Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 331. máls.

Þskj. 363  —  331. mál.
Frumvarp til laga

um Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun er háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir menntamálaráðherra. Stofnunin hefur náin tengsl við Háskóla Íslands eins og nánar greinir í lögum þessum.
    

2. gr.

    Ríkisstjórn Íslands er verndari handrita og skjalagagna sem afhent voru samkvæmt sáttmála milli Danmerkur og Íslands um flutning hluta af handritum Stofnunar Árna Magnússonar og Konunglega bókasafnsins í Kaupmannahöfn í vörslu og umsjón Háskóla Íslands, dagsettum 1. júlí 1965 og fullgiltum 1. apríl 1971. Gögn þessi mynda Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og er hún falin Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun til varðveislu og umsjónar.

3. gr.

    Hlutverk Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar er að vinna að rannsóknum og miðlun þekkingar á sviði íslenskra fræða, þ.e. rannsókna á íslenskri tungu, bókmenntum og sögu, auk varðveislu og eflingar þeirra safna sem henni eru falin eða hún á. Hlutverk sitt rækir stofnunin einkum með því að:
     a.      afla frumgagna á fræðasviði sínu og varðveita þau, safna þjóðfræðum og heimildum um íslenskan orða- og nafnaforða;
     b.      rannsaka handrit, þjóðfræðasöfn og aðrar heimildir um íslenska tungu, bókmenntir og sögu, sinna orðfræði- og nafnfræðirannsóknum, og verkefnum á sviði tungutækni;
     c.      stuðla að aukinni þekkingu á íslenskri tungu, eflingu hennar og varðveislu í ræðu og riti og veita ráðgjöf og leiðbeiningar um málfarsleg efni á fræðilegum grundvelli;
     d.      efla samstarf á fræðasviðum stofnunarinnar á innlendum og erlendum vettvangi og auka þekkingu á íslenskum fræðum meðal almennings og í alþjóðlegu fræðasamfélagi;
     e.      gefa út fræðirit, texta eftir handritum, þjóðfræðaefni, lýsandi orða- og nafnabækur og nafnaskrár, auk leiðbeinandi orðabóka.

4. gr.

    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar til fimm ára í senn að fenginni umsögn stjórnar stofnunarinnar. Forstöðumaður skal hafa hæfi sem prófessor á fræðasviði stofnunarinnar að mati þriggja manna dómnefndar sem menntamálaráðherra skipar. Skal einn nefndarmanna skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar stofnunarinnar og er hann jafnframt formaður, einn samkvæmt tilnefningu hugvísindadeildar Háskóla Íslands og einn án tilnefningar.
    Forstöðumaður ákveður skipulag stofnunarinnar og annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri hennar. Hann ræður starfsmenn stofnunarinnar og er í fyrirsvari fyrir hana. Hann ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.
    

5. gr.

    Menntamálaráðherra skipar stofnuninni fimm manna stjórn til fjögurra ára í senn. Skulu þrír skipaðir samkvæmt tilnefningu háskólaráðs Háskóla Íslands og tveir án tilnefningar sem gegna ekki starfi við Háskóla Íslands og er annar þeirra formaður stjórnar.
    Hlutverk stjórnar er að vera forstöðumanni til faglegrar ráðgjafar og veita honum umsagnir um starfsáætlanir og skipulag stofnunarinnar.

6. gr.

    Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun gerir samstarfssamninga við Háskóla Íslands um starfstengsl, fjárhagsleg samskipti og skipan sameiginlegra starfa. Stofnunin á samstarf við aðrar stofnanir á háskólastigi samkvæmt sérstökum samningum.
    Starfsmenn stofnunarinnar sem ráðnir eru til rannsóknarstarfa leiðbeina stúdentum í meistara- og doktorsnámi og kenna í námskeiðum á sérsviði sínu eftir því sem um semst við deildir Háskóla Íslands.

7. gr.

     Við Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun skulu vera tvö sérstök rannsóknarstörf. Skal annað sérstaklega tengt nafni og fræðilegri arfleifð Árna Magnússonar en hitt með sama hætti tengt nafni og fræðilegri arfleifð Sigurðar Nordals.

8. gr.

    Við ráðningu til rannsóknarstarfa við Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun skal fylgja hliðstæðum reglum og gert er við ráðningu kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands. Þriggja manna dómnefnd sem menntamálaráðherra skipar metur hæfi umsækjenda. Skal einn nefndarmanna skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar stofnunarinnar og er hann jafnframt formaður, einn samkvæmt tilnefningu hugvísindadeildar Háskóla Íslands og einn án tilnefningar.
    Stofnunin setur sér siðareglur, m.a. um fræðilegt sjálfstæði starfsmanna.

9. gr.

    Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun er, jafnframt öðrum verkefnum skv. 3. gr., skrifstofa Íslenskrar málnefndar, sem menntamálaráðherra skipar.
    Hlutverk Íslenskrar málnefndar er að semja íslenskar ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og menntamálaráðherra gefur út. Grundvallarbreytingar á ritreglum eru háðar samþykki menntamálaráðherra. Jafnframt veitir nefndin stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu og gerir tillögur til menntamálaráðherra um málstefnu, auk þess sem hún ályktar árlega um stöðu íslenskrar tungu.
    Í Íslenskri málnefnd eiga sæti 15 einstaklingar skipaðir af menntamálaráðherra. Hver eftirtalinna tilnefnir einn mann í nefndina: Háskólaráð Háskóla Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands, hugvísindadeild Háskóla Íslands, Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Samtök móðurmálskennara, Rithöfundasamband Íslands, Blaðamannafélag Íslands og Hagþenkir. Menntamálaráðherra skipar þrjá nefndarmenn án tilnefningar og skal einn vera formaður og annar varaformaður.

10. gr.

    Kostnaður við rekstur Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.
    Stofnuninni er heimilt að innheimta gjöld fyrir afrit gagna úr segulbandasöfnum, fyrir gerð og birtingu ljósmynda úr handritum, fyrir hvers konar sérunnin afrit af gögnum í vörslu stofnunarinnar, fyrir afnot af rannsóknaraðstöðu, fyrir veitta sérfræðiþjónustu vegna yfirlesturs gagna og gagnaöflunar, og fyrir aðgang að sýningum á vegum stofnunarinnar. Stofnunin setur gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku.
    Menntamálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2006.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 70/1972, um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, lög nr. 2/1990, um Íslenskra málnefnd, og lög nr. 14/1998, um Örnefnastofnun Íslands.
    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Í stað orðanna „Örnefnastofnun Íslands“ í 3. málsl. 1. mgr. og 4. málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 35/1953 kemur: Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.
     2.      Í stað orðanna „Örnefnastofnun Íslands“ í 6. tölul. 4. gr. laga nr. 95/1997 kemur: Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.
     3.      Í stað orðanna „Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi“ í lokamálslið 3. mgr. 2. gr. laga nr. 105/2001 kemur: Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara tekur Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun við eignum og skuldbindingum Íslenskrar málstöðvar, Orðabókar Háskóla Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnunar Sigurðar Nordals og Örnefnastofnunar Íslands. Í því felst m.a. að starfsmenn framangreindra stofnana verða starfsmenn Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. verða störf forstöðumanna þeirra stofnana, sem sameinast í Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun, lögð niður. Niðurlagning á störfum forstöðumanna Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi og Orðabókar Háskóla Íslands hefur þó ekki áhrif á ráðningu þeirra í störf prófessora við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Öllum fráfarandi forstöðumönnum skulu boðin rannsóknarstörf við Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun og skulu þeir við ráðningu í þau störf halda öllum áunnum réttindum sínum úr fyrra starfi.
    Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. skal stjórn skv. 5. gr. skipuð eigi síðar en 1. júní 2006, til að veita umsögn um skipun í embætti forstöðumanns skv. 4. gr. Gengið skal frá skipun forstöðumanns skv. 4. gr. eigi síðar en 1. september 2006.
    Ónýttar fjárheimildir á fjárlögum 2006 fyrir Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Íslenska málstöð, Orðabók Háskóla Íslands, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun Íslands við gildistöku laga þessara renna til Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði á laggirnar ný stofnun á sviði íslenskra fræða, Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun, við sameiningu eftirtalinna stofnana: Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Orðabókar Háskóla Íslands, Íslenskrar málstöðvar, Örnefnastofnunar Íslands og Stofnunar Sigurðar Nordals. Tilgangur sameiningarinnar er að efla rannsóknarstarf og miðlun á sviði íslenskra fræða auk þess að efla fræðilega ráðgjöf til styrktar og eflingar íslenskri menningu. Þá er gert ráð fyrir að margvíslegt hagræði verði af því að sameina vissa þætti í starfsemi þessara stofnana, einkum á sviði stjórnunar, tækni og þjónustu. Markmiðið er að til verði öflug háskólastofnun sem byggist á helstu undirstöðum íslenskrar menningar: tungumálinu og fornbókmenntunum.
    Menntamálaráðuneytið og Háskóli Íslands hafa um nokkurt skeið kannað hvort ekki væri fengur að því að samnýta krafta þessara stofnana til að ná fram þeim markmiðum sem að framan er lýst og er afraksturinn frumvarp þetta sem unnið var í samvinnu ráðuneytisins, forstöðumanna stofnananna og fulltrúa Háskóla Íslands.
    Framangreindar stofnanir eru samkvæmt gildandi lögum og reglum ýmist ríkisstofnanir eða stofnanir sem heyra undir Háskóla Íslands. Forstöðumenn þeirra eru því annaðhvort skipaðir af menntamálaráðherra eða ráðnir af rektor Háskóla Íslands. Rekstrarform stofnananna er með ýmsum hætti, en þær eiga það sameiginlegt að hljóta fjárveitingar á fjárlögum. Jafnframt því að leggja áherslu á að í 1. gr. frumvarpsins komi fram að stofnunin sé háskólastofnun þykir rétt að þar sé sérstaklega kveðið á um að stofnunin hafi náin tengsl við Háskóla Íslands eins og nánar greini í lögunum. Í því sambandi ber þó að hafa í huga að hinar sameinuðu stofnanir samkvæmt frumvarpi þessu hafa flestar ákveðnum skyldum að gegna gagnvart stjórnvöldum sem snerta ekki starfsemi Háskóla Íslands. Þá verður jafnframt að taka mið af fjölgun menntastofnana á háskólastigi á undanförnum árum, sem opnar möguleika fyrir hina nýju stofnun á að auka samstarf og samvinnu við aðra háskóla og háskólastofnanir. Því byggist frumvarp þetta á því að Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun heyri undir menntamálaráðherra, sem skipi forstöðumann hennar, en síðan verði þrír af fimm stjórnarmönnum stofnunarinnar, sem ætlað er ráðgefandi hlutverk, tilnefndir af háskólaráði Háskóla Íslands.
    Ástæðan fyrir heiti stofnunarinnar, Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun, er einkum skyldur íslenskra stjórnvalda sem tengjast sáttmála Danmerkur og Íslands um flutning á hluta af handritum Stofnunar Árna Magnússonar í vörslu og umsjón Háskóla Íslands, sem nánar er vikið að í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins.
    Stefnt er að því, verði frumvarp þetta að lögum, að Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun, geti flust í nýja byggingu á svæði Háskóla Íslands. Fyrr en það verður mun ekki nást allt það hagræði og efling fræðastarfsins sem að er stefnt með sameiningunni. Minnt er á að samkvæmt frumvarpi forsætisráðherra um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. sem lagt hefur verið fram á Alþingi skal verja samtals 1.000 millj. kr. til nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun. Samkvæmt frumvarpinu skiptast fjárframlögin þannig milli ára að verja skal 300 millj. kr. til þessa verkefnis árið 2007, 300 millj. kr. árið 2008 og 400 millj. kr. árið 2009.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að heiti stofnunarinnar verði Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun. Um heiti stofnunarinnar og stöðu hennar vísast til almennra athugasemda frumvarpsins. Lagt er til að stofnunin sé skilgreind sem háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag sem heyri undir menntamálaráðherra eins og gert er í gildandi lögum nr. 70/1972, um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Í 1. gr. þeirra laga er sérstaklega getið um sjálfstæða stjórn stofnunarinnar en sú framsetning þykir óæskileg, m.a. í ljósi álits nefndar á vegum fjármálaráðuneytisins um ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna, sem gefið var út í október 2000. Þar kom fram að stjórnsýsluleg staða, hlutverk stjórna og staða forstöðumanna væri oft óskýr og af því leiddi að óljóst væri hver bæri ábyrgð á rekstri viðkomandi stofnunar. Nefndin lagði til að stjórnum ríkisstofnana yrði fækkað og þær aðeins nýttar þar sem sérstök ástæða væri til að gera stjórn stofnunar sjálfstæðari en almennar reglur ríkisrekstrar gæfu færi á. Jafnframt var lagt til að sérstakar stofnanir, þ.e. stofnanir sem stofnaðar væru með lögum og sinntu sérstökum verkefnum sem þeim væru falin með lögum og tækju ákvarðanir í eigin nafni, hefðu ekki eiginlegar stjórnir og yrðu því stjórnir þeirra annaðhvort lagðar niður eða þeim breytt í ráðgefandi stjórnir. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir ráðgefandi stjórn við Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun, sbr. 5. gr., en jafnframt er tekið skýrt fram í 4. gr. að forstöðumaður stofnunarinnar beri ábyrgð á rekstri hennar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Um 2. gr.

    Orðalag 2. gr. tekur mið af sáttmála milli Danmerkur og Íslands um flutning á hluta af handritum Stofnunar Árna Magnússonar í vörslu og umsjón Háskóla Íslands. Þar kemur fram að sá hluti dánargjafar Árna Magnússonar, handrit, skjalagögn og fjármunir, sem ráðstafað var í samræmi við erfðaskrá hans með stofnskrá (Fundation for det arnamagnæanske Legat, staðfest af konungi Danmerkur 18. janúar 1760) og hefur nú verið afhentur Háskóla Íslands til varðveislu ásamt handritum úr Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn, skuli mynda Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi með því nafni, sbr. 4. grein sáttmálans: „Handrit þau og skjalagögn, sem þessi sáttmáli fjallar um, ásamt með fé því er þar til heyrir, skal mynda Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, og verður það heiti staðfest af ríkisstjórn Íslands.“ Þess vegna er nauðsynlegt að þessu heiti sé til skila haldið verði frumvarp þetta að lögum, þótt Árnasafn og önnur verðmæti og verkefni, sem falin voru Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi samkvæmt gildandi lögum um stofnunina, verði á forræði nýrrar stofnunar samkvæmt frumvarpi þessu. Gjafir sem á umliðnum árum hafa verið gefnar Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi – þá er einkum átt við Bókasjóð Þorsteins M. Jónssonar og Sigurjónu Jakobsdóttur og Minningarsjóð Birgit Baldwin – hafa í samræmi við stofnskrár frumskyldur við starfsemi tengda Árnasafni.
    Í 7. gr. gildandi laga um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi er kveðið á um að háskólaráð Háskóla Íslands kjósi stofnuninni „tvo tilsjónarmenn (ephori) til fjögurra ára í senn, og skulu þeir líta eftir því, að stofnunin starfi í samræmi við stofnskrá dánargjafar Árna Magnússonar frá 18. janúar 1760“. Hér er miðað við að fulltrúar háskólaráðs í stjórn hinnar nýju stofnunar hafi þetta hlutverk.
    Í 1. gr. gildandi laga um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi er kveðið á um að stofnunin heyri undir menntamálaráðherra en „undir ríkisstjórnina um varðveislu og umsjón með handritum þeim og skjalagögnum, sem til Íslands verða flutt frá Danmörku …“ Af þeim sökum er í þessari grein gert ráð fyrir að ríkisstjórnin beri ábyrgð á umræddum handritum og gögnum og þau verði t.d. ekki flutt úr landi nema með samþykki hennar.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er tilgreint hlutverk og starfssvið Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar og hefur þar verið tekið mið af núgildandi lögum og reglum um þær stofnanir sem sameinast. Lagt er til að hlutverk stofnunarinnar verði að vinna að rannsóknum og miðlun þekkingar á sviði íslenskra fræða, þ.e. rannsóknum á íslenskri tungu, bókmenntum og sögu, auk varðveislu og eflingar þeirra safna sem henni eru falin eða hún á. Hugtakið íslensk fræði er hér skilið hefðbundnum skilningi sem rannsóknir á íslenskri tungu, bókmenntum og sögu. Ljóst er að fleiri stofnanir stunda slíkar rannsóknir en verksvið stofnunarinnar er afmarkað með ákveðnum hætti í 2. mgr. þessarar greinar, þótt þar sé ekki um tæmandi upptalningu að ræða og því gert ráð fyrir að stofnunin bregðist við fræðilegum og tæknilegum nýjungum í starfi sínu.
    Skv. 2. mgr. rækir stofnunin hlutverk sitt einkum með eftirfarandi hætti:
     a.      Stofnunin aflar frumgagna af fræðasviði sínu og varðveitir þau, og safnar þjóðfræðum og heimildum um íslenskan orða- og nafnaforða.
                  Samkvæmt þessu er stofnuninni ætlað að taka við varðveislu mikilvægra safna frumgagna. Um getur verið að ræða handrit, skjöl, hljóðritanir, orðasöfn, örnefnasöfn o.fl. Mikilvægur þáttur í starfi stofnunarinnar verður að afla frekari frumgagna og skrá þau, gera skrár um íslensk handrit í erlendum söfnum og um not handrita. Enn fremur að ljósmynda efni og gera öryggisafrit af því og koma upp söfnum af filmum og ljósmyndum til nota við rannsóknir. Þá er stofnuninni ætlað að vinna að söfnun til sögulegrar orðabókar og safna þjóðfræðum, örnefnum, mannanöfnum og öðrum nöfnum. Öruggur aðbúnaður og forvarsla alls þessa efnis verði á ábyrgð stofnunarinnar. Að auki mun stofnunin taka við filmum og ljósmyndum af handritum annarra safna, einkum erlendra, og verðmætum bókasöfnum sem eru nauðsynleg rannsóknarstarfinu þótt ekki séu þar frumgögn.
     b.      Stofnunin rannsakar handrit, þjóðfræðasöfn og aðrar heimildir um íslenska tungu, bókmenntir og sögu, og sinnir orðfræði- og nafnfræðirannsóknum, og verkefnum á sviði tungutækni.
                  Miðað er við að handritarannsóknir verði snar þáttur í starfi stofnunarinnar, rannsóknir á einkennum, sögu og efni handrita, ásamt rannsóknum á þjóðfræðaefni og þar með þjóðmenningu síðari tíma. Stofnunin vinni einnig að hvers kyns rannsóknum á orðaforðanum og sögu hans. Sérstaka rækt þarf einnig að leggja við samtímamálið og rannsóknir á því. Gert er ráð fyrir að stofnunin skuli leitast við að hafa samvinnu við aðra um gerð íslensk-erlendra orðabóka og veita ráðgjöf um gerð orðabóka sem hafi erlend mál að viðfangsmáli. Þá annist hún ýmiss konar íðorðafræðileg verkefni, taki við rekstri orðabanka Íslenskrar málstöðvar og annist önnur samskipti við orðanefndir og aðra sérfræðinga sem vinna við orðasöfn í sérgreinum sínum. Þá hafi stofnunin samvinnu við aðrar stofnanir og við fyrirtæki, svo sem við útgefendur landakorta, um birtingu örnefna auk þess að leggja áherslu á örnefnavernd, sem er eitt form hagnýttrar nafnfræði. Orðabók Háskóla Íslands hefur á undanförnum missirum tekið að sér ýmis tungutækniverkefni og unnið með öðrum að slíkum verkefnum og er gert ráð fyrir að sú samvinna þróist áfram.
     c.      Stofnunin stuðlar að aukinni þekkingu á íslenskri tungu, eflingu hennar og varðveislu í ræðu og riti og veitir ráðgjöf og leiðbeiningar um málfarsleg efni á fræðilegum grundvelli.
                  Stofnuninni er með þessu ætlað að stuðla að aukinni þekkingu á íslenskri tungu, sem móðurmáli og öðru og erlendu máli, og að eflingu hennar og varðveislu í ræðu og riti. Þá er ætlunin að hún veiti málfarsráðgjöf og birti ábendingar og leiðbeiningar um málfar, rithátt, orðnotkun, meðferð og merkingu nafna og skyld atriði í prentuðu og rafrænu formi. Leiðbeiningar- og ráðgjafarstarf stofnunarinnar á að miða að eflingu og varðveislu íslenskrar tungu og skal byggt á fræðilegum grundvelli.
     d.      Stofnunin eflir samstarf á fræðasviðum stofnunarinnar á innlendum og erlendum vettvangi og eykur þekkingu á íslenskum fræðum meðal almennings og í alþjóðlegu fræðasamfélagi.
                  Þannig er stofnuninni ætlað að afla gagna um kennslu og rannsóknir tengdar íslenskri menningu, sem stundaðar eru í heiminum, og miðla þeim. Gert er ráð fyrir að hún eigi samstarf við aðrar stofnanir sem geyma íslensk frumgögn, svo sem Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðskjalasafn, Þjóðminjasafn og Árnastofnun í Kaupmannahöfn, auk almenns samstarfs við hliðstæðar rannsóknastofnanir og háskóla erlendis og að hún taki þátt í alþjóðlegu samstarfi fræðimanna á sínu sviði.
                  Þá hafi stofnunin forgöngu um kennslu í íslensku og íslenskum fræðum erlendis í samvinnu við aðila innan og utan Háskóla Íslands og hafi umsjón með sendikennslu. Hún taki þátt í alþjóðlegu málræktarstarfi, orðabóka-, íðorða- og nafnfræðasamstarfi og hafi samvinnu við erlenda aðila, ekki síst á Norðurlöndum, um eflingu kennslu í íslensku sem erlendu máli. Stofnunin kynni íslenska menningu heima og erlendis, í samráði við sendikennara, aðra háskólakennara í íslenskum fræðum og fræðafélög, og skapi umræðu um stöðu hennar, m.a. með því að gangast fyrir sýningum á gögnum sem hún varðveitir, ráðstefnum, námskeiðum, fundum og fyrirlestrum heima og heiman.
                  Þá styrki stofnunin fræðimenn í íslenskum fræðum til að fara til annarra landa í því skyni að stunda rannsóknir í fræðum sínum og kynna þau. Stofnunin bjóði erlendum fræðimönnum til Íslands til að kynna rannsóknir sínar, afli gagna til þeirra og/eða til að stunda rannsóknir og styðji erlenda námsmenn á sviði íslenskra fræða til dvalar á Íslandi.
                  Að auki veiti stofnunin fræðimönnum og stúdentum í framhaldsnámi, innlendum sem erlendum, sem stunda rannsóknir á fræðasviði hennar, rannsóknaaðstöðu eftir því sem húsrúm og búnaður leyfi.
     e.      Stofnunin gefur út fræðirit, texta eftir handritum, þjóðfræðaefni, lýsandi orða- og nafnabækur og nafnaskrár, auk leiðbeinandi orðabóka.
                  Miðað er við að stofnunin taki við því útgáfustarfi sem unnið hefur verið við þær stofnanir sem hún leysir af hólmi: útgáfu ljósprenta af handritum, textaútgáfum á grundvelli handritarannsókna og útgáfu hljóðrita þjóðfræðaefnis, auk útgáfu fræðilegra ritgerða; enn fremur útgáfu orðabóka, orða- og íðorðasafna; einnig eftir atvikum útgáfu tímarita, ráðstefnurita og fræðsluefnis. Útgáfa stafsetningarorðabókar, í prentuðu eða rafrænu formi falli hér undir.

Um 4. gr.

    Í greininni er kveðið á um að menntamálaráðherra skipi forstöðumann Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar til fimm ára í senn, að fenginni umsögn stjórnar stofnunarinnar. Lagt er til að forstöðumaðurinn skuli hafa hæfi sem prófessor á fræðasviði stofnunarinnar, að mati þriggja manna dómnefndar sem menntamálaráðherra skipar. Skal einn nefndarmanna skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar stofnunarinnar og er hann jafnframt formaður, einn samkvæmt tilnefningu hugvísindadeildar Háskóla Íslands og einn án tilnefningar. Við framkvæmd skipunarinnar er miðað við að óskað verði eftir umsögn stjórnarinnar, eftir að álit dómnefndar liggur fyrir. Fram kemur í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins að hugtakið íslensk fræði sé skilið hefðbundnum skilningi sem rannsóknir á íslenskri tungu, bókmenntum og sögu. Hvað varðar hæfiskröfur forstöðumanns þykir rétt að sá sem velst til að veita stofnuninni forstöðu hafi prófessorshæfi á fræðasviði hennar vegna þess fjölþætta rannsóknahlutverks sem stofnuninni er ætlað. Er það einnig í samræmi við gildandi lög um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, þótt þar sé gert ráð fyrir að forstöðumaðurinn skuli jafnframt vera prófessor í heimspekideild Háskóla Íslands.
    Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar ákveður forstöðumaður skipulag stofnunarinnar og annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri hennar. Hann ræður starfsmenn stofnunarinnar og er í fyrirsvari fyrir hana. Hann ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að menntamálaráðherra skipi stofnuninni fimm manna stjórn til fjögurra ára í senn. Skulu þrír skipaðir samkvæmt tilnefningu háskólaráðs Háskóla Íslands og tveir án tilnefningar og er annar þeirra formaður stjórnar. Jafnframt er tekið fram að þeir sem skipaðir eru án tilnefningar skuli ekki gegna starfi við Háskóla Íslands. Þykir eðlilegt að skilyrða það sérstaklega þar sem háskólaráð Háskóla Íslands tilnefnir þrjá af fimm stjórnarmönnum.
    Skv. 2. mgr. er hlutverk stjórnarinnar að vera forstöðumanni til faglegrar ráðgjafar og veita honum umsagnir um starfsáætlanir og skipulag stofnunarinnar. Eins og fjallað er um í athugasemdum við 1. gr. er áhersla lögð á faglegt ráðgjafarhlutverk stjórnarinnar vegna þeirrar umfangsmiklu starfsemi sem stofnuninni er ætlað að rækja. Í ljósi ráðgjafarhlutverksins er jafnframt eðlilegt að stjórnin veiti umsögn um starfsáætlanir og skipulag stofnunarinnar, en eftir sem áður er skýrt að ábyrgðin á rekstri stofnunarinnar hvílir óskipt á forstöðumanni hennar.

Um. 6. gr.

    Í 1. mgr. greinarinnar segir að Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun geri samstarfssamninga við Háskóla Íslands um starfstengsl, fjárhagsleg samskipti og skipan sameiginlegra starfa. Stofnunin á samstarf við aðrar stofnanir á háskólastigi samkvæmt sérstökum samningum. Þá kveður 2. mgr. á um að starfsmenn stofnunarinnar sem ráðnir eru til rannsóknarstarfa leiðbeini stúdentum í meistara- og doktorsnámi og kenni í námskeiðum á sérsviði sínu eftir því sem um semst við deildir Háskóla Íslands.
    Vegna framangreindra ákvæða skal á það bent að mikill samgangur hefur frá öndverðu verið milli háskóladeilda, einkum hugvísindadeildar Háskóla Íslands og stofnana á sviði íslenskra fræða. Hlutverkaskipting hefur þó verið alveg skýr, m.a. í samræmi við þá meginreglu að deildir og skorir beri hina faglegu ábyrgð á háskólamenntun. Þess er vænst að tilkoma nýrrar stofnunar geti skapað margvísleg tækifæri til þess að efla enn frekar tengsl háskóladeilda við stofnunina, bæði við Háskóla Íslands og aðrar háskólastofnanir. Um leið er mikilvægt að til grundvallar þessu samstarfi liggi samningar um faglega þætti, en ekki síður um fjárhagsleg samskipti til að tryggja skýr skil milli kostnaðar við rekstur Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar annars vegar og kostnaðar við rekstur Háskóla Íslands eða annarra stofnana á háskólastigi.

Um 7. gr.

    Samkvæmt greininni er lagt til að við Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun verði sérstaklega lögbundin tvö rannsóknarstörf. Skal annað tengt nafni og fræðilegri arfleifð Árna Magnússonar, en hitt með sama hætti tengt nafni og fræðilegri arfleifð Sigurðar Nordals. Fyrir utan að treysta fræðilegan grundvöll stofnunarinnar með þessum hætti er tilgangurinn einnig að halda til haga fræðilegri arfleifð þessara mikilhæfu fræðimanna. Miðað er við að þessar stöður verði a.m.k. fyrst um sinn mannaðar án þess að stöðugildum við hina nýju stofnun fjölgi umfram þau sem til staðar eru í þeim stofnunum sem sameinast í Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun, en að litið verði til þess við gerð fjárlaga fyrir fyrsta heila starfsár stofnunarinnar, þ.e. 2007, að skapa stofnuninni svigrúm til að ráða í þessi störf sérstaklega.

Um 8. gr.

    Greinin kveður á um að við ráðningu til rannsóknarstarfa við Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun skuli fylgja hliðstæðum reglum og gert er við ráðningu kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands. Þykir rétt að lögfesta slíkt ákvæði vegna tengsla stofnunarinnar við Háskóla Íslands og aðra háskóla eftir atvikum. Miðað er við að þriggja manna dómnefnd sem menntamálaráðherra skipar meti hæfi umsækjenda. Skal einn nefndarmanna skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar stofnunarinnar og er hann jafnframt formaður, einn samkvæmt tilnefningu hugvísindadeildar Háskóla Íslands og einn án tilnefningar.
    Skipta má starfsmönnum stofnunarinnar í tvo flokka. Annars vegar starfsmenn er sinna rekstri, forvörslu, bókavörslu o.fl. Þá hafa stofnanirnar, sem ráðgert er að sameina með frumvarpi þessu, nú þegar í fastri vinnu fræðimenn sem ráðnir hafa verið til ákveðinna fræðilegra verkefna með og undir umsjón sérfræðinga. Oftast eru einhverjir fræðimenn eða stúdentar í tímabundnum störfum við fræðileg verkefni sem greidd eru af styrkjafé. Hins vegar hafa Stofnun Árna Magnússonar og Orðabók Háskóla Íslands ráðið sérfræðinga til starfa samkvæmt reglum sem eru í öllu hliðstæðar reglum um ráðningu kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands. Einnig hefur framgangur þeirra í fræðimenn og vísindamenn miðast við stigamat og málsmeðferð verið með sama hætti og við Háskóla Íslands. Mikilvægt er að tryggja þessi atriði í lögum svo að fullvissa ríki um hæfi þeirra sem ráðast til rannsóknarstarfa við Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun. Þetta skiptir máli vegna alþjóðlegra samskipta stofnunarinnar og hvernig hún verður metin við styrkjaumsóknir, vegna þess hlutverks sem deildir Háskóla Íslands kunna að fela starfsmönnum við kennslu og leiðbeiningu nema í meistara- og doktorsnámi og loks er það mikilvæg trygging fyrir því að réttindi sem þeir hafa aflað sér í þessu kerfi glatist ekki.
    Þá kveður 2. mgr. á um að stofnunin setji sér siðareglur, m.a. um fræðilegt sjálfstæði starfsmanna. Með þessu er lögð áhersla á mikilvægi fræðilegs sjálfstæðis þeirra starfsmanna sem stunda rannsóknir við stofnunina en um leið er eðlilegt að því sé mörkuð umgjörð í siðareglum sem stofnunin setur.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun sé, jafnframt öðrum verkefnum skv. 3. gr., skrifstofa Íslenskrar málnefndar sem menntamálaráðherra skipar. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að gildandi lög um Íslenska málnefnd nr. 2/1990, með síðari breytingum, falli úr gildi og Íslensk málstöð verði ein af þeim stofnunum sem sameinist Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun. Í samræmi við það er lagt til að hin nýja stofnun verði skrifstofa Íslenskrar málnefndar, en samkvæmt gildandi lögum um málnefndina er Íslensk málstöð skrifstofa hennar.
    Þá er lagt til að hlutverk Íslenskrar málnefndar verði að semja íslenskar ritreglur sem gildi m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og menntamálaráðherra gefur út. Grundvallarbreytingar á ritreglum eru háðar samþykki menntamálaráðherra. Með þessu er skotið lagastoð undir íslenskar ritreglur, en menntamálaráðherra hefur gefið út auglýsingu um íslenska stafsetningu og íslenska greinarmerkjasetningu, án sérstakrar lagastoðar. Rétt þykir að fela Íslenskri málnefnd að semja ritreglurnar í samræmi við það hlutverk nefndarinnar sem frumvarp þetta ætlar henni, að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni íslenskrar tungu og gera tillögu til menntamálaráðherra um málstefnu, auk þess sem hún álykti árlega um stöðu íslenskrar tungu. Samkvæmt gildandi lögum um málnefndina er eitt af hlutverkum hennar að gefa út rit til fræðslu og leiðbeininga um íslenskt mál, þar á meðal stafsetningarorðabók og önnur hagnýt orðasöfn. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun hafi það hlutverk með höndum, en í e-lið 3. gr. frumvarpsins segir að stofnunin gefi út fræðirit, texta eftir handritum, þjóðfræðaefni, lýsandi orða- og nafnabækur og nafnaskrár, auk leiðbeinandi orðabóka.
    Í gildandi lögum um Íslenska málnefnd tilnefna eftirtaldir aðilar fulltrúa í nefndina: Háskólaráð, heimspekideild Háskóla Íslands, Orðabók Háskóla Íslands, Örnefnanefnd, Kennaraháskóli Íslands, Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Staðlaráð Íslands, Samtök móðurmálskennara, Rithöfundasamband Íslands, Blaðamannafélag Íslands og Hagþenkir. Auk þess skipar ráðherra þrjá menn frá öðrum stofnunum, félögum eða samtökum sem fást við málrækt eða hafa mikil áhrif á málfar almennings og skal að minnsta kosti einn þeirra vera úr röðum íðorðafólks. Í frumvarpi þessu er ekki talið rétt að fjölga fulltrúum í málnefndinni en lögð er til breyting á því hverjir tilnefna þá. Lagt er til að í stað þess að Orðabók Háskóla Íslands, Örnefnanefnd og Staðlaráð Íslands tilnefni komi tilnefningar frá fleiri háskólum en nú er. Þykir rétt að Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands verði veittur tilnefningarréttur, einkum vegna þess að allir þessir háskólar bjóða nú upp á kennaranám. Jafnframt verði talað um hugvísindadeild Háskóla Íslands í stað heimspekideildar en nafni deildarinnar var nýlega breytt. Þá er að lokum gerð sú breyting að ekki er tilgreint úr hvaða röðum ráðherra skipi fulltrúa sína í nefndina.

Um 10. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. er kveðið á um að kostnaður við rekstur Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum. Rétt þykir að árétta að stofnuninni er ætlað að gera samninga við Háskóla Íslands og aðrar háskólastofnanir um samstarf og í þeim samningum verði skýrt tekið á því hver beri kostnað af útgjaldaþáttunum sem af þeim leiða.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun verði heimilað að innheimta gjöld fyrir afrit gagna úr segulbandasöfnum, fyrir gerð og birtingu ljósmynda úr handritum, fyrir hvers konar sérunnin afrit af gögnum í vörslu stofnunarinnar, fyrir afnot af rannsóknaaðstöðu, fyrir veitta sérfræðiþjónustu vegna yfirlesturs gagna og gagnaöflunar, og fyrir aðgang að sýningum á vegum stofnunarinnar. Stofnunin setur gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku og við gerð hennar ber að taka mið af því að fjárhæð gjaldtöku fyrir viðkomandi þjónustu verði ekki hærri en sem nemur kostnaði við að veita hana.
    Þá hefur 3. mgr. að geyma almenna heimild til handa menntamálaráðherra að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

Um 11 gr.

    Lagt er til að verði frumvarp þetta að lögum taki þau gildi 1. september 2006. Jafnframt falli þá úr gildi lög um þær þrjár stofnanir sem lúta sérstökum lögum og sameinaðar verða í Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun, þ.e. Íslensk málstöð, Örnefnastofnun Íslands og Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Orðabók Háskólans og Stofnun Sigurðar Nordals heyra undir háskólaráð Háskóla Íslands og starfa á grundvelli reglna sem settar eru af því, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands. Ljóst er að þær reglur munu einnig falla úr gildi verði frumvarp þetta að lögum. Þá geymir grein þessi nauðsynlegar breytingar á öðrum lögum en þær snúa einungis að því að nafn Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar komi í stað nafna þeirra stofnana sem sameinast í henni samkvæmt frumvarpinu.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða kemur fram að við gildistöku laga þessara taki Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun við eignum og skuldbindingum Íslenskrar málstöðvar, Orðabókar Háskóla Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnunar Sigurðar Nordals og Örnefnastofnunar Íslands. Í því felst m.a. að starfsmenn framangreindra stofnana verða starfsmenn Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar. Gert er ráð fyrir að hin nýja stofnun yfirtaki ráðningarsamninga starfsmannanna og að ekki verði um breytingu á ráðningarkjörum þeirra að ræða við sameininguna. Eftir sem áður gilda um starfsmennina ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. segir í 2. mgr. að störf forstöðumanna þeirra stofnana, sem sameinast í Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun, verði lögð niður. Niðurlagning á störfum forstöðumanna Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi og Orðabókar Háskólans hefur þó ekki áhrif á ráðningu þeirra í störf prófessora við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Öllum fráfarandi forstöðumönnum skulu boðin rannsóknarstörf við Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun og skulu þeir við ráðningu í þau störf halda öllum áunnum réttindum sínum úr fyrra starfi.
    Í 3. mgr. er tekið fram að þrátt fyrir ákvæði 11. gr., þar sem segir að lögin skuli taka gildi 1. september 2006, skuli stjórn skv. 5. gr. skipuð eigi síðar en 1. júní 2006, til að veita umsögn um skipun í embætti forstöðumanns skv. 4. gr. Jafnframt segir að gengið skuli frá skipun forstöðumanns skv. 4. gr. eigi síðar en 1. september 2006, þegar lögin taka gildi.
    Í 4. mgr. er að lokum áréttað að ónýttar fjárheimildir á fjárlögum 2006 fyrir Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Íslenska málstöð, Orðabók Háskóla Íslands, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun Íslands við gildistöku laga þessara renni til Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.

    Tilgangur frumvarpsins er að færa í eina stofnun verkefni sem sinnt hefur verið hjá Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Íslenskri málstöð, Örnefnastofnun Íslands, Orðabók Háskóla Íslands og Stofnun Sigurðar Nordals, en þessar stofnanir verða lagðar niður.
    Hin nýja stofnun mun taka við hlutverki, eignum og skuldbindingum frá áðurnefndum aðilum og hefur frumvarpið að þessu leyti ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs heldur hefur það fyrst og fremst áhrif á skipulagsleg atriði sem stuðla að hagræðingu og efla innra starf stofnananna.
    Samkvæmt frumvarpinu verða starfsmenn framangreindra stofnana starfsmenn hinnar nýju stofnunar og er því ekki gert ráð fyrir að breytingin hafi áhrif á kostnað. Störf forstöðumanna stofnana sem sameinast verða lögð niður en bjóða skal þeim sem störfunum gegna rannsóknarstörf við hina nýju stofnun. Lagt er til að tvö rannsóknarstörf hjá stofnuninni verði tengd við nöfn og fræðilega arfleifð látinna fræðimanna á sviði íslenskra fræða og hefur tillagan fyrst og fremst táknrænt gildi en eykur ekki útgjöld nema fyrst verði veitt til þeirra fé í fjárlögum. Menntamálaráðherra mun skipa forstöðumann stofnunarinnar sem leiðir til aukinna útgjalda ef sá sem verður skipaður kemur ekki úr hópi starfsmanna sem flytjast til hinnar nýju stofnunar. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á einföldun stjórnkerfis þeirra verkefna sem um ræðir, m.a. fækkun stjórnenda, stjórna og nefnda, munu lækka kostnað við stjórnsýslu og rekstur, en við gerð þessa kostnaðarmats liggja ekki fyrir upplýsingar um fjárhæðir í þessu sambandi.
    Stofnanir sem hér um ræðir hafa verið í sambýli með Háskóla Íslands og notið ýmiss konar þjónustu frá skólanum án þess að greiða hana fullu verði. Fjármálaráðuneytið telur að sameining stofnananna og breyting á formlegum tengslum gagnvart Háskóla Íslands hafi ekki áhrif á útgjöld ríkisins en hins vegar kunni bæði útgjöld og fjárveitingar að færast á milli stofnana vegna innbyrðis breytinga og framsetningar.
    Gert er ráð fyrir að þær breytingar sem raktar eru að framan gætu leitt til biðlauna og annars tímabundins kostnaðar að hámarki 30 m.kr. sem verði a.m.k. að einhverju leyti mætt með því að ráða ekki í laus störf. Launakostnaður vegna nýs forstöðumanns gæti numið 2 m.kr. á árinu 2006 en allt að 8 m.kr. á ári frá og með árinu 2007. Á móti þessum útgjöldum er gert ráð fyrir sparnaði vegna einfaldara stjórnkerfis eins og áður er rakið og að gengið verði á jákvæðan höfuðstól en hann nam 8,4 m.kr. hjá hlutaðeigandi stofnunum í árslok 2004.
    Á grundvelli framangreindra forsendna telur fjármálaráðuneytið að frumvarpið leiði ekki til aukins kostnaðar ríkisins á næsta ári.