Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 382. máls.

Þskj. 442  —  382. mál.



Frumvarp til laga

um ráðstöfun fjár úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Af fé því sem rann í Verkefnasjóð sjávarútvegsins samkvæmt lögum nr. 27 14. apríl 2005, um breytingu á lögum nr. 152 27. desember 1996, um breytingu á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum, skulu 660 millj. kr. renna í ríkissjóð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 27. 14. apríl 2005, um breytingu á lögum nr. 152 27. desember 1996, um breytingu á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum, var ákveðið að stytta gildistíma laganna um Þróunarsjóðinn þannig að lögin féllu úr gildi 1. október 2005, þar sem verkefnum var lokið og höfuðstóll sjóðsins var orðinn jákvæður. Jafnframt var ákveðið að eignir sjóðsins umfram skuldir skyldu renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra verða varið til hafrannsókna.
    Í samræmi við framangreind lagaákvæði lauk starfsemi Þróunarsjóðs sjávarútvegsins þann 1. október sl. Stjórn sjóðsins hafði þá selt eignir sjóðsins og greitt upp skuldir hans. Er nú unnið að uppgjöri á Þróunarsjóðinum og gerð ársreiknings fyrir árið 2005. Hinn 1. október sl. afhenti stjórn sjóðsins Verkefnasjóði sjávarútvegsins um 689 millj. kr. Í ljósi þess hve hér er um háa fjárhæð að ræða þykir rétt að leggja til með frumvarpi þessu að 660 millj. kr. af því fé sem rann í Verkefnasjóðinn renni í ríkissjóð. Fé þessu skal varið til hafrannsókna og er því við það miðað að hafrannsóknir verði efldar og fé sem varið er til hafrannsókna aukið. Annars vegar er lagt til að í fjárlögum ársins 2006 verði rammi fjárveitinga Hafrannsóknastofnunarinnar hækkaður um 50 millj. kr. og um 100 millj. kr. frá og með fjárlögum ársins 2007. Enn fremur er gert ráð fyrir að reglum um úthlutun úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins verði breytt þannig að á árinu 2006 muni a.m.k. 25 millj. kr. af því fé sem Verkefnasjóðurinn hefur til úthlutunar verða varið til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli. Auglýst verður eftir umsóknum um styrki til hafrannsókna og geta allir sótt um styrk til sjóðsins. Faghópur mun fjalla um umsóknir og meta þær með hliðsjón af vísindalegu gildi rannsóknaverkefnanna. Með þessari tilhögun vinnst tvennt, annars vegar verða hafrannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar auknar í kjölfar hærri fjárveitinga og hins vegar gefst öðrum aðilum sem starfa utan Hafrannsóknastofnunarinnar færi á að sækja um styrk til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins til að stunda hafrannsóknir en sá hópur hefur haft takmarkaðan aðgang að styrkjum til þessa. Þess má geta að í Verkefnasjóð renna sektir af ólögmætum sjávarafla og tekjur af svonefndum 5% afla. Á árinu 2004 voru tekjur hans að frádregnum afskriftum um 112,1 millj. kr. og nam eigið fé í árslok um 45,6 millj. kr. Á árinu 2004 var um 129,2 millj. kr. úthlutað til verkefna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um ráðstöfun fjár


úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins.


    Í frumvarpinu er lagt til að 660 m.kr. af því fé sem Verkefnasjóður sjávarútvegsins fékk við sölu á eignum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins renni í ríkissjóð.
    Verkefnasjóður sjávarútvegsins er ríkisaðili í A-hluta fjárlaga. Fé úr sjóðnum skal varið til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs og til eftirlits með fiskveiðum. Þegar Þróunarsjóður sjávarútvegsins var lagður niður með lögum nr. 27/2005 var ákveðið að eignir sjóðsins umfram skuldir að loknum gildistíma laganna skyldu renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna.
    Samhliða þessu frumvarpi verður óskað eftir hækkun framlags til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar við þinglega meðferð á fjárlagafrumvarpi 2006.
    Að mati fjármálaráðuneytis hefur frumvarpið ekki áhrif á afkomu ríkisins verði það að lögum.