Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 345. máls.

Þskj. 379  —  345. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu,
með síðari breytingum (fylgiréttargjald).

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    6. mgr. 23. gr. laganna fellur brott.
         

2. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 23. gr. a, sem orðast svo:
    Á málverk, myndir og listmuni, sem seldir eru á listmunauppboðum, skal leggja gjald er renni til listamanna eða erfingja þeirra samkvæmt höfundalögum.
    Gjaldið skal vera í íslenskum krónum og reiknast þannig:
     1.      10% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar að hámarki 3.000 evrum;
     2.      5% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 3.000,01 evru upp í 50.000 evrur;
     3.      3% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 50.000,01 evru upp í 200.000 evrur;
     4.      1% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 200.000,01 evru upp í 350.000 evrur;
     5.      0,5% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 350.000,01 evru upp í 500.000 evrur;
     6.      0,25% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar fjárhæð umfram 500.000 evrur.
    Gjaldið skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en sem samsvarar 12.500 evrum.
    Gengið skal miðað við sölugengi á söludegi.
    Sé höfundaréttur fallinn niður eða fénu verður ekki ráðstafað rennur það til styrkja eða starfslauna handa myndlistarmönnum.
    Menntamálaráðherra getur sett nánari reglur um fylgiréttargjald að höfðu samráði við Myndhöfundasjóð Íslands – Myndstef og kveðið þar á um viðurlög við brotum á reglunum, sbr. 24. gr. Um undanþágu frá virðisaukaskatti vegna sölu á listmunauppboði vísast til 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    

3. gr.

    Í stað orðanna „7. mgr. 23. gr.“ í 2. mgr. 24. gr. laganna kemur: 6. mgr. 23. gr.

4. gr.

    Lög þessi innleiða listmunauppboðsákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/84/EB frá 27. september 2001, um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks (fylgirétt).

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í viðskiptaráðuneytinu vegna innleiðingar ákvæða í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/84/EB frá 27. september 2001, um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks (fylgirétt). Tilskipunin er í fylgiskjali II.
    Málið var kynnt á 128. löggjafarþingi 2002–2003 en þar lagði utanríkisráðherra fram tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2002, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn (þingskjal 1081, 665. mál). Fylgiskjal I með tillögunni var ákvörðun nefndarinnar frá 6. desember 2002 og fylgiskjal II var framangreind tilskipun. Tekið var fram í þingsályktunartillögunni að breyta þyrfti lögum hér á landi, þ.e. nánar tilteknum ákvæðum í 25. gr. b höfundalaga, nr. 73/1972, og 23. gr. laga um verslunaratvinnu, nr. 28/1998. Var þar greint frá því að fyrrgreinda lagaákvæðið mælti sérstaklega fyrir um að við endursölu á listaverkum í atvinnuskyni skyldi leggja 10% gjald á söluverð verkanna sem rynni til höfundar listaverks. Síðargreinda ákvæðið tæki sérstaklega til sölu á listmunauppboðum en þar segði að á málverk, myndir og listmuni, sem seldir væru á listmunauppboðum, skyldi leggja 10% gjald er rynni til listamannanna eða erfingja þeirra samkvæmt höfundalögum. Jafnframt var þar tekið fram að ákvæði tilskipunarinnar gerðu ekki greinarmun á sölu listaverka á listmunauppboðum og hjá listaverkasölum að öðru leyti en giltu ekki um sölu manna á milli frekar en gildandi íslensk lög gerðu. Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir breytingu á lögum um verslunaratvinnu. Til fullnægjandi innleiðingar viðkomandi gerðar þarf einnig að breyta höfundalögum en menntamálaráðherra mun standa að gerð frumvarps um það efni.
    Meginþýðing tilskipunarinnar hér á landi er sú að fylgiréttargjald (endursölugjald) mun lækka. EES-ríkjum er heimilt, en ekki skylt, að undanþiggja gjaldinu verk sem ekki ná tiltekinni sölufjárhæð í íslenskum krónum sem þó má ekki samsvara hærri fjárhæð en 3000 evrum (231.090 kr. miðað við sölugengi 5. september 2005, 1 evra er 77,03 kr.). Rétt þykir að nýta ekki þessa heimild heldur halda því 10% gjaldi sem lagt er á verk undir þessum mörkum nú. Síðan skal gjaldið ákveðið í fimm þrepum: 5% upp í 50.000 evrur (mætti vera 4%), 3% af þeim hluta söluverðsins sem er frá 50.000,01 evru upp í 200.000 evrur, 1% af þeim hluta söluverðsins sem er frá 200.000,01 evru upp í 350.000 evrur, 0,5% af þeim hluta söluverðsins sem er frá 350.000,01 evru upp í 500.000 evrur og loks 0,25 af þeim hluta söluverðsins sem er umfram 500.000 evrur. Endursölugjaldið má þó aldrei nema hærri fjárhæð en 12.500 evrum. Með breytingum samkvæmt frumvarpinu lækkar fylgiréttargjald hér á landi því aðeins eins og nauðsynlegt er samkvæmt framangreindri tilskipun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með greininni er 6. mgr. 23. gr. laga um verslunaratvinnu felld niður, þ.e. ákvæði um álagningu fylgiréttargjalds, enda er gert ráð fyrir að ákvæðin, með nauðsynlegum breytingum vegna framangreindrar tilskipunar, verði samtímis flutt í nýja grein, 23. gr. a. Breyting verður á málsgreinatölu samkvæmt þessu.
    

Um 2. gr.

    Í nýrri grein, 23. gr. a, er gert ráð fyrir þeim ákvæðum núverandi 23. gr. laganna sem fjalla sérstaklega um fylgiréttargjald, með nauðsynlegum breytingum samkvæmt framangreindri tilskipun. Vísast til almennra athugasemda um nánari skýringar. Því skal þó bætt við hér að gjaldið lækkar mest á þeim verkum sem eru dýrust. Getur gjaldið mest lækkað úr 10% í 0,25%, sbr. þó hámarksverðið sem samsvarar 12.500 evrum. Önnur ákvæði gildandi laga, sem snerta fylgiréttargjaldið, haldast óbreytt.
    Taka má fram að við upptöku 10% fylgiréttargjalds á sínum tíma var felldur niður 24,5% söluskattur en síðar 22% virðisaukaskattur vegna sölu á listmunauppboðum. Hefur verð til kaupandans þannig lækkað til muna þótt til fylgiréttargjaldsins hafi komið.

Um 3. gr.

    Vegna breytinga skv. 1. gr. frumvarpsins breytist tilvísun í einni málsgrein í 24. gr. laganna.

Um 4. gr.

    Í greininni kemur fram á grundvelli hvaða EES-gerðar lögunum um verslunaratvinnu er breytt.

Um 5. gr.

    Gert er ráð fyrir gildistöku laganna 1. janúar 2006 í samræmi við ákvæði framangreindrar EES-gerðar.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 171/2002

frá 6. desember 2002

um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XVII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2000 frá 25. febrúar 2000 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/84/EB frá 27. september 2001 um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður komi aftan við lið 9b (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/71/EB) í XVII. viðauka við samninginn:

„9c.          32001 L 0084: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/84/EB frá 27. september 2001 um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks (fylgirétt) (Stjtíð. EB L 272, 13.10.2001, bls. 32).

            Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

            „EFTA-ríkjunum er boðið að senda fulltrúa á fundi samskiptanefndarinnar.““

2. gr.

Fullgiltur texti tilskipunar 2001/84/EB á íslensku og norsku fylgir sem viðauki við útgáfu þessarar ákvörðunar á hvoru máli fyrir sig.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 7. desember 2002, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 6. desember 2002.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Kjartan Jóhannsson


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P.K. Mannes     M. Brinkmann
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS2001/84/EB

frá 27. september 2001

um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks (fylgirétt)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ), á grundvelli sameiginlegs texta sem sáttanefndin samþykkti 6. júní 2001,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Á sviði höfundarréttar er fylgiréttur óframseljanlegur og óafsalanlegur réttur höfundar frumgerðar myndverks (tví- eða þrívíðs verks) til að njóta fjárhagslegs ávinnings af endurtekinni sölu viðkomandi listaverks.

     2)      Fylgirétturinn er ábatasamur og gerir höfundinum eða listamanninum kleift að njóta endurgjalds við endurtekin eigendaskipti á verkinu. Efnið, sem fylgirétturinn tekur til, er hin efnislega birtingarmynd verksins, þ.e.a.s. miðillinn sem verkið, sem nýtur verndar, er unnið í.

     3)      Fylgiréttinum er ætlað að tryggja höfundum myndverka hlut í þeirri fjárhagslegu velgengni sem frumgerðir verka þeirra njóta. Slíkur réttur stuðlar að því að unnt sé að jafna, í fjárhagslegu tilliti, hlut höfunda myndverka og annarra höfunda sem njóta þóknunar fyrir endurtekna nýtingu verka sinna.

     4)      Fylgirétturinn er óaðskiljanlegur hluti höfundarréttar og grundvallarforréttindi höfunda. Með því að koma slíkum rétti á í öllum aðildarríkjunum er þeirri þörf fullnægt að veita höfundum fullnægjandi og viðtekna vernd.

     5)      Samkvæmt 4. mgr. 151. gr. sáttmálans skal bandalagið, í aðgerðum sínum samkvæmt öðrum ákvæðum sáttmálans, taka tillit til menningarlegra þátta.

     6)      Bernarsáttmálinn til verndar bókmenntum og listaverkum kveður á um að fylgiréttur sé því aðeins fyrir hendi að löggjöf heimalands höfundar leyfi slíkt. Rétturinn er því valkvæður og háður reglunni um gagnkvæmni. Af dómaframkvæmd dómstóls Evrópubandalaganna varðandi beitingu meginreglunnar um bann við mismunun, sem mælt er fyrir um í 12. gr. sáttmálans, leiðir það sem sýnt er fram á í dómsúrskurði frá 20. október 1993 í sameinuðum málum C-92/92 og C-326/92, Phil Collins ofl. ( 4 ), að ekki er unnt að styðjast við innlend ákvæði, sem fela í sér gagnkvæmniskilmála, í því skyni að neita ríkisborgurum annarra aðildarríkja um réttindi sem veitt eru innlendum höfundum. Beiting slíkra skilmála í bandalaginu stríðir gegn meginreglunni um jafna meðferð sem leiðir af banni við hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs.

     7)      Alþjóðavæðing markaðar bandalagsins á sviði nútíma- og samtímalistar, sem færist nú mjög í aukana fyrir áhrif hins nýja hagkerfis, og sú lagalega staða að fá ríki utan Evrópusambandsins viðurkenna fylgirétt gerir það að verkum að nauðsynlegt er fyrir Evrópubandalagið að hefja samningaviðræður út á við með það fyrir augum að gera ákvæði 14. gr. b í Bernarsáttmálanum skyldubundin.

     8)      Sjálf tilvist þessa alþjóðlega markaðar, ásamt því að fylgiréttur er ekki fyrir hendi í sumum aðildarríkjum og að misræmi ríkir, eins og sakir standa, milli innlendra kerfa þar sem rétturinn er þó viðurkenndur, gerir það að verkum að nauðsynlegt er að mæla fyrir um bráðabirgðaákvæði að því er varðar hvorttveggja, gildistöku réttarins og setningu efnislegra reglna um hann, sem viðhalda munu samkeppnishæfni evrópska markaðarins.

     9)      Eins og sakir standa er kveðið á um fylgiréttinn í löggjöf meirihluta aðildarríkjanna. Nokkur munur er á slíkum lögum þar sem þau eru til á annað borð, einkum að því er varðar þau verk sem lögin taka til, rétthafa fylgiréttargjalds, gjaldskrá, fyrir hvaða viðskipti ber að greiða og á hvaða grundvelli slíkar greiðslur eru reiknaðar. Það hefur veruleg áhrif á samkeppniskilyrði á hinum innri markaði hvort slíkur réttur er fyrir hendi eða ekki þar eð hver sá sem vill selja listaverk verður að taka tillit til þess hvort skylt sé að greiða þóknun á grundvelli fylgiréttar. Þessi réttur stuðlar því fyrir sitt leyti að röskun á samkeppni auk tilfærslu á sölustarfsemi innan bandalagsins.

     10)      Slíkt misræmi, eftir því hvort fylgirétturinn er fyrir hendi eða ekki og eftir því hvernig aðildarríkin framfylgja honum þar sem hann er til, hefur bein og óæskileg áhrif á starfsemi innri markaðarins að því er tekur til listaverka eins og kveðið er á um í 14. gr. sáttmálans. Við slíkar aðstæður er 95. gr. sáttmálans viðeigandi lagagrunnur.

     11)      Meðal markmiða bandalagsins, eins og þau eru sett fram í sáttmálanum, er að leggja grunn að nánari einingu meðal þjóða Evrópu, að stuðla að nánari tengslum milli aðildarríkja bandalagsins og að tryggja efnahagslegar og félagslegar framfarir þeirra með því að taka höndum saman um að ryðja úr vegi þeim tálmum sem aðskilja lönd Evrópu. Í því skyni kveður sáttmálinn á um stofnun innri markaðar, þar sem gengið er út frá afnámi hindrana á frjálsum vöruflutningum, frelsi til að veita þjónustu og staðfesturétti, og um innleiðingu kerfis sem tryggir að samkeppni á hinum sameiginlega markaði raskist ekki. Samræming laga aðildarríkjanna um fylgirétt stuðlar að því að þessum markmiðum verði náð.

     12)      Með sjöttu tilskipun ráðsins 77/388/EBE frá 17. maí 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna um veltuskatt — sameiginlegt virðisaukaskattskerfi: samræmdur matsgrunnur ( 5 ) er innleitt í áföngum skattakerfi sem á m.a. við um listaverk. Ráðstafanir, sem eingöngu taka til skattamála, nægja ekki til að tryggja snurðulausa starfsemi listmarkaðarins. Þessu markmiði verður ekki náð án samræmingar á sviði fylgiréttarins.

     13)      Binda ber enda á núverandi ósamræmi milli laga sem veldur röskun á starfsemi innri markaðarins og koma skal í veg fyrir að slíkt ósamræmi geri vart við sig á ný. Ekki er þörf á að útrýma eða koma í veg fyrir að til verði ósamræmi sem ástæðulaust er að ætla að valdi röskun á starfsemi innri markaðarins.

     14)      Það er forsenda fyrir snurðulausri starfsemi innri markaðarins að samkeppnisskilyrðum sé ekki raskað. Mismunandi innlend ákvæði um fylgirétt hafa í för með sér röskun á samkeppni auk tilfærslu á sölustarfsemi innan bandalagsins og leiða til þess að listamenn njóta mismunandi kjara eftir því hvar verk þeirra eru seld. Í þessu málefni koma því við sögu fjölþjóðlegir þættir sem ekki verður stjórnað á fullnægjandi hátt með aðgerðum af hálfu aðildarríkjanna. Aðgerðaleysi bandalagsins myndi stríða gegn kröfum sáttmálans um að leiðrétta skuli samkeppnisraskanir og ójafna meðferð.

     15)      Því er nauðsynlegt, með tilliti til þess hversu ólík ákvæði landslaga eru, að samþykkja samræmingarráðstafanir til að bregðast við því misræmi sem er milli laga aðildarríkjanna á sviðum þar sem ætla má að slíkt misræmi geti af sér eða viðhaldi röskunum á samkeppnisskilyrðum. Hins vegar er ekki nauðsynlegt að samræma sérhvert ákvæði í lögum aðildarríkjanna um fylgirétt og nægir, til að gefa aðildarríkjum eins mikið svigrúm til ákvarðana og unnt er, að einskorða samræminguna við þau innlendu ákvæði sem hafa hvað beinust áhrif á starfsemi innri markaðarins.

     16)      Þessi tilskipun er því í heild sinni í samræmi við dreifræðis- og meðalhófsregluna eins og mælt er fyrir um í 5. gr. sáttmálans.

     17)      Samkvæmt tilskipun ráðsins 93/98/EBE frá 29. október 1993 um samhæfingu á hugtakinu um verndun höfundarréttar og tiltekinna skyldra réttinda ( 6 ) er verndartími höfundarréttar 70 ár frá dauða höfundar. Mæla ber fyrir um jafnlangt tímabil að því er varðar fylgirétt. Af þessum sökum geta einungis frumgerðir nútíma- og samtímalistaverka fallið innan gildissviðs fylgiréttarins. Til að aðildarríkjum, sem ekki beita fylgiréttinum í þágu listamanna við samþykkt þessarar tilskipunar, sé kleift að taka slíkan rétt upp hvert í sínu réttarkerfi og enn fremur til að rekstraraðilum í þessum aðildarríkjum sé gert kleift að laga sig smám saman að áðurnefndum rétti en halda jafnframt áfram lífvænlegum rekstri, ber þó að gefa hlutaðeigandi aðildarríkjum kost á því í takmarkaðan aðlögunartíma að beita ekki fylgiréttinum í þágu þeirra sem eru rétthafar listamannsins eftir lát hans.

     18)      Rýmka ber gildissvið fylgiréttarins þannig að hann taki til hvers konar endursölu, að undanskilinni þeirri sem á sér stað milli einstaklinga í eigin nafni, án milligöngu aðila sem fást við sölu listaverka í atvinnuskyni. Þessi réttur skal ekki ná til endursölu sem einstaklingar takast á hendur í eigin nafni til safna sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og eru opin almenningi. Að því er varðar sérstöðu listhúsa sem eignast hafa verk milliliðalaust frá höfundi skal aðildarríkjum gefinn kostur á að undanþiggja verkið fylgiréttargjaldi við endursölu sem á sér stað innan þriggja ára eftir að listasafnið eignast umrætt verk. Enn fremur ber að taka tillit til hagsmuna listamannsins með því að einskorða slíkar undanþágur við endursölu þar sem endursöluverðið er ekki hærra en 10 000 evrur.

     19)      Það skal tekið fram að samræming sú, sem af þessari tilskipun leiðir, gildir ekki um frumhandrit rithöfunda og tónskálda.

     20)      Mæla ber fyrir um skilvirkar reglur á grundvelli reynslu sem fengist hefur af fylgiréttinum á landsvísu. Rétt er að reikna fylgiréttargjaldið sem hundraðshluta söluverðs en ekki verðmætisaukningar verka sem hafa aukist að verðgildi.

     21)      Samræma ber flokka listaverka sem fylgirétturinn gildir um.

     22)      Undanþágur frá innheimtu fylgiréttargjalds af söluupphæðum, sem ekki ná tilteknu lágmarki, kunna að draga úr líkum á óeðlilega háum innheimtu- og stjórnsýslukostnaði, samanborið við hagnað listamannsins. Í samræmi við dreifræðisregluna skal aðildarríkjunum hins vegar heimilt að setja innlend mörk, sem eru lægri en lágmarksviðmiðun bandalagsins, í því skyni að efla hag nýliða í listum. Þegar þess er gætt hversu litlar fjárhæðir er um að ræða er ekki líklegt að þessi undanþága hafi veruleg áhrif á starfsemi innri markaðarins.

     23)      Eins og sakir standa er gjaldskráin, sem aðildarríkin ákveða fyrir álagningu fylgiréttargjalds, verulega mismunandi. Skilvirk starfsemi innri markaðarins fyrir nútíma- og samtímalistaverk krefst þess að gjaldskrárákvörðun sé samræmd eins og framast er unnt.

     24)      Í því skyni að sætta hagsmuni hinna ýmsu aðila markaðarins þar sem stunduð eru viðskipti með frumgerðir listaverka, er æskilegt að komið verði á gjaldskrárkerfi þar sem álagningarhlutfall fer stiglækkandi eftir gjaldþrepum. Mikils er um vert að draga úr hættu á tilflutningi sölustarfseminnar og að reglur bandalagsins um fylgirétt séu sniðgengnar.

     25)      Það á jafnan að koma í hlut seljanda að greiða fylgiréttargjaldið. Gefa ber aðildarríkjunum kost á því að kveða á um undanþágur frá þessari meginreglu að því er varðar ábyrgð á greiðslum. Fari sala fram í umboði einstaklings eða fyrirtækis telst sá einstaklingur eða fyrirtæki vera seljandinn.

     26)      Gera ber ráð fyrir því að unnt sé að leiðrétta lágmarksviðmiðunina og gjaldskrána reglulega. Í þessu skyni er við hæfi að fela bandalaginu það verkefni að semja með reglulegu millibili skýrslur um það hvernig fylgiréttinum er framfylgt í reynd í aðildarríkjunum og um áhrif hans á listmarkaðinn í bandalaginu og, þar sem við á, að gera tillögur að breytingum á þessari tilskipun.

     27)      Skylt er að tilgreina rétthafa fylgiréttargjalda og taka jafnframt tilhlýðilegt tillit til dreifræðisreglunnar. Ekki er viðeigandi að grípa til aðgerða með tilliti til erfðaréttar aðildarríkjanna í krafti þessarar tilskipunar. Hins vegar skulu rétthafar höfundar njóta að fullu fylgiréttarins að honum látnum, a.m.k. eftir að framangreindu aðlögunartímabili lýkur.

     28)      Það er á ábyrgð aðildarríkjanna að setja reglur um framkvæmd fylgiréttarins, einkum að því er varðar það hvernig honum er stjórnað. Í þessu tilliti kemur til greina að fela innheimtusamtökum umsjón með þessu. Aðildarríkin skulu tryggja að starfshættir innheimtusamtaka séu gagnsæir og skilvirkir. Aðildarríkin skulu einnig tryggja að fjárhæðir, sem ætlaðar eru höfundum sem eru ríkisborgarar annarra aðildarríkja, séu í reynd innheimtar og þeim úthlutað. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á fyrirkomulag innheimtu og úthlutunar í aðildarríkjunum.
     29)      Fylgiréttarins skulu þeir einir njóta sem eru ríkisborgarar í aðildarríkjum bandalagsins auk erlendra höfunda frá löndum sem veita höfundum, sem eru ríkisborgarar í aðildarríkjunum, slíka vernd. Aðildarríki skal eiga þess kost að veita erlendum höfundum, sem hafa fasta búsetu í því aðildarríki, þennan rétt.

     30)      Til að unnt sé að tryggja með raunhæfum hætti að aðildarríkin beiti fylgiréttinum í reynd skal koma á viðeigandi málsmeðferð við eftirlit með viðskiptum. Í þessu felst einnig að höfundur eða viðurkenndur fulltrúi hans á rétt á að fá allar nauðsynlegar upplýsingar frá þeim einstaklingi eða lögaðila sem er ábyrgur fyrir greiðslu fylgiréttargjalda. Aðildarríki, sem kveða á um sameiginlega umsýslu fylgiréttarins, geta enn fremur kveðið á um að þeir aðilar, sem ábyrgð bera á þeirri sameiginlegu umsýslu, skuli einir eiga rétt á upplýsingum.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI

GILDISSVIÐ

1. gr.

Inntak fylgiréttarins

1.     Aðildarríki skulu, í þágu höfundar frumgerðar listaverks, kveða á um fylgirétt sem skilgreina skal á þann veg að hann sé óafsalanlegur réttur, sem ekki verður fallið frá, jafnvel ekki fyrir fram, til fylgiréttargjalda sem eru ákvörðuð út frá söluverðinu sem fæst við hverja endursölu verksins eftir að höfundur lætur það af hendi við nýjan eiganda í fyrsta sinn.

2.     Réttur sá, sem um getur í 1. mgr., skal gilda um hverja endursölu þar sem í hlut eiga seljendur, kaupendur eða milliliðir, þeir aðilar, sem fást við sölu listaverka í atvinnuskyni svo sem uppboðshaldarar, listhús og yfirleitt hvers kyns listaverkasalar.

3.     Aðildarríki geta kveðið á um það að rétturinn, sem um getur í 1. mgr., gildi ekki við endursölu þegar seljandi hefur fengið verkið beint frá höfundi þess innan við þremur árum fyrr og þar sem söluverðið er ekki hærra en 10 000 evrur.

4.     Seljanda ber að greiða fylgiréttargjaldið. Aðildarríki geta kveðið á um það að einhver þeirra einstaklinga eða lögaðila, sem um getur í 2. mgr., annar en seljandi, skuli annaðhvort bera ábyrgð á greiðslu fylgiréttargjalda einn eða deila þeirri ábyrgð með seljanda.

2. gr.

Listaverk sem fylgirétturinn nær yfir

1.     Í þessari tilskipun merkir „frumgerð listaverks“ myndverk, svo sem myndir, samklippur, málverk, teikningar, stungur, þrykk, litógrafíur (steinprent), höggmyndir, listvefnað, keramík (steinleir), glermuni og ljósmyndir, svo fremi að um sé að ræða verk gerð af listamanninum sjálfum eða eintök sem teljast vera frumgerðir listaverka.

2.     Eintök listaverka, sem þessi tilskipun tekur til og eru gerð í takmörkuðu upplagi af listamanninum sjálfum eða með hans leyfi, skulu teljast frumgerðir listaverka í skilningi þessarar tilskipunar. Þess er jafnan vænst að slík eintök hafi verið tölusett, merkt eða á annan viðeigandi hátt viðurkennd af listamanninum.

II. KAFLI

SÉRSTÖK ÁKVÆÐI

3. gr.

Lágmarksfjárhæð

1.     Það kemur í hlut aðildarríkjanna að ákveða það lágmarkssöluverð sem þarf til að sala sem um getur í 1. gr. falli undir ákvæði um fylgirétt.

2.     Þetta lágmarkssöluverð má ekki í neinum tilvikum fara yfir 3 000 evrur.

4. gr.

Gjaldskrá

1.     Fylgiréttargjaldið, sem kveðið er á um í 1. gr., skal ákveðið í samræmi við eftirfarandi gjaldskrá:

a)      4% af söluverðinu upp að 50 000 evrum;

b)      3% af þeim hluta söluverðsins sem er frá 50 000,01 evrum upp í 200 000 evrur;

c)      1% af þeim hluta söluverðsins sem er frá 200 000,01 evrum upp í 350 000 evrur;

d)      0,5% af þeim hluta söluverðsins sem er frá 350 000,01 evrum upp í 500 000 evrur;

e)      0,25% af þeim hluta söluverðsins sem fer yfir 500 000 evrur.

Fylgiréttargjaldið má þó aldrei nema hærri fjárhæð en 12 500 evrum.

2.     Þrátt fyrir 1. mgr. er aðildarríkjum heimilt að leggja á gjald sem nemur 5% af þeim hluta söluverðsins sem um getur í a-lið 1. mgr.

3.     Ef lágmarkssöluverðið er lægra en 3 000 evrur skal aðildarríkið einnig ákveða þá álagningu sem á við þann hluta söluverðsins sem er 3 000 evrur eða lægri; þetta gjald má ekki vera lægra en 4%.

5. gr.

Grundvöllur útreikninga

Söluverðið, sem um getur í 3. og 4. gr., er söluverðið án skatts.

6. gr.

Rétthafar fylgiréttargjalda

1.     Greiða ber höfundi verksins fylgiréttargjaldið sem kveðið er á um í 1. gr. en rétthöfum hans að honum látnum, sbr. þó 2. mgr. 8. gr.

2.     Aðildarríkjum er heimilt að kveða á um, skyldubundna eða valkvæða, sameiginlega umsýslu fylgiréttarins sem kveðið er á um í 1. gr.

7. gr.

Ríkisborgarar þriðju landa sem eru rétthafar fylgiréttargjalda

1.     Aðildarríki skulu kveða á um að höfundar, sem eru ríkisborgarar þriðju landa og, með fyrirvara um 2. mgr. 8. gr., síðari handhafar réttinda þeirra, skuli njóta fylgiréttarins í samræmi við þessa tilskipun og í samræmi við löggjöf viðkomandi aðildarríkis en því aðeins að landið, þar sem höfundurinn eða síðari handhafi réttinda hans er með ríkisfang, heimili að veita höfundum frá aðildarríkjunum og síðari handhöfum réttinda þeirra vernd fylgiréttar í því landi.

2.     Á grundvelli upplýsinga, sem aðildarríkin veita, skal framkvæmdastjórnin, eins fljótt og auðið er, gefa út leiðbeinandi skrá yfir þau þriðju lönd sem uppfylla skilyrðin sem sett eru fram í 1. mgr. Þessi skrá skal uppfærð í samræmi við nýjustu upplýsingar.

3.     Sérhverju aðildarríki er heimilt, að því er varðar vernd fylgiréttar, að veita höfundum sem ekki eru ríkisborgarar í því aðildarríki, en hafa þar fasta búsetu, sömu kjör og innlendum höfundum.

8. gr.

Verndartími fylgiréttarins

1.     Verndartími fylgiréttarins skal svara til þess tíma sem mælt er fyrir um í 1. gr. tilskipunar 93/98/EBE.

2.     Þrátt fyrir 1. mgr. er aðildarríkjum, sem ekki beita fylgiréttinum [við gildistökuna sem um getur í 13. gr.], ekki skylt, á tímabili sem rennur út eigi síðar en 1. janúar 2010, að beita fylgiréttinum í þágu rétthafa listamannsins að honum látnum.

3.     Til að rekstraraðilum gefist færi á að laga sig smám saman að fyrirkomulagi fylgiréttarins en halda jafnframt áfram lífvænlegum rekstri getur aðildarríki, sem 2. mgr. gildir um, fengið aðlögunartíma ef nauðsyn krefur, allt að tveimur árum í viðbót, áður en þess verður krafist að það beiti fylgiréttinum í þágu þeirra sem eru rétthafar listamannsins eftir lát hans. Eigi síðar en 12 mánuðum fyrir lok þess tímabils, sem um getur í 2. mgr., skal hlutaðeigandi aðildarríki láta framkvæmdastjórninni í té upplýsingar um framangreind atriði ásamt rökstuðningi þannig að framkvæmdastjórnin geti skilað áliti, að undangengnu viðeigandi samráði, innan þriggja mánaða eftir að henni berast þessar upplýsingar. Ef aðildarríki ákveður að fara ekki eftir áliti framkvæmdastjórnarinnar skal það gera framkvæmdastjórninni grein fyrir því og rökstyðja ákvörðun sína innan eins mánaðar. Tilkynning aðildarríkisins og rökstuðningurinn með henni, svo og álit framkvæmdastjórnarinnar, skulu birtast í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna og send Evrópuþinginu.

4.     Séu alþjóðlegar samningaviðræður, sem miða að því að víkka út fylgiréttinn á alþjóðavettvangi, farsællega til lykta leiddar innan þeirra tímamarka sem um getur í 2. og 3. mgr. 8. gr. skal framkvæmdastjórnin leggja fram viðeigandi tillögur.

9. gr.

Réttur til upplýsinga

Aðildarríkin skulu setja ákvæði þess efnis að rétthafar skv. 6. gr. geti í þrjú ár eftir að endursalan fer fram krafið þá aðila sem fást við sölu listaverka í atvinnuskyni og um getur í 2. mgr. 1. gr. um hverjar þær upplýsingar sem nauðsynlegar kunna að reynast til að tryggja greiðslu fylgiréttargjalds að því er varðar endursöluna.

III. KAFLI

LOKAÁKVÆÐI

10. gr.

Tímamörk

Þessi tilskipun gildir að því er varðar allar frumgerðir listaverka samkvæmt skilgreiningu 2. gr. sem njóta enn verndar 1. janúar 2006 samkvæmt löggjöf aðildarríkjanna á sviði höfundaréttar eða sem fullnægja viðmiðunum fyrir vernd samkvæmt ákvæðum þessarar tilskipunar á þeim degi.

11. gr.

Endurskoðunarákvæði

1.     Eigi síðar en 1. janúar 2009 og á fjögurra ára fresti eftir það skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið, ráðið og efnahags- og félagsmálanefndina um framkvæmd og áhrif þessarar tilskipunar með sérstöku tilliti til samkeppnishæfni markaðar bandalagsins á sviði nútíma- og samtímalistar, einkum með tilliti til stöðu bandalagsins samanborið við hliðstæða markaði, þar sem fylgiréttinum er ekki beitt, og eflingar listrænnar sköpunar og stjórnunaraðferða í aðildarríkjunum. Framkvæmdastjórnin skal einkum rannsaka áhrif tilskipunarinnar á innri markaðinn og afleiðingar tilkomu fylgiréttarins í þeim aðildarríkjum þar sem hann var ekki í gildi samkvæmt landslögum fyrir gildistöku þessarar tilskipunar. Framkvæmdastjórnin skal, eftir því sem við á, leggja fram tillögur um að laga lágmarksfjárhæðina og fylgiréttargjaldið að breytingum á þessu sviði, tillögur varðandi hámarksfjárhæðina, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 4. gr., og hverjar þær tillögur sem hún kann að telja nauðsynlegar til að efla skilvirkni þessarar tilskipunar.

2.     Tengslanefnd er hér með komið á fót. Hún skal skipuð fulltrúum lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna. Fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar skal gegna formennsku í nefndinni og skal nefndin funda að frumkvæði formanns hennar eða að beiðni sendinefndar aðildarríkis.

3.     Hlutverk nefndarinnar er sem hér segir:

—    að skipuleggja samráð um öll álitamál sem rísa vegna beitingar þessarar tilskipunar;

—    að greiða fyrir skiptum á upplýsingum milli framkvæmdastjórnarinnar og aðildarríkjanna um þá framvindu sem máli skiptir á vettvangi listmarkaðarins í bandalaginu.

12. gr.

Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 1. janúar 2006. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni þau ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

13. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á birtingardegi hennar í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

14. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 27. september 2001.

Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
N. FONTAINE C. PICQUÉ
forseti. forseti.
Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneytið,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 28/1998,
um verslunaratvinnu, með síðari breytingum.

    Markmiðið með frumvarpinu er að innleiða ákvæði í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/84/EB frá 27. september 2001, um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks. Í frumvarpinu er fjallað um að gjald á málverk, myndir og listmuni, sem seldir eru á listmunauppboðum, skuli renna til listamanna eða erfingja þeirra samkvæmt höfundalögum. Sé höfundaréttur fallinn niður eða fénu verður ekki ráðstafað rennur það til starfslauna handa myndlistarmönnum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum hefur það óverulegan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.


Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB L 103, 12.4.2001, bls. 44 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. …, 12.4.2001, bls. …
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 272, 13.10.2001, bls. 32.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 178, 21.6.1996, bls. 16 og Stjtíð. EB C 125, 23.4.1998, bls. 8.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 75, 10.3.1997, bls. 17.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 9. apríl 1997 (Stjtíð. EB C 132, 28.4.1997, bls. 88), staðfest 27. október 1999, sameiginleg afstaða ráðsins frá 19. júní 2000 (Stjtíð. EB C 300, 20.10.2000, bls. 1) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 13. desember 2000 (Stjtíð. EB C 232, 17.8.2001, bls. 173). Ákvörðun Evrópuþingsins frá 3. júlí 2001 og ákvörðun ráðsins frá 19. júlí 2001.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Dómasafn EB (ECR) 1993, I-5145.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 145, 13.6.1977, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 1999/85/EB (Stjtíð. EB L 277, 28.10.1999, bls. 34).
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 290, 24.11.1993, bls. 9.