaðilar að slíkri málsmeðferð eiga tilhlýðilegan rétt á að rökstyðja kröfur sínar og leggja fram öll viðeigandi sönnunargögn. Í reglunum skal kveðið á um aðferðir til að sanngreina og vernda trúnaðarupplýsingar nema slíkt brjóti í bága við gildandi stjórnskipunarlög.

43. gr.
Sönnunargögn.

1.     Ef málsaðili leggur fram sönnunargögn sem unnt er að afla án of mikillar fyrirhafnar og styðja kröfu hans og tilgreinir sönnunargögn sem styðja kröfu hans en mótaðilinn hefur undir höndum, geta dómsyfirvöld fyrirskipað mótaðila að leggja fram sönnunargögnin, með fyrirvara í viðeigandi málum um skilyrði sem tryggja vernd trúnaðarupplýsinga.
2.     Þegar málsaðili synjar, af eigin hvötum og án gildrar ástæðu, um aðgang að nauðsynlegum upplýsingum eða veitir þær ekki á annan hátt innan eðlilegs frests eða torveldar að mun málsmeðferð í tengslum við fullnustu getur aðili veitt dómsyfirvöldum heimild til að taka ákvörðun, sem er til bráðabirgða eða endanleg, þar sem um ræðir staðfestingu eða höfnun, á grundvelli upplýsinga, sem þeim eru veittar, þar með talið kæru eða staðhæfingar málsaðila sem hefur orðið fyrir tjóni af því að hann fékk ekki aðgang að upplýsingum, með þeim fyrirvara að málsaðilar eigi þess kost að segja álit sitt á staðhæfingunum eða sönnunargögnunum.

44. gr.
Lögbann.

1.     Dómsyfirvöld skulu hafa vald til að fyrirskipa málsaðila að láta af broti, meðal annars vald til að koma í veg fyrir að innflutt vara, sem tengist broti á hugverkarétti, komist í umferð á yfirráðasvæði þeirra strax og tollafgreiðslu hennar er lokið. Aðilum er ekki skylt að veita slíka heimild vegna verndaðs efnis sem einstaklingur hefur aflað sér eða pantað áður en hann vissi eða mátti vita að verslun með slíkt efni væri brot á hugverkarétti.
2.     Þrátt fyrir önnur ákvæði í þessum hluta og að því tilskildu að farið sé að ákvæðum II. hluta er fjalla sérstaklega um notkun af hálfu hins opinbera, eða notkun þriðju málsaðila sem hafa til þess heimild hins opinbera, án heimildar rétthafa, geta aðilar takmarkað úrræði sín gegn slíkri notkun við það að greiða þóknun í samræmi við h-lið 31. gr. Í öðrum tilvikum skulu úrræði samkvæmt þessum hluta gilda, en stríði þessi úrræði gegn lögum aðila skal vera unnt að fá dómsálit í formi yfirlýsinga og hæfilegar bætur.

45. gr.
Bætur.

1.     Dómsyfirvöld geta gert þeim sem brýtur gegn hugverkarétti að greiða rétthafa hæfilegar bætur fyrir það tjón sem brot á hugverkarétti hans hefur valdið honum, þegar sá sem framdi brotið vissi eða mátti vita að hann framdi ólöglegt athæfi.
2.     Dómsyfirvöld geta einnig gert þeim sem brýtur gegn hugverkarétti að greiða rétthafa kostnað, meðal annars hæfilegan lögfræðikostnað. Í ákveðnum tilvikum geta aðilar heimilað dómsyfirvöldum að fyrirskipa endurgreiðslu hagnaðar og/eða greiðslu fyrirfram ákveðinna bóta, jafnvel þótt sá sem framdi brotið hafi ekki vitað eða ekki getað vitað með góðu móti að hann tók þátt í ólöglegu athæfi.

46. gr.
Önnur úrræði.

    Til að koma á skilvirkan hátt í veg fyrir brot geta dómsyfirvöld fyrirskipað að vörur, sem þau hafa ákvarðað að séu ólöglegar, skuli teknar úr umferð, án þess að bætur komi fyrir, með þeim hætti að komist sé hjá að valda rétthafa tjóni, eða eyðilagðar ef það brýtur ekki í bága við stjórnskipunarlög. Dómsyfirvöld geta einnig fyrirskipað að efni og áhöld, sem voru aðallega notuð til að búa til ólöglegu vörurnar, skuli tekin úr umferð, án þess að bætur komi fyrir, með þeim hætti að það dragi úr hættu á frekari brotum. Þegar slíkar beiðnir eru skoðaðar skal þess gætt að þau úrræði sem eru fyrirskipuð séu í réttu hlutfalli við alvöru brotsins og tekið sé tillit til hagsmuna þriðju málsaðila. Þegar um er að ræða vörur með fölsuðum vörumerkjum nægir ekki, nema í undantekningartilvikum, að fjarlægja hið ólögmæta vörumerki til að unnt sé að setja vörurnar í umferð.

47. gr.
Réttur til upplýsinga.

    Aðilar geta kveðið á um heimild dómsyfirvalda til að fyrirskipa þeim sem framdi brotið að upplýsa rétthafa um þriðja aðila, sem tók þátt í að framleiða og dreifa hinum ólöglegu vörum eða þjónustu, og dreifingarleiðir þeirra, nema slíkt sé ekki í samræmi við alvöru brotsins.

48. gr.
Skaðabætur til stefnda.

1.     Dómsyfirvöld geta fyrirskipað málsaðila, sem lagði fram beiðni um ráðstafanir sem gripið var til og hefur misbeitt málsmeðferð við fullnustu, að greiða málsaðila, ef athafnafrelsi hans hefur verið heft eða takmarkað, hæfilegar bætur vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir vegna slíkrar beitingar. Dómsyfirvöld geta einnig fyrirskipað stefnanda að greiða stefnda kostnað, meðal annars hæfilegan lögfræðikostnað.
2.     Að því er varðar framkvæmd laga um vernd eða fullnustu hugverkaréttar skulu aðilar því aðeins leysa opinber yfirvöld og embættismenn undan ábyrgð, að því er varðar viðeigandi úrræði, að gripið hafi verið til aðgerða eða fyrirhugað sé að gera það í góðri trú við framkvæmd slíkra laga.

49. gr.
Stjórnsýslumeðferð.

    Að því marki sem unnt er að beita úrræðum einkamálaréttar vegna stjórnsýslumeðferðar varðandi málsatvik skal slík málsmeðferð samrýmast meginreglum sem eru efnislega jafngildar meginreglum þessa þáttar.

3. þáttur: Bráðabirgðaráðstafanir.
50. gr.

1.     Dómsyfirvöld hafa vald til að fyrirskipa tafarlausar og skilvirkar ráðstafanir til bráðabirgða:
a)    til að koma í veg fyrir brot á hugverkarétti, og einkum til að koma í veg fyrir að vörur komist í umferð innan lögsögu þeirra, þar með taldar innfluttar vörur strax og tollafgreiðslu er lokið.
b)    til að varðveita sönnunargögn er tengjast hinu meinta broti.
2.     Dómsyfirvöld geta í vissum tilvikum gert bráðabirgðaráðstafanir án þess að hafa samband við mótaðilann, einkum ef líkur eru á að tafir muni valda rétthafa óbætanlegu tjóni eða sannanlega er hætta á að sönnunargögn eyðileggist.
3.     Dómsyfirvöldum skal heimilt að krefja stefnanda um sönnunargögn, sem unnt er að afla með góðu móti, til að þau geti fullvissað sig nægilega um að hann sé rétthafi og að réttur hans hafi verið brotinn, eða að slíkt brot sé yfirvofandi, og fyrirskipað honum að leggja fram tryggingu eða jafngildi hennar til að vernda stefnda og koma í veg fyrir misnotkun.
4.     Ef bráðabirgðaráðstafanir hafa verið samþykktar án þess að hafa samband við mótaðilann skal láta hlutaðeigandi málsaðila vita af því, í síðasta lagi um leið og ráðstöfununum er hrundið í framkvæmd. Endurskoðun, sem í felst réttur til að flytja mál sitt, skal eiga sér stað að beiðni stefnda með það fyrir augum að ákveða, innan hæfilegs tíma frá því að tilkynnt er um ráðstafanirnar, hvort þeim skuli breytt, þær afturkallaðar eða staðfestar.
5.     Heimilt er að krefja stefnanda um aðrar nauðsynlegar upplýsingar til að yfirvald, sem hefur framkvæmd bráðabirgðaráðstafana með höndum, geti borið kennsl á vörurnar.
6.     Með fyrirvara um 4. mgr. ber, að beiðni stefnda, að afturkalla bráðabirgðaráðstafanir sem eru gerðar á grundvelli 1. og 2. mgr. eða fella þær úr gildi á annan hátt ef málarekstur, sem leiðir til ákvörðunar um málsatvik, hefst ekki innan hæfilegs tímabils sem, ef slíkt er leyfilegt samkvæmt lögum aðila, er ákvarðað af dómsyfirvaldi sem fyrirskipar ráðstafanirnar eða, liggi slík ákvörðun ekki fyrir, er ekki lengra en 20 virkir dagar eða 31 almanaksdagur, eftir því hvort tímabilið er lengra.
7.     Þegar bráðabirgðaráðstafanir eru afturkallaðar eða þær falla niður vegna aðgerðar eða aðgerðarleysis stefnanda, eða síðar er komist að raun um að ekki er um brot eða hættu á broti á hugverkarétti að ræða, geta dómsyfirvöld fyrirskipað stefnanda, að beiðni stefnda, að greiða stefnda hæfilegar bætur vegna tjóns sem ráðstafanirnar hafa haft í för með sér.
8.     Að því marki sem unnt er að fyrirskipa bráðabirgðaráðstafanir vegna stjórnsýslumeðferðar skal slík meðferð samrýmast meginreglum sem eru efnislega jafngildar meginreglum þessa þáttar.

4. þáttur: Sérstakar kröfur í tengslum við landmæraeftirlit. 12
51. gr.
Frestun tollafgreiðslu.

    Aðilar skulu, í samræmi við ákvæðin sem eru sett fram hér á eftir, samþykkja málsmeðferð 13 svo að rétthafa, sem hefur gildar ástæður til að ætla að innflutningur á vörum með fölsuðum vörumerkjum eða vörum þar sem höfundarréttur hefur verið brotinn 14 kunni að eiga sér stað, sé gert kleift að leggja fyrir þar til bær yfirvöld á sviði stjórnsýslu eða dómgæslu skriflega umsókn um að tollyfirvöld fresti því að afgreiða slíkar vörur til frjálsrar dreifingar. Aðilar geta heimilað að slík umsókn sé lögð fram að því er varðar vörur sem tengjast annars konar brotum á hugverkarétti, að því tilskildu að kröfur þessa þáttar séu uppfylltar. Aðilar geta enn fremur kveðið á um samsvarandi málsmeðferð varðandi frestun tollyfirvalda á afgreiðslu vara sem ætlaðar eru til útflutnings frá yfirráðasvæðum þeirra og teljast fara í bága við hugverkarétt.

52. gr.
Beiting.

    Rétthafi, sem hefur málsmeðferð skv. 51. gr., skal krafinn um sönnunargögn sem nægja til að þar til bær yfirvöld geti verið þess fullviss að samkvæmt lögum í innflutningslandinu líti út fyrir að um brot á hugverkarétti rétthafa sé að ræða og nógu nákvæma lýsingu á vörunum til að tollyfirvöld geti með auðveldu móti þekkt þær. Þar til bær yfirvöld skulu láta stefnanda vita innan hæfilegs tíma hvort þau hafa samþykkt umsóknina og hve lengi aðgerðir tollyfirvalda muni gilda ef þar til bær yfirvöld ákvarða slíkt.

53. gr.
Trygging eða jafngildi hennar.

1.     Þar til bær yfirvöld skulu hafa heimild til að krefjast þess að stefnandi leggi fram tryggingu eða jafngildi hennar er nægi til að vernda stefnda og þar til bær yfirvöld og koma í veg fyrir misnotkun. Slík trygging eða jafngildi hennar skal ekki hindra óeðlilega að gripið sé til þessarar málsmeðferðar.
2.     Hafi tollyfirvöld, í framhaldi af umsókn samkvæmt þessum þætti, frestað því, á grundvelli ákvörðunar sem ekki er tekin af dómsyfirvaldi eða öðru sjálfstæðu yfirvaldi, að afgreiða vörur til frjálsrar dreifingar er taka til iðnhönnunar, einkaleyfa, formhönnunar eða trúnaðarupplýsinga og fresturinn, sem kveðið er á um í 55. gr., er útrunninn án þess að til þess bær yfirvöld hafi veitt bráðabirgðaúrlausn, og að því tilskildu að öll innflutningsskilyrði hafi verið uppfyllt, skal eigandi, innflytjandi eða viðtakandi slíkra vara eiga rétt á að fá þær afgreiddar ef lögð er fram nægilega há trygging til að vernda rétthafa gegn broti. Greiðsla slíkrar tryggingar skal ekki hafa áhrif á önnur úrræði sem rétthafi á kost á og er því gert ráð fyrir að tryggingunni verði aflétt leiti rétthafi ekki réttar síns innan hæfilegs tíma.

54. gr.
Tilkynning um frestun.

    Innflytjanda og stefnanda skal þegar í stað tilkynnt um frestun á tollafgreiðslu vara í samræmi við 51. gr.

55. gr.
Gildistími frestunar.

    Hafi tollyfirvöld ekki verið látin vita, innan 10 virkra daga eftir að stefnanda hefur verið tilkynnt um frestun, að annar málsaðili en stefndi hafi hafið málarekstur sem leiðir til ákvörðunar um málsatvik eða að þar til bært yfirvald hafi gert bráðabirgðaráðstafanir til að framlengja frestun á tollafgreiðslu, ber að afgreiða vörurnar, að því tilskildu að öll innflutnings- eða útflutningsskilyrði hafi verið uppfyllt; í ákveðnum tilvikum má lengja frestinn um 10 virka daga. Ef hafinn er málarekstur sem leiðir til ákvörðunar um málsatvik skal endurskoðun, sem í felst réttur til að flytja mál sitt, fara fram að beiðni stefnda, með það fyrir augum að ákveða, innan hæfilegs tíma, hvort þessum ráðstöfunum skuli breytt, þær afturkallaðar eða staðfestar. Þrátt fyrir það sem segir hér að framan skulu ákvæði 6. mgr. 50. gr. gilda þegar tollafgreiðslu vara er frestað eða frestun látin gilda áfram í samræmi við bráðabirgðaráðstöfun samkvæmt dómi.

56. gr.
Bætur til innflytjanda og eiganda vöru.

    Viðkomandi yfirvöldum skal heimilt að fyrirskipa stefnanda að greiða innflytjanda, viðtakanda og eiganda vöru hæfilegar bætur vegna tjóns sem þeir verða fyrir þegar lagt er hald á vöru að ástæðulausu eða lagt er hald á vöru sem hefur hlotið afgreiðslu skv. 55. gr.

57. gr.
Réttur til skoðunar og upplýsinga.

    Með fyrirvara um vernd trúnaðarupplýsinga skulu aðilar veita þar til bærum yfirvöldum heimild til að veita rétthafa næg tækifæri til að láta skoða vörur sem tollyfirvöld hafa lagt hald á svo unnt sé að færa rök fyrir kröfu rétthafa. Þar til bær yfirvöld skulu einnig hafa heimild til að veita innflytjanda sams konar tækifæri til að láta skoða slíkar vörur. Þegar ákvarðað hefur verið jákvætt varðandi málsatvik geta aðilar veitt þar til bæru yfirvaldi heimild til að veita rétthafa upplýsingar um nöfn og heimilisföng sendanda, innflytjanda og viðtakanda og magn viðkomandi vara.

58. gr.
Aðgerð að eigin frumkvæði.

    Þegar aðilar æskja þess að þar til bær yfirvöld grípi til aðgerða að eigin frumkvæði og fresti tollafgreiðslu á vörum sem þeir hafa fengið staðfest að líkur séu á að tengist broti á hugverkarétti:
a)    geta þar til bær yfirvöld hvenær sem er leitað upplýsinga hjá rétthafa er hugsanlega koma að gagni þegar þau beita valdheimildum sínum;
b)    skal innflytjanda og rétthafa þegar í stað tilkynnt um frestunina. Hafi innflytjandi kært frestunina til þar til bærra yfirvalda gilda skilyrði 55. gr. um hana að breyttu breytanda;
c)    skulu aðilar því aðeins leysa opinber yfirvöld og embættismenn undan ábyrgð að því er varðar viðeigandi úrræði að gripið hafi verið til aðgerða eða fyrirhugað sé að gera það í góðri trú.

59. gr.
Úrræði.

    Með fyrirvara um önnur réttindi rétthafa til aðgerða og rétt stefnda til að fara fram á endurskoðun dómsyfirvalds skal þar til bærum yfirvöldum heimilt að fyrirskipa að ólöglegu vörurnar verði eyðilagðar eða þær teknar úr umferð í samræmi við meginreglur 46. gr. Þegar um er að ræða vörur með fölsuðu vörumerki skulu yfirvöld ekki leyfa að ólöglegu vörurnar verði endurútfluttar í óbreyttu ástandi eða þær fái annars konar tollmeðferð nema í undantekningartilvikum.

60. gr.
Lágmarksinnflutningur.

    Aðilar geta undanþegið frá beitingu fyrrnefndra ákvæða lítið magn vöru sem er ekki verslunarvara og er í farangri ferðamanna eða litlum vörusendingum.

5. þáttur: Málsmeðferð í refsimálum.
61. gr.

    Aðilar skulu kveða á um málsmeðferð í refsimálum sem skuli að minnsta kosti beitt þegar um er að ræða vörumerkjasvik af ásetningi eða höfundarréttarstuld í ábataskyni. Tiltæk úrræði, nægilega ströng til að vera fyrirbyggjandi, skulu vera fangelsun og/eða fjársektir í samræmi við viðurlög sem er beitt vegna álíka alvarlegra afbrota. Eftir því sem við á skulu úrræði einnig felast í upptöku, sekt og eyðileggingu ólöglegra vara svo og efna og tækja sem einkum hafa verið notuð til að fremja lögbrot. Aðilum er heimilt að kveða á um að málsmeðferð í refsimálum og refsiaðgerðum verði beitt í öðrum málum er varða brot á hugverkarétti, einkum þegar brot eru framin af ásetningi og í ábataskyni.

IV. HLUTI
ÖFLUN OG VIÐHALD HUGVERKARÉTTAR OG
SKYLD MÁLSMEÐFERÐ MÁLSAÐILA
62. gr.

1.     Aðilum er heimilt að krefjast þess, sem skilyrðis fyrir öflun eða viðhaldi hugverkaréttar, sem kveðið er á um í 2.–6. þætti II. hluta, að eðlilegri málsmeðferð og formsatriðum sé hlítt. Slík málsmeðferð og formsatriði skulu samrýmast ákvæðum þessa samnings.
2.     Ef öflun hugverkaréttar er komin undir því að réttur sé veittur eða skráður skulu aðilar sjá til þess, með fyrirvara um að efnisleg skilyrði fyrir öflun réttar séu uppfyllt, að málsmeðferð við veitingu eða skráningu geri ráð fyrir að réttur sé veittur eða skráður innan sanngjarns tíma til að koma í veg fyrir að gildistími verndar sé styttur að ástæðulausu.
3.     Ákvæði 4. gr. Parísarsamningsins (1967) gilda að breyttu breytanda um þjónustumerki.
4.     Almennar meginreglur 2. og 3. mgr. 41. gr. skulu gilda um málsmeðferð er varðar öflun eða viðhald hugverkaréttar og, ef kveðið er á um slíka málsmeðferð í lögum aðila, afturköllun stjórnvalda og málsmeðferð milli aðila á borð við andstöðu, afturköllun og niðurfellingu.
5.     Endanlegar stjórnsýsluákvarðanir í tengslum við einhverja þá málsmeðferð, sem um getur í 4. mgr., skulu teknar með fyrirvara um endurskoðun dómsyfirvalds eða ígildis dómsyfirvalds. Þó skal ekki skylt að gefa kost á slíkri endurskoðun ákvarðana í málum þar sem andstaða hefur ekki borið árangur eða um er að ræða afturköllun stjórnvalda, að því tilskildu að unnt sé að ógilda ástæðurnar sem liggja að baki slíkri málsmeðferð.

V. HLUTI
MÁLSMEÐFERÐ TIL AÐ FYRIRBYGGJA OG LEYSA DEILUMÁL
63. gr.
Gagnsæi.

1.     Lög og reglur og endanlegar dómsniðurstöður og stjórnsýsluúrskurðir, er hafa almennt gildi, sem aðili tekur upp og varða viðfangsefni þessa samnings (hvernig hægt sé að öðlast hugverkarétt, gildissvið hans, öflun, framkvæmd og hindrun á misbeitingu) ber að birta, eða hafa aðgengileg fyrir almenning ef birting er ekki gerleg, á þjóðtungu þannig að stjórnvöld og rétthafar geti kynnt sér efni þeirra. Einnig skal birta samninga sem varða viðfangsefni þessa samnings og eru í gildi milli stjórnvalda eða opinberrar stofnunar aðila og stjórnvalda eða opinberrar stofnunar annars aðila.
2.     Aðilar skulu tilkynna lög og reglur sem um getur í 1. mgr. til hugverkaréttarráðsins með það fyrir augum að vera því ráði innan handar við endurskoðun á framkvæmd þessa samnings. Ráðið skal leitast við að auðvelda aðila að rækja þessa skyldu og getur tekið ákvörðun um að fella niður skylduna um að tilkynna slík lög og reglur beint til ráðsins svo framarlega sem samkomulag næst við Alþjóðahugverkastofnunina um gerð sameiginlegrar skrár yfir þessi lög og reglur. Ráðið skal í þessu sambandi einnig íhuga hvort nauðsynlegt sé að gera einhverjar ráðstafanir varðandi tilkynningar vegna skyldna samkvæmt þessum samningi sem grundvallast á ákvæðum 6. gr. Parísarsamningsins (1967).
3.     Sérhver aðili skal fúslega veita upplýsingar af því tagi sem um getur í 1. mgr., sem svar við skriflegri beiðni annars aðila. Einnig getur aðili, sem hefur ástæðu til að ætla að sérstök dómsniðurstaða eða stjórnsýsluúrskurður eða tvíhliða samningur á sviði hugverkaréttar hafi áhrif á réttindi hans samkvæmt þessum samningi, lagt fram skriflega beiðni um aðgang að eða nægilega nákvæmar upplýsingar um slíkar dómsniðurstöður eða stjórnsýsluúrskurði eða tvíhliða samninga.
4.     Ákvæði 1., 2. og 3. mgr. leggja aðilum ekki þær skyldur á herðar að láta í té trúnaðarupplýsingar ef slíkt hindraði framkvæmd laga eða væri á annan hátt andstætt hagsmunum almennings eða skaðaði lögmæta viðskiptahagsmuni einstakra fyrirtækja í eigu hins opinbera eða í einkaeign.

64. gr.
Lausn deilumála.

1.     Ákvæði XXII. og XXIII. gr. GATT-samningsins frá 1994, eins og þau eru útfærð og þeim beitt samkvæmt samkomulagi um lausn deilumála, skulu gilda um viðræður og lausn deilumála á grundvelli þessa samnings nema annað sé tekið fram í honum.
2.     Ákvæði b- og c-liðar 1. mgr. XXIII. gr. GATT-samningsins frá 1994 gilda ekki um lausn deilumála á grundvelli þessa samnings í fimm ár frá gildistökudegi samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina.
3.     Á því tímabili sem um getur í 2. mgr. skal hugverkaréttarráðið kanna umfang og reglur að því er varðar kærur annarrar tegundar sem fjallað er um í b- og c-lið 1. mgr. XXIII. gr. GATT-samningsins frá 1994 og lagðar eru fram samkvæmt þessum samningi og leggja tilmæli sín fyrir ráðherrastefnuna til samþykkis. Ákvarðanir ráðherrastefnunnar um að samþykkja slík tilmæli eða lengja tímabilið, sem um getur í 2. mgr., skulu eingöngu teknar með einróma samþykki og staðfest tilmæli skulu öðlast gildi fyrir alla aðila án frekara formlegs staðfestingarferlis.

VI. HLUTI
AÐLÖGUNARFYRIRKOMULAG
65. gr.
Aðlögunarfyrirkomulag.

1.     Með fyrirvara um ákvæði 2., 3. og 4. mgr. er engum aðila skylt að beita ákvæðum þessa samnings fyrr en almennur frestur, sem er eitt ár frá gildistöku samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina, er runninn út.
2.     Aðili sem er þróunarland (hér eftir nefndur „þróunaraðildarland“) á rétt á að fresta gildistökudegi ákvæða þessa samnings, eins og um getur í 1. mgr., um fjögur ár til viðbótar, að undanskildum ákvæðum 3., 4. og 5. gr.
3.     Aðrir aðilar, sem eru að skipta úr miðstýrðu efnahagskerfi yfir í frjálst markaðskerfi og gera skipulagsbreytingar á hugverkaréttarkerfi sínu og standa frammi fyrir sérstökum vandamálum við undirbúning og framkvæmd laga og reglna um hugverkarétt, geta einnig notið góðs af framlengingu frests sem gert er ráð fyrir í 2. mgr.
4.     Þróunaraðildarlandi er með þessum samningi gert skylt að láta einkaleyfisvernd ná til tæknisviða sem njóta ekki slíkrar verndar á yfirráðasvæði þess á almennum gildistökudegi þessa samnings í því landi, samkvæmt skilgreiningu 2. mgr., er því heimilt að fresta beitingu ákvæða 5. þáttar II. hluta um einkaleyfi vara á slíkum tæknisviðum um fimm ár til viðbótar.
5.     Aðili, sem nýtir sér aðlögunartímabil skv. 1., 2., 3. eða 4. mgr., skal sjá til þess að breytingar á lögum, reglum og starfsháttum, sem eru gerðar á því tímabili, hafi ekki í för með sér aukið ósamræmi við ákvæði þessa samnings.

66. gr.
Aðildarlönd sem eru skemmst á veg komin í þróun.

1.     Með tilliti til sérstakra þarfa og krafna aðildarlanda, sem eru skemmst á veg komin í þróun, hafta í atvinnulífi þeirra, fjármálum og stjórnsýslu og þarfar þeirra fyrir sveigjanleika til að geta skapað sér öflugan tæknigrundvöll skal slíkum löndum ekki skylt að beita ákvæðum þessa samnings, að undanskildum ákvæðum 3., 4. og 5. gr., í 10 ár frá gildistökudegi eins og hann er skilgreindur í 1. mgr. 65. gr. Hugverkaréttarráðið skal framlengja þennan frest samkvæmt rökstuddri beiðni aðildarlanda sem eru skemmst á veg komin í þróun.
2.     Aðilar sem eru iðnríki (hér eftir nefndir „iðnaðaraðildarlönd“) skulu styrkja fyrirtæki og stofnanir á yfirráðasvæði sínu til að stuðla að og hvetja til flutnings á tækni til þeirra aðila sem eru skemmst á veg komnir í þróun og gera þeim þannig kleift að skapa sér traustan og öflugan tæknigrundvöll.

67. gr.
Tæknileg samvinna.

    Til að auðvelda framkvæmd þessa samnings skulu iðnaðaraðildarlönd bjóða þróunaraðildarlöndum og aðildarlöndum, sem eru skemmst á veg komin í þróun, tæknilega og fjárhagslega samvinnu, samkvæmt beiðni og með skilmálum og skilyrðum sem samkomulag er um. Slík samvinna skal taka til aðstoðar vegna undirbúnings laga og reglna um vernd og fullnustu hugverkaréttar og hvernig koma skuli í veg fyrir misbeitingu hans, og skal taka til stuðnings við að stofna eða efla embætti og umboðsstofnanir innanlands í þessu skyni, að þjálfun starfsmanna meðtalinni.

VII. HLUTI
ÁKVÆÐI UM STOFNANIR:
LOKAÁKVÆÐI
68. gr.
Ráð um hugverkarétt í viðskiptum.

    Hugverkaréttarráðið skal fylgjast með rekstri þessa samnings, einkum að aðilar uppfylli skyldur sínar samkvæmt honum, og veita aðilum tækifæri til viðræðna í málum er varða hugverkarétt í viðskiptum. Það skal gegna þeim skyldustörfum sem aðilarnir fela því og einkum veita alla umbeðna aðstoð varðandi málsmeðferð við lausn deilumála. Hugverkaréttarráðinu er heimilt í störfum sínum að leita eftir ráðgjöf og upplýsingum hvar sem það telur við eiga. Í samráði við Alþjóðahugverkastofnunina skal ráðið, áður en ár er liðið frá fyrsta fundi þess, leitast við að koma á heppilegu fyrirkomulagi um samstarf við nefndir þeirrar stofnunar.

69. gr.
Alþjóðleg samvinna.

    Aðilar hafa komið sér saman um samvinnu sín á milli með það fyrir augum að útiloka alþjóðaviðskipti með vörur sem fela í sér brot á hugverkarétti. Í þessu skyni skulu þeir koma upp tengiliðum í stjórnkerfi sínu, tilkynna um slíka þjónustu og vera reiðubúnir að skiptast á upplýsingum um viðskipti með ólöglegar vörur. Þeir skulu einkum stuðla að upplýsingamiðlun og samvinnu milli tollyfirvalda í tengslum við viðskipti með vörur með fölsuðum vörumerkjum og vörum þar sem höfundarréttur hefur verið brotinn.

70. gr.
Vernd efnis sem er til fyrir.

1.     Þessi samningur hefur ekki í för með sér skyldur að því er varðar athæfi sem var framið fyrir gildistökudag samningsins að því er hlutaðeigandi aðila varðar.
2.     Ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi hefur þessi samningur í för með sér skyldur að því er varðar allt efni sem er til á gildistökudegi samningsins að því er hlutaðeigandi aðila varðar og nýtur verndar hjá þeim aðila á þeim degi eða uppfyllir eða mun síðar uppfylla viðmiðanir um vernd samkvæmt skilmálum þessa samnings. Með tilliti til þessarar málsgreinar og 3. og 4. mgr. skal eingöngu ákvarða höfundarréttarskyldur að því er varðar fyrirliggjandi efni á grundvelli 18. gr. Bernarsáttmálans (1971), og skyldur tengdar réttindum framleiðenda hljóðrita og listflytjenda fyrirliggjandi hljóðrita skal eingöngu ákvarða á grundvelli 18. gr. Bernarsáttmálans (1971), í samræmi við beitingu þeirrar greinar á grundvelli 6. mgr. 14. gr. þessa samnings.
3.     Ekki skal vera skylt að taka aftur upp vernd fyrir efni sem á gildistökudegi þessa samnings að því er hlutaðeigandi aðila varðar nýtur ekki lengur höfundaréttar.
4.     Að því er varðar verknað, sem hefst eða hefur í för með sér verulegar fjárfestingar áður en hlutaðeigandi aðili samþykkir samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina, í tengslum við tiltekið viðfang er felur í sér verndað efni sem fellur undir ólöglegan verknað samkvæmt skilmálum laga í samræmi við þennan samning, er aðila heimilt að kveða á um takmörkun úrræða sem rétthafa eru tiltæk með tilliti til framhalds á slíkum verknaði eftir gildistökudag þessa samnings að því er þann aðila varðar. Í slíkum tilvikum skal aðili þó að minnsta kosti kveða á um sanngjarna þóknun.
5.     Aðila er ekki skylt að beita ákvæðum 11. gr. og 4. mgr. 14. gr. að því er varðar frumrit eða afrit sem eru keypt fyrir gildistökudag þessa samnings að því er þann aðila varðar.
6.     Aðilum skal ekki vera skylt að beita ákvæðum 31. gr., eða skilyrði 1. mgr. 27. gr. um að unnt skuli vera að nýta einkarétt án þess að gera greinarmun á tæknisviðum, um notkun án heimildar rétthafa hafi ríkisvaldið heimilað slíka notkun áður en vitað var um efni þessa samnings.
7.     Ef vernd hugverkaréttar er bundinn skilyrðum við skráningu skal vera leyfilegt að breyta umsóknum um vernd, sem liggja fyrir á gildistökudegi þessa samnings að því er hlutaðeigandi aðila varðar, í þeim tilgangi að fara fram á víðtækari vernd samkvæmt ákvæðum þessa samnings. Slíkar breytingar skulu ekki taka til nýs efnis.
8.     Hafi aðili ekki, á gildistökudegi samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina, kveðið á um einkaleyfisvernd fyrir lyfjavöru- og efnaafurðir í landbúnaði sem samsvarar skyldum hans skv. 27. gr. skal hann:
a)    þrátt fyrir ákvæði VI. hluta kveða á um, frá gildistökudegi samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina, með hvaða hætti unnt sé að leggja inn umsóknir um einkaleyfi fyrir slíkum uppfinningum;
b)    beita, frá gildistökudegi þessa samnings, viðmiðunum um einkaleyfishæfi, sem mælt er fyrir um í þessum samningi, vegna þessara umsókna eins og þeim viðmiðunum væri beitt á umsóknardegi hjá viðkomandi aðila eða, ef forgangur er veittur og farið er fram á hann, þeim degi sem forgangsréttar er krafist samkvæmt umsókninni; og
c)    veita einkaleyfisvernd í samræmi við þennan samning um leið og einkaleyfi er veitt, sem gildir jafnlengi og einkaleyfið, frá umsóknardegi í samræmi við 33. gr. þessa samnings, fyrir þær umsóknir sem uppfylla viðmiðanir um vernd sem um getur í b-lið.
9.     Þegar sótt er um einkaleyfi á vöru hjá aðila í samræmi við a-lið 8. mgr. skal veita einkarétt til markaðssetningar, þrátt fyrir ákvæði VI. hluta, í fimm ár eftir að samþykki fyrir markaðssetningu er veitt hjá þeim aðila eða þar til vörueinkaleyfi hefur verið veitt eða hafnað hjá þeim aðila, hvort tímabilið sem er styttra, að því tilskildu að í kjölfar gildistöku samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina hafi umsókn um einkaleyfi verið skráð og einkaleyfi á vörunni veitt hjá öðrum aðila og samþykki fengist fyrir markaðssetningu hjá þessum öðrum aðila.

71. gr.
Endurskoðun og breytingar.

1.     Hugverkaréttarráðið skal endurskoða framkvæmd þessa samnings eftir að aðlögunartímabilinu, sem um getur í 2. mgr. 65. gr., lýkur. Ráðið skal, með hliðsjón af reynslu af framkvæmdinni, endurskoða hana tveimur árum eftir þann dag og þaðan í frá með jöfnu millibili. Ráðinu er einnig heimilt að takast á hendur endurskoðun í ljósi nýrrar þróunar sem kann að gefa tilefni til breytinga á þessum samningi.
2.     Heimilt er að vísa breytingum, sem eingöngu þjóna þeim tilgangi að auka vernd hugverkaréttar sem hefur áunnist og gildir samkvæmt öðrum marghliða samningum og er staðfestur samkvæmt þeim samningum af öllum aðilum að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, til ráðherrastefnunnar til afgreiðslu í samræmi við 6. mgr. X. gr. samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina á grundvelli tillögu hugverkaréttarráðsins sem hefur verið samþykkt með einróma samþykki.

72. gr.
Fyrirvarar.

    Ekki er heimilt að gera fyrirvara að því er varðar ákvæði þessa samnings án samþykkis hinna aðilanna.

73. gr.
Undantekningar af öryggisástæðum.

    Ekkert í þessum samningi skal túlka þannig:
a)    að aðila beri að veita upplýsingar telji hann birtingu þeirra vinna gegn grundvallaröryggishagsmunum sínum;
b)    að komið sé í veg fyrir að aðili geti gripið til aðgerða sem hann telur nauðsynlegar til að vernda grundvallaröryggishagsmuni sína;
    i)    í tengslum við kjarnkleyf efni eða frumefni þeirra;
    ii)    í tengslum við sölu á vopnum, skotfærum og öðrum stríðsbúnaði og slíka sölu með aðrar vörur og efni sem er beinlínis eða óbeinlínis ætlað til hernaðar;
    iii)    á stríðstímum eða þegar neyðarástand ríkir í samskiptum ríkja; eða
c)    að komið sé í veg fyrir að aðili geti gripið til aðgerða í samræmi við skyldur sínar á grundvelli sáttmála Sameinuðu þjóðanna til að viðhalda friði og öryggi á alþjóðavettvangi.Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um öflun sönnunargagna
vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

    Frumvarp þetta tekur mið af þjóðréttarlegum skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir til að tryggja vernd hugverkaréttinda. Með frumvarpinu er lagt til að sýslumenn geti að undangengnum dómsúrskurði aflað sönnunargagna vegna ætlaðra brota gegn hugverkaréttindum með leit hjá þeim sem grunaðir eru um brotin. Lögfesting slíkrar heimildar kann að hafa í för með sér að mál af þessum toga sem koma til kasta dómstóla og sýslumannsembætta verði eitthvað fleiri en ekki er unnt að segja fyrir um það. Gert er ráð fyrir að verði frumvarpið samþykkt muni framkvæmd laganna rúmast innan útgjaldaramma dóms- og kirkjumálaráðuneytisins samkvæmt fjárlögum.
    Áformað er að lagt verði fram frumvarp til breytingar á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, þar sem mælt verði fyrir um greiðslu gjalda fyrir beiðni um öflun sönnunargagna annars vegar til héraðsdóms og hins vegar til sýslumanns.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Þegar „ríkisborgara“ er getið í þessu samningi skal líta svo á, þegar um er að ræða aðila að Alþjóðaviðskiptastofnuninni sem er sérstakt tollsvæði, að átt sé við einstaklinga eða lögpersónur með lögheimili eða raunverulegan og virkan atvinnu- eða viðskiptarekstur á því tollsvæði.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Í þessum samningi vísar „Parísarsamningurinn“ til Parísarsamningsins um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar; „Parísarsamningurinn (1967)“ vísar til Stokkhólmsgerðar þess samnings frá 14. júlí 1967. „Bernarsáttmálinn“ vísar til Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listaverkum; „Bernarsáttmálinn (1971)“ vísar til Parísargerðar þess sáttmála frá 24. júlí 1971. „Rómarsamningurinn“ vísar til alþjóðasamnings um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarps- og sjónvarpsstöðva sem var samþykktur í Róm 26. október 1961. „Samningur um hugverk er varða samrásir“ (IPIC Treaty) vísar til samnings um hugverk er varða samrásir sem var samþykktur í Washington 26. maí 1989. „Samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina“ vísar til samningsins um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Að því er ákvæði 3. og 4. gr. varðar skal „vernd“ taka til málefna sem hafa áhrif á aðgengi að hugverkarétti og öflun, gildissvið, viðhald og fullnustu hans, auk málefna sem hafa áhrif á notkun hugverkaréttar og fjallað er um sérstaklega í þessum samningi.
Neðanmálsgrein: 4
    4 Þrátt fyrir fyrsta málslið 42. gr. er aðilum heimilt að kveða í staðinn á um fullnustu með stjórnvaldsaðgerð, að því er þessar skyldur varðar.
Neðanmálsgrein: 5
    5 Að því er þessa grein varðar má líta svo á að hugtökin „framlag til uppfinninga“ og „nýtanlegt í atvinnulífi eða iðnaði“ séu sömu merkingar og hugtökin „ekki augljóst“ og „nýtanlegt“.
Neðanmálsgrein: 6
    6 Þessi réttur er með fyrirvara um ákvæði 6. gr., eins og öll önnur réttindi sem eru veitt samkvæmt þessum samningi, að því er varðar notkun, sölu, innflutning eða aðra dreifingu vöru.
Neðanmálsgrein: 7
    7 „Önnur notkun“ vísar til annarrar notkunar en er leyfð samkvæmt 30. gr.
Neðanmálsgrein: 8
    8 Í þessu felst að aðilum, sem hafa ekki kerfi yfir upprunaleg leyfi, sé heimilt að kveða á um að gildistími verndar skuli miðast við umsóknardag í kerfinu yfir upprunaleg leyfi.
Neðanmálsgrein: 9
    9 Hugtakið „rétthafi“ í þessum þætti hefur sömu merkingu og hugtakið „handhafi réttinda“ í sáttmálanum um hugverk er varða smárásir.
Neðanmálsgrein: 10
    10 Ákvæðið „með þeim hætti sem er andstætt heiðarlegum viðskiptaháttum“ merkir hér í það minnsta starfshætti á borð við brot á samningi, trúnaðarbrot og hvatningu til slíks brots og tekur til öflunar þriðju aðila á óbirtum upplýsingum hafi þeir vitað, eða sýnt vítavert kæruleysi með því að vita ekki, að slíkum starfsháttum var beitt við öflun upplýsinganna.
Neðanmálsgrein: 11
    11 Hugtakið „rétthafi“ í þessum hluta tekur til samtaka og félaga sem hafa lagalega stöðu til að krefjast viðurkenningar á slíkum réttindum.
Neðanmálsgrein: 12
    12 Ef aðili hefur að mestu leyti hætt öllu eftirliti með vöruflutningum á landamærum sínum og annars aðila sem er í sama tollabandalagi þarf hann ekki að beita ákvæðum þessa þáttar á þeim landamærum.
Neðanmálsgrein: 13
    13 Litið er svo á að ekki skuli vera skylda að beita slíkri málsmeðferð við innflutning á vörum sem eru settar á markað í öðru landi af rétthafa eða með hans samþykki eða gagnvart vörum í umflutningi.
Neðanmálsgrein: 14
    14 Í þessum samningi er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    a)    „vörur með fölsuðum vörumerkjum“ eru allar vörur, þar með taldar umbúðir, sem á er, án heimildar, vörumerki sem er sams konar og löglega skráð vörumerki fyrir slíkar vörur eða sem ekki er unnt að greina í aðalatriðum frá slíku vörumerki, og eru þannig brot á réttindum eiganda vörumerkisins, samkvæmt lögum innflutningslandsins;
    b)    „vörur þar sem höfundarréttur hefur verið brotinn“ eru allar vörur sem eru afrit, gerð án samþykkis rétthafa eða einstaklings sem hefur tilskilda heimild rétthafa í framleiðslulandinu, og eru gerðar beint eða óbeint eftir vöru, og gerð þess eintaks myndi teljast brot á höfundarrétti eða skyldum réttindum samkvæmt lögum innflutningslandsins.