Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 333. máls.

Þskj. 365  —  333. mál.
Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu
og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna orðast svo: Verðmiðlunargjaldið skal vera 0,65 kr. á lítra af mjólk sem lögð er inn í afurðastöð innan greiðslumarks.

2. gr.

    1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
    Innheimta skal verðskerðingargjald af verði hrossakjöts til framleiðenda. Verðskerðingargjaldið skal vera 2% af framleiðandaverði hrossakjöts. Innheimta skal verðskerðingargjald á heildsölustigi af kindakjöti sem ætlað er til sölu á innlendum markaði. Verðskerðingargjaldið skal vera 2 kr. á kg.
    

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í tengslum við frumvarp til breytinga á lögum um búnaðargjald, nr. 84/1997, og í kjölfar laga nr. 68/2005, um breytingu á lögum nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins, þar sem kveðið var á um sölu Lánasjóðs landbúnaðarins, hefur komið fram ósk frá hagsmunaðilum um niðurfellingu á verðskerðingargjaldi á nautgripakjöti í samræmi við 20. gr. laganna.
    Í frumvarpi til breytinga á lögum um búnaðargjald, nr. 84/1997, er lagt til að búnaðargjald lækki úr 2% af gjaldstofni niður í 1,2% af gjaldstofni. Þar skiptir mestu niðurfelling hluta búnaðargjaldsins sem áður var greitt til Lánasjóðs landbúnaðarins. Búnaðargjaldinu er skipt á milli búgreina og síðan er hlutfallsleg skipting tekna þess á milli Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambandanna, búgreinasamtaka og Bjargráðasjóðs. Tillaga Bændasamtaka Íslands um 0,3% hlut búnaðargjalds af nautgripaafurðum til búgreinafélagsins byggist á því að samtímis verði fellt niður verðskerðingargjald af nautgripakjöti sem innheimt hefur verið í samræmi við 20. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.
    Loks hafa hagsmunasamtök sauðfjárbænda og sláturleyfishafa komist að samkomulagi um að falla frá verðmiðlun við flutning sláturfjár að afurðastöð og kindakjöts á markað. Því er lagt til að 5 kr. verðmiðlunargjald falli niður í 19. gr. laganna en í stað þess komi 2 kr. verðskerðingargjald á kg skv. 20. gr. laganna, þó á heildsölustigi eins og var í 19. gr. Tekjum af gjöldum samkvæmt þeirri grein skal varið til markaðsmála, en samsvarandi hluta af 5 kr. gjaldinu hefur verið varið til þeirra mála.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993,
um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til tvær meginbreytingar á verðmiðlunargjöldum landbúnaðarvara. Annars vegar er lagt til að verðmiðlunargjald á kindakjöt skv. 19. gr. laganna falli niður en þess í stað verði tekið upp verðskerðingargjald á kindakjöt í 20. gr., og hins vegar að verðskerðingargjald á nautgripakjöt falli niður. Frumvarpið er flutt í tengslum við frumvarp til laga um breytingar á lögum um búnaðargjald, nr. 84/1997, þar sem kveðið er á um niðurfellingu þess hluta búnaðargjalds sem rennur til Lánasjóðs landbúnaðarins og hlutfallslega skiptingu tekna af búnaðargjaldi.
    Á árinu 2004 námu tekjur af verðmiðlunargjaldi á kindakjöt 34,8 m.kr. og tekjur af verðskerðingargjaldi á nautgripakjöt 15,7 m.kr. Verði frumvarpið að lögum falla þessar tekjur niður en á móti kemur að 2 kr. verðskerðingargjald verður lagt á hvert kg kindakjöts og miðað við 8.500 tonna ársframleiðslu munu tekjur af gjaldinu nema 17 m.kr. á ári.
    Frumvarpið mun ekki hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs, verði það að lögum. Áhrif þess á ríkissjóð munu hins vegar birtast í um 33 m.kr. lækkun ríkistekna til verðmiðlunar landbúnaðarvara á tekjuhlið fjárlaga og ríkisreiknings og sambærilegri lækkun verðmiðlunargjalda á gjaldahlið fjárlaga og ríkisreiknins. Áhrif frumvarpsins á afkomu ríkissjóðs eru engin.