Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 371. máls.

Þskj. 427  —  371. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
I. KAFLI
    Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „10%“ í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: 12%.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „65%“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: 75%.
     b.      Í stað hlutfallstölunnar „50%“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: 60%.
     c.      Í stað orðsins „ársuppgjöri“ í 1. málsl. 7. mgr. kemur: uppgjöri.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna skal á árinu 2006 lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs vera a.m.k. 11% af iðgjaldsstofni.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins,
með síðari breytingum.

4. gr.


    Í stað hlutfallstölunnar „6%“ í 1. og 3. málsl. 4. mgr. 13. gr. laganna kemur: 8%.

5. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „6%“ í 3. mgr. 23. gr. laganna kemur: að lágmarki 8%.

6. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 3. málsl. 4. mgr. 13. gr. skulu launagreiðendur á árinu 2006 greiða að lágmarki 7% af launum þeim er sjóðfélagar taka hjá þeim, sbr. 1. mgr. sömu greinar, í iðgjald til A-deildar sjóðsins og skal greiða þau sjóðnum samtímis iðgjöldum sjóðfélaga.
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 23. gr. skulu launagreiðendur á árinu 2006 greiða að lágmarki 7% af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót, er sjóðfélagi tekur hjá þeim, í iðgjöld til sjóðsins, og skal greiða þau sjóðnum innan tveggja vikna frá útborgun launanna.

III. KAFLI
    Breyting á lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga,
með síðari breytingum.

7. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „6%“ í 3. mgr. 7. gr. laganna kemur: að lágmarki 8%.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 7. gr. laganna skulu launagreiðendur á árinu 2006 greiða að lágmarki 7% af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót, er sjóðfélagi tekur hjá þeim, í iðgjöld til sjóðsins og skal greiða þau sjóðnum samtímis iðgjöldum sjóðfélaga.

IV. KAFLI
    Breyting á lögum nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda,
með síðari breytingum.

9. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Iðgjald til sjóðsins skal að lágmarki nema 12% af iðgjaldsstofni, sbr. 2. mgr., sem skiptist þannig að launþegi greiðir 4% en launagreiðandi að lágmarki 8%.

10. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. laganna skal iðgjald til sjóðsins á árinu 2006 að lágmarki nema 11% af iðgjaldsstofni, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna, sem skiptist þannig að launþegi greiðir 4% en launagreiðandi að lágmarki 7%.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.
11. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „6%“ í 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: 8%.

12. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna skal mótframlag á árinu 2006 vera að lágmarki 7% af iðgjaldsstofni.

VI. KAFLI
Gildistaka.
13. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvíþættar breytingar á lagaumhverfi lífeyrissjóða. Í fyrsta lagi er lagt til að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða verði hækkað til samræmis við það sem samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði, eða úr 10% í 12% í tveimur áföngum á næstu tveimur árum. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem snúa að fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða. Með umræddum breytingum er stefnt að því að bæta starfsumhverfi lífeyrissjóða og laga starfsemi þeirra að breyttum aðstæðum á fjármálamarkaði í því skyni að auðvelda þeim að sinna því hlutverki sínu að ná sem mestri ávöxtun á fjármunum sínum með sem minnstri áhættu.
    Í I. kafla frumvarpsins er að finna tillögur um breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem fela í sér hækkun á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða og breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða.
    Í II.–V. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á sérlögum um einstaka lífeyrissjóði til samræmis við þá hækkun á lágmarksiðgjaldi sem fjallað er um í I. kafla frumvarpsins. Enn fremur eru lagðar til orðalagsbreytingar sem miða að því að gera ákvæði umræddra lagabálka um greiðslu lágmarksiðgjalds efnislega samhljóða sambærilegum ákvæðum í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 2. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða a.m.k. 10% af iðgjaldsstofni. Hér er um lágmarksiðgjald að ræða og því heimilt að semja um hærra hlutfall. Í 1. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um hækkun á þessu lágmarksiðgjaldi úr 10% í 12%. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpinu hefur verið samið um 2% hækkun á mótframlagi vinnuveitanda á almennum vinnumarkaði í tveimur áföngum, eða úr 6% í 7% frá og með 1. janúar 2005 og síðan úr 7% í 8% frá og með 1. janúar 2007. Þessi hækkun á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða, sem lögð er til hér er til samræmis við þær breytingar.

Um 2. gr.


     Um a-lið.
    Samkvæmt gildandi lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er almennt veðsetningarhlutfall fasteigna af metnu markaðsvirði 65% að hámarki. Í ljósi breyttra aðstæðna á fasteignalánamarkaði er hér lagt til að þetta hlutfall verði hækkað úr 65% í 75% af metnu markaðsvirði.
     Um b-lið.
    Hér er lögð til hækkun á heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í hlutabréfum, úr 50% í 60%. Með því er sveigjanleiki lífeyrissjóða til frekari fjárfestinga í hlutabréfum aukinn sem auðveldar þeim að ávaxta fé sitt á sem hagkvæmastan hátt á hverjum tíma.
     Um c-lið.
    Í ákvæðinu er lagt til að heimilt verði að meta hreina eign lífeyrissjóða við endurskoðað uppgjör innan ársins í stað þess að miða við síðasta ársuppgjör. Meginástæður þess eru þær að örar breytingar á verðbréfamarkaði á gengi verðbréfa geta leitt til verulegra breytinga á hreinni eign lífeyrissjóða frá síðasta endurskoðaða ársuppgjöri. Við slíkar aðstæður kann viðmiðun við síðasta endurskoðaða ársuppgjör að takmarka svigrúm lífeyrissjóða til að nýta sér þau fjárfestingartækifæri sem kunna að bjóðast með tilheyrandi skerðingu á ávöxtun sjóðanna. Er því talið eðlilegt að lífeyrissjóðum verði heimilt að meta hreina eign sína við endurskoðað uppgjör innan ársins í stað þess að vera bundnir við síðasta ársuppgjör við slíkt mat. Áfram verða gerðar ríkar kröfur um réttmæti umræddra gagna og þurfa uppgjörin að vera vottuð af löggiltum endurskoðanda.

Um 3. gr.


    Í greininni er bráðabirgðaákvæði sem mælir fyrir um að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skuli vera a.m.k. 11% af iðgjaldsstofni á árinu 2006. Nánari umfjöllun um ástæðu hækkunarinnar er að finna í almennum athugasemdum við lagafrumvarp þetta og í athugasemdum við 1. gr. þess.

Um 4.–12. gr.


    Í 4.–12. gr. frumvarpsins er lögð til hækkun á mótframlagi á móti iðgjaldi sjóðfélaga í samræmi við 1. og 3. gr. Miða ákvæðin að því að 1. janúar 2006 verði mótframlagið hækkað úr 6% í 7% og aftur 1. janúar 2007, úr 7% í 8%. Auk þess eru í 4.–10. gr. frumvarpsins lagðar til orðalagsbreytingar sem miða að því að gera þau ákvæði þar sem fjallað er um lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs efnislega samhljóða sambærilegum ákvæðum í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

    Í frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Annars vegar er lagt til að lögfest verði hækkun á lágmarksiðgjaldi í lífeyrissjóði um 2%, úr 10% í 12%, sem verði komin að fullu til framkvæmda 1. janúar 2007, eins og almennt hefur verið samið um í kjarasamningum. Hins vegar eru lagðar til þrjár breytingar á heimildum lífeyrissjóða til fjárfestingar en þær eru að heimild til veðsetningar á fasteignum fyrir skuldabréfalánum verði hækkuð úr 65% í 75% af markaðsvirði, að heimild til fjárfestingar í tilteknum tegundum verðbréfa verði hækkuð úr 50% í 60% af hreinni eign og að við mat á hreinni eign verði heimilt að miða við endurskoðað uppgjör í stað þess að þurfa jafnan að miða við síðasta endurskoðaða ársuppgjör. Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.